Hvor annan
Í Málvöndunarþættinum á Facebook var eitt sinn vakin athygli á frétt í Morgunblaðinu þar sem stóð í fyrirsögn „Njóta fullkomins skilnings hvort annars“, og í fréttinni sjálfri „hvort þau hafi eitthvað náð að fylgjast með árangri hvort annars um helgina“. Það hefur verið kennt að í þessu sambandi eigi hvor að standa í sama falli (nefnifalli í þessu tilviki) og frumlag setningarinnar (þau, sem reyndar er sleppt í fyrra dæminu eins og algengt er í fyrirsögnum) en annar í eignarfalli þegar það stýrist af nafnorði eins og í báðum þessum tilvikum (skilnings í fyrra dæminu, árangri í því seinna).
Samkvæmt þessu er sambandið rétt notað í báðum dæmunum, en höfundur innleggsins taldi það ranglega notað – og var sannarlega vorkunn, því að annars konar notkun þess er mjög útbreidd. Iðulega er hvor látið sambeygjast annar í stað þess að sambeygjast frumlaginu – dæmin hér að ofan eru þá skilnings hvors annars og árangri hvors annars. Sama gildir um önnur afbrigði þessa sambands – oft er sagt t.d. þeim líkar vel við hvort annað í stað hvoru við annað, þeir hata hvorn annan í stað hvor annan, þeim er hlýtt til hvors annars í stað hvoru til annars, o.s.frv.
Þetta er engin nýjung. Dæmi er um „ranga“ notkun þessa sambands í Eintali sálarinnar sem Arngrímur Jónsson lærði þýddi í lok 16. aldar – „heldur veit oss að vér elskum hvörn annan svo vér blífum í þér og þín elska sé fullkomin í oss“. Um og eftir miðja 19. öld fara að sjást dæmi á stangli en fer mjög fjölgandi þegar kemur fram á 20. öld, einkum eftir miðja öldina, samkvæmt rannsókn sem Dagbjört Guðmundsdóttir málfræðingur gerði í BA-ritgerð sinni. Á tímarit.is fann hún hátt á áttunda þúsund dæmi frá 20. öld um „ranga“ notkun þessa sambands – þrátt fyrir að blöð og tímarit hafi yfirleitt verið prófarkalesin á þeim tíma.
Breytingar á þessu sambandi eru í sjálfu sér mjög skiljanlegar vegna þess að hvor / hver rýfur venjuleg tengsl orða. Í samböndum eins og tala um og líka við mynda sögn og forsetning merkingarlega heild sem hv-orðið rýfur þegar sagt er tala hvor / hver um annan og líka hvorum / hverjum við annan. Til að koma í veg fyrir það rof og halda þessari heild er hv-orðið fært aftur fyrir forsetninguna. En þar með eru tengsl forsetningarinnar og andlags hennar rofin og því er eðlilegt að málnotendur fari að skynja hv-orðið sem andlag og láti það sambeygjast raunverulega andlaginu — tala um hvorn / hvern annan og líka við hvorn / hvern annan. Sama gerist þar sem annar er andlag sagnar, eins og í aðstoða hvor / hver annan og hjálpa hvor / hver öðrum — þar rýfur hv-orðið tengsl sagnar og andlags sem leiðir til þess að það er túlkað sem hluti andlagsins, aðstoða hvorn / hvern annan og hjálpa hvorum / hverjum öðrum.
Af nærri 40 ára kennslureynslu tel ég mig geta fullyrt að verulegur hluti fólks notar þetta samband ekki í samræmi við það sem kennt hefur verið. Þetta staðfestist í viðamikilli rannsókn á stöðu íslenskunnar sem við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor stóðum fyrir. Þar var fólk á öllum aldri beðið að leggja mat á ýmsar setningar, þar á meðal þeim líkar vel hvorum við annan sem hefur verið talið rétt og þeim líkar vel við hvorn annan sem hefur verið talið rangt. Verulegur hluti fólks í öllum aldurshópum, frá 13 ára og upp úr, taldi að fyrri setningin, sú „rétta“, væri annaðhvort „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“. Fólk sem taldi að hún væri „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“ var í minnihluta í flestum aldurshópum.
Aftur á móti taldi yfirgnæfandi meirihluti fólks í öllum aldurshópum að seinni setningin, sú „ranga“, væri annaðhvort „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“, en mjög fáum fannst hún „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“.Vegna þess hve munur aldurshópa er lítill er ekki hægt að kenna ungu kynslóðinni um þessa málbreytingu – og ekki er heldur hægt að skella skuldinni á hrakandi íslenskukennslu. Þetta er einfaldlega málbreyting sem á sér gamlar rætur og er orðin svo útbreidd að óhætt er að fullyrða að mikill meirihluti landsmanna sé alinn upp við „ranga“ notkun sambandsins og hafi tileinkað sér hana á máltökuskeiði.
Baráttan gegn þessari breytingu er augljóslega löngu töpuð og mér finnst ekkert vit í að halda henni áfram. Það táknar auðvitað ekki að dæmin úr frétt Morgunblaðsins sem nefnd voru í upphafi eigi að hætta að teljast rétt, en verði röng í staðinn. Þetta eiga einfaldlega að vera tvö jafngild og jafnrétthá afbrigði. Það er ekkert að því. Tungumálið þarf ekki alltaf að vera annaðhvort – eða; það má líka stundum vera bæði – og.