Spáið í þessu

Í Málfarsbankanum segir: „Sagt er spá í eitthvað, ekki „spá í einhverju“. Veðurfræðingar spá í það sem koma skal.“ Þótt sögnin spá stjórni þágufalli ein og sér er nú ævin­lega notað þolfall í sambandinu spá í þegar sögnin hefur grunnmerkingu sína – spá í spil / bolla / korg / garnir o.s.frv. Áður fyrr var reyndar stundum notað þágu­fall í þessum samböndum – „þarftú þá aldrei að spá í spilum eða í kaffebollum eða í lófum“ segir í Þórðar sögu Geir­mundssonar eftir Benedikt Gröndal. Iðulega er vitnað í Megas því til staðfestingar að þarna eigi að vera þolfall og bent á að hann söng „Spáðu í mig“ en ekki „Spáðu í mér“. Það er auðvitað rétt, en reyndar svolítið skondið að uppreisnarmaður eins og Megas skuli borinn fyrir því hvað sé „rétt mál“.

Ég held að spá í taki oftast þolfall þegar það er notað í merkingunni 'hafa áhuga á einhverri manneskju' eins og það hefur væntanlega hjá Megasi – sagt er ég er að spá í hann / hana frekar en ég er að spá í honum / henni. En þegar sagt er „Ég er að spá í því hvort líf leynist á öðrum hnöttum“ eða „Við fórum að spá í hvaða ólykt þetta nú væri“ (svo að tekin séu dæmi af netinu) felst ekki í því neinn spádómur, heldur merkir spá í þarna 'velta fyrir sér, hugsa um'. Sú merking virðist vera tiltölulega nýleg – varla meira en fárra áratuga gömul. Erfitt er að negla nákvæmlega niður hvenær hún kemur upp en eins og títt er með málbreytingar má líklega rekja hana til dæma sem hægt er að túlka á tvo vegu.

Í Þjóðviljanum 1963 er sagt að það sé „ekki furða þótt menn séu farnir að spá í hugsanlega íslenzka þátttöku í Tokíó“ sem gæti merkt bæði 'spá hvaða Íslendingar gætu tekið þátt (í Ólympíuleikunum)' og 'velta fyrir sér íslenskri þátttöku'. Í Frjálsri þjóð 1964 er talað um nýjan atvinnuveg og minnst á athafnamann sem sé „þegar farinn að „spá“ í atvinnugreinina“ sem gæti merkt bæði 'spá fyrir um framtíð atvinnugreinarinnar' og eins 'velta fyrir sér að hasla sér völl í atvinnugreininni'. Ýmis hliðstæð dæmi má finna frá næstu árum eftir þetta en upp úr 1980 virðast ótvíræð dæmi um nýju merkinguna verða mjög algeng.

Það er athyglisvert að enginn hefur – svo að ég viti – amast við því að sambandið spá í hafi fengið merkingu sem það hafði ekki áður. Það er eingöngu fallið sem fólk hnýtir í. En hvers vegna fær sambandið oft þágufall í þessari nýju merkingu? Það er mjög trúlegt eins og oft er bent á að þágufallið sé tilkomið fyrir áhrif frá pæla í sem hefur sömu merkingu og tekur alltaf með sér þágufall. Bæði samböndin virðast koma upp á svipuðum tíma í þessari merkingu – tíðni pæla í eykst líka mjög upp úr 1980.

Það er þó mjög algengt að sagnir og forsetningar stjórni mismunandi föllum eftir merkingu. Við segjum bæði ég fór með hana í bæinn og ég fór með henni í bæinn en merkingin er ekki sú sama. Eins segjum við hann klóraði mig á bakinu og hann klóraði mér á bakinu í mismunandi merkingu. Þegar samband eins og spá í fær nýja merkingu dugir því ekki að vísa til þess að það hafi alltaf tekið með sér þolfall, því að það er ekkert sjálfgefið að sama fall sé notað þegar merkingin er önnur.

Forsetningin í stjórnar ýmist þolfalli eða þágufalli. Í sumum tilvikum fylgir notkunin ákveðnu kerfi – þegar um hreyfingu er að ræða stjórnar í þolfalli, en þágufalli þegar um kyrrstöðu er að ræða: Ég fór í bæinn en ég var í bænum. Iðulega er hins vegar hvorki hægt að tengja forsetninguna við hreyfingu né kyrrstöðu og þá virðist oft tilviljun háð hvort fallið hún tekur með sér. Ég hef aldrei séð því haldið fram að það sé andstætt merkingu forsetningarinnar að nota þágufall með pæla í, og þá ættu ekki heldur að vera neinar merkingarlegar ástæður gegn þágufalli með spá í.

Þegar sambandið spá í merkir 'velta fyrir sér, hugsa um' er sem sé ekkert athugavert við að nota þágufall með því. En það er ekki heldur neitt að því að nota þolfall eins og í öðrum merkingum sambandsins. Tungumálið þolir alveg tilbrigði.