Stjórnskipuleg staða íslensks máls

Í stjórnarskrá Íslands eru engin ákvæði um tungumál, þótt hugmyndir um slíkt hafi nokkrum sinnum komið fram, m.a. í ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2007, og tillaga um þetta kom fram á Alþingi 2003. Í áfangaskýrslu nefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 2007 er þessara hugmynda getið en tekið fram að nefndin hafi „ekki tekið afstöðu til þess hvort þörf sé á því að geta þess í stjórnarskrá að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga“.

Með lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls fékk íslensk tunga þó stöðu sem opinbert tungumál á Íslandi. 1. grein laganna hljóðar svo: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ Í annarri grein laganna er skýrt nánar hvað í þessu felist: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.“ Í 8. grein segir enn fremur: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“ Og 12. grein laganna hljóðar svo: „Íslenska er opinbert mál Íslands á alþjóðavettvangi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Sérstakt álitaefni var hvort ástæða væri til að mæla í stjórnarskrá fyrir um stöðu tung­unnar sem opinbers máls íslenska ríkisins. Ákvæði sem lúta að tungumálum er að finna í stjórnarskrám 158 ríkja en einungis í 26 stjórnarskrám er tungumála að engu getið. Í mörgum stjórnarskrám Evrópuríkja er berum orðum mælt fyrir um hvaða tungumál sé opinbert mál ríkisins.“ Nefndin sem samdi skýrslu sem frumvarpið byggist á sagði þó ekki tímabært að setja ákvæði um tungumál í stjórnarskrá en taldi rétt að huga að því við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Undirbúningur að þeirri endurskoðun stóð einmitt yfir um sama leyti. Sumarið 2010 kaus Alþingi sérstaka stjórnlaganefnd sem skyldi semja drög að nýrri stjórnarskrá Íslands. Nefndin stóð m.a. fyrir þjóðfundi haustið 2010 þar sem 950 fulltrúar, valdir af handahófi úr þjóðskrá, settu fram og ræddu hugmyndir um hvað vera skyldi í nýrri stjórnarskrá. Íslensk tunga og verndun hennar kom þar oft fram, og í skýrslu nefndarinnar er lagt til að svohljóðandi ákvæði verði í nýrri stjórnarskrá: „Íslenska er þjóðtunga á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“ Þar segir enn fremur:

„Nefndin er sammála um að í íslenskri tungu séu falin ómetanleg menningarverðmæti og hún því eitt af einkennum Íslendinga sem beri að vernda og efla. Því telur nefndin að kveðið skuli á um íslensku sem þjóðtungu í stjórnarskrá. Almennt ákvæði um íslenska tungu myndi fyrst og fremst leggja skyldur á herðar opinberum aðilum og yrði leiðarljós við lagasetningu. Ákvæðið feli ekki í sér að íslenska sé formlega gerð að opinberu tungumáli íslenska ríkisins og annarra opinberra aðila en grundvallist þó augljóslega á þeirri forsendu að störf íslenskrar stjórnsýslu o.s.frv. fari fram á íslensku. Nánari útfærsla á íslensku sem opinberu máli verði í höndum hins almenna löggjafa.“

Í framhaldi af starfi stjórnlaganefndarinnar var skipað sérstakt stjórnlagaráð sem lagði fram tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland sumarið 2011. Í henni er ekkert ákvæði um þjóðtungu en hins vegar vikið að tungumáli á nokkrum stöðum. Í aðfaraorðum segir að „saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.“ Í 32. grein tillagna stjórnlagaráðs, um menningarverðmæti, segir: „Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veð­setja.“

Í 6. grein tillagnanna, um jafnræði, segir svo: „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna […] tungumáls […].“ Í skýringum við þessa grein segir: „Í ljósi þess að sterkar raddir hafa verið á lofti um að setja íslenska tungu inn sem eitt af grunngildum í inngangsgrein að frumvarpi þessu þykir nauð­synlegt að nefna að bann­að sé að mismuna fólki á grundvelli þessarar breytu. […] Þessu ákvæði er ætlað að útiloka mismunun gagnvart fólki sem talar annað mál en íslensku eða aðra mállýsku en þá sem ráðandi er í samfélaginu hverju sinni.“

Ekki kemur fram í skýringunum eða öðrum gögnum stjórnlagaráðs hvers vegna ákvæði um ís­lensku sem þjóðtungu eða grunngildi hafi ekki verið sett í stjórnarskrártillögurnar, þrátt fyrir að „sterkar raddir“ hafi verð á lofti um það. Út frá því sem þarna segir má þó e.t.v. ætla að ráðið hafi talið að slíkt ákvæði gæti orði grundvöllur einhvers konar mismununar, nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningarlegra samfélags en áður. En einnig er rétt að benda á að fáum vikum áður en stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum hafði það verið fest í lög að íslenska væri þjóðtunga Íslendinga, eins og áður segir. Hugsanlegt er að það hafi verið talið nægjanlegt til að tryggja stöðu tungunnar, og óþarft eða óheppilegt að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá.

Tillögur stjórnlagaráðs hafa ekki hlotið afgreiðslu og þær breytingar sem undanfarið hefur helst verið til umræðu að gera á stjórnarskránni varða ekki íslenska tungu. Því er ekki útlit fyrir að tungan fái sess í stjórnarskránni á næstunni a.m.k.