Ekki segja ráddi heldur réði ... eða hvað?

Í alþekktum söngtexta um það sem er bannað segir að ekki megi „tína blómin sem eru út í beði og ekki segja ráddi heldur réði“. Það myndi augljóslega spilla bæði rími og hrynjandi ef þarna væri réð en ekki réði, en það er samt það sem „á“ að segja samkvæmt íslenskum málstaðli eins og hann birtist t.d. í Málfarsbankanum þar sem segir: „Farið er að nota þátíðarmyndirnar „réði“, „réðir“, „réði“ í eintölu. Það er óheppileg þróun vegna þess að þær falla saman við viðtengingarhátt þátíðar. Hún réð hann í vinnu. Margir voru á móti því að hún réði hann.“ Það var líka hamrað á þessu í ábendingunum Gætum tungunnar sem voru gefnar út í kveri 1984 og birtust einnig í Morgunblaðinu.

Það er svolítið sérkennilegt að segja „Farið er að nota“ – með því er gefið í skyn að þetta sé nýbreytni frá síðustu árum. En raunin er sú að þetta er margra alda gamalt. Elsta dæmi um réði á tímarit.is er frá 1833 en elsta dæmi um réð frá 1859, og réði hefur lengst af síðan verið mun algengara. Það er líka ofmælt að það sé „óheppileg þróun“ að nota þátíðina réði vegna þess að þá falli framsöguháttur og viðtengingarháttur saman. Það er nefnilega það sem gerist í öllum sögnum sem enda á –aði í þátíð – sem eru meginþorri sagna í málinu. Við segjum ég kallaði og þótt ég kallaði, ég talaði og þótt ég talaði o.s.frv.

Ég held að óhætt sé að segja að þátíðin réð sé flestum framandi – a.m.k. í töluðu máli, þótt sumir hafi væntanlega lært að nota hana í riti. Það má benda á að í Málvöndunarþættinum á Facebook sýnist mér að aldrei hafi verið gerð athugasemd við notkun réði í stað réð. Í þeim hópi er fólk þó vant að láta frá sér heyra ef það verður var við eitthvað sem það telur rangt. Þar eð allir hljóta að hafa heyrt þátíðina réði notaða ótal sinnum dreg ég þá ályktun að fólk átti sig ekki á því að hún er talin röng – annars myndi heyrast hljóð úr horni.

Sjálfur hef ég lært að það „eigi“ að nota réð en ekki réði og geri það stundum í rituðu máli. Það er þó í algerri andstöðu við málkennd mína – hann réð þessu ekki og ég réð ekki við þetta orkar á mig sem rangt mál. Þetta er eitt af þeim dæmum þar sem málstaðallinn er í ósamræmi við málkennd og málnotkun meginþorra málnotenda. Mér finnst fráleitt að kalla þátíðina réði ranga.