Íslenskan sem menningarverðmæti

1. Íslensk málrækt felst í því að hafa í huga að í hverju tungumáli felast menningarverðmæti og við berum ábyrgð á framtíð íslenskunnar.

Talið er að um sjö þúsund tungumál séu nú töluð í heiminum. Rúm 40% þeirra, tæp þrjú þúsund, eru talin í útrýmingarhættu og tvö þúsund af þeim eru töluð af færri en þúsund manns. UNESCO áætlar að meira en helmingur þeirra tungumála sem nú eru töluð muni deyja út fyrir lok þessarar aldar og hefur sett fram áætlun um tungumál í hættu (Endangered Language Programme) til að stuðla að varðveislu sem flestra mála vegna þess að í öllum þessum tungumálum felast ómetanleg menningarverðmæti.

Sérhvert tungumál er einstakt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi er frábrugðið öllum öðrum tungumálum, merkingar­blæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er (og slík gögn eru forgengileg eins og sannaðist átakanlega í bruna þjóðminjasafns Brasilíu haustið 2018), verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.

Samkvæmt mælikvarða UNESCO um lífvænleik tungumála er íslenska í fimmta og efsta styrkleikaflokki og er örugg (safe). Kvarði UNESCO byggist á nokkrum mælistikum og hingað til hefur verið talið ótvírætt að íslenska sé í efsta þrepi á þeim öllum. Til að komast í efsta þrepið þarf málið að vera notað af öllum aldurshópum, frá börnum og upp úr; vera notað af öllum íbúum málsvæðisins; vera notað á öllum sviðum og til allra þarfa; aðlagast nýjum notkunarsviðum; og eiga sér ritmál, rithefð, mállýsingar, orðabækur, bókmenntir og fjölmiðla, og ritmálið þarf að vera notað í stjórnsýslu og menntun.

En ef til vill er ekki lengur alveg ljóst að íslenska nái efsta þrepi samkvæmt öllum viðmiðum. Utanaðkomandi áreiti á tungumálið hefur stóraukist á síðasta áratug, bæði af völdum þjóð­félags­breytinga og tæknibreytinga. Þeim íbúum landsins sem ekki tala íslensku fer t.d. ört fjölg­andi, og enskunotkun fer vaxandi á ýmsum sviðum, t.d. í ferðaþjónustu, háskólakennslu, viðskiptalífinu og víðar. Jafnframt hafa komið fram vangaveltur um hugsanlega truflun á máltöku vegna ónógrar íslensku í málumhverfinu. Þá gæti alþjóðavæðingin haft áhrif á viðhorf málnotenda til íslenskunnar og valdið þannig auknum þrýstingi á hana.

Þar að auki er ekki víst að þessi viðmið dugi lengur til að mæla lífvænleik tungumála í því stafræna þjóðfélagi sem við búum nú í. Áhrif tungumála hvers á annað berast nú ekki eingöngu gegnum sambýli í raunheiminum, heldur ekki síður gegnum stafrænt málsambýli – net- og snjalltækjanotkun, áhorf á efni á erlendum efnis- og streymisveitum eins og YouTube og Netflix, spilun tölvuleikja á ensku o.fl., og langtímaáhrif þessara þátta eru óljós. Eitt er þó alveg ljóst: Það er okkar að sjá til þess að íslenskan lifi. Ef málnotendur hafa ekki áhuga á því að halda í málið og þar með þau menningarverðmæti sem það geymir er það dauðadæmt. Ábyrgðin er okkar.