Íslenska, þjóðrækni og þjóðremba

2. Íslensk málrækt felst í því að gæta þess að umhyggja fyrir íslenskunni snúist ekki upp í þjóðrembu og andstöðu við önnur tungumál

Það er alkunna að tungumálið lék eitt aðalhlutverkið í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Allt frá upphafi baráttunnar snemma á 19. öld var áhersla lögð á íslenskuna og mikilvægi hennar fyrir íslenskt þjóðerni og þjóðarvitund, og iðulega var sett samasemmerki milli hnignunar tungumálsins og dvínandi þjóðerniskenndar. En þótt áhersla væri lögð á endurreisn tungunnar og hreinsun af dönskum áhrifum í tengslum við eflingu þjóðerniskenndar og baráttu fyrir auknum réttindum Íslendinga á 19. öld var bar­áttan einkum háð innanlands en ekki við dönsk stjórnvöld.

Á seinni hluta 19. aldar var verið að draga skarpari landamæri en áður víða um Evrópu og þjóð­ríki í nútímaskilningi voru að verða til. Víða lentu þá innan sama ríkis hópar og þjóðarbrot sem töluðu mismunandi tungumál. Til að tryggja einingu ríkisins lögðu stjórnvöld iðu­lega áherslu á eitt ríkismál, og bönnuðu jafnvel notkun annarra tungumála innan ríkisins. En dönsk stjórnvöld virðast aldrei hafa gert miklar tilraunir til að þröngva dönsku upp á Íslendinga.

Þvert á móti – allt frá 17. öld voru gefnar út ýmsar tilskipanir og konungsbréf sem ýmist heimiluðu eða mæltu fyrir um notkun íslensku á ýmsum sviðum stjórnsýslunnar. Öfugt við marga aðra minnihlutahópa innan ríkja þurftu Íslendingar því ekki að berjast sérstaklega fyrir því að fá að nota móðurmál sitt á flestum sviðum. Tungumálið var hins vegar sameiningartákn, réttlæting Íslend­inga fyrir sérstöðu sinni og ekki síst notað til að leiða Íslendingum sjálfum fyrir sjónir hver sú sérstaða væri. Víða í Evrópu var tungumálið vígvöllur baráttunnar – á Íslandi var það vopnið.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að vilja veg íslenskunnar sem mestan. En stundum hefur umræða um hana borið keim af öfgafullri þjóðernisstefnu og hreinleiki málsins jafnvel verið tengdur hreinleika kynstofnsins. Á þessu örlaði á uppgangstíma nasismans á fjórða áratug síðustu aldar og svipaðar raddir hafa stöku sinnum heyrst á síðustu árum, einkum hjá forvígismönnum Íslensku þjóðfylkingarinnar.

En það er líka stutt frá áherslu á íslenska þjóðmenningu yfir í hugmyndir um yfirburði íslenskunnar yfir önnur tungumál. Slíkt má ekki viðgangast. Umhyggja fyrir íslenskunni er heilbrigð þjóðrækni sem við megum ekki láta víkja fyrir þjóðrembu, því að eins og Guðni Th. Jóhannesson hefur sagt „er þjóðrækni til fyrirmyndar en þjóðremba alls ekki. Hún felur í sér gorgeir og þótta í garð annarra, dramb og yfirlæti. Þjóðremba elur á óvild, þjóðrækni snýst um umburðarlyndi, víðsýni og náungakærleik“.

Um þessar mundir er mikið rætt um aukna enskunotkun á Íslandi og hugsanleg ensk áhrif á íslenskuna. Þessi umræða eru eðlileg og nauðsynleg en mikilvægt er að hún snúist ekki upp í andstöðu við ensku eða erlend mál yfirleitt. Enskan er ekki óvinurinn þótt því sé stundum haldið fram. Enskan er alþjóðamál sem er mikilvægt að hafa á valdi sínu og það er gott að börn og unglingar læri hana sem best. En hún má hins vegar ekki valta yfir íslenskuna. Það er á okkar ábyrgð að svo verði ekki.