Gildi íslenskunnar fyrir okkur

3. Íslensk málrækt felst í því að skilja að íslenska er ekki merkilegri eða dýrmætari en önnur tungumál – nema fyrir notendur hennar

Stundum er sagt að íslenska sé dýrmætasta eign þjóðarinnar og jafnvel heyrist sú skoðun að hún sé öðrum málum fremri á einhvern hátt. Árið 1926 flutti Sigurður Nordal prófessor erindi sem nefndist „Málfrelsi“ og birtist síðar í Lesbók Morgunblaðsins. Fyrsti hluti þess nefnist „Hverjir eru sjerstakir yfirburðir íslenskunnar“ og þar segir:

„Því má halda fram með rökum, að íslenskunni sje margt stórvel gefið. Hún er gagnorð og þróttmikil, ljós og skýr, svo að hún fellur vel að rökfastri hugsun. Málfræðin er torveld, og mikil tamning að læra hana. Orðaforðinn er geysimikill á sumum sviðum. Þá er hún og skemmra komin frá frumlindum sínum en flestar aðrar tungur. Orðin eru ekki jafnslitið gangsilfur og annars gerist, auðveldara að nema hugsun þá, er hefir mótað þau í öndverðu, og hún er oft furðu spakleg. Þetta og annað fleira, hljóðvörp, viðskeyti og samsetningar, veldur grósku í málinu. Á íslensku er kostur meiri ritsnildar en á flestum öðrum tungum, ný orð spretta upp af sjálfum sjer til þess að láta í ljós nýjar hugsanir, og virðast þó vera gömul. Þau hlaupa í skörðin, sem af einhverri tilviljun hafa staðið opin handa þeim.“

Íslenskan er líka beintenging okkar við sögu og menningu þjóðarinnar fyrr á tímum. Við njótum þeirra forréttinda umfram flestar aðrar þjóðir að geta tiltölulega auð­veld­lega lesið texta allar götur frá upphafi ritaldar fyrir 900 árum, án þess að þeir séu þýddir á nútímamál. Ef íslenskan tekur róttækum breytingum, eða hættir að vera lifandi tungumál, missum við ekki bara bein tengsl við Hávamál og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og Íslandsklukkuna, Engla alheimsins og Kalda­ljós, og meira að segja Arnald og Yrsu. Þar með væri hið margrómaða samhengi í ís­lensk­um bókmenntum og menningu fokið út í veður og vind.

Þetta þýðir samt ekki að íslenskan sé eitthvað betri eða merkilegri en önnur tungumál. „Íslenskan er eins og við öll vitum, móðurmálið okkar og það ber okkur að varðveita hverja stund. En við eigum líka að bera virðingu fyrir öllum erlendum tungumálum og skilja að þau eru jafn dýrmæt og íslenskan er okkur“ er haft eftir  Vigdísi Finnbogadóttur, og í framhaldi af því sem Sigurður Nordal skrifaði um kosti íslenskunnar og vitnað er til hér að framan sagði hann: „En svo er um móðurmálið sem sumt annað, sem nákomnast er manni, að hverjum þykir sinn fugl fagur. Ef aðrar þjóðir færi að telja fram kosti sinna tungna, mætti íslenskan vara sig.“

Þetta er grundvallaratriði. Íslenskan er dýrmætasta mál í heimi fyrir okkur sem eigum hana að móðurmáli. Hún er hluti af okkur sjálfum, útrás fyrir tilfinningar okkar – ást og gleði, hatur og reiði, sorg og hryggð, vonir og þrár – en líka tæki okkar til sköpunar, miðlunar og frjórrar hugsunar. Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði, móður­mál okkar, er einkaeign okkar jafnframt því að vera sam­eign alls málsamfélagsins og í vissum skilningi alls mannkyns. Við berum ábyrgð á velferð þess – gagnvart málsamfélaginu og öllu mannkyni, en fyrst og fremst gagnvart okkur sjálfum.