Nýsköpun í máli
9. Íslensk málrækt felst í því að hika ekki við að beita nýsköpun í máli – setja orð í nýstárlegt samhengi og búa til ný orð ef þeirra er þörf.
Öll nýsköpun í máli er einhvers konar frávik frá hefð. Við þurfum sífellt á nýjum orðum að halda til að geta talað um það sem er í gangi í samfélaginu á hverjum tíma – hugtök og fyrirbæri í hugmyndum, tækni, vísindum, bókmenntum, listum, félagsmálum og hvar sem er. Þess vegna er öflug nýyrðastarfsemi mikilvæg fyrir velferð íslenskunnar og nauðsynlegt að hlúa að henni og efla eftir mætti – bæði skipulegu íðorðastarfi ýmiss konar orðanefnda og virkri orðasmíð almennra málnotenda.
Vitanlega er engin hefð fyrir þessum nýju orðum í upphafi, enda amast fólk oft við þeim – er skólaforðun tækt orð? Er hægt að vera lyfjaður, verkjaður og vímaður? Má kalla brauðrist ristavél? Á ekki frekar að tala um kvenforseta en konuforseta? Um þetta deilir fólk oft og vissulega tekur tíma að sætta sig við nýtt orð – haft er eftir Halldóri Halldórssyni prófessor að það þurfi að segja nýtt orð sextíu sinnum til að venjast því. Sum ný orð sem fara á flot eru líka klúðursleg eða óheppileg af einhverjum sökum – en viljum við samt ekki frekar fá íslensk orð en taka erlend orð beint upp?
Skáld og rithöfundar stunda líka ýmiss konar mállega nýsköpun, bæði með nýyrðasmíð og með því að setja orð í nýstárlegt samhengi. Orðasmíð þeirra er ekki endilega vegna þess að orð vanti, þótt mörg rómuð nýyrði Jónasar Hallgrímssonar séu vissulega þess eðlis, heldur ekki síður til að auðga og endurnýja málið. Í samtímanum kemur þetta t.d. sérlega vel fram í skáldsögum Hallgríms Helgasonar og textum Braga Valdimars Skúlasonar sem eru ótrúlega hugkvæmir orðasmiðir. Slík nýjungagirni er forsenda þess að viðhalda íslensku sem frjóu bókmenntamáli.
Börn eru yfirleitt ekki í vandræðum með að tala um fyrirbæri sem þau þekkja ekki heiti á – þau búa bara til sín eigin orð. Það er mikilvægt að ýta undir þennan sköpunarkraft en berja hann ekki niður þótt orðin sem börnin búa til séu ekki mynduð eftir hefðbundnum orðmyndunarreglum, eða séu óþörf vegna þess að hefð sé fyrir öðrum orðum í þessari merkingu. En þótt við tökum orðmyndun barnanna vel má það ekki koma í veg fyrir að við kynnum þeim hefðir málsins – komum því varlega á framfæri að tiltekið orð sé til og kannski væri betra að nota það, að venja sé að orða eitthvað á tiltekinn hátt og kannski sé betra að halda því áfram, o.s.frv.
En nýsköpun í máli kemur einnig fram í margs kyns aðlögun málsins að samfélags- og tæknibreytingum, breyttum viðhorfum o.s.frv. Breyttir samskiptahættir og tækninýjungar kalla líka á ný málsnið. Samfélagsmiðlum fylgir t.d. málsnið sem er í eðli sínu ritmál en einkennist þó af undirbúningsleysi, hraða og örum lotuskiptum eins og talmál. Þessu fylgja ýmis einkenni eins og skammstafanir og styttingar, kæruleysi um stafsetningu o.þ.h. Á síðustu árum hefur svo notkun tjákna (emoji) bæst við, og fleira mætti telja.
Meginatriðið er að íslenskan er og verður að vera lifandi mál sem getur lagað sig að breyttum aðstæðum. Það er á okkar ábyrgð að gefa henni tækifæri til þess og skapa henni skilyrði til þess.