Virðing við viðmælendur
10. Íslensk málrækt felst í því að sýna viðmælendum sínum virðingu og umburðarlyndi og leggja málnotkun þeirra alltaf út á besta veg.
Tungumálið er félagslegt fyrirbæri – langsamlega mikilvægasta samskiptatæki okkar við annað fólk. Þess vegna má íslenskan ekki staðna, heldur þarf að vera lifandi og laga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hún verður að þola tilbrigði í framburði, beygingum og setningagerð, og að ný orð komi inn í málið og gömul orð fái nýja merkingu. Hún má ekki verða einkaeign ákveðinna hópa, og það má ekki nota hana og tilbrigði í beitingu hennar til að mismuna fólki eða skipa því í andstæðar fylkingar.
Við megum ekki láta það bitna á fólki á nokkurn hátt að það talar ekki nákvæmlega sömu íslensku og við. Það má ekki vera þannig að einhverjum hópum eða einstaklingum í samfélaginu finnist íslenskan ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við eða hafa vanist. Í allri umgengni okkar við íslenskuna þurfum við að hafa umburðarlyndi, virðingu og tillitssemi við annað fólk að leiðarljósi.
Furðu oft virðist það talið íslenskunni til framdráttar að misskilja viljandi málnotkun annarra eða leggja hana út á verri veg. Innlegg í málfarsumræðu á samfélagsmiðlum og athugasemdadálkum vefmiðla ganga t.d. iðulega út á það að setja inn setningar þar sem setningagerðin býður upp á fleiri en eina túlkun, ekki síst fyrirsagnir úr fjölmiðlum, og snúa út úr þeim. Oftast er samt enginn vafi á því við hvað er átt, og einbeittan brotavilja þarf til að misskilja setningarnar. Hótfyndni er ekki málrækt.
Málið er fullt af margræðni. Ótalmargt sem við segjum má túlka á fleiri en einn veg, ef viljinn er fyrir hendi. Við tökum hins vegar sjaldnast eftir því vegna þess að málskynjun okkar síar ólíklegu merkingarnar frá. Við skiljum setningar út frá aðstæðum, og aðstæðurnar – hvort sem það eru einhver málleg atriði, þekking okkar á viðmælanda og viðfangsefni, ytra umhverfi, eða eitthvað annað – duga venjulega til að útiloka aðrar merkingar en þá sem viðmælandi lagði í það sem hann sagði.
Öllum verður okkur á – við mismælum okkur, segjum einhverjar ambögur, notum rangt eða óviðeigandi orð, eða víkjum á annan hátt frá hefðbundnu og viðurkenndu málfari. Það er ekki í þágu íslenskunnar að gera mikið úr slíku, nota það til að niðurlægja mælandann eða hreykja sjálfum sér. Það er bæði í þágu málnotenda og málsins að frávik frá því sem okkur kann að þykja rétt eða viðeigandi málnotkun séu lögð út á besta veg.
Íslenskan er nefnilega alls konar. Íslenska með hreim er líka íslenska. App er líka íslenska. Mér langar er líka íslenska. Hán er líka íslenska. Það var hrint mér er líka íslenska. Vissulega ekki nákvæmlega sú íslenska sem ég ólst upp við í norðlenskri sveit fyrir sextíu árum eða svo, en það gefur mér engan rétt til að fordæma íslensku annarra eða líta niður á hana og telja mína íslensku réttari eða betri.