Misnotkun málsins til að afvegaleiða fólk

11. Íslensk málrækt felst í því að vera á verði gagnvart því að stjórnvöld og önnur valdamikil öfl misbeiti tungumálinu í blekkingarskyni.

Í hinni frægu skáldsögu 1984 eftir George Orwell er kynnt tungumálið „nýlenska“ (newspeak) þar sem vald­hafar afbaka tungumálið í því augnamiði að stýra hugsun þegnanna. Í þessu tungu­máli er merkingu orða iðulega hliðrað til eða snúið á haus. Jónas Kristjánsson ritstjóri skrifaði marga beitta pistla um beitingu ís­lenskra ráðamanna á þess háttar tungutaki, og Sig­urður Páls­son skáld vísaði til þess í ræðu árið 2014 þar sem hann sagði „grafalvarlegt hvernig ráða­menn hafa í svörum sínum og útskýringum stöðugt afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merk­ingar“.

Sem dæmi um þetta má nefna þegar farið var að nota orðið gengisbreyting um það sem áður var alltaf kallað gengislækkun og hafði á sér neikvæðan blæ. Þegar samningar um aðild Íslands að Evrópusambandinu voru í gangi notuðu andstæðingar aðildar orðið aðlögunarviðræður sem þýðingu á accession negotiations, en stuðningsmenn aðildar töldu það ranga þýðingu og vildu tala um samningaviðræður eða aðildarviðræður. Eitt af skýrustu dæmum undanfarinna ára er svo leiðréttingin sem ríkisstjórnin 2013-2016 notaði um stórfellda færslu fjármagns úr ríkissjóði til fólks sem hafði verið með verðtryggð húsnæðislán. Ótal önnur dæmi úr íslenskri stjórn­mála­um­ræðu síðustu ára mætti nefna.

En það eru ekki bara stjórnmálamenn sem misbeita tungumálinu á þennan hátt. Haustið 2019 svaraði biskup Íslands spurningu um áhrif þess að kristinfræði sé ekki lengur kennd í skólum með því að segja „Það hefur orðið siðrof held ég“. Í umræðu eftir á sagði biskup að með þessu ætti hún ekki við siðleysi heldur „rof við siðinn sem við höfum lifað eftir um aldir á Íslandi“. Þótt ekki sé ástæða til að hafna þessari eftiráskýringu liggur í augum uppi að með þessari notkun orðs­ins er meðvitað eða ómeðvitað verið að leiða áheyrendur á villigötur – orðið siðrof kallar í huga áheyrenda á hina venjulegu og alþekktu merkingu orðsins, ‘upplausnarástand’.

Skýr dæmi um misnotkun tungumálsins í því skyni að afvegaleiða umræðuna er að finna í yfirlýsingu útgerðarfyrirtækis vegna kórónuveirusmits um borð í togara fyrirtækis­ins haustið 2020. Þar var t.d. sagt „Því miður fórst það fyrir“ að tilkynna grun um smit. Að farast fyrir merkir að eitthvað hafi gleymst eða lent í útideyfu – ekki að það hafi vísvitandi verið hunsað. Einnig var hvað eftir annað talað um „mistök“ þar sem augljóslega var um meðvitaða vanrækslu og hugsanlega lög­brot að ræða.

En misbeiting tungumálsins kemur ekki bara fram í orðanotkun – hún getur líka komið fram í setningagerð. Þannig er þolmynd iðulega notuð í stað germyndar til að draga athygli frá gerendum, einkum þegar um afbrot eða mistök er að ræða – sagt t.d. „Konu hrint fram af svölum“ og „Mistök voru gerð“. Gerendum er þannig skýlt á bak við andlitslausa þolmynd og þeirri tilfinningu laumað inn hjá fólki, meðvitað eða ómeðvitað, að um óhappatilvik sé að ræða frekar en ásetningsbrot.  Látum ekki tungumálið ganga í lið með gerendum – notum germynd þar sem við á, ekki þolmynd. Germynd er fyrir gerendur.