Aðgát skal höfð
12. Íslensk málrækt felst í því að sneiða hjá orðum og málnotkun sem getur verið særandi eða útilokandi fyrir ákveðna þjóðfélagshópa.
Í 65. grein Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Þetta þýðir auðvitað líka að það má ekki nota tungumálið til að mismuna fólki eftir þeim þáttum sem þarna eru taldir – eða einhverjum öðrum. Það er samt oft gert.
Víða erlendis er niðrandi orðalag um fólk af ákveðnum uppruna eða húðlit alþekkt. Vegna þess hversu einsleitir íbúar Íslands hafa verið til skamms tíma hefur þetta ekki verið mikið vandamál hér, en það gæti breyst. Fyrir fáum árum varð t.d. töluverð umræða um orðið múlatti sem notað var í dagblaði um Obama þáverandi forseta Bandaríkjanna. Bent var á að þetta væri orð sem þætti niðrandi núorðið og væri ekki við hæfi í opinberri umræðu.
Ýmis orð sem áður voru notuð um fatlað fólk þykja nú óviðeigandi og önnur orð eru komin í þeirra stað. En vandinn er sá að nýju orðunum hættir til að verða líka fordómafull og óviðeigandi smátt og smátt. Það er mikilvægt að breyta orðanotkun og útrýma gildishlöðnum og niðurlægjandi orðum eins og fáviti, aumingi, vitfirringahæli o.s.frv., en það dugir þó skammt ef hugarfarið breytist ekki. Meðan fordómar í garð tiltekins hóps eru ríkjandi í samfélaginu munu þeir alltaf hengja sig á orðin sem notuð eru um þennan hóp. Hverfi fordómarnir úr samfélaginu hverfa þeir líka úr málnotkuninni.
Þetta sést vel á orðum eins og hommi og lesbía. Það er ekki langt síðan þessi orð voru mjög niðrandi og máttu t.d. ekki heyrast í útvarpi. Málvöndunarmenn reyndu að hafa vit fyrir samkynhneigðu fólki og lögðu til að nota í staðinn orðin hómi og lespa, og auk þess nafnorðin kynhvörf og kynhvarfi og lýsingarorðið kynhvarfur. Það var ekki von að samkynhneigt fólk sætti sig við að það væri talað niður til þess á þennan hátt. Það hélt sig við orðin hommi og lesbía og með breyttu hugarfari í garð samkynhneigðra hefur staða þessara orða líka breyst, þannig að nú þykja þau góð og gild í almennri umræðu.
Það er ekki síst mikilvægt að huga vel að orðanotkun þegar talað er við og um börn. Ég þekki menni sem fæddist með ákveðna fötlun sem olli háni ýmsum óþægindum og hugarangri. Þegar efnt var til leitar að fegursta orðinu í íslensku fyrir nokkrum árum sagðist hán ekki vera í vafa um hvaða orð hán myndi velja sem ljótasta orð málsins. Það var lýsingarorðið vanskapaður. Þetta orð heyrði hán stundum notað um sjálft sig þegar hán var barn og tengir ýmsar óþægilegar minningar við það.
Vitanlega kemur það stundum fyrir okkur að nota orðalag sem einhver áheyrandi eða lesandi tekur nærri sér. En sé ljóst að það sé ekki af ásetningi, heldur þekkingar- eða hugsunarleysi, tekur fólk það yfirleitt ekki illa upp. Stundum er við hæfi að biðjast afsökunar en aðalatriðið er að muna þetta næst. Íslenskan á það ekki skilið að hún sé notuð til að meiða fólk.