Almennur inngangur
Stundum er því haldið fram, að áhugi á vísindasögu sé eins og ólæknandi veirusjúkdómur, sem einkum leggist á fáeina einstaklinga í hópi raunvísindamanna. Það kann að vera nokkuð til í þessu, því margir af fremstu vísindasagnfræðingum heims eru jafnframt vel menntaðir í raunvísindum (athugið að samkvæmt íslenskri hefð er stærðfræði hér talin til raunvísinda). Hitt er einnig vel þekkt, að hinn dæmigerði raunvísindamaður er ekki sérlega áhugasamur um vísindasögu sem slíka, þótt hann telji sig yfirleitt ágætlega meðvitaðan um sögu sinnar eigin greinar. Vísindamenn virðast og almennt þeirrar skoðunar, að þótt gaman geti verið að lesa um vísindaafrek fyrri tíma og snjalla forvera, þá komi vísindasagan þeim að litlum notum í daglegu rannsóknaramstri. Ekki frekar en vísindaheimspekin, sem margir telja jafnvel enn gagnslausari en söguna.
Þessi viðhorf endurspeglast meðal annars í kennslubókum, sem raunvísindanemar í háskólum eru látnir lesa. Þar er undirstöðuþekkingin sett fram á skipulegan og rökrænan hátt og sagan afgreidd með stuttum innskotum, einskonar helgisögum, um fræga vísindamenn og afrek þeirra. Söguinnskotin gera þó sitt gagn, m.a. geta „stórmennin“ orðið nemendum hvetjandi fyrirmyndir og jafnframt hjálpað þeim til að læra nöfn eininga, lögmála og kenninga sem og margskonar fyrirbæra og uppgötvana. Sumir telja, að viðameiri og dýpri söguumfjöllun myndi bara rugla óþroskaða nemendur í ríminu og gæti jafnvel hrakið þá af hinni beinu og vel vörðuðu braut til frekara náms á raunvísindasviðinu.
Niðurstöður vísindarannsókna eru nær undantekningarlaust birtar í greinum, sem samdar eru sérstaklega fyrir þröngan hóp fræðimanna og saga glímunnar við viðfangsefnið er venjulega afgreidd á þægilegan hátt með tilvísunum í ritsmíðar annarra sérfræðinga. Það er yfirleitt ekki fyrr en vísindamenn fara að skrifa fyrir breiðari hóp (sérfræðinga á öðrum sviðum eða leikmenn) sem gripið er til vísindasögunnar til að auðvelda skilning og halda athygli lesenda. Venjulega er þá notast við einfaldaða söguframsetningu. Í einstaka tilvikum fyllast vísindamenn þó knýjandi þörf fyrir að kafa dýpra og fara sjálfir að að grúska í sögunni. Það eru glögg merki þess, að þeir séu smitaðir af áðurnefndri vísindasöguveiru.
Eins og sjá má á skránni Íslendingar sem birt hafa rit um sögu raunvísinda er meirihluti höfundanna annað hvort raunvísindamenn eða einstaklingar með umtalsverða menntun í þeim fræðum. Aðeins tveir Íslendingar hafa lokið doktorsprófi í vísindasagnfræði, en þeir eru jafnframt báðir með bachelorspróf í raunvísindum, annar í eðlisfræði og stærðfræði, hinn í líffræði. Staðan í þessum málum hérlendis er sennilega svipuð og í öðrum nálægum löndum. Margir raunvísindamenn halda því fram, að þetta sé vel skiljanlegt; venjulegir sagnfræðingar hafi hvorki löngun né burði til að fást við vísindasögu. Til þess skorti þá almennt næga grundvallarþekkingu á raunvísindum og iðkun þeirra. Sumir sagnfræðingar og heimspekingar telja aftur á móti, að þótt raunvísindamenn þekki vel til sinna eigin fræða, þá séu þeir ekki endilega hæfastir til að skrá söguna. Þeir séu yfirleitt illa að sér í söguspeki, með óheppilega nútíðarsýn, og flestir haldnir ólæknandi framfarahyggju. Sennilega hafa báðir aðilar nokkuð til síns máls.
- H. DeVorkin, 2013: History is Too Important to be left to the Historians.
- H. Mauskopf, 2011: Do Historians or Chemists write better history of chemistry?
- G. Brush, 1995: Scientists as Historians.
- E. Mayr, 1990: When is Historiography Whiggish?
- E. Harrison, 1987: Whigs, prigs and historians of science.
Ágreiningur raunvísindamanna og hugvísindamanna um sögu og heimspeki vísinda birtist yfirleitt sem kurteisisleg akademísk skoðanaskipti á málþingum og í fagtímaritum. Einstaka sinnum sýður þó upp úr á opinberum vettvangi og menn fara að rífast í dagblöðum, fjöllesnum tímaritum og á samfélagsmiðlum. Eitt þekktasta dæmið um slíkar deilur eru hin alræmdu vísindastríð í lok síðustu aldar. Þar tókust svokallaðir raunhyggjumenn einkum á við póstmódernista og smíðahyggjumenn.
Þótt andstæðar fylkingar hafi ekki enn náð fullum sáttum, verður ekki betur séð, en búið sé að kreista flest gagnlegt út úr þessum heitu skoðanaskiptum. Ef einhver hefur áhuga á að rifja upp þrætuefnin, má benda á eftirfarandi heimildir:
- S.T. Cornelison, 2017: Commentators Reexamine Physicist Alan Sokal’s Purposeful 1996 Parody Paper.
- N.D. Mermin, 2008: Science wars revisited.
- Skúli Sigurðsson, 2002: Framfarir, hugsanafrelsi og rofabörð: Hugleiðingar um vísinda- og tæknisögu.
- S. Shapin, 2001: How to be Anti-Scientific.
- Jón Ólafsson, 2000-2001: Vísindastríðin, sannleikurinn og Rorty.
- S. Weinberg, 1998: Physics and History.
- S. Weinberg, 1998: The Revolution That Did't Happen.
- S.S. Schweber, 1997: Reflections on the Sokal Affair: What Is at Stake?
- S. Weinberg, 1996: Sokal's Hoax.
Árið 2010 blossaði reyndar upp önnur en skyld deila, nú um samband heimspeki og raunvísinda, þegar þeir Stephen Hawking og Leonard Mlodinow lýstu því yfir í bókinni The Grand Design (2010; ísl. þýðing 2011: Skipulag alheimsins) að heimspekin væri dauð. Bókin A Universe from Nothing eftir Lawrence Krauss (2012; ísl. þýðing 2014: Alheimur úr engu) hellti síðan olíu á eldinn með ógætilegum ummælum höfundarins um heimspekina. Margir urðu til andsvara, eins og sjá má af eftirfarandi heimildum:
- S. De Haro, 2020: Science and Philosophy: A Love–Hate Relationship.
- C. Rovelli, 2018: Physics Needs Philosophy. Philosophy Needs Physics.
- J. Stenger, J.A. Lindsay og P. Boghossian, 2015: Physicists Are Philosophers, Too.
- Arngrímur Vídalín, 2015: Þekkingarfræðilegt afstöðuleysi og dauði vísinda.
- D. Jakušić, 2013: Stephen Hawking and the death of Philosophy.
- A. Frank, 2012: Blackboard Rumble: Why Are Physicists Hating On Philosophy (and Philosophers)?
- L. M. Krauss, 2012: The Consolation of Philosophy.
- S. Weinberg, 1992: Against philosophy (að baki tengilsins er sjóræningjaútgáfa af 7. kafla bókarinnar Dreams of a Final Theory, en undir öðru heiti).
Deilur af þessu tagi geta oft verið skemmilegar og stundum fróðlegar, en hér verða þeim þó ekki gerð frekari skil. Ekki verður heldur farið í saumana á hinu aldagamla, en brothætta, sambandi raunvísindamanna og hugvísindamanna í akademísku samfélagi. Í staðinn er ætlunin að skipta í persónulega gírinn, fara nokkrum orðum um upphafleg kynni færsluhöfundar af vísindasögu, og lýsa jafnframt reynslu hans af sögugrúski. Lesendum, sem vilja heldur eyða dýrmætum tíma sínum í nánari umfjöllun um vísindasöguna sjálfa, er bent á heimildirnar í meðfylgjandi skrá.
Vísindasagan og ég
Þótt undarlegt megi virðast, man ég aðeins eftir einum sögutíma frá allri minni skólagöngu frá barnaskóla til stúdentsprófs. Það var reyndar ekki kennslustund í sögu, heldur óvenjulegur stærðfræðitími í Menntaskólanum í Reykjavík (MR), að mig minnir á síðasta kennsludegi fyrir jólin 1966. Þá tók kennarinn, Björn Bjarnason, sig til og las fyrir bekkinn kaflann „Hugvit og heimska“ úr bókinni Undur veraldar (1945). Kaflinn fjallar um ævi og örlög franska stærðfræðingsins Évariste Galois og höfundurinn er hinn skosk-bandaríski Eric T. Bell. Upplesturinn var áhrifaríkur, svo mjög, að bæði hlustendum og upplesara vöknaði um augu.
Í jólafríinu það ár las ég svo bókina Stærðfræðin, sem Björn hafði þýtt fyrir Alfræðasafn AB. Um svipað leyti renndi ég einnig yfir bækurnar Veðrið og Vísindamaðurinn úr sama flokki. Bækur þessar eiga það sameiginlegt, að í þeim er talsvert fjallað um söguna. Því nefni ég þetta, að á sínum tíma voru það vísindin sjálf sem heilluðu og ég man ekki betur, en að ég hafi flett fram hjá flestum söguinnskotum. Þegar ég skoða þessi rit í dag, gerist hins vegar hið gagnstæða. Í þessu sambandi má einnig nefna, að við útskrift frá MR vorið 1967 var Íslenska stærðfræðafélagið svo vinsamlegt að gefa mér sögubókina The Last Problem (1961) eftir fyrrnefndan Bell. Ég las hana þó ekki fyrr en nokkrum árum síðar.
Á námsárum mínum í MR var listilega sneitt hjá allri vitrænni umræðu um skammtahugtakið í raunvísindakennslunni. Mikilvægara þótti (og þykir reyndar enn) að nemendur settu sig vel inn í hugmyndafræði sígildrar eðlisfræði, áður en farið væri í háskólanám. Þar gætu þeir, sem vildu, sökkt sér á kaf í nútíma eðlisfræði. Sumir stærðfræðideildarnemar voru þó eðlilega forvitnir og það var ástæða þess, að einn daginn leit ég við hjá Snæbirni og keypti þar kiljuna The Strange Story of the Quantum (1958) eftir Banesh Hoffmann. Ekki sögunnar vegna, heldur í þeirri veiku von, að verkið myndi opna fyrir mér undraveröld skammtafræðinnar. Það gekk því miður ekki eftir, en við nýlegan endurlestur uppgötvaði ég, hversu fróðleg og skemmtileg bók Hoffmanns er.
Háskólanám, kennsla og rannsóknir
Sumarið 1967 skráði mig í verkfræði við Háskóla Íslands (HÍ), á meðan ég beið eftir að komast í eðlisfræðinám til Bandaríkjanna. Auk þess að taka haustnámskeiðin í eðlisfræði og stærðfræði hjá öndvegiskennurum í Verkfræðideild, nældi ég mér í nafnbótina cand. phil. með því að ljúka prófi í „fílunni“, drepleiðinlegu námskeiði, sem hinn annars ágæti fræðimaður Símon Jóhann Ágústsson kenndi. Einnig byrjaði ég í málstofu hjá Birni Bjarnasyni um talnafræði og sögu hennar, en hætti fljótlega vegna eigin áhugaleysis. Ég man ekki betur en Björn hafi meðal annars notast við bókina Alt er Tall (1964) eftir Viggo Brun, enn eitt dæmið um verk, sem ég lærði ekki að meta að verðleikum fyrr en löngu síðar.
Haustið 1968 hóf ég BS-nám í eðlisfræði og stærðfræði við Princetonháskóla og var þar í tvö ár. Auk námskeiða í aðalgreinum var okkur, að bandarískum sið, ætlað að taka nokkur hugvísindanámskeið að eigin vali. Ég leitaði að fögum, sem ég taldi styrkja raunvísindanámið, og valdi í því skyni tvö: annað í vísindasögu hjá Charles Gillispie og hitt í vísindaheimspeki hjá Carl Hempel. Báðir voru þeir ágætis kallar, sem vildu nemendum vel, en lítið sat samt eftir af efni fyrirlestra þeirra og umræðufunda. Þó man ég eftir því, að hafa rætt stundarlangt við Gillispie um bók G.H. Hardys, A Mathematician Appology (1940; ísl. þýðing 1972: Málsvörn stærðfræðings) sem ég hafði nýlega lesið að áeggjan Reynis Axelssonar, þá framhaldsnema í stærðfræði við Princeton.
Fyrir skemmstu fletti ég í gegnum gamla kennsluskrá frá þessum árum og uppgötvaði, að auk þeirra Gillispies og Hempels, voru tveir aðrir prófessorar á námsbrautinni um sögu og heimspeki vísinda. Annar var stærðfræðingurinn Salomon Bochner, höfundur hins áhugaverða, en sérviskulega, greinasafns The Role of Mathematics in the Rise of Science (1966) sem ég hafði blaðað í á sínum tíma. Hinn var enginn annar en Thomas S. Kuhn, maður sem ég man reyndar ekki til að hafa heyrt nefndan fyrr en áratug síðar.
Eitt af því, sem vakti furðu mína í hugvísindanámskeiðunum, voru hinir álnarlöngu listar yfir tímaritsgreinar og bókarkafla, sem okkur var ætlað að lesa á bókasafninu, nokkuð sem ekki tíðkast í raunvísindum, þar sem ein kennslubók er yfirleitt látin duga. Prófessorarnir létu okkur þó einnig kaupa rit eftir sjálfa sig, Gillispie bókina The Edge of Objectivity: An Essay in the History of Scientific Ideas (1960) og Hempel verkið Philosophy of Natural Science (1966). Eftir að náminu lauk, hef ég aðeins flett tvisvar eða þrisvar upp í bók Gillispies, án þess þó að hafa haft mikið gagn af. Bók Hempels hef ég ekki opnað í meira en fimmtíu ár.
Ég get ekki lokið þessum sérvöldu minningarbrotum frá Princeton án þess að minnast á hið áhrifamikla rit, Men of Mathematics (1937), eftir E.T. Bell, sem ég las mér til mikillar ánægju á þeim árum. Bókin er safn rómantískra hetjusagna um merka stærðfræðinga fyrri tíma. Þótt löggiltir sagnfræðingar telji hana verulega söguskakka og fulla af villum, er hún eitt vinsælasta rit allra tíma um sögu stærðfræðinnar. Þeir eru ófáir raunvísindamennirnir, sem þakka henni áhuga sinn á stærðfræði og skyldum greinum. Þess ber einnig að geta, að sagan af Galois, sem áður var minnst á, er íslensk þýðing á 20. kafla þessa verks.
Ég hóf kennslu við MR haustið 1970, upphaflega í eðlisfræði, en fljótlega bættust stærðfræði og stjörnufræði við. Af hreinni skyldurækni leitaðist ég jafnan við að glæða áhuga nemenda á sögu fræðanna með vel völdum innskotum, sem oftar en ekki studdust við stuttaralega umfjöllun kennslubókanna. Ég verð að játa, að ég var ekki, frekar en aðrir raunvísindakennarar í menntaskólum þess tíma, sérlega meðvitaður um það, hversu ósöguleg slík „sögukennsla“ er. Í dag veit ég betur, en get því miður ekki bent á nein góð ráð til úrbóta. Það væri þá helst, að bjóða nemendum upp á valnámskeið í alvöru vísindasögu, eins og gert hefur verið við HÍ frá 1980. En þá vaknar strax spurningin um það, hverjir ættu að kenna slík námskeið.
Frekari umræðu um þetta kennslufræðilega efni má meðal annars finna í eftirfarandi heimildum:
- H. Pell, 2019: Harvard Project Physics: The Role of History in Science Curriculum.
- G. Holton, 2003: The Project Physics Course, Then and Now.
- F. Seroglou & P. Koumaras, 2001: The Contribution of the History of Physics in Physics Education: A Review.
- G. Holton & S.G. Brush, 2001: Physics, the Human Adventure: From Copernicus to Newton and Beyond. Bókinni fylgir sérstök heimildaskrá. Sjá einnig umsögn.
Á þessum árum var hugur minn nær eingöngu bundinn við raunvísindi, einkum þó eðlisfræði. Ég fékk frí frá kennslunni til að ljúka MS-prófi í faginu við Wisconsinháskóla árið 1974 og byrjaði svo að kenna sömu greinar og áður í MR, en með nýjum áherslum, sérstaklega þó í stjörnufræðinni.
Í náminu hafði ég öðlast staðgóða undirstöðuþekkingu í almennu afstæðiskenningunni og eftir heimkomuna hélt ég henni við með frekari lestri, einkum um svarthol, nifteindastjörnur, þyngdarbylgjur og heimsfræði. Það varð svo aftur til þess, að ég sótti sérstakan haustskóla í kennilegri stjarneðlisfræði á vegum Nordita í Kaupmannahöfn í nóvember 1975. Það er þeim haustskóla að þakka (eða kenna), að ég átti eftir að leggja megináherslu á slík fræði næstu 35 árin.
Sumarið 1977 sótti ég heimsfræðiráðstefnu í Cambridge í Englandi og rakst þar á bókina The First Three Minutes eftir bandaríska eðlisfræðinginn Steven Weinberg. Í þessu áhrifamikla verki er sérstök áhersla lögð á örbylgjukliðinn og sögu rannsókna á honum. Í dag tel ég, að það hafi verið sú söguumfjöllun, sem vakti fyrir alvöru áhuga minn á sögu heimsfræðinnar og í kjölfarið á sögu eðlisfræði og stjörnufræði, áhuga sem hefur fylgt mér alla tíð síðan.
Haustið 1978 hóf ég rannsóknir í stjarneðlisfræði hjá Nordita í Kaupmannahöfn og einbeitti mér að kennilegum athugunum á varmaeiginleikum og kólnun nifteindastjarna næstu þrjú árin. Húsnæðið, sem Nordita hafði til umráða, var hluti af Niels Bohr stofnuninni og þar sveif andi sögunnar svo sannarlega yfir vötnunum. Ekki þurfti annað en heimsækja aðal fyrirlestrasalinn, Auditorium A, til að rekast á myndir af Týchó Brahe, Ole Römer, H.C. Örsted og að sjálfsögðu Niels Bohr sjálfum. Þar hékk einnig á vegg hin þekkta mynd af nokkrum af helstu frumherjum skammtafræðinnar, sitjandi á sömu hörðu bekkjunum og okkur var boðið upp á hálfri öld síðar:
Á þessum Kaupmannahafnarárum fékk ég útrás fyrir vísindasöguáhugann með því að mæta eldsnemma á stofnunina, einu sinni eða tvisvar í viku, og lesa mér til í ýmsum bókum og tímaritum á bókasafninu. Um níuleytið fór ég svo á skrifstofuna, fékk mér kaffi og tók til við viðfangsefni dagsins í stjarneðlisfræði. Ég fór frekar dult með þessa aukavinnu, enda sennilega haldinn sektarkennd yfir því að eyða tímanum í annað en eðlisfræðina. Lesturinn var mér þó mikils virði og átti eftir að koma í góðar þarfir, ekki síður en aðrar rannsóknir sem ég stundaði á Nordita.
Eftir að hafa lokið lic. scient. (= ph.d.) prófi í eðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla haustið 1981, hóf ég að kenna stjarneðlisfræði við HÍ og varð skömmu síðar sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans. Jafnframt því að stunda rannsóknir á mínu eigin sérsviði í samvinnu við erlenda og síðar innlenda vísindamenn, hóf ég óbeðinn að leggja grunn að frekari uppbyggingu stjarnvísinda hér á landi, meðal annars með því að berjast fyrir aukinni kennslu og rannsóknum í greininni við Háskólann. Samhliða þessu vann ég að almennri kynningu á stjörnufræði og reyndi með ýmsum hætti að efla persónuleg tengsl innan hins þá fámenna hóps íslenskra stjarnvísindamanna. Þessi starfsemi varð að lokum til þess, að ég var fastráðinn sem kennari við HÍ árið 1991. Hafi einhver áhuga á að kynna sér atburðarásina nánar, má finna hér nokkur sögubrot til viðbótar:
- Einar H. Guðmundsson, 2018: Stjarnvísindafélag Íslands 30 ára.
- Einar H. Guðmundsson, 2017: Í tilefni af sextíu ára afmæli NORDITA.
- Einar H. Guðmundsson, 2017: Tuttugu gjöful ár með Norræna stjörnusjónaukanum.
- Sjá einnig: Nútíma stjarneðlisfræði - Ýmis verk eftir Einar H. Guðmundsson og meðhöfunda.
Á þessum fyrstu árum var ekki mikill tími afgangs fyrir áhugamál eins og vísindasögu. Sögugrúskið lá því að mestu í dvala vel fram yfir miðjan níunda áratuginn. Þá gerðist það einn daginn, að Ottó J. Björnsson stærðfræðingur vék sér að mér á förnum vegi og fór að spyrja mig um Rasmus Lievog stjörnumeistara, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég kom algjörlega af fjöllum og varð að viðurkenna vankunnáttu mína, enda hafði ég aldrei heyrt minnst á þennan forvera minn. Í ljós kom, að Ottó vissi sjálfur ósköp lítið um Lievog og mundi heldur ekki í svipinn, hvar hann hafði heyrt eða séð nafnið. Það varð til þess, að ég ákvað að kanna málið nánar.
Sögugrúskið hefst fyrir alvöru
Segja má, að hið sérkennilega samtal okkar Ottós hafi markað upphafið að grúski mínu á sögu raunvísinda á Íslandi. Ég fann tíma til að heimsækja Landsbókasafnið, sem þá var á Hverfisgötunni, og uppgötvaði þar fljótlega ýmsar gersemar, meðal annars stjarnmælingabækur Lievogs á handritadeildinni og síðast en ekki síst Landfræðissögu Íslands, hið frábæra verk Þorvalds Thoroddsen. Leit í hinum ýmsu yfirlitsritum um sögu Íslands eftir sagnfræðinga tuttugustu aldar leiddi og smám saman í ljós, að Landfræðissagan var helsta heimild þeirra allra um iðkun náttúruvísinda hér á landi, allt frá siðaskiptum til loka nítjándu aldar.
Hvað sjálfan mig varðar, var Landfræðissagan gífurlega mikilvæg, Hún sparaði mér ómælda vinnu við leit að heimildum og gerði mér mögulegt að kortleggja í stórum dráttum sögu raunvísinda (þ.e. stjörnufræði, eðlisfræði og stærðfræði) á Íslandi fram til ársins 1900. Þar komu neðanmálsgreinarnar ekki að minna gagni en megintextinn. Sem stjarneðlisfræðingur hafði ég náttúrulega enga reynslu af sagnfræðirannsóknum, og til að ná áttum, tók ég saman persónulega skrá, sem ég kallaði „Safn til sögu stjarnvísinda á Íslandi“. Hún var að grunninum til samsafn upplýsinga úr Landfræðissögunni, en næstu þrjú árin eða svo hélt ég áfram að bæta við hana minnisatriðum byggðum á eigin sögugrúski.
Ég man ekki til að hafa haft neina meðvitaða áætlun í huga í upphafi, eða sett mér sérstök markmið með grúskinu. Þarna var fyrst og fremst um að ræða einskæra forvitni um þekkingu Íslendinga fyrri tíma á stjarnvísindum, hvaðan sú þekking væri komin og hvernig forverar okkar hefðu beitt henni. Um þetta leyti var ég reyndar að berjast fyrir því, að stjarnvísindin yrðu viðurkennd sem fullgildur meðlimur í íslensku vísindasamfélagi. Það kann að hafa vakið einhverja dulda þörf hjá mér til að upplýsa umhverfið um sögu greinarinnar hér á landi og benda jafnframt á, að stjarnvísindaþekking væri mikilvægur þáttur í íslenskri menningu.
Ég gerði mér fljótlega grein fyrir því, að ekki nægði að leita upplýsinga eingöngu í íslenskum bókum og skjalasöfnum, heldur þyrfti ég einnig að kynna mér bakgrunninn, það er að segja sögu raunvísinda í Danmörku og þá sérstaklega þróunina við Háskólann í Kaupmannahöfn. Svo heppilega vildi til, að á tímabilinu 1984 til 2006 var ég í öflugu rannsóknarsamstarfi við vísindamenn í Kaupmannahöfn og sinnti jafnframt ýmsum stjórnunar- og nefndarstörfum við Nordita og Norræna stjörnusjónaukann. Af þeim sökum dvaldist ég oft í okkar gamla höfuðstað og gat notað frístundirnar til að heimsækja dönsk bóka- og skjalasöfn sem og fornbókaverslanir. Þannig kom ég mér upp talsverðu heimildasafni, sem kemur að góðum notum, enn þann dag í dag.
Lengstu heimsóknirnar voru yfirleitt að sumri til og þá slóst ég í hóp „farfuglanna“, en það voru vísindamenn, sem heimsóttu Nordita og/eða Niels Bohr stofnunina reglulega að sumarlagi og fengu þar skrifstofuaðstöðu. Strax fyrsta sumarið kynntist ég öðrum farfugli, Andy Jackson, skarpgáfuðum bandarískum eðlisfræðingi frá Stony Brook, sem ávallt var gaman að hitta á kaffiteríunni í hádeginu. Í kringum 1990 fékk hann mikinn áhuga á H.C. Örsted og verkum hans, og eftir að hann varð prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, árið 1995, vann hann það afrek að þýða, ásamt eiginkonu sinni Karenu Jelved, margar af helstu vísindaritsmíðum Örsteds á ensku og gefa út í nú vel þekktri bók, Selected Scientific Works of Hans Christian Ørsted (1998). Andy átti það til að fræða okkur farfuglana um hugmyndaheim Örsteds yfir hádegisverðinum og ýmislegt af því sem hann sagði, kom mér að góðum notum nokkrum árum síðar, þegar ég var að undirbúa grein mína um Björn Gunnlaugsson og náttúruspekina í Njólu.
Undir lok níunda áratugarins kynnti Andy mig fyrir enn einum farfuglinum, Abraham Pais, þekktum kennilegum eðlisfræðingi, sem verið hafði í fremstu röð öreindafræðinga á þriðja fjórðungi tuttugustu aldar og góðkunningi manna eins og Bohrs, Einsteins, Gell-Manns og Oppenheimers. Á efri árum hafði Pais snúið sér að vísindasagnfræði og sent frá sér ævisögu Einsteins (1982), verk sem hann hafði hlotið mikið lof fyrir. Þegar ég hitti hann fyrst, hafði hann einnig lokið við Inward Bound (1986), magnað yfirlitsrit um sögu öreindafræðinnar til 1985. Hann var nú með aðstöðu við Niels Bohr skjalasafnið til að vinna að ævisögu Bohrs, sem kom út skömmu síðar.
Ég get ekki sagt, að ég hafi átt mikil samskipti við Pais, enda má segja, að himinn og haf hafi skilið okkur að, ekki síst hvað varðar aldur, reynslu og þekkingu. Þá sjaldan við spjölluðum í hádeginu, vildi hann hvorki tala um eðlisfræði né sögu, heldur einungis um daglegt líf í Kaupmannahöfn og nýjustu fjölmiðlafréttir. Ég hafði þó verulegt gagn af bókum hans og greinum, bæði þá og síðar. Hann var mér einnig á vissan hátt fyrirmynd, einkum sem yfirlætislaus fulltrúi þeirra vísindamanna, sem ekki telja það fyrir neðan virðingu sína að fjalla um sögu og hugmyndagrundvöll eigin fræða.
Í þessu sambandi ætti ég einnig að nefna stjarneðlisfræðinginn Donald Osterbrock, sem ég var svo heppinn að kynntist lítilega á heimsfræðiráðstefnu í Kaupmannahöfn sumarið 1977. Hann var einn af þeim mörgu raunvísindamönnum, sem gerst höfðu vísindasagnfræðingar á efri árum. Á því sviði skilaði hann miklu verki með greinum og bókum, einkum um sögu stjarnvísinda í Kaliforníu á nítjándu og tuttugustu öld.
Á árunum 1993-94 hóf ég að safna upplýsingum um Vestur-Íslendinginn Sturlu Einarsson, sem verið hafði prófessor í stjörnufræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley á fyrri hluta tuttugustu aldar. Ég leyfði mér því að skrifa Osterbrock til að kanna, hvort hann vissi eitthvað um manninn. Hann brást við, bæði fljótt og vel, og sendi mér margvísleg gögn um Sturlu og störf hans. Nú eru liðin nær þrjátíu ár frá þessum samskiptum, og ég verð því miður að viðurkenna, að ég hef ekki enn lokið við greinina, sem ég ætlaði að skrifa um Sturlu. Það stendur þó allt til bóta, því efnið liggur fyrir, og greinin er þegar hálf-skrifuð.
Út úr vísindasöguskápnum
Haustið 1988 ákvað ég að opinbera áhuga minn á vísindasögu með stuttum fyrirlestri um stjörnumeistarana Johnsoníus og Lievog á ráðstefnu Eðlisfræðifélags Íslands í Munaðarnesi. Sá vettvangur hentaði mér ágætlega og til að sýna, að ég hefði alls ekki yfirgefið eðlisfræðina, þáði ég boð mótshaldara um að halda einnig yfirlitserindi um rannsóknir á mikilli stjörnusprengingu, sem sést hafði í Stóra Magellanskýinu árið áður.
Sjálfum fannst mér þessi frumraun mín í vísindasögumiðlun takast bærilega og þátt fyrir miklar annir á næstu árum, hélt ég ótrauður áfram að safna frekara söguefni. Það varð meðal annars til þess, að haustið 1992 hóf ég að kynna mér verk Stefáns Björnssonar reiknimeistara, sem varðveitt voru í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Með frekara grúski uppgötvaði ég fljótlega, að Stefán hafði verið sá maður íslenskur, sem fremstur var í stærðfræðilegum lærdómslistum á átjándu öld.
Þessi uppgötvun kom mér nokkuð á óvart, þar sem lítið sem ekkert hafði verið minnst á Stefán í íslenskum sögubókum frá því á dögum Þorvalds Thoroddsen. Ég taldi mér því skylt að heiðra minningu hans með einhverjum hætti og greip tækifærið, þegar mér var boðið að taka þátt í málþinginu Um náttúruvísindi og heimsmynd Íslendinga 1700-1850, en það var haldið haustið 1994 á vegum Félags um átjándu aldar fræði. Þar hélt ég erindi um Stefán, sem birt var aukið og endurbætt í Fréttabréfi Íslenzka stærðfræðafélagsins árið eftir (sjá bls. 8-27).
Haustið 1996 komst skriður á umræðurnar um aðkomu Íslendinga að norrænu samstarfi um stjörnusjónauka á Kanaríeyjum og sumarið 1997 varð aðildin að raunveruleika. Mikil vinna fólst í því að undirbúa fyrstu mælingarnar, sem fóru fram strax þá um haustið. Einhvern veginn fann ég þó tíma til að skrifa grein í Lesbók Morgunblaðsins í tilefni af 450 ára afmæli Týchós Brahe (1996) og ganga frá langri ritgerð um Gísla Einarsson skólameistara í Skálholti (1998).
Grein minni um Stefán Björnsson frá 1995 hafði verið vel tekið, og því ákvað ég að kynna verk hans almenningi á tveggja alda ártíð hans í vetrarbyrjun 1998. Vandinn var bara sá, að sum ritanna voru á latínu, og þrátt fyrir að hafa lært málið í heilt ár í MR, treysti ég mér ekki fyllilega til að koma innihaldinu skammlaust til skila. Ég brá þá á það ráð að leita hjálpar hjá Eyjólfi Kolbeins latínukennara. Hann tók erindi mínu ljúfmannlega, grófþýddi fyrir mig þrjár díspútatíur eftir Stefán á íslensku og gaf mér góðfúslega leyfi til að nota þýðingarnar að vild. Það gerði ég svo í Lesbókargrein í október 1998: Ferhyrningar, halastjörnur og grunnmaskínur.
Þetta var ekki í eina skiptið, sem ég þáði ómetanlega aðstoð frá Eyjólfi. Árið 2005 fékk ég boð um að halda erindi á ráðstefnu, sem haldin var í tilefni af 400 ára afmæli Brynjólfs biskups Sveinssonar. Ég ákvað að fjalla um heimsmyndina á sautjándu og og átjándu öld og af því tilefni tók Eyjólfur að sér að grófþýða hvorki meira né minna en 12 latneskar dispútatíur eftir þá Gísla Þorláksson biskup, Þorleif Halldórsson rektor og Magnús Arason landmælingamann. Þessa miklu vinnu innti hann af hendi endurgjaldslaust og af einskærum áhuga.
Mér tókst einnig að fá vin minn, Þorstein Vilhjálmsson eðlisfræðing, til að aðstoða okkur Eyjólf við frágang á handriti mínu um þetta efni og greinin birtist árið 2006 í svokallaðri Brynjólfsbók undir heitinu Heimsmyndin í ritum lærðra Íslendinga á sautjándu og átjándu öld. Þorsteinn þýddi síðan ritsmíðina á ensku fyrir ráðstefnu, sem hann sótti í Krakow í Póllandi um haustið. Hún birtist í styttri útgáfu sama ár sem Copernicanism in Iceland.
Að öðrum ólöstuðum, hafa fáir við Háskóla Íslands sýnt mér meiri stuðning í sögugrúskinu en Þorsteinn. Þar kom meðal annars til áhugi hans á sögu raunvísinda á Íslandi, en sennilega rann honum einnig blóðið til skyldunnar, þar sem hann hafði áður fullnýtt sér hið akademíska frelsi til að gera vísindasögu að meginviðfangsefni sínu við Háskólann, í bland við öfluga vísindamiðlun.
Aðrir hjálpsamir samstarfsmenn voru hinir skarpskyggnu og fróðu vísindamenn Leó Kristjánsson jarðeðlisfræðingur og Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur. Mér var líka viss huggun í því, að bæði Páll Theodórsson eðlisfræðingur og Ottó J. Björnsson stærðfræðingur höfðu fengist við vísindasögu. Þessir menn voru mjög ólíkir sem einstaklingar, en allir höfðu þeir brennandi áhuga á sérsviðum sínum og sögu þeirra. Í skránni Íslendingar sem birt hafa rit um sögu raunvísinda má finna vísbendingar um ritsmíðar þessara ágætu manna um vísindasögu.
Í byrjun tíunda áratugarins endurnýjaði ég kynni við Skúla Sigurðsson, gamlan nemanda minn úr MR, þar sem ég hafði kennt honum bæði eðlisfræði og stjörnufræði. Skúli var nú kominn með doktorsnafnbót í vísindasögu frá Harvard og hafði mestan áhuga á sögu stærðfræði og eðlisfræði tuttugustu aldar. Við ræddum oft saman, meðal annars um þróun raunvísinda Íslandi og það varð á endanum til þess, að við skrifuðum grein um stærðfræðinginn Ólaf Dan Daníelsson í tilefni af aldarafmæli takmörkuðu afstæðiskenningarinnar árið 2005. Til stóð, að við ynnum saman að öðru vísindasöguverkefni hér heima, en úr því varð ekki, því Skúli fluttist alfarinn til Berlínar skömmu síðar.
Ég tel mig hafa lært heilmikið af Skúla um rannsóknir í vísindasagnfræði. Hið sama á við um Steindór J. Erlingsson, sem ég hitti fyrst í hópi ungra nemenda í almennu námskeiði um stjörnufræði, sem ég kenndi á sínum tíma við HÍ.
Ég kynntist Steindóri til muna betur, þegar hann var í meistaranámi hjá Þorsteini Vilhjálmssyni, og átti síðan við hann talsverð samskipti eftir að hann lauk doktorsprófi í vísindasögu við Manchesterháskóla. Þrátt fyrir langvinn veikindi, eru fáir jafn einbeittir og afkastamiklir og Steindór, þegar hann er í vinnuham. Að mínu mati eru þau verk, sem hann hefur náð að skrifa um sögu lífvísinda, einstaklega áhugaverð og fræðandi.
Árið 2011 voru liðin rúm 35 ár frá því að ég hóf að vinna fyrir alvöru að verkefnum í stjarneðlisfræði. Þar af hafði ég sinnt rannsóknum og kennslu við HÍ í um 30 ár og var orðinn nokkuð ánægður með uppbyggingu greinarinnar hér á landi og stöðu hennar við skólann. Ég taldi einnig næsta víst, að heimurinn færist ekki, þótt ég sneri mér í auknum mæli að öðrum áhugmálum. Af þeim sökum tók ég ákvörðun um að fara í hálft starf í ársbyrjun 2011, sex árum áður en ég þurfti svo endanlega að ljúka störfum og gerast prófessor emeritus.
Þetta reyndist mikið gæfuspor. Nú hafði ég nægan tíma til frekara grúsks í vísindasögu, og að auki var ný tækni komin til sögunnar, sem gerði það mögulegt að galdra ólíklegustu heimildir fram úr ljósvakanum heima í stofu, jafnvel heilu bækurnar. Sumarið 2017 uppgötvaði ég svo bloggið og þá varð ekki aftur snúið. Sú tegund útgáfu, sem þessi stórkostlega tækni býður upp á, hentar mér sérlega vel og ég hef nýtt hana til fullnustu á undanförnum árum. Afraksturinn af þeirri vinnu geta áhugasamir nálgast með því að fara inn á vefsíðuna Saga stjörnufræði og eðlisfræði á Íslandi frá miðöldum fram á tuttugustu og fyrstu öld - Nokkur rit eftir Einar H. Guðmundsson.
Að lokum þetta: Ég hef alla tíð kappkostað að halda sem bestu sambandi við hugvísindamenn, ekki síst í kringum sögugrúskið. Ég á og marga góða kunningja í þeirra hópi og met þá mikils. Það hefur aldrei truflað mig, að nálgun sagnfræðinga og heimspekinga við val og úrvinnslu rannsóknarverkefna er yfirleitt talsvert frábrugðin þeirri, sem tíðkast meðal eðlisfræðinga og annarra raunvísindamanna. Ég á því bágt með að skilja þau átök, sem stundum blossa upp milli „menningarheimanna tveggja“ og minnst var á í inngangi þessarar færslu. Hins vegar get ég ekki annað en tekið undir með Aðalgeiri Kristjánssyni sagnfræðingi og skjalaverði (1924-2021), sem lét eftirfarandi orð falla, eftir að hafa lesið yfir drög að fyrstu grein minni um Björn Gunnlaugsson og gefið henni blessun sína: „Það er athyglisvert, hvernig raunvísindamenn og hugvísindamenn skrifa yfirleitt gjörólíka texta, jafnvel þegar þeir eru að fjalla um sama viðfangsefnið.“
Viðaukar um nokkur sögutengd viðfangsefni
Aldarsaga Háskóla Íslands
Sumarið 2005 skipaði Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, fimm manna ritnefnd til að stjórna ritun sögu skólans í tilefni af aldarafmælinu 17. júní 2011. Ég var settur í nefndina sem fulltrúi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og tók þannig þátt í að koma ritinu, Aldarsögu Háskóla Íslands, út á tilsettum tíma. Vegna plássleysis í bókinni, var frá upphafi stefnt að því, að Aldarsagan myndi fyrst og fremst fjalla um þróun skólans í samfélagslegu, pólitísku og menningarlegu samhengi og hlutfallslega lítil áhersla var því lögð á það að rekja smáatriði í sögu einstakra fræðigreina, stofnana eða einstaklinga. Ritstjórnin gerði sér fulla grein fyrir því, að þessi ákvörðun myndi falla í misgóðan jarðveg meðal starfsmanna skólans. Reyndin varð og sú, að þegar bókin kom út, byggðu ýmsir dóma sína á því, hvort þeirra var getið þar með nafni eða ekki.
Saga Raunvísindastofnunar Háskólans
Sjálfur hafði ég nokkrar áhyggjur af því, að ekki var rými í Aldarsögunni til að fjalla nógu ítarlega um þróun raunvísinda við Háskólann. Það varð til þess, að haustið 2010 fékk ég þá Þorstein Vilhjálmsson og Leó Kristjánsson í lið með mér til að kanna, hvort mögulegt væri að láta skrá hálfrar aldar sögu Raunvísindastofnunar Háskólans, og gefa hana út á afmælisárinu 2016. Niðurstaða okkar var sú, að það væri full ástæða til að reyna og við höfðum því samband við stjórn stofnunarinnar um málið. Stjórnin brást vel við og bað okkur að skila inn tillögum um framkvæmdina, sem við og gerðum haustið 2011.
Í kjölfarið fór af stað löng og flókin atburðarás, þar sem margir komu að málum, sótt var árangurslaust um styrki til verksins og vísindasagnfræðingur tók að safna gögnum og skrásetja. Því miður veiktist sagnfræðingurinn alvarlega sumarið 2017 og þurfti að draga sig í hlé. Við það lognaðist verkefnið útaf.
Vorið 2021 var ég viðstaddur undirritun skipulagsskrár sjóðsins Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar og Þorsteins og hitti þar Jón Atla Benediktsson Háskólarektor. Mér til mikillar ánægju spurði hann, hvort ekki væri orðið tímabært að skrásetja sögu Raunvísindastofnunar. Ég játti því og við ræddum málið stuttlega. Í ágúst sendi ég honum og helstu stjórnendum stofnunarinnar svo langt bréf, þar sem ég sagði frá fyrri tilraunum til að rita söguna og hvatti til, að málið yrði tekið upp að nýju. Jón brást snöggt við, lagði til að stjórnin tæki málið strax til umræðu og lýsti jafnframt yfir vilja rektorsembættisins til að styðja verkefnið eftir því sem kostur væri. Stjórnin tók áskorun rektors vel, og síðast þegar ég vissi, var undirbúningur að ritun sögunnar kominn á góðan rekspöl.
Saga Nordita í Kaupmannahöfn
Hálfrar aldar sögu Nordita í Kaupmannahöfn lauk í árslok 2006, þegar stofnunin var flutt til Stokkhólms. Þrátt fyrir, að ég væri orðinn hálfþreyttur á stjórnunarstörfum í norrænu samstarfi, tók ég það að mér af skyldurækni að sitja sem fulltrúi Íslands í fyrstu Stokkhólmsstjórninni 2007-2010. Fljótlega var farið að spjalla um það í þröngum hópi velunnara, að æskilegt væri að skrá sögu Kaupmannahafnaráranna með einhverjum hætti. Í einni fundarferðinni til Stokkhólms rakst ég svo fyrir tilviljun á hina frábæru bók um sögu rannsókna á örbylgjukliðnum, Finding the Big Bang (2009) eftir eðlisfræðingana P.J.E. Peebles, L.A. Page, Jr. og R.B. Partridge. Mér líkaði vel, hvernig verkið var upp byggt, með ítarlegum inngangi og yfirlitisgreinum ásamt á fimmta tug persónulegra frásagna eftir vísindamenn, sem komið höfðu að mikilvægustu rannsóknunum. Í kjölfarið stakk ég upp á því við Norditahópinn að nota kliðssöguna sem fyrirmynd við skipulagningu og ritun Norditasögunnar. Þetta var árið 2009.
Málin voru rædd fram og aftur í tölvupósti, en með löngum hléum vegna anna. Það var því ekki fyrr en í sumarbyrjun 2013, sem skriður komst á verkefnið. Enn átti þó eftir að líða langur tími þangað til bókin kom út, en það var ekki fyrr en í árslok 2021. Það skal tekið fram, að ég kom fyrst og fremst að verkinu, sem einn af ritstjórnarmönnum, og hitinn og þunginn af vinnunni lenti á herðum félaga minna í Kaupmannahöfn. Kynningu á verkinu má finna hér, en sjálf bókin er aðgengileg á vefnum: Nordita - The Copenhagen Years: A Scrapbook.
Meistaranámsleið í hugmynda- og vísindasögu
Allt frá því ég tók til starfa sem stjarneðlisfræðingur við Raunvísindastofnun árið 1982, hef ég stutt við bakið á tilraunum til að festa vísindasagnfræði í sessi við HÍ. Það var mér því fagnaðarefni, þegar mér bauðst í vetrarbyrjun 2012 að setjast í starfshóp til undirbúnings að námi í vísindasögu við skólann. Í hópnum voru einnig prófessorarnir Vilhjálmur Árnason heimspekingur og Guðmundur Jónsson sagnfræðingur. Fjórum árum síðar, haustið 2016, var svo meistaranámsleiðin Hugmynda og vísindasaga sett formlega á fót í samvinnu Sagnfræði- og heimspekideildar og Raunvísindadeildar.
Starfi mínu fyrir HÍ á þessu sviði lauk ekki með stofnun námsleiðarinnar. Þótt ég væri þá kominn á eftirlaun, tók ég að mér að skipuleggja og sjá um sérstaka málstofu, Heimsfræði í ljósi sögu og heimspeki, á vormisseri 2017. Ég leiðbeindi svo fyrsta nemandanum, sem lauk námi við námsleiðina, Gabríelu Radulescu, með meistaraverkefni hennar, Communication with (Extra)Terrestrial Intelligence: Soviet Radio Astronomers, Scientific Internationalism and Outer Space Imaginary (2020). Gabríela stundar nú framhaldsnám í Þýskalandi.
Félag um átjándu aldar fræði
Einn af góðkunningjum mínum meðal hugvísindamanna er Ingi Sigurðsson sagnfræðingur og prófessor emeritus. Fyrir hartnær þrjátíu árum átti hann frumkvæðið að stofnun eins þekktasta fræðafélags landsins á seinni tímum, Félags um átjándu aldar fræði, og hefur séð til þess, að það héldi fullum dampi alla tíð síðan, aðallega með málþingahaldi. Ingi fékk mig til að sitja í stjórn félagsins á árunum 2015 til 2018, verkefni sem ég hafði mikla ánægju af, enda kynntist ég þar mörgu góðu og kraftmiklu fólki, fékk tækifæri til að halda erindi um vísindasöguleg efni og jafnframt að hjálpa til við skipulagningu öðruvísi málþinga en ég var vanur.
Sögunefnd Stjarnvísindafélags Íslands
Í tilefni af þrjátíu ára afmæli Stjarnvísindafélagsins árið 2018 tók ég saman stutt yfirlit um sögu þess. Um svipað leyti var að mínu frumkvæði stofnuð nefnd til að halda utan um sögu félagsins og reyndar einnig almenna sögu stjarnvísinda á Íslandi. Eitt fyrsta verkefni nefndarinnar var að koma í framkvæmd gömlum draumi vinar míns, Þóris Sigurðssonar eðlisfræðings, um að reisa minnisvarða um vinnumanninn Odda Helgason í Múla, en hann gerði merkar athuganir á göngu sólar á tólftu öld. Eftir nær tveggja ára undirbúningsvinnu var minnisvarðinn loks reistur í landi Grenjaðarstaðar á sumarsólstöðum árið 2020.
Næsta verkefni sögunefndarinnar var að undirbúa og síðan taka viðtöl við elstu meðlimi Stjarnvísindafélagsins um ævi þeirra og störf í þágu vísindanna. Fyrstu viðtölin sex voru tekin upp sumarið og haustið 2021 og eru nú í eftirvinnslu. Ætlunin er að viðtölunum fjölgi smám saman, þegar efni og aðstæður leyfa. Að loknum frágangi verða viðtölin geymd á öruggum en aðgengilegum stað, þar sem bæði núlifandi og komandi kyndslóðir geta nálgast þau.
Tengdar færslur: