Orð sem höfðu að geyma hljóðasambandið vá í fornu máli hafa þess í stað yfirleitt fengið vo í nútímamáli, eins og fjölmörg dæmi sýna – vár > vor, svá > svo, þvá > þvo, váði > voði, vándur > vondur o.s.frv. Í greininni „Tungan“ segir Stefán Karlsson: „Þessi breyting var altæk og orð í nútímamáli með vá eru að heita má öll annað hvort áhrifsmyndir (kváðu, sváfu) eða tökumyndir úr fornmáli (vá þ.e. tjón, hætta, og samsetningar af því orði).“ Það má þó finna ýmis dæmi frá nítjándu öld og byrjun þeirrar tuttugustu um myndina vo sem hefði mátt búast við út frá venjulegri hljóðþróun – ekki síst í sambandinu vo fyrir dyrum, t.d. í Þjóðólfi 1856, 1857 og 1868, í Skírni 1861, í Norðanfara 1865 og 1885, í Landinu 1918, og víðar.
Þessi mynd kemur líka fyrir í ýmsum samsetningum. Í Norðlingi 1880 segir: „Vér eigum talsvert fé eftir fólkstali, en oss vantar votryggingar.“ Í neðanmálsgrein segir: „Votrygging, votryggja (assurere), af nafninu vo : vá = voði : váði, og tryggja: tryggja við voða […]. Mætti þá og kalla votryggisfélög eðr því um líkt.“ Orðið volegur kemur fyrir í kvæði eftir Benedikt Gröndal í Fjölni 1847: „Vindurinn volega æðir.“ Orðið vogestur kemur fyrir í Norðurfara 1849: „það lítur svo út, sem flestir menn á Íslandi sjeu á það sáttir að leiða ei þann vogest inn í land vort.“ Þessar myndir og fleiri af sama toga tíðkuðust nokkuð og voru sumar algengar á nítjándu öld og fram á annan eða þriðja áratug þeirrar tuttugustu, en hurfu þá með öllu.
Myndin vá í sambandinu vá fyrir dyrum kemur fyrst fyrir í grein eftir Guðbrand Vigfússon í Skírni 1861 – í sömu grein kemur reyndar einnig fyrir sambandið vo fyrir dyrum eins og áður var nefnt. Þetta er eina dæmið um sambandið frá nítjándu öld á tímarit.is en eftir aldamótin varð það algengt en vo hvarf. Elstu dæmi um sögnina vátryggja og nafnorðið vátrygging eru í Stjórnartíðindum fyrir Ísland frá 1881: „Fangahús (vátryggð fyrir eldi)“ og „Vátrygging fangelsa gegn eldi.“ Elsta dæmi um myndina vágestur er í Norðanfara 1874: „Hafísinn þykir vágestur mikill.“ Orðið válegur kemur fyrst fyrir í kvæði eftir Valdimar Ásmundsson í Þjóðólfi 1874: „Þú veizt, að þér á vinstri hlið / er váleg Heljar slóð.“
Það er því ljóst að orðið vá og samsetningar af því þróuðust á sama hátt og önnur orð með þetta hljóðasamband og höfðu myndina vo þar til seint á nítjándu öld. Þá er farið að endurvekja vá og nota það í samsetningum, og á fáeinum áratugum útrýma endurvaktar myndir með vá hinum hljóðréttu myndum með vo. Þótt ég hafi ekki fundið neitt um ástæðu þessa er ljóst að þarna hlýtur einhver meðvituð ákvörðun að liggja að baki sem væntanlega tengist þeirri málhreinsunarstefnu og fornaldardýrkun sem reis hátt á þessum tíma. Raunar var eingöngu um að ræða endurvakningu í skilningi ritmálsins því að bókstafurinn á stóð fyrir allt annað hljóð í fornu máli en hann gerir í nútímamáli – táknaði áður langt a [aː] en nú tvíhljóðið aú [au].
Annað dæmi um að orðmynd með vá hafi verið endurvakin er Arnarhváll, heiti á skrifstofuhúsi ríkisins við Ingólfsstræti í Reykjavík. Þegar áform um byggingu þessa húss eru fyrst nefnd í blöðum sumarið 1929 er það nefnt Arnarhvoll, en þegar húsið er risið árið eftir er talað um það sem Arnarhvál. Það var Jónas Jónsson frá Hriflu sem beitti sér fyrir byggingu hússins og ekki ólíklegt að þessi breyting sé runnin undan rifjum hans, enda var hann mikill fornaldardýrkandi. Þessi endurvakning er þó talsvert annars eðlis en í orðinu vá því að hún er bundin við þetta eina orð sem sérnafn en tekur ekki til annarra orða með -hvoll. Mannsnafnið Sváfnir er einnig tekið úr fornmáli – kemur þar fyrir sem Óðinsheiti en var endurvakið á þriðja áratug tuttugustu aldar.
Eitt orð sem inniheldur hljóðasambandið vá, nýyrðið kvár, er svo dálítið sér á báti. Það kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna ´78 árið 2020 þegar leitað var að ókyngreindu nafnorð um fullvaxta manneskju, hliðstæðu karl og kona. Þetta orð er ekki tekið úr fornmáli, á sér enga ættingja í málinu og er ekki leitt af neinu – þarna er bara raðað saman hljóðum í samræmi við íslenskar hljóðskipunarreglur. Ég var í dómnefnd samkeppninnar og var fyrst dálítið hugsi yfir þessu orði – það mætti alveg hugsa sér að halda því fram að það ætti frekar að vera *kvor vegna þess að ef það væri erfðaorð hefði vá átt að breytast í vo. En ég komst að þeirri niðurstöðu að svo mörg orð í nútímamáli hefðu vá, þrátt fyrir umrædda breytingu, að engin ástæða væri til að hengja sig í hljóðskipunarreglu sem væri greinilega ekki til lengur í huga málnotenda.