Posted on

Gengisfelld íslenskukennslu

Halla Hrund Logadóttir og fleiri þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram eftirfarandi tillögu til þingsályktunar um íslenskukennslu fyrir innflytjendur: „Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga, að útfæra fjárhagslega hvata á borð við skattfrelsi eða aðrar ívilnanir til að gera eldri borgurum kleift að veita innflytjendum íslenskukennslu og taka þátt í samtalsverkefnum til að efla íslenskukunnáttu þeirra.“ Markmið tillögunnar er að efla íslenskukunnáttu innflytjenda og stuðla að auknum menningarlegum tengslum ólíkra þjóðfélagshópa, og einnig að auka samfélagslega þátttöku eldri borgara.

Í greinargerð segir: „Þrátt fyrir aukið framboð á íslenskunámskeiðum hefur íslenskukunnátta innflytjenda batnað minna en vonir stóðu til.“ Ástæðurnar eru m.a. sagðar „skortur á fullnægjandi málstuðningi, sérstaklega í leik- og grunnskólum; fá tækifæri til að eiga samtöl á íslensku utan formlegs skólaumhverfis; fá tækifæri til að æfa framburð og talfærni; félagsleg fjarlægð milli hópa sem hamlar samskiptum og samfélagsþátttöku“. Þetta er allt satt og rétt, og einnig það sem segir í framhaldinu: „Lykilverkefni næstu ára er að tryggja að einstaklingar og fjölskyldur sem setjast hér að tileinki sér tungumálið svo að ekki myndist tvær þjóðir í einu landi með ólík tækifæri til framtíðar. Samtal við Íslendinga skiptir þar lykilmáli.“

En þótt markmið tillögunnar sé göfugt verður að setja spurningarmerki við aðferðina. Það virðist vera nokkuð útbreidd skoðun að til að geta kennt innflytjendum íslensku þurfi ekki annað en tala málið og af tillögunni má ráða að gert sé ráð fyrir því að hver sem er geti stokkið inn í íslenskukennslu án nokkurs sérstaks undirbúnings. En það má ekki gleyma því að kennsla – ekki síður íslenskukennsla en annað – er fag sem fólk menntar sig til í mörg ár. Okkur sárvantar kennara með sérmenntun í kennslu annars máls, og það er sannarlega ekki hvetjandi fyrir fólk að fara í slíkt nám ef starfið er gengisfellt á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir. Að kalla þetta „kennslu“ og tala um „að veita innflytjendum íslenskukennslu“ er fyrir neðan allar hellur.

Það breytir því ekki að vissulega gætu áhugasamir eldri borgarar gert gagn í samtalsþjálfun en ég hef miklar efasemdir um að slík vinna ætti að vera launuð – mun eðlilegra væri að kanna áhuga eldri borgara á sjálfboðavinnu við að tala við innflytjendur og sjálfsagt að athuga hvernig væri hægt að útfæra slíkt. Ég er hræddur um að samþykkt tillögu af þessu tagi yrði fyrst og fremst skálkaskjól fyrir stjórnvöld – ódýr en gagnslítil aðferð til að halda því fram að verið væri að efla kennslu íslensku sem annars máls. Það vekur líka athygli að ekkert kemur fram í greinargerð um að nokkurt samráð hafi verið haft við sérfræðinga eða kunnáttufólk á þessu sviði. Þótt tillagan sé lögð fram af góðum hug tel ég að skaðlegt væri að samþykkja hana.

Posted on

Hástökk án atrennu

Í umræðum um íslenskukunnáttu og íslenskukennslu er því iðulega haldið fram, og hneykslast á, að verið sé að draga úr kröfum til nemenda. Þetta hefur komið skýrt fram í Laxnessumræðu síðustu daga en er ekki nýtt og hefur t.d. oft verið nefnt í sambandi við málfræðikennslu og meinta undanlátssemi í baráttu gegn „þágufallssýki“ og öðrum „málvillum“. Í þessari umræðu er oft notað líkingamál úr hástökki og því haldið fram að verið sé að „lækka rána“. En þá gleymist að sú hæð rárinnar sem hástökkvari kemst yfir fer ekki eingöngu eftir stökkkrafti hans heldur einnig lengd atrennunnar. Þótt heimsmet karla í hástökki sé venjulega sagt vera 2,45 metrar er metið í hástökki án atrennu ekki nema 1,70 metrar – aðeins 69% af hinu.

Það er engin ástæða til að ætla að stökkkraftur nemenda – námsgeta þeirra og áhugi – sé minni en áður þegar kemur að íslenskunámi. En vegna þess hversu mikið málumhverfið hefur breyst undanfarna öld er óhjákvæmilegt að þegar nemendum á þriðja tug tuttugustu og fyrstu aldar er gert að stökkva í málheimi fyrri hluta tuttugustu aldar, hvort sem hann birtist í skáldsögum Halldórs Laxness eða reglum Björns Guðfinnssonar um „rétt“ mál og „rangt“, þurfi þau lengri atrennu en áður – ef ránni er haldið í sömu hæð. Ef lengd atrennunnar er óbreytt en ránni haldið í sömu hæð og áður er því í raun verið að gera auknar kröfur til nemenda. Ef við viljum ekki að ráin sé lækkuð þarf þess vegna að huga að því hvort og hvernig hægt er að lengja atrennuna.

Lenging atrennu getur til dæmis falist í góðum stuðningi og leiðsögn kennara og ég efast ekkert um að víða sé verið að gera vel í þeim efnum. En lengingin gæti líka krafist aukins tíma til íslenskukennslu í grunn- og framhaldsskólum og spurning hvort vilji eða forsendur séu til þess. Langbest væri samt ef atrennan hæfist strax við upphaf máltöku, með lestri fyrir börn og með  þeim – en þar að auki þurfa foreldrar að vera börnum sínum góð fyrirmynd. Það er mikilvægt að bækur séu til og sýnilegar á heimilum og börn alist upp við það að eðlilegt og sjálfsagt sé að bækur séu í kringum þau og foreldrar þeirra lesandi, bæði fyrir sig og börnin. Ef börn sjá foreldra sína aldrei lesa bækur eru ekki miklar líkur á að þau fái sjálf áhuga á lestri.

Þess vegna er það mikið áhyggjuefni þegar ungt fólk í framhaldsskólum segist sjaldan eða aldrei lesa bækur utan skólans. Búast má við að margt af þessu unga fólki verði foreldrar innan fárra ára og ef þau verða ekki farin að lesa þá munu börn þeirra varla fá mikinn áhuga á lestri heldur. Þetta er því vítahringur sem nauðsynlegt er að brjótast út úr og það verður ekki lögð of mikil áhersla á mikilvægi heimilanna í þessu sambandi. Skólarnir þurfa vissulega að taka við og koma til móts við nemendur á ýmsan hátt en þeir geta ekki byggt ofan á grunn sem ekki hefur verið lagður. Tímabundin lestrarátök eru ekki líkleg til að skila miklum árangri vegna þess að þetta er langtímaverkefni sem aldrei lýkur, og við verðum öll að taka virkan þátt í.

Posted on

Á RÚV að hætta starfsemi á ensku og pólsku?

Í umræðum á Alþingi í gær sagði þingmaður: „Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að beita fullum þunga ríkisvaldsins til þess að senda skýr skilaboð um að íslenska sé og verði eina almenna og viðurkennda samskiptamálið í okkar þjóðfélagi.“ Ég get sannarlega tekið undir það að æskilegt og mikilvægt er að íslenska sé og verði aðalsamskiptamálið í landinu, en ekki endilega það eina – hugum aðeins að því hvað „eina almenna og viðurkennda samskiptamálið“ merkir. Ef það væri tekið bókstaflega merkti það t.d. að Pólverjar á Íslandi, sem eru á þriðja tug þúsunda, mættu ekki nota pólsku í samskiptum sín á milli. Ég vona – og þykist vita – að þingmaðurinn hafi ekki átt við þetta, en spurningin er samt: Hvar ætti að draga mörkin?

Jafnvel þótt litið sé fram hjá innbyrðis samskiptum þeirra sem eiga sama erlenda tungumálið að móðurmáli er nefnilega ljóst að það er fullkomlega óraunhæft eins og sakir standa að útiloka önnur tungumál en íslensku sem samskiptamál í landinu. Hér eru tugir þúsunda með annað móðurmál en íslensku og það fólk notar iðulega ensku sem samskiptamál – bæði við Íslendinga og við fólk sem á annað móðurmál en það sjálft. Vitanlega myndum við vilja breyta þessu, þannig að íslenska yrði samskiptamál í staðinn. En við breytum því ekki með skilaboðum frá Alþingi, hversu skýr sem þau eru. Við breytum því aðeins með breyttri stefnu í íslenskukennslu, stórauknu fé til kennslunnar, og ekki síst með breyttu viðhorfi atvinnurekenda og almennings.

Í framhaldi af ofangreindum orðum tók þingmaðurinn dæmi um „skýr skilaboð“ sem hann vildi senda um útrýmingu annarra samskiptamála en íslensku: „Ríkisútvarpið heldur núna úti mikilli starfsemi á ensku og pólsku […]. Ég mun því í þessari viku leggja fram þingmál um að Ríkisútvarpið leggi niður alla almenna starfsemi á öðrum tungumálum en íslensku.“ Það sem þarna er lýst sem „mikilli starfsemi“ eru innlendar fréttir á ensku og pólsku sem birtar eru á vef Ríkisútvarpsins. En þátttaka innflytjenda í þjóðfélagsumræðu og kosningum er lítil og því er mjög mikilvægt fyrir lýðræðið í landinu að fólk sem hér býr og starfar eigi aðgang að fréttum um það helsta sem er að gerast hér og geti þannig fylgst eitthvað með þjóðfélagsumræðunni.

Í svari sínu benti menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra á „að íslenskt samfélag hefur í talsverðan tíma núna reitt sig á erlent vinnuafl og hér búa tugir þúsunda einstaklinga sem eru í styttri eða lengri tíma hluti af okkar samfélagi, hafa haldið uppi hagvexti […]. Þetta fólk á líka sín réttindi og almannaútvarp eins og Ríkisútvarpið væri að bregðast sínum skyldum ef það kæmi ekki lágmarksskilaboðum á framfæri og að einhverju leyti á móti við þennan mikilvæga hóp.“ Við þetta má bæta því að fólk af erlendum uppruna sem starfar hér greiðir útvarpsgjald rétt eins og Íslendingar og því er ekki hægt að telja það óeðlilegt að Ríkisútvarpið sinni því eitthvað. Íslenskunni stafar engin hætta af fréttum Ríkisútvarpsins á ensku og pólsku.

Það er mikilvægt að auka veg íslenskunnar sem mest og stuðla að aukinni notkun hennar á öllum sviðum – um það erum við þingmaðurinn hjartanlega sammála. En nauðsynlegt er að barátta fyrir eflingu íslenskunnar sé rekin á jákvæðum nótum – það þarf að vera barátta fyrir íslenskunni en ekki barátta gegn öðrum tungumálum. Grundvallaratriðið er að stórauka kennslu í íslensku sem öðru máli, og breyta viðhorfi Íslendinga til „ófullkominnar“ íslensku. Tillaga um að leggja niður fréttir Ríkisútvarpsins á ensku og pólsku er sýndarmennska sem sendir röng skilaboð, er hvorki til þess fallin að auka velvilja innflytjenda í garð íslensku og íslenskra stjórnvalda né til að hvetja þá til íslenskunáms, og verður ekki kölluð annað en lýðskrum.

Posted on

Auglýsing á ensku um Jónasarverðlaun

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið hefur óskað eftir tilnefningum til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sem „eru veitt einstaklingi sem hefur með eftirtektarverðum hætti unnið íslenskri tungu gagn eða glætt hana nýju lífi, til dæmis með skáldskap, fræðistörfum, kennslu, þýðingum eða á annan hátt stuðlað að framgangi íslenskunnar, eflingu hennar, miðlun eða nýsköpun“ sem og til viðurkenningar íslenskrar tungu sem „skal veita hópi, félagi, verkefni, samtökum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa á einn eða annan hátt sýnt íslenskri tungu ræktarsemi, vakið athygli á henni eða sýnt henni stuðning í verki“. Það er auðvitað ánægjulegt að almenningi gefist þannig kostur á að tilnefna verðuga verðlauna- og viðurkenningarhafa.

Það er bara einn hængur á þessu. Á tilnefningarforminu segir: „When you submit this form, it will not automatically collect your details like name and email address unless you provide it yourself“ og í reitum sem fylla þarf út stendur alls staðar „Enter your answer“. Á eftir lýsingu á reitunum er stjarna og skýringin á henni er „Required“. Þegar búið er að fylla formið út er ýtt á hnappinn „Submit“. Neðst á forminu eru svo fimm línur á ensku frá Microsoft. Umgjörðin er sem sé að verulegu leyti á ensku, sem verður að teljast býsna neyðarlegt og raunar fullkomlega ótækt miðað við tilefnið. Ef einhvers staðar er ástæða til að nota eingöngu íslensku og forðast ensku hlýtur það að vera í auglýsingu um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.

Það er svo sem ljóst að þarna er verið að nota tilbúið form frá Microsoft sem ég veit ekki hvort hægt er að þýða á íslensku. En jafnvel þótt svo sé ekki er þetta algerlega óviðunandi og óboðlegt. Ef ekki er hægt að losna við enskuna þarna á að finna eða útbúa annað form sem er á íslensku, eða þá óska einfaldlega eftir tilnefningum í tölvupósti. Engin nauður rekur ráðuneytið til að nota þetta form og óskiljanlegt að starfsfólk ráðuneytisins skuli ekki hafa áttað sig á því hversu óviðeigandi þetta er. En svona hugsunarleysi sést því miður æ oftar – fólk annaðhvort tekur ekki eftir því að enskan er alls staðar eða tekur því sem sjálfsögðum hlut, jafnvel í auglýsingu um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þessu verður að breyta ef íslenskan á að lifa.

En fleira má raunar finna að þessari auglýsingu. Yfirskrift hennar er „Tilnefning til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar og viðurkenningu íslenskrar tungu“. Þarna hlýtur nafnorðið viðurkenning að stjórnast af forsetningunni til og þar með eiga að vera í eignarfalli, en hefðbundið eignarfall þess er viðurkenningar – þótt myndinni viðurkenningu bregði vissulega oft fyrir í eignarfalli er hún ekki viðurkennd. Í lið 2 á forminu stendur „stofnannir“ með tvírituðu nn þar sem aðeins eitt n á að vera. Auk þess segir í forminu „tillaga að tilnefningu“ þar sem eðlilegt væri að segja bara tilnefning – tilnefningin er í eðli sínu tillaga og „tillaga að tilnefningu“ því óþarfa tvítekning. Auglýsing um Jónasarverðlaun þarf að vera vandaðri.

Posted on

Að koma í veg fyrir að eitthvað gerist ekki

Í „Málspjalli“ var í dag vakin athygli á fyrirsögninni „Snör viðbrögð komu í veg fyrir að ekki fór verr“ á mbl.is – spurt „Ætli hafi þá farið illa?“ og bætt við: „Þessar tvöföldu neitanir geta ruglað mann í ríminu.“ Það er vissulega rétt að koma í veg fyrir felur í sér eins konar neitun, og ekki er vitanlega neitandi atviksorð. Ef sagt er snör viðbrögð komu í veg fyrir að húsið brynni er ljóst að húsið brann ekki, en ef neituninni ekki er skotið inn og sagt snör viðbrögð komu í veg fyrir að ekki brynni hlýtur það að snúa merkingunni við, og setningin þá að merkja 'snör viðbrögð komu í veg fyrir að húsinu væri forðað frá bruna' – eða hvað? Hlýtur ekki tungumálið að vera rökrétt? Hljóta ekki neitanirnar að vega hvor aðra upp?

Ekki endilega. Það má benda á ýmis dæmi um að merking setninga með tveimur (eða fleiri) neitunum sé „órökrétt“, þ.e. ekki sú sem búast mætti við ef neitanirnar eru taldar saman. Sambandið ekki ósjaldan er t.d. nær alltaf notað í merkingunni 'ósjaldan' en ekki í merkingunni 'alloft' eins og þó mætti búast við þar sem ósjaldan er neitað. Sambandið ekki óvitlaust er líka yfirleitt notað í merkingunni 'óvitlaust'. Sambandið óhjákvæmilegt annað en er nær alltaf notað í merkingunni 'óhjákvæmilegt' enda þótt annað en með lýsingarorði hafi yfirleitt það hlutverk að fá fram andstæða merkingu við orðið sem það fylgir. Sögnin afþíða er alltaf notuð í merkingunni 'affrysta, láta þiðna' þótt af- snúi venjulega við merkingu eftirfarandi sagnar.

Í Baldri 1903 er talað um „hvernig hægt sje að koma í veg fyrir að ekki þurfi að eyða jafn mörgum dagsverkum, og gjört hefir verið, til endurbóta á sömu vegaköflum ár eftir ár“. Í Alþýðumanninum 1953 segir: „Ver ríkisstjórnin á þessu ári allt að 9 millj. kr. til að greiða niður smjör og koma í veg fyrir að ekki safnist frekari birgðir.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Gyða Úlfarsdóttir í íslenzka markinu átti aftur stórleik, og það var fyrst og fremst hún sem kom í veg fyrir að ekki fór verr.“ Í Alþýðublaðinu 1987 segir: „Við verðum að einhenda okkur í það að koma í veg fyrir að ekki verði tvær þjóðir í landinu.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Hann telur ljóst að hlífðarbúnaður þeirra og þjálfun hafi komið í veg fyrir að ekki fór verr.“

Í þessum dæmum, og í öðrum dæmum á tímarit.is sem eru um áttatíu alveg frá byrjun tuttugustu aldar til samtímans, er merkingin í koma í veg fyrir að ekki (gerist eitthvað) greinilega 'koma í veg fyrir að eitthvað gerist' – neitunin ekki núllast sem sé út. Vissulega finnst sumum það ótækt að nota áðurnefnd orð og sambönd á „órökréttan“ hátt, en í öllum tilvikum er um skýra málvenju að ræða sem fráleitt væri að hafna – þessi notkun hlýtur að teljast rétt. Áðurnefndri fyrirsögn hefur reyndar verið breytt og er „Snör viðbrögð komu í veg fyrir að verr fór“. Þar hefur þó tekist óhönduglega til því að samkvæmt málhefð ætti þarna að vera viðtengingarháttur, færi. Það bendir til þess að notkun sambandsins án ekki sé málnotendum framandi.

Posted on

Hún deif pennanum í blekið

Í „Málspjalli“ var spurt um merkingu setningarinnar „Hún tók báðum höndum púðurkvasta, deif í duft í buðki“ sem fyrirspyrjandi hafði séð í bókinni Tvílýsi eftir Thor Vilhjálmsson. Fyrir utan orðin púðurkvasti og buðkur sem bæði eru sjaldgæf kemur þarna fyrir orðmyndin deif sem búast má við að komi mörgum spánskt fyrir sjónir. Þó er hægt að fletta henni upp á Málið.is þar sem fram kemur að hún sé „beygingarmynd af dífa“ sem er „Óviðurkennt afbrigði af veiku sögninni dýfa“ og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er bent á að hún „finnst hvorki í Málfarsbanka né Íslenskri stafsetningarorðabók“ – Gísli Jónsson segir líka í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1986: „Ég amast við sterku beygingunni dífa, deif, difum, difið.“

Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2002 segir Sveinn Sigurðsson: „Fyrir kemur, að veika sögnin dýfa er höfð sterk og þá skrifað eða sagt „deif“ en ekki „dýfði“ í þátíð og umsjónarmaður hefur það fyrir satt, að það sé eina dæmið um, að sögn sé færð úr veikri beygingu og yfir í sterka.“ Það er þó ekki rétt. Í grein í Orði og tungu 2016 sýnir Margrét Jónsdóttir fram á að sögnin kvíða sem er yfirleitt höfð sterk í nútímamáli (nema í nútíð eintölu) var veik í fornu máli. Hún nefnir einnig fleiri sagnir sem áður voru veikar en hafa í nútímamáli einhver einkenni sterkrar beygingar, einkum dvína sem oft er dvín í nútíð eintölu í stað veiku myndarinnar dvínar, einkum í skáldskap – „Kveð eg hátt uns dagur dvín“ kvað Örn Arnarson.

Þær veiku sagnir sem hér hefur verið nefnt að sýni tilhneigingu til að verða sterkar, dýfa, kvíða og dvína, eiga það sameiginlegt að hafa í í stofni – dýfa er vissulega með ý en það hefur í mörg hundruð ár staðið fyrir sama hljóð og í. Sagnir sem beygjast eins og bíta, hafa hljóðskiptin í ei i (bíta beit bitum, svokölluð fyrsta hljóðskiptaröð) eru stærsti og reglulegasti hópur sterkra sagna og beygingarmynstur þeirra er svo sterkt í huga málnotenda að þrátt fyrir að sterkar sagnir séu yfirleitt lokaður hópur, í þeim skilningi að engar nýjar sterkar sagnir komi inn í málið, megnar það stundum að draga til sín veikar sagnir sem gætu hljóðafars síns vegna fallið undir þetta mynstur, þ.e. hafa í í stofni, og er eina mynstur sterkra sagna sem gerir það.

Árni Böðvarsson segir í þættinum „Íslenzk tunga“ í Þjóðviljanum 1961: „Til eru dæmi þess að sagnir sem beygðust veikt í fornu máli hafi fengið sterka beygingu í nútímamáli, og er svo háttað m.a. um sögnina að dýfa. Hún er stundum beygð sterkt: deif –  difum – difið. Það stríðir þó móti uppruna og reglum tungunnar, þar sem hér er um að ræða ý, en eins og kunnugt er getur það aldrei komið fyrir í orðum með hljóðskiptinu í–ei. Sögnin hefur því fengið þessa sterku beygingu eftir að ý-ið var horfið sem sérstakt hljóð í málinu og fallið saman við í.“ Í athugasemd í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Í Ritmálssafni Orðabókarinnar eru elstu dæmi um sterku sögnina dífa frá miðri 19. öld en henni bregður enn fyrir í textum.“

Í Kvennablaðinu 1904 segir: „Síðan deif hún pennanum í blekið og skrifaði svo bréfið til enda.“ Í Vikunni 1961 segir: „Hann gekk að skálinni, deif fingri í vatnið og gerði krossmark fyrir sér.“ Í Norðurslóð 2000 segir: „síðan deif hann hönd hennar í skálina.“ Í Vísi 1945 segir: „Við stóðum á flóðgörðunum og difum tánum í leirinn.“ Í Austurlandi 1982 segir: „Við difum fingri í hlýja laugina við Laugará.“ Í Höfuðstaðnum 1916 segir: „Klæðum sínum og görmum difu þeir með áfergi í blóð píslarvottsins.“ Í Alþýðublaðinu 1948 segir: „Dvergarnir difu stórum burstum í pottana.“ Í Ísafold 1895 segir: „Fæstir vilji borða brauðbita, sem difið hafi verið ofan í for.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Clio Dulaine hafði aldrei difið hendi sinni í kalt vatn.“

Sterku myndirnar virðast hafa verið nokkuð algengar á fyrri hluta síðustu aldar en farið fækkandi eftir miðja öldina og eru nú nær horfnar – aðeins fimm dæmi eru um deif í Risamálheildinni en engin um aðrar myndir nema difið. Það er ekki heldur þannig að allar myndir sagnarinnar hafi orðið sterkar. Í nútíð eintölu mætti búast við díf/dýf og dífur/dýfur en veiku myndirnar dýfi og dýfir virðast nær einhafðar. Sterka beygingin kemur fram í þátíðarmyndunum deif í fyrstu og þriðju persónu eintölu og difum og difu í fyrstu og þriðju persónu fleirtölu – annarrar persónu myndirnar deifst og difuð virðast ekki koma fyrir. Lýsingarhátturinn difið tíðkast þó enn nokkuð í sambandinu hafa aldrei difið hendi í kalt vatn.

Posted on

Hið raunverulega vandamál

Í umræðu um meintan minnkandi lestur á skáldsögum Halldórs Laxness í skólum hefur stafsetningu Halldórs, minnkandi lesskilningi, breyttum tíðaranda, styttingu framhaldsskólans og jafnvel marxískum hugsunarhætti verið kennt um.  En í mbl.is í gær voru nokkrir nemendur í Verslunarskóla Íslands teknir tali og spurðir hvort þeim fyndist áhyggjuefni að ungt fólk lesi ekki bækur. Ung kona svarar því svo: „Já, alveg mjög miklar. Í rauninni rosalegar. Ég persónulega les aldrei bækur.“ Þrjár aðrar „eru sammála skólasystrum sínum um að lestur í þeirra aldurshópi sé í lágmarki“ – ein þeirra segir: „Ég get bara sagt það sjálf að ég hef áhyggjur af mér sjálfri því ég les svo lítið. Ég þekki mjög fáa sem lesa sér eitthvað til gamans.“

Hér er loksins komið að kjarna málsins. Hann er nefnilega ekki sá að dregið hafi úr lestri á bókum Halldórs Laxness í skólum – sem er sjálfsagt rétt – heldur að unga fólkið les ekki bækur yfirleitt. Auðvitað er hér ekki um vísindalega rannsókn að ræða, en það verður samt að vekja athygli á því að þetta er vitnisburður nemenda í eftirsóttasta framhaldsskóla landsins – hlutfall þeirra sem fengu skólavist af þeim sem höfðu skólann sem fyrsta val var hvergi lægra en þar nú í haust, og þar sem fyrst og fremst er valið inn eftir einkunnum má ætla að nemendur Verslunarskólans séu vel fyrir ofan meðaltal í námsárangri. Samt segjast þau lesa lítið sem ekkert utan skólans. Það er hið raunverulega áhyggjuefni sem umræðan ætti að snúast um.

Það er þó fagnaðarefni að nemendurnir virðast gera sér grein fyrir stöðunni, telja „mikilvægt að lesa klassísk íslensk bókmenntaverk í menntaskóla“ og segja að „það sé gaman að tala góða íslensku“. Þær telja líka „að auka þurfi lestur bóka í grunnskólum“ og bæta við: „Maður þarf að kunna að fallbeygja orð og eitthvað. En ég held að það sé mikilvægt að lesa bækur.“ Ég er einmitt hræddur um að í grunnskólum sé stundum lögð of mikil áhersla á beygingar og orðflokkagreiningu á kostnað bóklestrar. Málfræðin skiptir vissulega máli, en hún er gagnslaus, tilgangslaus og drepleiðinleg í tómarúmi, án tengsla við málið sjálft. Sú málfræði sem máli skiptir fyrir framhaldsskólanema lærist langbest á því að nota málið – í tali, lestri og riti.

Stytting framhaldsskólans hefur án efa dregið úr skáldsagnalestri í skólum, en hún er ekki frumorsök vandans og skólakerfinu verður ekki kennt um hann. (Reyndar má nefna að þegar „marxískum hugsunarhætti“ er kennt umSjálfstætt fólk sé minna lesið í skólum en áður bendir það til þess að alvarlegar gloppur séu ekki síður í sögukennslunni.) Hins vegar kom styttingin á versta tíma – einmitt á þeim tíma þegar nemendur sem höfðu alist upp við samfélagsmiðla og snjallsímanotkun fóru að koma inn í framhaldsskólana með minni lestarþjálfun en þau sem á undan komu. Til mótvægis við það hefði einmitt þurft að bæta í á þessum tíma og auka lestur í framhaldsskólum, en styttingin kom í veg fyrir að það væri hægt.

Posted on

Laxness á útleið – eða hvað?

Í Morgunblaðinu var í gær frétt með fyrirsögninni „Laxness hverfur úr skólum landsins“. Samkvæmt fréttinni „virðast bækur skáldsins vera á nokkuð hraðri útleið af leslistum framhaldsskóla“. Þessi frétt hefur leitt af sér hneykslunaröldu í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum – og jafnvel á Alþingi þar sem því var lýst yfir að það væri „náttúrulega skandall […] að fólk geti almennt útskrifast með stúdentspróf án þess að lesa bók eftir Halldór Laxness“. Í fréttinni sagði nefnilega: „Innan við þriðjungur framhaldsskólanema les nú skáldsögu eftir Laxness sem hluta af skyldunámi sínu í íslensku“ og virðist hlutfallið „hafa lækkað mikið á allra síðustu árum.“ En ljóst er að þessi þróun er ekki ný – hefur ekki bara orðið á „allra síðustu árum“.

Það eru nefnilega tíu ár síðan Jóhann Páll Valdimarsson sem þá var framkvæmdastjóri Forlagsins sem gefur út verk Halldórs Laxness skrifaði í þræði á Facebook: „Lestur á verkum hans í skólum hefur skroppið mikið saman og við höfum gert könnun meðal kennara. Eitt af því sem ástæða er til að velta fyrir sér er hvort gefa eigi verk hans út með nútímastafsetningu fyrir skólana. Sú hugmynd fékk að vísu ekki mikinn stuðning meðal kennara og ég efast ekki um að mörgum þyki það helgispjöll en mín skoðun er sú að Laxness muni ekki lifa með nýjum kynslóðum nema stafsetning sé færð til nútímahorfs. Það hrökkva svo margir frá bókum hans vegna hennar.“ Fleiri hafa tekið undir að stafsetningin geti verið talsverður þröskuldur.

En ýmsar skáldsögur Laxness hafa samt verið gefnar út með hefðbundinni nútímastafsetningu á seinustu árum og stafsetningin er örugglega ekki eina ástæða minnkandi lestrar á sögunum. Í áðurnefndri frétt segja kennarar orsökina vera „minnkandi lesskilning, dvínandi orðaforða sem og breyttan tíðaranda“. Engin ástæða er til að efast um þetta – en hvað liggur að baki?  Eins og venjulega er skólakerfið gert að blóraböggli – „það er eitthvað mikið að á neðri stigum“ sá ég í athugasemd. Örugglega má bæta ýmislegt í íslenskukennslunni á öllum stigum en það hefur ekki verið dregið úr henni. Að því marki sem lesskilningur og orðaforði hefur minnkað er það fyrst og fremst vegna breytinga á samfélaginu, einkum minnkandi bóklestrar.

Ég hef séð hneykslast á og hæðst að því að skólar séu hættir að láta nemendur lesa skáldsögur Laxness vegna þess að þær séu of erfiðar. „Svona á að gera þetta, give up on the krefjandi things“ er sagt og þetta talið „svipað og skólar hætti að kenna stærðfræði af því nemendur kunna ekki margföldunartöfluna og geti tæplega lesið úr tölum“. En hvorki nemendunum, sögunum, né íslenskri menningu er greiði gerður með því að láta nemendur lesa texta sem þau ráða ekki við og það er grundvallarskekkja í þessum samanburði: Stærðfræði læra nemendur í skóla og það er því á ábyrgð skólans ef grundvöllinn skortir, en móðurmálið læra börn að minnstu leyti í skóla – minnkandi orðaforði og lesskilningur er ekki síst á ábyrgð foreldra og samfélagsins.

Þegar skuldinni er skellt á skólakerfið gleymist líka oft að nemendur, kennarar og skólar eru misjafnir – og búa við misjafnar aðstæður. Það er dálítill munur á aðstæðum og starfsskilyrðum í stórum bóknámsskóla sem getur valið inn nemendur og þar sem fimm til tíu íslenskukennarar starfa og hafa stuðning hver af öðrum, og svo litlum verknámsskóla þar sem eru nemendur með ýmis áhugasvið og kannski bara einn eða tveir íslenskukennarar sem þurfa að kenna ótal áfanga. Það má heldur ekki gleyma því að til skamms tíma voru íslenskir framhaldsskólar, þ.e. þeir sem útskrifuðu stúdenta, eingöngu bóknámsskólar og í þá skóla fór aðeins brot af hverjum árgangi. Á þeim tíma hafði því aðeins lítill hluti hvers árgangs lesið Laxness í skóla.

En jafnvel á þeim tíma var ekki eins og Laxness væri endilega mikið lesinn í grunn- og framhaldsskólum – ekki einu sinni hjá „góðu“ nemendunum í „góðu“ skólunum. Þegar ég var í landsprófi (samsvarandi núverandi 10. bekk) fyrir 55 árum var engin skáldsaga hans lesin – og það gilti um alla skóla landsins því að námsefni til landsprófs var samræmt. Ég las enga skáldsögu eftir Laxness fyrr en við lásum Brekkukotsannál á síðasta ári í menntaskóla. Mér fannst hún mjög skemmtileg, en við vorum líka með sérlega góðan og vinsælan kennara sem hefði getað fengið okkur til að lesa nánast hvað sem er með ánægju – ég byði ekki í að hafa lesið Brekkukotsannál hjá sumum öðrum íslenskukennurum sem ég hafði á þessum árum.

Þessi kennsla leiddi til þess að upp úr tvítugu las ég margar skáldsögur Laxness af fúsum og frjálsum vilja – þar á meðal Sjálfstætt fólk sem aldrei var skylda í námi mínu, ekki heldur í BA-námi í íslensku. Laxness er stórkostlegur höfundur og mér finnst að við ættum öll að lesa sem mest eftir hann – það eykur mannskilning og skilning á samfélaginu auk þess að vera endalaus uppspretta orðaforða og stílsnilldar. En til að njóta alls þessa þarf að hafa réttar forsendur. Það er ákaflega yfirborðskennt að gagnrýna minnkandi lestur á Laxness í skólum í stað þess að ræða grundvallaratriðið: Hvernig fáum við börnin okkar til að lesa meira á íslensku allt frá byrjun til þess að þau verði fær um að njóta snilldar Laxness þegar þau hafa aldur til?

Posted on

Handtaka

Í morgun hef ég séð fjölda fólks gera athugasemdir við það að fjölmiðlar skuli nota orðið handtaka (bæði sem nafnorð og sögn) í frásögnum af aðgerðum Ísraelshers gegn Möggu Stínu og öðrum skipverjum á Conscience. Mörgum finnst að með því að nota þetta orð sé verið að viðurkenna lögmæti aðgerðanna og í staðinn ætti að tala um ólögmæta handtöku, sjórán, mannrán eða eitthvað annað. Nú er rétt að nefna að þótt þeim sem gera athugasemdir við orðanotkunina og fleiri, þ. á m. mér, finnist ljóst að Ísraelsmenn hafi enga heimild samkvæmt alþjóðalögum til að stöðva skip á leið til Gasa og færa þau til hafnar er það ekki alveg óumdeilt. Gefum okkur samt að þetta sé óheimilt – leiðir það þá til þess að orðið handtaka eigi ekki við?

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið handtaka skýrt 'frelsissvipting í tiltölulega skamman tíma' og samhljóma sögn er skýrð 'taka (e-n) höndum (af yfirvaldi), taka einhvern fastan'. Skilgreining nafnorðsins í „Lögfræðiorðasafni“ í Íðorðabankanum er 'Frelsissvipting í tiltölulega skamman tíma í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls ellegar til að halda uppi lögum og reglu' og bætt er við skýringunni 'Yfirleitt er það lögregla sem tekur ákvörðun um handtöku og framkvæmir hana'. Aðgerðir Ísraelshers geta fallið undir þessar skilgreiningar – þarna eru það hernaðaryfirvöld (sem jafngilda lögreglu) sem framkvæma aðgerðina og halda því væntanlega fram að þau séu að „halda uppi lögum og reglu“ með aðgerðum sínum.

Skilgreiningar orðsins handtaka, hvort sem litið er á nafnorðið eða sögnina, fela í sjálfu sér ekki í sér að um lögmæta aðgerð sé að ræða – enda væri þá ekki hægt að tala um ólögmæta eða ólöglega handtöku sem þó er oft gert. Þess vegna er ekki hægt að halda því fram að orðið sé beinlínis ranglega notað í fréttum af umræddri aðgerð. Hitt er annað mál að væntanlega gerum við flest ósjálfrátt ráð fyrir því að lögregla og önnur yfirvöld fari að lögum í aðgerðum sínum og handtaka sé því að jafnaði lögmæt aðgerð. Þess vegna má halda því fram að handtaka sé ekki heppilegt orð þarna – en það eru sjórán og mannrán tæpast heldur vegna þess að með þeim er fullyrt um ólögmæti umdeildra aðgerða. Hlutlausasta orðið þarna væri líklega frelsissvipting.

Þetta er gott dæmi um það að fjölmiðlar þurfa að huga vel að orðanotkun sinni í umfjöllun um viðkvæm og umdeild málefni. Það er nefnilega ekki bara bókstafleg merking orðanna sem skiptir máli, heldur þau hughrif og hugrenningatengsl sem þau vekja. Það er ekki óeðlilegt að fjölmiðlar fari varlega og reyni að nota hlutlaus orð þótt þar með megi búast við að allir aðilar verði ósáttir við orðanotkunina – bæði þau sem vilja taka tiltekna afstöðu og þau sem vilja taka þveröfuga afstöðu. Þetta hefur komið skýrt fram á undanförnum mánuðum í fréttaflutningi af hryllingnum á Gasa þar sem íslenskir fjölmiðlar hafa smátt og smátt farið að nota gildishlaðnara og afdráttarlausara orðalag eftir því sem fleiri sönnur eru færðar á grimmdarverk Ísraelshers.

Posted on

Ungfrú Ísland TEEN

Ég hef undanfarið skrifað marga pistla um mikilvægi þess að auka og bæta kennslu í íslensku sem öðru máli og auðvelda innflytjendum þannig að taka fullan þátt í samfélaginu og nýta kunnáttu sína og þekkingu. Stundum finnst mér þetta samt býsna tilgangslaus barátta þegar ég sé hvernig margir Íslendingar gefa skít í móðurmálið og nota ensku þess í stað, algerlega að ástæðulausu. Dæmum um þetta fer sífellt fjölgandi og eitt þeirra verstu sem ég hef séð rakst ég á áðan eftir að hafa séð frétt um keppnina „Ungfrú Ísland Teen“ sem verður haldin í Reykjavík eftir hálfan mánuð. Mér fannst heitið dálítið sérkennileg og hallærisleg blanda af íslensku og ensku og fór að kynna mér málið nánar. Þá kom í ljós að enskan var ekki bara í heiti keppninnar.

Í frétt í Vísi frá því í vor segir: „Ungfrú Ísland hefur kynnt nýtt vörumerki keppninnar, Ungfrú Ísland Teen, sem er keppni ætluð stúlkum á aldrinum 16 til 19 ára.“ Það liggur beint við að ætla að um sé að ræða íslenskar stúlkur, en þegar ég fór að skoða heimasíðu keppninnar kom í ljós að hún var eingöngu á ensku. Þar er keppnin kynnt svo: „Ungfrú Ísland TEEN is a transformative program designed to inspire, support, and empower teen girls across Iceland.“ Síðan fylgir langur texti, allur á ensku, þar sem m.a. segir: „Ungfrú Ísland TEEN is designed for girls aged 16 to 19 years old. The program is specifically tailored to meet the needs of teenage girls, offering guidance and empowerment during this crucial period in their lives.“

Þótt textinn sé á ensku er ljóst að honum er beint til Íslendinga, ekki síst ungra stúlkna – á síðunni er t.d. hlekkur á skráningarblað með fjölda spurninga sem allar eru á íslensku. Á síðunni er einnig listi yfir „Team“ og það eru nánast allt Íslendingar. Það er því hvorki hægt að skýra enskuna með því að aðstandendur kunni ekki íslensku né með því að verið sé að höfða til fólks sem ekki kann íslensku. Auðvitað kann að vera að aðstandendum keppninnar þyki ástæða til að kynna hana á erlendum vettvangi en það er engin afsökun fyrir því að hafa síðuna eingöngu á ensku. Sama gildir um aðalkeppnina, „Ungfrú Ísland“ – allar upplýsingar um hana á síðunni eru eingöngu á ensku, en umsóknareyðublað um þátttöku er hins vegar á íslensku.

Þetta er óvenju skýrt dæmi um undirlægjuhátt gagnvart ensku sem er ekki bara ástæðulaus og óþarfur – hann er líka beinlínis skaðlegur vegna þess að þarna er verið að höfða til ungs fólks og rannsóknir sýna að viðhorf ungu kynslóðarinnar til móðurmálsins skiptir sköpum fyrir framtíð þess. Þegar enska er notuð á þennan hátt til að höfða til ungs fólks er verið að senda þau skilaboð að íslenskan sé hallærisleg, hún eigi ekki við í heimi unga fólksins, í heimi framtíðarinnar. Það er sannarlega ekki til þess fallið að skapa jákvætt viðhorf til tungunnar. Mér dettur ekki í hug að það sé með ráðum gert hjá aðstandendum keppninnar að vinna svona gegn íslenskunni, en þetta er hugsunarleysi sem við megum ekki láta viðgangast athugasemdalaust.