Posted on

Helling af berjum

Í gær var spurt í „Málspjalli“ um orðið hellingur í merkingunni 'mikið af einhverju' sem fyrirspyrjandi sagðist hafa í karlkyni en heyra oft í kvenkyni að því er virtist – „Það er alveg helling af berjum í Stífluhólum“. Jón G. Friðjónsson skrifaði um orðið í einum af þáttum sínum sem birtir eru í Málfarsbankanum og sagði að notkun þess væri „einkum bundin við talmál og mál líðandi stundar, og það væri „ekki gamalt í íslensku“ – elstu dæmi um það í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans væru frá miðri tuttugustu öld. Vísunin er augljós, sagði Jón enn fremur: „Hellingur merkir upphaflega 'það sem hellt er' en fær síðan merkinguna 'hellidemba' og sú merking virðist liggja til grundvallar merkingunni 'mikið magn; eitthvað mikið'.“

En undanfari karlkynsorðsins hellingur er kvenkynsorðið helling sem er gefið í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 í þremur merkingum – 'úthelling', 'austur‘ og 'steypiregn'. Síðastnefnda merkingin er merkt „Vf.“, þ.e. talin bundin við Vestfirði. Karlkynsmyndin hellingur er ekki í bókinni en er hins vegar komin inn í Viðbæti hennar frá 1963, sem og í Íslenska orðabók þar sem hún er skýrð annars vegar 'hellidemba' sem sagt er „stb.“, þ.e. staðbundið, og hins vegar 'mikið magn, e-ð mikið'. Merkingin 'hellidemba' í karlkynsorðinu hellingur er því ættuð frá kvenkynsorðinu helling sem merkir upphaflega 'það að hella' eða 'það sem hellt er' – hins vegar er óvíst að karlkynsorðið hafi nokkurn tíma haft þá merkingu.

Elsta dæmi um helling er í latnesk-íslensku orðabókinni Nucleus Latinitatis eftir Jón Árnason frá 1738: „Helling úr einn í annað“ sem er skýring á transfusio. Í Ísafold 1889 segir: „alt af hjelzt sama hellingin úr loptinu.“ En dæmi um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru fá og má rekja flest til Vestfjarða sem rímar við það sem segir í Íslensk-danskri orðabók – eitt þeirra er úr Konunginum á Kálfskinni eftir Guðmund G. Hagalín frá 1945: „Þetta er nú soddan helling úr loftinu.“ Aftur á móti eru samsetningarnar úthelling (t.d. tára) og blóðsúthelling (sem oftast er í fleirtölu, blóðsúthellingar) algengar allt frá sextándu öld. Yngri eru svo samsetningar eins og áhelling, niðurhelling, umhelling, uppáhelling, yfirhelling og fleiri.

En karlkynsmyndin hellingur, í venjulegri nútímamerkingu, gæti verið talsvert eldri en Jón G. Friðjónsson taldi. Í Almanaki fyrir árið 1903 segir: „Brezka stjórnin gjörði fréttaþræði að þjóðareign og lækkaði verð á hraðskeytum um helling.“ Að vísu er þetta ekki öruggt dæmi vegna þess að þótt kvenkynsorð sem enda á -ing fái núna endinguna -u í þolfalli voru þau áður endingarlaus og því er hugsanlegt að þarna sé um kvenkynsorðið helling að ræða. En um 1940 verður karlkynið algengt. Í Vísi 1939 segir: „með skipinu er hellingur af prestum, nunnum og munkum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1944 segir: „Svo kom hellingur af tvíræðum bröndurum.“ Í Úrvali 1945 segir: „Segið þeim að senda heilan helling.“ Fjöldi dæma er svo frá næstu árum.

Eignarfallsmyndin hellings, sem hlýtur að vera karlkynsmynd, er þó mun eldri í samsetningum í eldri merkingu. Í Reykvíkingi 1893 segir: „til að taka á móti köldum hellings-regnskúrum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1932 segir: „hann ætlaði að gera hellings skúr úr einhverri átt.“ Þarna er merkingin augljóslega 'úrhelli', en svo fara málnotendur að skynja þetta sem áhersluorð og tengingin við rigningu hverfur. Það má t.d. sjá í Sjómannablaðinu Víkingi 1950: „ef þeir fengju reglulega törn í hellings fiskiríi vestur á Hala.“ Í Vísi 1956 segir: „Hellings síldveiði í nótt.“ Orðið er þarna skrifað sérstakt en er einnig oft haft áfast eftirfarandi orði – „Sumir fengu hellingsafla“ segir í Vísi 1963. En hlutverk þess er það sama hvort sem heldur er.

Kvenkynsmyndin helling í nútímamáli gæti vissulega verið leifar af eldri notkun kvenkynsins en það virðist þó ekki trúlegt vegna þess að nær engin dæmi eru um kvenkynið undanfarin 80-100 ár. Það er hins vegar auðvelt að sjá hvernig kvenkynið gæti hafa orðið til úr karlkyninu. Ef sagt er t.d. ég fann helling af berjum í Stífluhólum virðist í fljótu bragði augljóst að helling sé þolfall karlkyns vegna þess að kvenkynsorð myndi enda á -u í þolfalli – vera hellingu. En vegna þess að langoftast kemur af á eftir myndi -u venjulega falla brott í framburði – hellingaf. Þótt framangreint dæmi sé einrætt í riti er það því tvírætt í tali og vel hugsanlegt að málnotendur skilji það sem kvenkyn, enda miklu fleiri kvenkynsorð en karlkynsorð með -ing-.

Posted on

Enska í kynningarmyndbandi borgarinnar

Athygli mín var vakin á myndböndum sem birt eru á vef Reykjavíkurborgar og gerð hafa verið „vegna kynningar á vinnslutillögu rammahluta aðalskipulags Keldna og nágrennis“ og eru ætluð til þess „að auðvelda fólki að kynna sér málið“. Þetta er auðvitað gott og blessað, en athygli vekur að þótt talið í myndbandinu „Skipulag Keldnalands“ og neðanmálstexti með því sé vissulega á íslensku er titill myndbandsins á ensku, „Crafting Keldur“, enn fremur millifyrirsögnin „A Creative and Vibrant District close to Nature“ og svo kemur „Welcome to Keldur“ í lokin. En ekki nóg með það – nær allar þær fimm mínútur sem tekur að spila myndbandið eru myndir af skipulaginu á skjánum og allir skýringartextar þar eru á ensku.

Þótt tal og neðanmálstexti myndbandsins „Skipulag Keldnalands“ sé á íslensku eins og áður segir fer því fjarri að allar upplýsingar sem verið er að koma á framfæri með því séu í þeim texta. Mikið af upplýsingum kemur eingöngu fram í ensku skýringartextunum sem eru fjölmargir. Ég er ekki viss um að þetta samræmist málstefnu Reykjavíkurborgar frá 2018 þar sem lögð er áhersla á notkun íslensku og sagt: „Allt efni sem skylt er að upplýsa borgarbúa og hagsmunaaðila um samkvæmt lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum skal birta á vandaðri og auðskiljanlegri íslensku. Þetta á meðal annars við um skipulagsákvarðanir, grenndarkynningar, auglýsingar, tilkynningar, reglugerðir og aðrar samþykktir.“

Hugsanlega má halda því fram að kynningarmyndband af þessu tagi falli ekki undir þetta ákvæði, en það er samt ljóst að það er ekki í anda stefnunnar að hafa það á ensku, og ekki heldur í samræmi við Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 þar sem segir: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga“ og „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð“. En til að sanngirni sé gætt er rétt að taka fram að annað myndbandið, „Keldur og nágrenni“, sem er talsvert lengra eða tæpar fjórtán mínútur, er eingöngu á íslensku – tal, texti og skýringar. Það myndband er til fyrirmyndar – en það er engin afsökun fyrir enskunni í hinu.

Posted on

Lífshótandi sjúkdómar

Í „Málvöndunarþættinum“ var vakin athygli á orðinu lífshótandi sem málshefjandi hafði séð á skilti á heilsugæslustöð og spurði „hvað varð um hið alíslenska orð lífshættulegt?“. Það er auðvitað ljóst að lífshótandi er bein þýðing á life threatening í ensku en það eitt og sér er ekki nægileg ástæða til að amast við orðinu, ef það er þarft í málinu og eðlilega myndað. Þetta orð er ekki að finna í orðabókum en er þó ekki alveg nýtt – elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1990: „Þeim, sem verður fyrir þeirri ólukku að fá einhvern lífshótandi sjúkdóm.“ Alls eru 35 dæmi um orðið á tímarit.is, langflest úr Læknablaðinu og Læknanemanum. Í Risamálheildinni eru 86 dæmi, mörg úr Læknablaðinu en einnig úr héraðs- og landsréttardómum.

Ef að er gáð er orðið lífshótandi dálítið sérkennilega myndað og ekki í samræmi við venjulega notkun sagnarinnar hóta. Hún er skýrð 'setja ógnandi skilmála að e-u' í Íslenskri nútímamálsorðabók og getur tekið tvö þágufallsandlög, t.d. hóta henni brottrekstri, en einnig er hún oft notuð með bara öðru andlaginu sem vísar þá annaðhvort til þeirrar persónu sem er hótað (þau hótuðu henni) eða til þess verknaðar eða afleiðingar sem hótað er (þau hótuðu brottrekstri). En fyrri hluti samsetningarinnar, líf-, fellur vitanlega ekki að þessum hlutverkum andlaganna – það er ekki verið að hóta lífi, heldur miklu fremur hóta dauða. Samsetningin dauðahótandi væri vissulega ekki sérlega lipur en merkingarlega eðlilegri en lífshótandi.

Vissulega má segja – eins og ég hef oft gert – að merking samsettra orða sé ekki endilega summa eða fall af merkingu orðhlutanna og þurfi ekki að vera „rökrétt“ – orð hafi bara þá merkingu sem málnotendur kjósi að leggja í þau. En í þessu tilviki er til annað orð sem mér finnst mun heppilegra. Það er orðið lífsógnandi sem er bæði eldra og töluvert algengara – kemur fyrst fyrir í Morgunblaðinu 1974: „Mörg eysamfélög eiga nefnilega í baráttu við lífsógnandi brottflutning fólks.“ Alls eru 178 dæmi um þetta orð á tímarit.is og 343 í Risamálheildinni. Það má vissulega segja að lífsógnandi sjúkdómar ógni lífi þótt þeir hóti því ekki. En svo má auðvitað spyrja hvort einhver þörf sé á sérstöku orði – hvort lífshættulegir sjúkdómar segi ekki það sem segja þarf.

Posted on

Íslensk ráðstefna á ensku

Mér var bent á auglýsingu um ráðstefnu sem stendur til að halda í Hörpu í október og heitir „The Female Edit: Shifting the Focus on Women“. Á síðunni kemur fram að ráðstefnan verði haldin á ensku, þrátt fyrir að sjö af átta fyrirlesurum heiti íslenskum nöfnum. Aðstandendur ráðstefnunnar eru væntanlega Íslendingar en ég finn ekki að þeirra sé nokkurs staðar getið, hvorki í auglýsingunni, á síðu „The Female Edit“, né á Facebook-síðu ráðstefnunnar. Auglýsingin er vissulega bæði á íslensku og ensku en augljóst er að íslenska gerðin er (léleg) þýðing á þeirri ensku – þar stendur t.d. „Þetta er ekki bara önnur ráðstefna“ sem er óeðlileg íslenska en bein þýðing á „This is not just another conference“ sem er venjulegt orðalag á ensku.

Það kemur auðvitað á óvart að ráðstefna sem fer fram á Íslandi, hlýtur einkum að vera ætluð Íslendingum, og þar sem nær allir fyrirlesarar eru íslenskir, skuli fara fram á ensku. Á Facebook- síðu ráðstefnunnar hafa verið gerðar athugasemdir við þetta og skýringar aðstandenda eru áhugaverðar: „Við ákváðum að halda viðburðinn á ensku svo hann geti verið sem opnastur og aðgengilegur fyrir alla sem búa hér, sérstaklega þá sem ekki tala íslensku. […] Þar sem ekki allir fyrirlesarar eru íslenskir er enska líka besta leiðin til að tryggja að bæði fyrirlesarar og þátttakendur geti tekið virkan þátt. […] Flestir Íslendingar tala hins vegar ensku í dag, þannig að með því að hafa viðburðinn á ensku viljum við gera fræðsluna aðgengilega fyrir sem flesta.“

Nú veit ég vel að í háskólaumhverfinu er það algengt að ráðstefnur fari fram á ensku, enda er þar oftast töluvert um bæði fyrirlesara og áheyrendur sem ekki skilja íslensku. Sama máli gegnir um ýmsar ráðstefnur um sérhæfð efni í tækni og viðskiptum. En öfugt við þær ráðstefnur virðist þessi vera ætluð almenningi en ekki afmörkuðum markhópum. Í svörum við athugasemdum segja aðstandendur að markmiðið sé „að skapa vettvang þar sem konur geta fræðst meira um líkama sinn og heilsu án þess að tungumál sé hindrun“. Það er auðvitað góðra gjalda vert, en í athugasemdum var bent á að meginhluti innflytjenda á ekki ensku að móðurmáli og draga má í efa að að það fólk hafi almennt næga enskukunnáttu til að skilja flókin fræðileg orð og hugtök.

En það gildir ekki bara um innflytjendur. Þótt fullyrðingin „Flestir Íslendingar tala hins vegar ensku í dag“ sé rétt að vissu marki er enskukunnátta verulegs hluta almennings að miklu leyti bundin við hversdagslegt talmál en nær ekki til sérhæfðs orðaforða eins og hlýtur að verða notaður á umræddri ráðstefnu. Þess vegna verður einnig að draga í efa að ráðstefna á ensku gagnist íslenskum konum sérlega vel. Það er líka óhjákvæmilegt að benda á að sú réttlæting sem þarna er notuð fyrir enskunni – að með henni megi ná til allra – getur í raun átt við á öllum sviðum. Ég hef áhyggjur af því að farið verði að nota hana meira og meira þannig að enskan leggi undir sig fleiri og fleiri svið en íslenskan hörfi. Þá erum við virkilega á hættulegri braut.

Posted on

Hvað á að kenna ef ekki „rétt“ og „rangt“?

Ég hef haldið því fram að það sé eðlilegt að við höldum í þá íslensku sem við ólumst upp við og tileinkuðum okkur á máltökuskeiði – hún geti ekki verið röng. Þetta er vitanlega umdeilanlegt viðhorf og í gær fékk ég eftirfarandi spurningu í framhaldi af skrifum mínum: „Er þá nokkur ástæða til að eyða fjármunum í að kenna börnum íslensku (málfræði, stafsetningu o.s.frv.) ef málfarið skiptir svo engu máli svo lengi sem fólk talar þá íslensku sem það ólst upp við?“ Það er eðlilegt að svona sé spurt, og ég hef oft áður fengið spurningar og athugasemdir í sama dúr. En á bak við þetta liggur sá misskilningur að málfræði sé einkum spurning um „rétt“ og „rangt“, og íslenskukennsla hljóti að felast í því að kenna nemendum hvað sé „rétt“.

Sem betur fer er þetta ekki svo. Málfræði er svo ótalmargt annað sem hægt er – og mikilvægt – að fræða nemendur um. Það er hægt að kenna um málkerfið og tilbrigði málsins í framburði, beygingum, setningagerð, merkingu og orðaforða; það er hægt að opna augu nemenda fyrir því undursamlega ferli sem máltaka barna er; það er hægt að fræða nemendur um félagslegt hlutverk tungumálsins og notkun þess sem valdatækis; það er hægt að þjálfa nemendur í orðræðugreiningu, láta þau skoða mismunandi texta og greina markmið þeirra og málbeitingu; o.m.fl. Auðvitað verður að laga þetta að aldri og þroska nemenda, en ég ætla að vona að flest af þessu sé þegar kennt í íslensku skólakerfi og hef enga ástæðu til að efast um að svo sé.

Þetta þýðir ekki að alveg eigi að þegja um „málvillur“ og ekkert minnast á mér hlakkar til, ég vill og annað slíkt. Vegna þess hversu hart og lengi hefur verið barist gegn mörgum þessum tilbrigðum hafa þau á sér ákveðinn stimpil sem er mikilvægt að þvo af þeim þannig að nemendur þurfi ekki að skammast sín fyrir málfarslegan uppruna sinn. En meðan þessi tilbrigði hafa enn þennan stimpil í augum margra þurfa nemendur að vita af honum. Þau eiga rétt á því að vita að ef þau nota tiltekin tilbrigði í máli sínu getur það komið þeim í bobba og spillt fyrir þeim við ákveðnar aðstæður. Með því að fræða nemendur um þetta er ekki verið að viðurkenna réttmæti þess að gera upp á milli tilbrigða málsins, heldur einfaldlega verið að viðurkenna staðreyndir.

En tíma sem eytt er í að kenna nemendum að eitt tilbrigði málsins sé „rétt“ en önnur „röng“ er illa varið og skilar sér ekki í betri málnotkun eða málnotendum, hvað þá í auknum áhuga á íslensku máli. Það skiptir engu máli hvort nemendur sem koma út úr skólunum segja ég hlakka til og ég vil eða mér hlakkar til og ég vill. Það sem skiptir öllu máli er að út úr skólunum komi nemendur sem eru örugg í sinni málbeitingu og sátt við hana; nemendur sem hafa fengið þjálfun í því að nota íslensku á fjölbreyttan hátt og hafa gaman af því; nemendur sem hafa jákvætt viðhorf í garð tungumálsins og vilja efla það og nota á öllum sviðum – en jafnframt nemendur sem eru umburðarlynd gagnvart tilbrigðum í máli og flokka fólk ekki eftir málfari.

Posted on

Hvernig drögum við úr málfarslegum stéttamun?

Því er iðulega haldið fram að málfarsleiðréttingar og málvöndunarstefna, ekki síst í kennslu, sé til þess fallið að draga úr málfarslegum stéttamun vegna þess að það komi öllum á sama stig – lyfti þeim upp sem ekki hafi alist upp við „rétt mál“ og það komi sér vel fyrir nemendur að læra að forðast „málvillur“ því að þar með sé ekki hægt að nota málfar þeirra gegn þeim. Þetta kann að hljóma vel en veruleikinn er því miður annar. Það málfar sem allir nemendur áttu að tileinka sér var nefnilega ekki málfar þeirra sem minna máttu sín, ekki málfar verkafólks eða sjómanna. Börn úr þeim hópum voru því mun verr sett – þurftu að leggja mikið á sig til að tileinka sér hið viðurkennda málfar sem börn betur settra foreldra höfðu drukkið í sig með móðurmjólkinni.

En þar fyrir utan var það auðvitað ekki þannig að öll börn sem töluðu „rangt mál“ hefðu tækifæri til að ná valdi á því sem taldist „rétt“. Það voru fyrst og fremst börn í „góðum“ bekkjum í „góðum“ skólum, einkum þau sem fóru í menntaskóla  – og þar voru börn af lægri stigum miklu síður. Þar að auki fólst kennslan áður fyrr ekki bara í því að venja nemendur af „málvillum“, heldur einnig í því að vara við þeim, m.a. með því að gefa þeim fráhrindandi heiti eins og „þágufallssýki“ og „flámæli“. Auk þess að kenna mál hinna betur settu sem „rétt“ fólst í þessu að alið var á fordómum gagnvart þeim sem notuðu tiltekin afbrigði sem talin voru „málvillur“ – gefið var í skyn eða sagt berum orðum að þau væru á einhvern hátt ómenntaðri eða heimskari.

Þetta má glögglega sjá á þeim fjölmörgu gildishlöðnu orðum sem notuð voru um mál sem ekki þótti „rétt“ – orðum eins og málvilla, mállýti, málskemmd, málspjöll, málspilling, málfirra, og fleiri í sama dúr. Fólk var sagt tala almúgamál, götumál eða jafnvel skrílmál, vera málsóðar, þágufallsjúkt, hljóðvillt, flámælt, gormælt, latmælt, og meintum hnökrum á málfari þess var líkt við lús í höfði, falskan söng og illgresi. Það kom jafnvel fyrir að það væri notað gegn stjórnmálamönnum í pólitískri umræðu að þeir væru „hljóðvilltir“ eða „þágufallssjúkir“. Iðulega voru hin fordæmdu atriði tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort – og Reykjavík. Einstrengingsleg málvöndun leiðir af sér fordóma og stuðlar að málfarslegri stéttaskiptingu.

Vissulega hefur dregið úr þessum fordómum en þeir lifa þó enn góðu lífi, a.m.k. hjá okkur sem ólumst upp við þá á seinni hluta síðustu aldar. Þetta er svo djúprætt í okkur – ég segi fyrir mig að þrátt fyrir að hafa háð langa innri baráttu við mína fordóma, og ríkan vilja til að losna við þá, kippist ég enn við þegar ég heyri mér langar eða eitthvað slíkt og á erfitt með mig að setja mælandann ekki ósjálfrátt skör lægra í huga mér. Þess vegna skil ég vel að fólki á mínum aldri – sem er áberandi í hópi þeirra sem gagnrýna málfar annarra – finnist agalegt að því sé haldið fram að það sé ekkert athugavert við margt af því sem við ólumst upp við að væru „málvillur“ sem ætti að forðast eins og heitan eldinn og bæru vott um menntunar- eða gáfnaskort.

En ef við viljum í raun og veru draga úr málfarslegri stéttaskiptingu og gera öll jafnsett málfarslega séð – sem er sannarlega gott og göfugt markmið – verður það ekki gert á þann hátt að halda dauðahaldi í gömul viðmið um „rétt“ og „rangt“ og kalla það „málvillur“ sem er eðlilegt mál verulegs hluta þjóðarinnar. Við munum augljóslega aldrei geta útrýmt ég vill, mér hlakkar til og fjölmörgum öðrum „málvillum“. En sem betur fer er til önnur leið sem er vænlegri til árangurs í baráttu gegn málfarslegri stéttaskiptingu. Hún er sú að auka umburðarlyndi fólks gagnvart tilbrigðum í máli – viðurkenna að við þurfum ekki öll að tala eins, og mál sumra er ekki „betra“ eða „réttara“ en mál annarra. Þannig vinnum við gegn málfarslegum stéttamun.

Posted on

Einu sinni málvilla, alltaf málvilla – eða hvað?

Í gagnrýni á málfar mennta- og barnamálaráðherra í viðtali á Bylgjunni í gær hefur verið vísað til þriggja atriða þar sem málnotkun hans samræmdist ekki venjulegum viðmiðum – hann sagði „mér hlakkar til“ og „ég vill“ og notaði fleirtöluna „einkanir“. Ég bar í bætifláka fyrir þetta, benti á að allt á þetta sér margra áratuga sögu í málinu og er mjög útbreitt, a.m.k. tvennt það fyrrnefnda, og sjálfur er ég alinn upp við einkanir þótt það hafi kannski aldrei verið mitt mál. Í umræðum á „Málspjalli“ sagði Ólína Þorvarðardóttir: „Æ, góði Eiríkur, þetta eru málvillur“ og bætti við: „þetta er ekki það sem skilgreint og kennt hefur verið í íslenskri málfræði sem rétt mál“. Það er vissulega rétt – en hvaða forsendur eru fyrir því að telja þetta rangt?

Hefðbundin skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“ var fyrst sett fram árið 1986 í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum sem menntamálaráðherra skipaði, og hljóðar svo: „Nauðsynlegt er að átta sig vel á því að rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju.“ Rætur þessarar skilgreiningar eru raunar í grein eftir Baldur Jónsson sem birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins 1973: „Ef venjur málsins eru virtar, er málið rétt. Ef þær eru brotnar, er málið rangt.“ Ari Páll Kristinsson orðaði þetta svo í grein á Vísindavefnum 2002: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“

Allar þessar skilgreiningar byggjast á hugtakinu málvenja en það er ekki skilgreint og svo sem hægt að deila um hvað það merki. Ég hef sett fram fimm viðmið um það hvaða skilyrði tiltekið málfarsatriði þurfi að uppfylla til að geta talist málvenja en þau eru vitanlega umdeilanleg. En í ljósi aldurs og tíðni áðurnefndra þriggja atriða sé ég ekki að nokkur vafi geti leikið á því að þau séu málvenja einhvers hluta málnotenda – vitanlega ekki allra, en ekkert er því til fyrirstöðu að tvær eða fleiri mismunand málvenjur séu í gangi samtímis eins og sést á skilgreiningu Ara Páls, „samræmist (einhverri) íslenskri málvenju.“ Þess vegna ættu þessi þrjú atriði ótvírætt að teljast „rétt mál“ en ekki „málvillur“ samkvæmt viðurkenndum skilgreiningum.

En samt er haldið áfram að kenna þau sem „málvillur“. Ástæðan er ótrúleg íhaldssemi í íslenskukennslu og viðhorfum til tungumálsins. Um flokkinn málvillur má segja eins og sagt er um konungsgarð í Egils sögu, að hann er „rúmur inngangs en þröngur brottfarar“. Ef fólk hefur alist upp við að tiltekið atriði sé talið „málvilla“ er eins og það eigi ákaflega erfitt með að taka það atriði í sátt sem „rétt mál“, þrátt fyrir að öll rök hnígi til þess. Auðvitað breytist málið – málvenjur falla í skuggann og nýjar koma upp. Sumar hverfa aftur en aðrar festast í sessi, og ættu þá að hljóta viðurkenningu sem „rétt mál“ samkvæmt áðurnefndum viðmiðum. En mörg virðast vera föst í því að það sem þau lærðu að væri „málvilla“ verði það um aldur og ævi.

Þó er auðvelt að benda á ýmis dæmi þar sem viðmiðin hafa breyst. Sagnirnar vona og vænta tóku stundum þolfallsfrumlag á nítjándu öld – „mig vonar“ skrifaði Jónas Hallgrímsson í Fjölni 1835 og „mig væntir“ skrifaði Konráð Gíslason í sama rit 1838. Sagnirnar fjölga og fækka tóku nefnifallsfrumlag á nítjándu öld – „fólkið […] fór að fækka“ og „heimabændur fjölga“ segir í Fjölni 1839. Engum hefur samt dottið í hug að kalla það „þágufallssýki“ þótt við segjum nú fólki fækkar og bændum fjölgar. Þágufall af Egill var venjulega Egli fram á tuttugustu öld – og talið „rétt“. Eignarfall eintölu með greini af faðir var föðursins á seinni hluta nítjándu aldar – og líka talið „rétt“. Svo mætti lengi telja upp atriði sem hafa breyst síðan á nítjándu öld.

Einstöku atriði hafa þó breyst á seinni árum. Þegar ég var í skóla þótti hin herfilegasta málvilla að segja þora því, en í Málfarsbankanum segir: „Sögnin þora stýrði upprunalega þolfalli en er nú líka farin að stýra þágufalli. Bæði kemur því til greina að segja ég þori það ekki og ég þori því ekki.“ Eftir sem áður sýnist mér þora því enn iðulega vera talið „málvilla“. Og þetta vekur auðvitað þá spurningu hvers vegna ekki „kemur til greina“ að mati Málfarsbankans að segja bæði ég hlakka til og mig/mér hlakkar til – þar er vitanlega óumdeilanlegt að sögnin hlakka er „nú líka farin að stýra þágufalli“ á frumlagi sínu. Þarna ríkir „skipulagslaus íhaldssemi“ svo að ég vísi í grein mína um íslenska málstefnu í Skímu 1985 (sem ekki mæltist alls staðar vel fyrir).

Þegar ég hélt því fram í „Málvöndunarþættinum“ að umrædd atriði ættu ekki að teljast „málvillur“ voru viðbrögðin m.a. „Ja hérna, allt mitt íslenskunám til einskis“ sem er vitanlega dapurlegur vitnisburður – annaðhvort um íslenskukennsluna sem höfundur hefur fengið eða um það sem hún skynjaði sem aðalatriði hennar. En vegna þeirrar áherslu sem hefur verið lögð á að kenna „rétt mál“ skil ég vel að fólk eigi erfitt með að kyngja því ef eitthvað sem því hefur verið kennt að sé „málvilla“ er allt í einu í góðu lagi. Einu sinni hélt ég því fram að á bak við tregðu okkar til að taka málbreytingar í sátt, jafnvel þegar þær eru löngu orðnar málvenja, lægi hugmyndin: Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.

Posted on

Dapurleg og lúaleg málfarsumræða

Í dag hefur orðið sérkennileg og óviðkunnanleg umræða á vef- og samfélagsmiðlum um málnotkun mennta- og barnamálaráðherra í viðtali á Bylgjunni í morgun þar sem ráðherrann notaði orð og orðalag sem ekki fellur að viðteknum málstaðli – sagði bæði „mér hlakkar til“ og „ég vill“ auk þess sem hann talaði um „einkanir“. Vísir ræddi um þetta við Jóhannes Gísla Jónsson prófessor sem benti á að tvennt hið fyrrnefnda væri mjög algengt en taldi það síðastnefnda sjaldgæft og sagði: „„Þannig að það má halda uppi vörnum fyrir Guðmund Inga hvað varðar þágufallssýkina og „ég vill“ en það er kannski erfiðara með einkanir.“ Eins og ég skrifaði um fyrr í dag er þó ljóst að einkanir er gamalt í málinu og talsvert algengt.

Það er auðvitað með ólíkindum að á 21. öldinni sé fólk enn hætt og spottað fyrir að tala það mál sem það er vant og hefur alist upp við. En ekki nóg með það, heldur er ýmist látið að því liggja eða beinlínis sagt berum orðum að „málvillur“ ráðherrans beri vott um menntunarskort hans, málfar hans sé „óskiljanlegt“ og sýni að hann sé ekki fær um að gegna því embætti sem hann situr í. Þetta er gert þrátt fyrir að ljóst sé að þau frávik frá málstaðlinum sem komu fyrir í máli ráðherra eru ekki „ambögur“ eða „bögumæli“ frá honum komin, heldur gömul og útbreidd í málinu, og þrátt fyrir að ljóst sé að engin bein tengsl eru milli menntunar og „vandaðs máls“, og ekki heldur milli óskýrleika í máli og frávika frá málstaðli (svokallaðra „málvillna“).

Sem betur fer virðist ráðherrann ekki láta þetta mikið á sig fá – „Ég hef ekki miklar áhyggjur af því hvort ég tali rétt eða rangt. Hvernig ég tala, ef ég hefði áhyggjur af því þá myndi ég ekki tala neitt“ segir hann. Það er auðvitað rétt – ráðherrann er kominn á þann aldur að það er ekki líklegt að hann fari að breyta því máli sem hann hefur vanist og talað frá barnæsku. En það breytir því ekki að þarna var málnotkun hans notuð til að gera lítið úr honum og vegna þess hversu föst við erum í því hvað sé „rétt mál“ og hvað „rangt“, og hversu ríkt það er í mörgum að líta niður á þau sem tala „rangt mál“, er líklegt að þessi umræða hafi áhrif á viðhorf einhverra til ráðherrans og hann setji niður í augum þeirra. Skaðinn er því skeður.

Tungumálið er öflugt valdatæki sem má beita bæði til góðs og ills. Þau sem hafa gott vald á hinu „rétta“ og „viðurkennda“ máli – og skilgreina viðmiðin – nýta þetta tæki stundum til að tala niður til hinna sem tala mál sem víkur í einhverju frá þessum viðmiðum – nota frávikin til að gera lítið úr þeim og málflutningi þeirra þannig að umbúðirnar, frávikin frá „réttu“ máli, verða aðalatriðið en efnið, það sem sagt er, hættir að skipta máli. Þetta er ómerkilegt, lúalegt og ljótt. En ekki bara það – þetta er andlýðræðislegt vegna þess að það fælir fólk frá þátttöku í stjórnmálum og opinberri umræðu. Engum finnst þægilegt að láta hæðast að sér og málfari sínu. Umræðan um málfar ráðherrans var dapurleg og þeim sem hneyksluðust ekki til sóma.

Posted on

Einkanir

Í „Málvöndunarþættinum“ sá ég hneykslast á því að tiltekinn ráðamaður hefði talað um „einkanir“ í útvarpsviðtali. Þarna var um að ræða fleirtölu orðsins einkunn í merkingunni 'vitnisburður fyrir frammistöðu á prófi' og vissulega er viðurkennd fleirtala þess ekki einkanir heldur einkunnir. Ástæðan er sú að þótt einkun rími við seinkun er orðið myndað á annan hátt – seinkun er myndað af sögninni seinka með viðskeytinu -un og mikill fjöldi kvenkynsorða er myndaður af sögn á sama hátt. En fjögur kvenkynsorð sem enda á -un eru ekki mynduð þannig, heldur er seinni hluti þeirra kvenkynsorðið kunn sem merkir 'eigind, kennimark', og þess vegna eru þau rituð með tveimur n-um – þetta eru orðin einkunn, forkunn, miskunn og vorkunn.

Í áhersluleysi er enginn framburðarmunur á einföldu og tvöföldu n og þess vegna hljómar seinni hluti þessara orða alveg eins og seinni hluti orða myndaðra með -un. Þar sem síðari hópurinn er margfalt stærri hafa málnotendur eðlilega tilhneigingu til að hafa bara eitt n í áðurnefndum fjórum orðum og skrifa einkun, forkun, miskun og vorkun með einu n-i í stað hinna viðurkenndu mynda einkunn, forkunn, miskunn og vorkunn – reyndar kemur forkunn eiginlega aldrei fyrir nema í samsetningum eins og forkunnarfagur, forkunnarvel o.fl. Við þetta bætist að orðin eru ekki gagnsæ – orðið kunn kemur aldrei fyrir eitt og sér og málnotendur þekkja því ekki merkingu þess. Þess vegna þarf alltaf að kenna þessi orð sérstaklega í stafsetningarkennslu.

Ritun umræddra fjögurra orða með einu n-i á sér langa hefð, allt frá nítjándu öld í þremur þeirra. Í Norðlingi 1876 segir: „Ólafur Ólafsson frá Melstað […] með 2. einkun 47 stig.“ Í Skuld 1882 segir: „fengu báðir 2. betri einkun.“ Í Fjallkonunni 1896 segir: „að hann hafi hlotið blátt áfram aðra einkun.“ Í Fjölni 1838 segir: „með því verði sem hann af miskun sinni vill gjefa.“ Í Norðurfara 1849 segir: „helga moldir þeirra með miskun þinni.“ Í Skírni 1829 segir: „Ad hinu leytinu er Írskum mjög vorkun.“ Í Fjölni 1863 segir: „Á þessu er aungvum manni vorkun að skinja, hvað það er rángt.“ Elstu dæmi um forkun með einu n-i eru nokkru yngri en þó meira en hundrað ára. Í Heimskringlu 1909 segir: „var þar tekið forkunarvel á móti okkur.“

En þessi samsömun orðanna við þau sem hafa viðskeytið -un hefur ekki bara áhrif á stafsetninguna, heldur einnig á beyginguna. Orð með -kunn að seinni lið eiga að fá fleirtöluna -kunnir en orð með viðskeytið -un fá fleirtölu með -anir, en vegna áhrifa frá síðarnefnda hópnum fær einkun(n) oft fleirtöluna einkanir, sbr. seinkanir – hin orðin þrjú, forkunn, miskunn og vorkunn, eru aldrei notuð í fleirtölu. Þessi beyging er vel þekkt síðan snemma á tuttugustu öld. Í Vestra 1909 segir: „eru þar birtar einkanir hvers félagsmanns.“ Í Dagsbrún 1915 segir: „Ég fór að reyna að lesa úr andliti hans hugsanir og lyndiseinkanir.“ Í Fréttum 1918 segir: „einkanirnar fyrir það munnlega voru svo lágar, að tæpast svaraði meðal-frammistöðu.“

Þrátt fyrir að á fátt hafi verið lögð meiri áhersla í stafsetningarkennslu undanfarinna áratuga en að orðin einkunn, forkunn, miskunn og vorkunn eigi að rita með tveimur n-um er ljóst að myndirnar einkun, miskun og vorkun lifa góðu lífi í ritmáli almennings. Í Risamálheildinni eru hátt í 2.400 dæmi um eintölumyndir af einkun, fimm hundruð um eintölumyndir af miskun og hálft fjórtánda hundrað um eintölumyndir af vorkun. En þetta tekur ekki bara til ritháttar – hátt í sjö hundruð dæmi eru um fleirtöluna einkanir. Það ýtir enn undir þessa beygingu á einkun(n) að til er orðið tileinkun sem er myndað með viðskeytinu -un af sögninni tileinka (ósamsetta sögnin einka var til í fornu máli en er horfin úr málinu) og það orð fær fleirtöluna tileinkanir.

Ég er almennt séð stuðningsmaður samræmdrar stafsetningar og fastra stafsetningarreglna, en hins vegar hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að einfalda reglur um einritað og tvíritað n í endingum orða og rita bara einfalt n enda enginn framburðarmunur á n og nn. Í þessu tilviki hangir að vísu dálítið meira á spýtunni vegna þess að -kunn er upphaflega sjálfstætt orð en hvorki viðskeyti né beygingarending – einkunn er því samsett orð þótt seinkun sé afleitt. Það má segja að þessi tengsl við upprunann glatist ef farið er að skrifa orðið með einu n-i. En tengslin við upprunann eru hvort eð er ekki fyrir hendi í huga venjulegra málnotenda sem ekki þekkja orðið kunn. Ég myndi vilja leyfa ritháttinn einkun – og fleirtöluna einkanir.

Posted on

Ég vinn í leikskóla

Í „Málspjalli“ hefur oft verið fjallað um verkaskiptingu forsetninganna á og í sem er fjarri því að vera einföld og getur verið breytileg eftir orðum sem þær stýra, landshlutum, aldurshópum, tímabilum, og einstaklingsbundinni máltilfinningu. Meðal þeirra orða þar sem þetta er á reiki er orðið skóli og samsetningar af því – háskóli, framhaldsskóli, menntaskóli, grunnskóli o.s.frv. Í „Málvöndunarþættinum“ var nýlega bent á að við notum yfirleitt í með þessum nafnorðum og því ætti einnig að segja í leikskóla þar sem leikskólinn væri „viðurkenndur sem fyrsta skólastig barnanna okkar“. Ég hef oft rekist á svipaðar ábendingar áður, og ástæðan fyrir þeim er vitanlega sú að það er algengt að nota forsetninguna á og segja á leikskóla. Er það rangt?

Forsetningin á var mun oftar notuð með skóli og samsetningum af því áður fyrr en nú er. Á nítjándu öld og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu virðist álíka oft hafa verið talað um að ganga á skóla og ganga í skóla en síðan fór ganga í skóla að síga fram úr og ganga á skóla er mjög sjaldgæft eftir 1970. Sama gildir um samsetningar af -skóli, nema leikskóli – það virðast t.d. ekki vera nein dæmi um á grunnskóla enda var heitið grunnskóli ekki tekið upp (í stað barnaskóli og gagnfræðaskóli) fyrr en um 1970. Það virðist líka skipta máli hvaða sögn er notuð með á/í skólaá virðist aðallega hafa verið notað með hreyfingarsögnum eins og ganga og fara en með sögninni vera var alla tíð oftast notað í þótt vissulega séu einnig dæmi um á.

En tegund skóla virðist líka hafa skipt máli – á var frekar notað með sérskólum eins og bændaskóli, húsmæðraskóli, kvennaskóli o.fl. en með orðum eins og barnaskóli, menntaskóli og háskóli. Þegar orðið leikskóli er skoðað sérstaklega verður að hafa í huga að lengi vel, a.m.k. fram um miðja tuttugustu öld, hafði það mun oftar merkinguna 'skóli fyrir leikara' en nútímamerkinguna 'uppeldis- og menntastofnun fyrir börn'. Það sést t.d. í Morgunblaðinu 1922: „Í Tyrklandi koma konur aldrei fram á leiksviði en […] nú eru stúlkur farnar að sækja leikskólana.“ Nútímamerkingin kemur þó fram um svipað leiti – í Sunnudagsblaðinu 1923 segir: „Þau eru börn systur minnar. […] Þau ganga á leikskóla. Og það er dýrt.“

Þrátt fyrir að forsetningin í sé næstum horfin með flestum samsetningum af -skóli eins og áður segir lifir hún góðu lífi með orðinu leikskóli og virðist jafnvel sækja á. Í Risamálheildinni eru tæp þrjú þúsund dæmi um vera á leikskóla en tæp tvö þúsund um vera í leikskóla. Margfalt meiri munur kemur fram með sögninni vinna – um vinna á leikskóla eru tæplega sex þúsund og fimm hundruð dæmi en tæplega níu hundruð um vinna í leikskóla. Sennilegasta skýringin á þessum mun á leikskóli og öðrum -skóla-orðum er sú að leikskólar í núverandi mynd eru arftakar barnaheimila, dagheimila og dagvistarstofnana og með þeim orðum öllum er ævinlega notuð forsetningin á. Það er að sjá sem leikskólinn hafi erft forsetninguna frá fyrirrennurunum.

En eins og oft er bent á er leikskólinn allt annars konar fyrirbæri en áðurnefndir fyrirrennarar – síðan 1994 hefur hann verið skilgreindur sem fyrsta skólastigið í samfellu við grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Þess vegna mætti gera ráð fyrir að orðið leikskóli væri meðhöndlað á sama hátt og önnur skóla­-orð, og sagt í leikskóla – en það er greinilega ekki algilt. Það getur vissulega verið að einfaldlega sé um að ræða erfða málvenju sem hafi ekkert með merkingu eða tilfinningu málnotenda fyrir eðli leikskóla að gera, frekar en ýmis önnur dæmi um samspil á og í, en notkun á gæti líka tengst því að málnotendur hafi aðra tilfinningu fyrir eðli leikskóla en annarra skóla og finnist á eiga betur við – forsetninganotkun með sögninni vinna bendir til þess.

Þótt hægt sé að benda á ýmsan mun á notkun forsetninganna á og í með skóla-orðum er sjaldnast hægt að negla þann mun fast við tiltekinn merkingarmun eins og hér hefur komið fram – í mjög mörgum tilvikum er (eða a.m.k. var) hægt að nota hvora forsetninguna sem er. Það er löng og rík hefð fyrir því að segja á leikskóla og ómögulegt að halda því fram að það sé rangt. Hins vegar er vel hægt að skilja það sjónarmið að slík forsetninganotkun setji leikskólann ómeðvitað skör lægra en önnur skólastig í huga fólks og tengi hann fremur við stofnanir og heimili þar sem fólk er vistað, þótt vitanlega sé það ekki ætlunin hjá þeim sem segja á leikskóla. Ég mæli þess vegna með því að nota forsetninguna í eins og með öðrum skólum og segja í leikskóla.