Haltu í haldlegginn á mér

Ég var að leita að dæmum um sögnina haldleggja á tímarit.is og rakst þá á nokkur gömul dæmi um myndina haldlegg, sem vissulega gæti verið fyrsta persóna eintölu í framsöguhætti nútíðar af haldleggja (ég haldlegg) en hafði greinilega setningarstöðu nafnorðs. Í Lögbergi 1913 segir: „Þar stóð ungfrú Margrét; hún studdist við haldlegg Alains og beygði sig út yfir freyðandi hylinn.“ Í Morgunblaðinu 1943 segir: „Eru göng grafin þar inn í brekkuna […] svo víð, að smeygja má haldlegg inn í þau.“ Í Fálkanum 1951 segir: „Hann þrýsti haldlegg Marian fast að sér.“ Í Tímanum 1951 segir: „Hann tók um haldlegg Denise.“ Í Sunnudagsblaðinu 1960 segir: „Hún rétti fram haldlegginn og klappaði á kollinn á honum eins og hann væri lítill krakki.“

Af þessum dæmum er vitanlega ljóst að myndin haldlegg stendur þarna fyrir handlegg, og fleiri beygingarmyndir orðsins með þessum rithætti má finna. Í Þjóðviljanum 1973 segir: „það er svolítið annar haldleggur.“ Í Lögbergi 1944 segir: „hann lagði haldlegginn á herðar hennar.“ Í Vikunni 1960 segir: „Hún sýndi honum visna haldleggi sína og fætur.“ Í Eyjafréttum 2021 segir: „Ég festist einu sinni í spilinu en stýrimaðurinn náði að bjarga mér áður en haldleggurinn fór í spilið.“ Í Alþýðublaðinu 1945 segir: „undir haldleggnum hélt hún þó á nótunum yfir „Triston og Isolde.““ Í Heimilistímanum 1980 segir: „Fyrstu sjúkdómseinkenni eru bólga í kirtlum undir haldleggjum.“ Í Tímanum 1941 segir: „það var Sally, sem tók í haldlegginn á honum.“

Alls eru tæplega þrjátíu dæmi um að beygingarmyndir af handleggur séu skrifaðar hald- á tímarit.is og í Risamálheildinni eru dæmin um tuttugu, nær öll af samfélagsmiðlum. Það er ljóst að hér er ekki um prentvillur að ræða, heldur sýnir þetta skilning þeirra sem nota orðið á því – þau tengja fyrri hlutann við sögnina halda en ekki nafnorðið hönd. Það er í sjálfu sér ekki fráleitt frá merkingarlegu sjónarmiði – og frá hljóðfræðilegu sjónarmiði er þetta líka skiljanlegt. Eðlilegt er að samhljóðaklasi eins og ndl einfaldist inni í orði og framburðurinn verði hanleggur og þegar d fellur brott dofna tengslin við hönd. Framburðurinn getur jafnvel orðið halleggur  (með löngu l-i og e.t.v. nefjuðu a-i) og skiljanlegt að sá framburður sé skilinn sem haldleggur.

Nú er ég vitanlega ekki að skrifa þetta til að mæla með þessum framburði eða halda því fram að hann eigi að teljast réttur. Þótt honum hafi brugðið fyrir í meira en öld hefur hann greinilega alltaf verið mjög sjaldgæfur – en samt örugglega útbreiddari en ritmálsdæmi benda til því að væntanlega hefur hann oft orðið fórnarlamb prófarkalesturs. En hér er ekki um málbreytingu að ræða heldur einstaklingsbundinn (mis)skilning á ákveðnu orði og auðvitað væri eðlilegt að leiðrétta þetta og benda á misskilninginn. Mér finnst dæmi af þessu tagi hins vegar skemmtileg því að þau veita okkur innsýn í huga málnotenda og sýna hvernig fólk leitast við að greina og skilja orðin. Þau sýna hugsun og greiningu fremur en fáfræði eins og ætla mætti í fyrstu.

Að ráðska – ráðskun

Í gær var spurt í „Málspjalli“ hvernig ætti að þýða nafnorðið manipulation á íslensku. Í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi er það þýtt 'stjórnun (einkum með óheiðarlegum brögðum eða baktjaldamakki)' og sögnin manipulate sem nafnorðið er leitt af er þar þýdd 'ráðskast með, hafa áhrif á (mann eða atburðarás) með kænskubrögðum'. Það væri vissulega gagnlegt að hafa íslensk orð sem samsvöruðu ensku orðunum en hins vegar er ekki hlaupið að því að benda á einhver tiltekin nafnorð og sögn sem henti til þess. Í umræðu komu þó fram ýmsar tillögur – launstjórn(un), innræting, þvingun, tilfinningastjórnun, skuggastjórnun, vélun, launfrekja o.fl. fyrir nafnorðið, blekkja, handlanga, klækjastýra, ráðskast með fyrir sögnina.

Mörg þessara orða eru villandi eða of almenns eðlis fyrir þá merkingu sem um er að ræða, og af þeim sem nefnd voru finnst mér einungis launstjórnun og ráðskast með koma til greina. Orðið launstjórnun hefur verið notað áður, í Morgni 1993: „Móðir Hildebrandts er kona sem iðkar launstjórnun, bruggar launráð og egnir til samsæra til að tryggja hagsmuni sína.“ Þetta er úr þýddri grein og út frá samhenginu ekki ólíklegt að launstjórnun sé þarna notað sem þýðing á manipulation. En þetta er eina dæmið sem ég hef fundið um orðið. Það er æskilegt að hægt sé að hafa samsvarandi nafnorð og sögn um manipulation og manipulate, og einfalt væri að mynda sögnina launstjórna – sem ég finn engin dæmi um – út frá nafnorðinu launstjórnun.

Sambandið ráðskast með er þekkt í málinu síðan í upphafi tuttugustu aldar þótt það hafi ekki orðið algengt fyrr en eftir miðja öldina og sérstaklega eftir 1970. Sögnin er langoftast höfð í miðmynd en germyndin ráðska (með eða í) þekkist þó einnig þótt hún sé sjaldgæf: „En nú voru þeir teknir að þreytast á að láta þá stóru ráðska með sig og kröfðust réttar síns í stjórn landsins“ segir t.d. í Vikunni 1970. Samsvarandi nafnorð, ráðskun, er enn sjaldgæfara en er þó til í málinu – „Í því tómarúmi skapast andlegt öryggisleysi, sem gerir einstaklinginn enn útsettari fyrir ráðskun af hálfu kerfisins“ segir t.d. í Læknanemanum 1969 og „Ráðskun stjórnmálaflokka með samtökin eru hættulegt víti sem varast verður“ segir í Stéttabaráttunni 1975.

Orðið launstjórnun er vissulega gagnsætt en mér finnst það samt ekki ná merkingunni í manipulation alveg nógu vel. Ég legg til að germyndin ráðska verði tekin upp sem þýðing á sögninni manipulate. Germyndin er til í málinu eins og áður segir, og kosturinn við að nota hana umfram hina venjulegu þolmynd er sá að vegna þess að hún er fæstum munntöm er hægt að gefa henni sérhæfðri og afmarkaðri merkingu en hún hefur í hinu almenna og algenga sambandi ráðskast með. Það ætti ekki heldur að vera neitt því til fyirstöðu að nota ráðskun sem samsvarandi nafnorð – það hefur ekki heldur fastmótaða merkingu í huga málnotenda og þau fáu dæmi sem finnast um það falla ágætlega að merkingu orðsins manipulation.

Við ötlum að gera þetta

Í útvarpsþáttum um Kristmann Guðmundsson um daginn var rifjuð upp vísa sem þeir ortu í sameiningu Kristmann og Jóhannes úr Kötlum, sem byrjaði: „Lít ég einn, sem list kann, / löngum hafa þær kysst hann / – Kristmann.“ Kristmann botnaði samstundis: „Einkum þó vér ötlum / að þær fari úr pjötlum / í Kötlum.“ Þarna er rímbundin orðmyndin ötlum sem sjálfsagt kemur mörgum ókunnuglega fyrir sjónir enda er hún sjaldséð og líklega einnig sjaldheyrð í seinni tíð, en var vel þekkt áður fyrr. Þau sem þekkja hana ekki átta sig þó e.t.v. á því af samhenginu að þarna væri í venjulegu máli ætlum, en það liggur ekki í augum uppi hvernig ætlum verður ötlum – þótt stafirnir æ og ö standi saman í stafrófinu eru hljóðin æ og ö gerólík.

Til að skilja þetta þarf að átta sig á því að tvíhljóðið æ () missir oft seinni hlutann (í-hlutann) þegar það er stutt og eftir stendur þá einhljóðið a. Þetta gerðist snemma í sögninni ætla – í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld segir Björn Karel Þórólfsson að sögnin hafi þá þegar, á 14.-15. öld, „fengið hina nýíslensku talmálsmynd atla“. Þessi mynd er algeng í ritum fram undir lok nítjándu aldar en frekar sjaldséð eftir það – hefur væntanlega orðið fyrir barðinu á málhreinsun og samræmdri stafsetningu á seinni hluta aldarinnar. Í töluðu máli hélst hún þó áfram og er líklega algengasta framburðarmynd sagnarinnar enn í dag þótt við tökum sjaldnast eftir henni vegna þess hve hljóðskynjun okkar er mótuð af stafsetningunni.

En einmitt vegna áhrifa stafsetningarinnar er lítill vafi á því að í huga okkar er sögnin ætla með æ þrátt fyrir að við berum hana iðulega fram með a – við teljum okkur sem sé vera að segja ætla þótt við segjum í raun atla. Slíkra áhrifa gætti aftur á móti mun síður eða ekki fyrir daga samræmdrar stafsetningar og þess vegna er engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að í huga þeirra sem heyrðu atla fyrr á öldum hafi sögnin verið með a en ekki æ. En sögn með a í stofni fær ö í þess stað þegar beygingarending hefst á sérhljóði (u-hljóðvarp), eins og (ég) afla – (við) öflum, og sama gerðist með ætla eins og kemur fram hjá Birni Karel Þórólfssyni í áðurnefndri bók: „Hinar nýju myndir með a, (ö) koma oft fyrir á 16. öld: eg atlade […]; þeir øtludu […].“

Það er því ekki um það að ræða að ætlum breytist beinlínis í ötlum, heldur breytist grunnmyndin ætla í atla og fyrsta persóna fleirtölu er svo búin til með almennum reglum út frá þeirri mynd, og verður (við) ötlum. Þessi mynd heyrist eitthvað enn í töluðu máli en þó sennilega mun sjaldar en fyrir nokkrum áratugum. Tvíhljóðið æ einhljóðast samt ekkert síður en áður, og ekkert síður í ætlum en í öðrum myndum sagnarinnar, en vegna þess að í huga flestra er sögnin væntanlega með æ en ekki a þrátt fyrir framburð með a verður ekkert u-hljóðvarp og við fáum (við) atlum frekar en ötlum. Hugsanlegt er þó að ötlum komi meira fyrir í máli barna sem stafsetning hefur enn ekki haft áhrif á, en um það er ekkert hægt að segja með vissu.

Málefnalegar kröfur um íslenskukunnáttu

Í „Bítinu“ á Bylgjunni í morgun var viðtal við Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra um ýmis verkefni ráðuneytis hans. Fyrirsögn upptöku af viðtalinu á vef Vísis er „Ætlar að vinda ofan af dellunni á leigubílamarkaði“ en á vefnum birtist einnig frétt unnin upp úr viðtalinu með fyrirsögninni „Ráðherra vill að leigubílsstjórar tali íslensku“. Vissulega lagði ráðherrann áherslu á þetta en tæpast er þó hægt að segja að það hafi verið aðalatriði viðtalsins sem fjallaði að verulegu leyti um innviðauppbyggingu og nýtt frumvarp ráðherra um leigubifreiðaakstur, þar sem íslenskukunnátta er reyndar ekki nefnd. En væntanlega er fyrirsögnin valin vegna þess að hún vekur athygli á viðkvæmu máli sem vitað er að skiptar skoðanir eru um.

Vitanlega geta oft verið málefnalegar ástæður fyrir kröfum um íslenskukunnáttu í ýmiss konar afgreiðslu- og þjónustustörfum – þar á meðal leigubílaakstri þótt ég sjái svo sem ekki að þörf fyrir íslenskukunnáttu sé meiri þar en á ýmsum öðrum sviðum þar sem ekkert hefur verið minnst á tungumálakröfur. En það væri t.d. ómálefnalegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu til að gangast undir meirapróf vegna þess að það próf veitir réttindi til ýmiss konar annars aksturs en með farþega. Í Reglugerð um ökuskírteini nr. 830/211 segir hins vegar í 16. grein: „Verklegt próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni skal fara fram á íslensku.“ Það kann að vera að þessu hafi ekki verið framfylgt frekar en ýmsum öðrum reglum, en eðlilegt er að gera það.

Ráðherrann segir: „Ég óska engum þess að búa á Íslandi án þess að tala íslensku. […] Það er grundvallaratriði að tala tungumálið sem talað er í því ríki sem þú býrð í. […] Þú lendir alltaf úti á hliðarlínunni og ert ekki fullur þátttakandi í því samfélagi sem þú ert í.“ Undir þetta má sannarlega taka – það er mjög mikilvægt að sem flest af því fólki sem hér býr skilji og tali íslensku. Það er mikilvægt fyrir fólkið sjálft, fyrir Íslendinga, fyrir samfélagið, og fyrir íslenskuna. En eitt er að telja íslenskukunnáttu æskilega og mikilvæga og annað að gera um hana ófrávíkjanlegar kröfur, og það er grundvallaratriði að skortur á íslenskukunnáttu sé ekki notaður sem yfirskin til að bægja burt fólki sem þykir óæskilegt af einhverjum öðrum ástæðum.

Þetta er ekki sagt að ástæðulausu. Inn í umræður um kröfur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra blandast nefnilega iðulega óskyld atriði – í viðtalinu við innviðaráðherra í morgun var t.d. vísað í fréttir um að kaffihúsi leigubílstjóra í eigu Isavia á Keflavíkurflugvelli hefði verið „breytt í bænahús“. Þegar Birgir Þórarinsson hugðist leggja fram frumvarp um íslenskukunnáttu leigubílstjóra í fyrra sagði Morgunblaðið frá fjölmörgum kvörtunum um erlenda leigubílstjóra: „Hafa þær lotið að því að margir hverjir rati ekki um svæðin sem þeir aka um, [og] gjaldtaka hafi verið óheyrileg.“ Vitanlega kemur þetta íslenskukunnáttu ekkert við. Það er ekkert að því að gera kröfur um íslenskukunnáttu, en þær mega ekki byggjast á ómálefnalegum ástæðum.

Hvað ertu að fara (með)?

Í „Málspjalli“ var í gær spurt út í orð atvinnuvegaráðherra um auglýsingaherferð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi – „Ég skil ekki hvert þau eru að fara“. Fyrirspyrjandi sagðist hafa vanist því að þegar spurt væri um skilning eða ætlun væri notað hvað en ekki hvert hvað ertu að fara (með þessu)? Það er alveg rétt að notkun myndarinnar hvert í þessu sambandi, hvert ertu að fara?, vísar oftast til stefnu eða áfangastaðar frekar en skilnings eða ætlunar, og ég geri þann greinarmun í mínu máli. Það er þó algengt, a.m.k. í seinni tíð, að nota hvert einnig í fyrrnefndu merkingunni og merkingarmunurinn er svo sem ekki mikill þegar að er gáð – spurning um skilning eða ætlun vísar oftast til stefnu eða áfangastaðar líka, bara í óeiginlegri merkingu.

Í Pressunni 1994 segir: „En hvert ertu að fara með þessum bréfum þínum?“ Í Fjölni 1997 segir: „Hvert ertu að fara með þessu?“ Í Skírni 2000 segir: „En hvert ertu að fara með þessum spurningum?“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Hvert ertu að fara með þessari bók?“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Hvert ertu að fara með plötunni?“ Í Akureyri 2012 segir: „Hvert ertu að fara með bókinni?“ Í Kjarnanum 2014 segir: „hvert ertu að fara með það?“ (verkefnið). Þarna er í flestum tilvikum augljóst að verið er að spyrja um stefnu eða áfangastað, þótt í óeiginlegri merkingu sé. Sumum kann að finnast æskilegt að halda í greinarmun á hvað og hvert í þessu sambandi, en það er engin leið að segja að hvert ertu að fara? sé rangt þarna.

En þegar ég var að skoða þetta rakst ég á allmörg dæmi um orðasambandið hvað ertu að fara með? sem komu mér spánskt fyrir sjónir. Í Verðandi 1881 segir: „„Mjer getur aldrei þótt vænt um neinn mann, nema Jón, og fái jeg hann ekki, þá giftist jeg aldrei“. – „Hvað ertu að fara með telpa, heldurðu að manni þurfi að þykja svo fjarska vænt hvoru um annað, þó að maður giftist.““ Í Iðunni 1884 segir: „„Guði sje lof; nú erum við hólpnar“, mælti Ebba; „það er maður undir rúminu inni.“ – „Hvað ertu að fara með?““ Í Ísafold 1889 segir: „„Það er hann John Gaston og enginn annar!“ – „Ada ! Hvað ertu að fara með, barn?““ Í Draupni 1905 segir: „„Ef þessi ættartala er rétt á hlið Bjargar“, sagði séra Eiríkur. – „Rétt! Hvað ertu að fara með, maður?““

Það er ljóst að merkingin í hvað ertu að fara með? í þessum dæmum er 'hvað áttu við?', 'hvað meinarðu?'. Orðasambandið í þessari merkingu virðist hverfa að mestu úr málinu snemma á tuttugustu öld en dæmi finnast í vesturíslensku blöðunum langt fram eftir öldinni. Yngsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Dalalífi Guðrúnar frá Lundi frá því um 1950: „„Verður hún ekki áfram, þessi kalda þarna, hvað hún heitir, dóttir hans séra Helga?“ spurði hann lágt. – „Hallgrímur!“ sagði Sigga, aldeilis orðlaus af undrun. „Hvað ertu að fara með?““ Guðrún frá Lundi var fædd 1887 og var því á máltökuskeiði í lok nítjándu aldar og trúlegt er að yngra fólk hafi ekki tileinkað sér sambandið hvað ertu að fara með í þessari merkingu.

Styttri gerð sambandsins – nútímagerðin, án með – er nefnilega komin til þegar um aldamótin 1900. Í Austra 1899 segir: „„Ertu þá svo steinblindur að sjá ekki hvert hugur hans stefnir í kvöld.“ – „Hann Einar! Hvað ertu að fara.““ Í Þjóðólfi 1901 segir: „Reyndar veit eg, að margir munu þjóta upp til handa og fóta og segja: „Hvað ertu að fara maður, veiztu ekki að við erum einhver menntaðasta þjóð í heiminum.““ Í Þjóðhvelli 1907 segir: „Hvað ertu að fara maður – eg botna hreint ekkert í þessu sem þú ert að segja.“ Frá þessum tíma má reyndar einnig finna fáein dæmi um að hvað sé notað um stefnu eða áfangastað í bókstaflegri merkingu. Í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar 1907 segir t.d.: „„Hvað ertu að fara?“ – „Hingað.““

Í sambandinu hvað ertu að fara? skiljum við hvað sem atviksorð, eins og hvert í hvert ertu að fara?, enda tekur sögnin fara ekki með sér fallorð. En ég sé ekki betur en að í eldri gerðinni, hvað ertu að fara með?, sé óhjákvæmilegt að túlka hvað sem spurnarfornafn í þolfalli sem stjórnist af forsetningunni með – þetta merki sem sé 'með hvað ertu að fara?' og hvað vísi þá til þess sem sagt var. Þannig væri hvað ertu að fara með? alveg hliðstætt við t.d. hvað ertu að fara í? (= í hvað ertu að fara?) um föt. En vegna þess að forsetningin og fallorðið stóðu ekki saman hefur tilvísun fornafnsins hvað orðið óljós í huga málnotenda, forsetningin með hefur því fallið brott, og það hefur leitt til þess að hvað er nú skilið sem atviksorð í stað fornafns áður.

Vegna náinna tengsla hvert og hvað er ekki skrítið að mörkin milli umræddra sambanda hafi dofnað. Merkingin í hvað ertu að fara? hefur líka breyst dálítið – í eldri dæmunum virðist hún alltaf vera sú sama og í hvað ertu að fara með?, þ.e. 'hvað áttu við?', 'hvað meinarðu?', en er í seinni tíð iðulega fremur 'hvert stefnirðu?' – þar er vitanlega stutt á milli. Í Morgunblaðinu 1994 er listamaður spurður: „Hvað ertu að fara með þessu?“ Í DV 2000 segir: „Hvað ertu að fara með þessari bók?“ En skýringin á þeim mun sem oft er gerður í nútímamáli á hvað ertu að fara? og hvert ertu að fara? liggur sem sé í því að þessi sambönd eiga sér ólíkan uppruna – hvert hefur aldrei verið annað en atviksorð þarna en hvað var upphaflega fornafn.

Að slaufa – eða útskúfa, afskrifa, hunsa . . .

Á Facebook-síðu Karenar Kjartansdóttur var í gær umræða um sögnina slaufa og nafnorðið slaufun sem nýlega hafa verið tekin upp sem þýðing á cancel í ensku. Enska sögnin merkir yfirleitt 'hætta við' (cancel a game), 'fella niður' (cancel a performance) eða eitthvað slíkt, en hefur í seinni tíð einnig fengið merkinguna 'to completely reject and stop supporting someone, especially because they have said something that offends you', þ.e. 'að hafna einhverjum algerlega og hætta að styðja þau, einkum vegna þess að þau hafa sagt eitthvað sem móðgar þig'. Það er þessi síðasta merking – sem merkt er „informal“ í  Cambridge-orðabókinni og varð áberandi upp úr #MeToo-hreyfingunni 2017 – sem hefur verið þýdd með slaufa.

Sögnin slaufa er tökuorð, komin af sløjfe í dönsku sem aftur er komið úr schleifen í þýsku. Hún er merkt „óformlegt“ í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð 'hætta við (e-ð), sleppa (e-u)' sem rímar ágætlega við aðalmerkingar cancel í ensku – notkunardæmið er hann slaufaði tveimur prófum. Sögnin fellur ekki fullkomlega að íslensku hljóðkerfi (frekar en samhljóma nafnorð) vegna þess að í henni er borið fram óraddað f en ekki raddað v eins og venjulega milli sérhljóða (sbr. gaufa, daufur, laufið o.s.frv.). Sögnin virðist hafa komið inn í málið snemma á tuttugustu öld – elsta dæmi sem ég finn um hana er í Alþýðublaðinu 1921: „Það er annars skrítið, að slík nefnd sem þessi skuli ekki leggja það til, að slaufað verði konungdómnum.“

En ekki leið á löngu frá því að cancel fékk áðurnefnda nýmerkingu í ensku þar til var farið að nota sögnina slaufa yfir samsvarandi merkingu í íslensku. Í frétt á vef Ríkisútvarpsins 2020 segir: „henni hefur verið slaufað (e. cancelled) oftar en einu sinni“. Þetta sýnir að þýðingin slaufa er komin í notkun en enska samsvörunin innan sviga sýnir jafnframt að ástæða þykir til að skýra hvað við er átt. Þótt merkingarbreytingin í þessari nýju notkun sagnarinnar sé kannski ekki mikil felst umtalsverð breyting í því að andlag hennar er nú fólk í stað atburða eða hluta – talað er um að slaufa honum/henni í stað slaufa því/þessu. Einnig varð til nafnorðið slaufun sem ekki er að finna í neinum orðabókum og tengist eingöngu hinni nýju merkingu sagnarinnar.

Sögnin slaufa stýrir þágufalli á andlagi sínu – slaufa einhverjum. Þágufall helst venjulega þótt andlagið sé gert að frumlagi í þolmynd, og þannig er það líka oft með slaufa – „Frosta var slaufað í kjölfar viðtals Eddu Falak við fyrrverandi kærustu Frosta“ segir á mbl.is 2023, „Simmi spyr hvort samfélagið sé betra nú eftir að Sölva var slaufað“ segir í DV 2023. En einnig eru dæmi um nefnifall – „Hún er óhrædd við að tjá skoðanir sínar og hefur oft verið slaufuð“ segir á mbl.is 2022, „tíður gestur í Silfrinu hans Egils, en slaufaður af tveimur ástæðum“ segir í Fréttablaðinu 2021. Það má líta svo á að eingöngu sé um þolmynd að ræða þegar þágufallið helst, en sé nefnifall notað sýni það að slaufaður sé þar lýsingarorð eins og mörg dæmi eru um.

Svo má deila um hvort slaufa sé heppilegt orð um það sem um er að ræða og í umræðu voru nefndar ýmsar sagnir (og nafnorð leidd af þeim) sem nota mætti í staðinn, eins og útskúfa, útiloka, afneita, afskrifa o.fl. En þetta er viðkvæmt efni því að það tengist skoðun fólks á athæfinu – hvað felist í því og hversu alvarlegum augum það er litið. Sjálfum finnst mér sögnin hunsa sem skýrð er 'skeyta ekki um, líta framhjá (e-u/e-m)' í Íslenskri nútímamálsorðabók ná nokkuð vel þeirri merkingu sem ég legg í hugtakið. Sú sögn getur tekið bæði fólk og atburði eða hluti sem andlag. En líklega er slaufa orðin föst í þessu hlutverki og tilgangslaust – og svo sem ástæðulaust – að amast við henni eða reyna að finna eitthvað í staðinn.

Meira um vænskilegt

Fyrir skömmu skrifaði ég hér um tökuorðið vanski(l)legur og nefndi einnig myndina vænskilegur sem er hvergi að finna í orðabókum og aðeins eitt dæmi er um í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans – úr Eimreiðinni 1911 þar sem segir: „„Mig hefir lengi langað til að skrifa um hestsins exteriör“, sagði hann, „en það er so vænskilegt, af því að það eru so fá úðtrukk til á íslenzku“.“ Þetta er úr kaflanum „Óþörf orð“ í grein eftir Guðmund Björnsson sem heitir „Um ný orð“. Þarna er vænskilegt greinilega notað í merkingunni 'erfitt' eins og vanskelig í dönsku. En í flestum öðrum dæmum á tímarit.is gæti merkingin verið 'varasamt' og oft er ótvírætt að svo er. Flest virðast tengjast Norðurlandi en þó er ekki hægt að fullyrða það um tvö þeirra.

Elsta dæmið er í Vikunni 1940 þar sem segir: „Einnig þótti þeim stofan á bænum vænskileg til þess að taka þar á sig náðir.“ Þetta er úr grein sem heitir „Þegar ég kom til útilegumanna“ og skýrir titillinn hvers vegna stofan var vænskileg. Greinin er eftir Einar Guðmundsson sem ég veit ekki hvaðan var. Í Lesbók Morgunblaðsins 1968 er haft eftir viðmælanda: „Svo er það nú þannig með ykkur þessa blaðamenn, að þið eruð vænskilegir gripir. Getið átt til að umturna öllu og færa til verri vegar, færa það, sem ykkur er sagt í form, sem ekki tilheyrir.“ Þetta er haft eftir manni á Þingeyri en þótt það sé sett fram sem bein tilvitnun er vissulega er ekki útilokað að orðalagið sé komið frá blaðamanninum, Sveini Kristinssyni, sem var Skagfirðingur.

Í Verkamanninum sem gefinn var út á Akureyri segir 1944: „kannske ástæðan sé sú, að höfundur bókarinnar, hver svo sem hún er, teljist vænskilegur í augum húsbændanna, hvað hollnustu áhrærir.“ Samhengið bendir ákveðið til þess að merkingin í vænskilegur sé þarna 'varasamur'. Höfundur gæti verið ritstjórinn, Jakob Árnason. Tvö dæmi um orðið eru komin frá Rósberg G. Snædal rithöfundi sem var Húnvetningur að uppruna. Í Þjóðviljanum 1970 segir: „sum orð eru svolítið vænskileg og ofnotkun þeirra getur  hæglega leitt til þess, að við hættum jafnvel að taka eftir raunverulegri merkingu þeirra.“ Í Húnavöku 2019 segir: „Þar er áin breið og ekki djúp en flúðir eru þar miklar örskammt neðar og vaðið því vænskilegt ef eitthvað ber útaf.“

Enn eitt dæmi af þessu tagi er í fyrirsögn greinar eftir Akureyringinn Kristin G. Jóhannsson í Degi 1992: „Um vorið á þorranum og vænskileg áhrif óhefts sólarljóss á konur“. Í greininni segir m.a.: „En nú líður að konudegi […]. Hann er einkar varasamur núna.“ Samhengið sýnir að ástæðan eru vænskileg áhrif sem nefnd eru í fyrirsögn – vænskileg og varasöm er það sama. Eitt norðlenskt dæmi til viðbótar, í Feyki 1982, er þó annars eðlis – þar segir: „Hausaflutningur frá sláturhúsum er ekki vænskilegur og ætti enginn að flytja upp í sveit nema hausa af sínum lömbum.“ Það er ljóst að merkingin 'varasamur' á ekki við þarna (og ekki heldur 'erfiður') og líklegast virðist að þetta sé einhvers konar samsláttur af orðunum vænlegur og æskilegur.

Nokkur þeirra sem tóku þátt í umræðu um fyrri pistil minn um málið – nær öll af Norðurlandi – könnuðust við myndina vænskilegt í merkingunni 'varasamt'. Það gladdi mig því að það sýndi að ég mundi það rétt að þetta orð hefði verið notað í mínu málumhverfi í æsku minni og hver merking þess hefði verið. Væntanlega á það uppruna sinn í vanskelig þótt bæði rótarsérhljóðið og merkingin hafi hnikast til en tökuorð eru oft óstöðug í framburði og merkingu vegna þess að þau hafa ekki stuðning af öðrum skyldum orðum. Það er lítill framburðarmunur á a og æ í þessari stöðu og bæði merkingin 'erfitt' og 'varasamt' gæti oft átt við. Breytingarnar í  vænskilegt eru því hvorki óvæntar né óskiljanlegar. Þetta orð þarf að komast í orðabækur.

Þungarokk, bárujárnsrokk, gaddavírsrokk, graðhestarokk

Mér var bent á orðið metalmúsík í fyrirsögn í Morgunblaðinu í dag: „Íslenskur kór syngur metalmúsík í fyrsta sinn.“ Orðið er tekið úr viðtali við tónlistarmann sem birt er í fréttinni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það sést á prenti – „Mig langaði alltaf að gera hljómsveit sem væri með annan fótinn í metalmúsík“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2017 og örfá önnur dæmi má finna á netinu. Í frétt Morgunblaðsins í dag er líka sagt að það sé „svolítill sinfónískur metall í prógramminu“ Í kynningu á tónleikunum á vef tix.is segir enn fremur: „Einnig verða flutt lög sem Rokkkórinn hefur sungið í gegnum árin í bland við vel valin sinfóníu metal lög“ og „Í raun er þetta í fyrsta sinn í kór sögu Íslands að kór heldur metal tónleika.“

Sú tónlistarstefna sem kennd er við metal eða heavy metal á uppruna sinn í Bretlandi og Bandaríkjunum undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar og blómstraði á þeim áttunda. Ekki leið á löngu uns farið var að þýða heiti stefnunnar á íslensku – elsta dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1973: „Þá er það í mestu stuði til að dansa og syngja við fjörugan hljóðfæraleik, en ekki sitja allt kvöldið undir leik einhverrar niðurdrepandi þungarokksframúrstefnuhljómsveitar.“ Orðið þungarokk kom sem sé mjög fljótlega fram og er skilgreint í Slangurorðabókinni frá 1983 sem 'þróttmikið, taktfast rokk […] einkum um kraftmikið afbrigði rokktónlistar á áttunda áratugnum'. Þar er einnig gefið afbrigðið þungavigtarrokk en ég hef ekki fundið dæmi um það.

En fleiri íslenskar þýðingar eða samsvaranir eru nefndar í Slangurorðabókinni. Ein þeirra er bárujárnsrokk þar sem fyrri hlutinn vísar augljóslega til (heavy) metal – „þátturinn […] spannar allt frá sætu súkkulaðidiskói til grjótharðasta bárujárnsrokks“ segir í Dagblaðinu 1981. Annað orð var gaddavírsrokk sem vísar væntanlega til þess að tónlistin rífi í og gæti verið myndað með hliðsjón af pigtrådsmusik í dönsku þótt það orð hafi reyndar vísað til aðeins eldri tónlistar – „Tónlistin var að meginuppstöðu dæmigert gaddavírsrokk, söngurinn óheflaður“ segir í Morgunblaðinu 1975. Þriðja orðið var graðhestarokk sem vísar væntanlega til kynferðislegra undirtóna í tónlistinni – „hlið tvö er stanslaust graðhestarokk“ segir í Vísi 1976.

Öll þessi orð – þungarokk, bárujárnsrokk, gaddavírsrokk og graðhestarokk ­– eru flettiorð í Slangurorðabókinni. Ekki er gott að átta sig á því hvort orðin eru alltaf notuð í alveg sömu merkingu en svo virðist þó vera. Í Morgunblaðinu 1981 segir: „Einnig drepur þú á það að þunga rokkið (Graðhestarokkið) sé orðið vinsælt aftur.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1986 segir: „Kaupahéðnar rokkiðnaðarins með alla sína fáránlegu síbylju, gaddavírsrokk, bárujárnsrokk og þungarokk, reyna auðvitað að koma myndböndunum sínum á framfæri.“ Í lesendabréfi í Morgunblaðinu skömmu síðar er vísað í þetta og sagt að höfundur „virðist ekki gera sér grein fyrir því að þetta eru bara þrjú mismunandi nöfn á sama fyrirbærinu“.

Ekkert þessara orða er flettiorð í Íslenskri orðabók og aðeins þungarokk í Íslenskri nútímamálsorðabók, en þúsundir dæma um þungarokk eru á tímarit.is og í Risamálheildinni og slæðingur dæma um hin. Fjölmörg orð hafa bæst við á seinni árum um ýmsar undirstefnur þessarar tónlistar – það langútbreiddasta er dauðarokk sem fyrst kom fyrir í grein Árna Matthíassonar í Morgunblaðinu 1990. Önnur orð eru t.d. svartþungarokk, dómsdagsrokk, víkingarokk, þjóðlagaþungarokk, öfgarokk, glysrokk, sjóræningjarokk o.fl. Það er því ljóst að mikil gróska er í nýyrðasmíð innan þessa geira og vandalaust hefði átt að vera að finna viðeigandi íslenskt orð til að nota í frétt Morgunblaðsins sem vísað var til í upphafi.

Vanskilegt, vanskillegt, vænskilegt

Í rúmlega hundrað ára gömlu sendibréfi sem ég var að lesa um daginn kom fyrir orðið vanskilegt – „Annars er mjög vanskilegt að ná fólki saman til að hlusta á fyrirlestra“. Ég kannaðist svo sem við þetta orð þótt ég hafi ekki rekist á það lengi enda er það mjög sjaldgæft – aðeins 23 dæmi á tímarit.is, þar af aðeins þrjú frá síðasta aldarfjórðungi og öll úr gömlum textum. Í Risamálheildinni eru tvö dæmi til viðbótar. Orðið er ekki í Íslenskri nútímamálsorðabók en í Íslenskri orðabók er það skýrt 'vandgæfur, vandmeðfarinn, sem erfitt er að gera til hæfis' (um mann) og 'brigðull, ótraustur'. Í Íslenskri orðsifjabók er orðið sagt 19. aldar tökuorð úr vanskelig í dönsku og merkja nokkurn veginn það sama – 'erfiður, vandgæfur, brigðull'.

En á tímarit.is er einnig að finna fjögur dæmi um myndina vanskillegur, með tveimur l-um, og þá mynd er einnig að finna í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 auk þess sem hún er gefin til hliðar við vanskilegur í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar þar sem hún er greind van|skil|legur. Sú greining bendir til þess að orðið hafi ekki alltaf verið skilið sem íslenskun á vanskelig, heldur einnig sem íslensk orðmyndun af nafnorðinu vanskil með viðskeytinu -legur, og stafsetning með tveimur l-um gæti bent til hins sama þótt erfitt sé að fullyrða um það vegna þess að ritháttur var mjög á reiki fyrir daga samræmdrar stafsetningar. En e.t.v. hefur fólk tengt þetta orðum eins og vanskilamaður – merkingin 'brigðull, ótraustur' gæti bent til þess.

Í grein um Kristrúnu í Hamravík eftir Guðmund G. Hagalín í Lesbók Morgunblaðsins 1971 telur Matthías Johannessen vanskilegur upp í hópi orða sem „eiga sér öll danskar fyrirmyndir, en sú merking, sem þau hafa í sögunni, er allt önnur en samsvarandi myndir þeirra hafa í dönsku. Hef ég reynt að finna skýringar á merkingarbreytingum þessara erlendu orða í íslenzku með samanburði við nágrannatungur okkar, en ekki komizt að neinni ákveðinni niðurstöðu í þeim efnum.“ Meðal dæma sem hann tekur um þetta er „Hún, breysk og vanskilleg manneskjan“ og segir: „Danska fyrirmynd þessa orðs er vanskelig (= erfiður), og er merkingarmunurinn augljós.“ Væntanlega á hann við að vanskilleg merki þarna 'brigðul' eða eitthvað slíkt.

En mig rámaði í að ég hefði líka heyrt myndina vænskilegur, með æ í stað a. Þá mynd finn ég ekki í orðabókum en átta dæmi eru um hana á tímarit.is. Mér finnst ég þekkja þessa mynd í merkingunni 'varasamur‘ og a.m.k. sum dæmanna styðja þann skilning. Í Vikunni 1940 segir t.d.: „Einnig þótti þeim stofan á bænum vænskileg til þess að taka þar á sig náðir.“ Í Þjóðviljanum 1970 segir: „sum orð eru svolítið vænskileg og ofnotkun þeirra getur  hæglega leitt til þess, að við hættum jafnvel að taka eftir raunverulegri merkingu þeirra.“ Í Húnavöku 2019 segir: „Þar er áin breið og ekki djúp en flúðir eru þar miklar örskammt neðar og vaðið því vænskilegt ef eitthvað ber útaf.“ En auðvitað er ekki langt á milli 'varasamur' og 'brigðull'.

Hvað sem þessu líður, og hvort sem líta ber á vænskilegur, vanskilegur og vanskillegur sem sama orðið, er ljóst að síðastnefnda myndin er mun eldri í málinu en frá 19. öld, a.m.k. frá fyrsta hluta 18. aldar – „original af so gamalle þyngbók er vanskillegt ad fá“ segir í bréfi Árna Magnússonar frá 1728. Þar og í fleiri 18. aldar dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans virðist ljóst að merkingin er 'erfiður' eins og í dönsku, en önnur náskyld merkingartilbrigði hafa sennilega þróast síðar. Vel má vera að mismunandi myndir hafi fengið eitthvað mismunandi merkingu, en dæmin eru of fá til að hægt sé að fullyrða nokkuð um það, auk þess sem samhengið sker oft ekki úr um nákvæma merkingu vegna þess hve merking tilbrigðanna er skyld.

Morguns-ár eða morgun-sár?

Framburður orðsins morgunsár var efni nýlegs innleggs í „Málspjalli“. Höfundur innleggsins sagðist nýlega hafa heyrt það borið fram bæði morgun-sár og morguns-ár og hugnaðist síðarnefndi framburðurinn mun betur. Væntanlega er þar vísað til þess að sá framburður endurspegli betur uppruna orðsins því að venjulega er talið að seinni hluti þess sé fremur ár en sár. Hins vegar skiptir uppruninn engu máli fyrir framburðinn – í eðlilegu samfelldu tali væri orðið borið fram á nákvæmlega sama hátt hvor sem uppruninn væri. Vissulega er hægt að gera mun á framburði eftir því hvar meginskilin í orðinu eru talin vera, en það verður aðeins gert með því að slíta orðið dálítið í sundur og það er ekki venjulegur framburður.

En reyndar er sá skilningur að seinni hluti orðsins sé sár og samsetningin því morgun-sár algengur og útbreiddur – og eðlilegur. Gísli Jónsson sagði t.d. í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1986: „En einhvern veginn finnst mér að ekki megi alveg útiloka hugtakið sár í þessu tilfelli. Það virðist kannske fjarstæðukennt í fyrstu að hugsa sér morgunsár. Að vísu telst það venjulega fremur ánægjuefni, þegar grisja tekur í næturhúmið, en er samt ekki um eins konar sár að ræða, þegar það er rofið af morgunbirtunni í austri.“ Þessi skilningur kemur fram í heiti ljóðabókarinnar Það blæðir úr morgunsárinu eftir Jónas Svafár frá 1952, þótt það þurfi ekki að þýða að skáldið hafi skilið orðið á þennan veg – eins víst er að um orðaleik sé að ræða.

Í grein á Vísindavefnum segir að elstu dæmi Ritmálssafns Orðabókar Háskólans um orðið morgunsár séu úr Hómersþýðingum Sveinbjarnar Egilssonar frá því um miðja nítjándu öld –  orðið sé „í raun samsett úr orðunum morgunn og atviksorðinu ár í merkingunni 'árla, snemma'“ og hugsanlegt sé „að hvorugkynið sé orðið til við þann misskilning að orðið sé sett saman úr morgunn og sár.“  En reyndar kemur orðið fyrir þegar í fornu máli, í biblíuþýðingunni Stjórn frá þrettándu öld – vissulega ritað í tvennu lagi en það skiptir ekki máli: „Að morgins ári skylduðu englarnir Lot út að ganga.“ Einnig kemur það fyrir í Hjálmþérs sögu og Ölvis frá sautjándu öld: „Hann vakir, sem hann var vanr; utan í móti morgunsári rann á hann svefnhöfgi.“

Það er líka ástæðulaust að ætla að seinni hluti orðsins sé atviksorðið ár en hvorugkyn orðsins megi rekja til þess skilnings að seinni hlutinn sé nafnorðið sár. Hvorugkynsorðið ár í merkingunni 'tíminn í öndverðu, mjög snemma' var nefnilega til í málinu en er merkt „fornt/úrelt“ í Íslenskri orðabók. Sambandið um morguninn í ár kemur fyrir nokkrum sinnum í fornu máli. Í Hrólfs sögu Gautrekssonar segir t.d.: „Um morguninn þegar í ár býr konungur lið sitt og fer þegar til borgarinnar.“ Í Rémundar sögu keisarasonar segir: „konungsson vaknar um morguninn í ár.“ Það er því varla nokkur vafi á að orðið er myndað af karlkynsorðinu morgunn og hvorugkynsorðinu ár – þótt skilningurinn morgun-sár sé eiginlega mun skemmtilegri.