Posted on

Leiðrétting á fullyrðingum um leiðréttingar

Ég veit ekki hversu oft ég hef séð því haldið fram – síðast í a.m.k. tveimur athugasemdum í „Málspjalli“ í gær – að ég telji að ekki megi leiðrétta málfar barna. Og ég veit ekki hversu oft ég hef andmælt þessu enda er það beinlínis rangt – ég hef aldrei haldið neinu slíku fram. Þvert á móti – ég hef oft sagt að það sé eðlilegt og sjálfsagt að foreldrar leiðrétti málfar barna sinna á máltökuskeiði og leiðbeini þeim um málfar. Það er bara hluti af almennu uppeldi. Hitt er annað mál að rannsóknir benda til þess að beinar leiðréttingar („Þú átt að segja mig langar en ekki mér langar“) skili oft litlu og áhrifaríkara sé að endurtaka það sem börnin segja með breyttu orðalagi. Langsamlega áhrifaríkast er samt að hafa gott mál fyrir þeim – tala við þau og lesa fyrir þau.

Börn eru oft mjög afdráttarlaus í tvíhyggju, í því að eitt sé rétt en annað rangt – ekki í tungumálinu sérstaklega heldur í fjölmörgu í umhverfi sínu, svo sem siðum, venjum og skoðunum. En rétt eins og það er sjálfsagt að foreldrar ali börn sín upp við það sem þau telja gott og vandað mál er líka sjálfsagt að ala börnin upp við víðsýni, tillitssemi og virðingu fyrir öðru fólki og skoðunum þess, siðum og venjum – þar á meðal í málfari. Þetta er ekkert flókið. Því er stundum haldið fram að það sé ómögulegt að kenna íslensku ef allt sé leyfilegt í máli. En í fyrsta lagi dettur engum í hug að segja að „allt“ sé leyfilegt, og í öðru lagi ráða börnin ágætlega við þetta, ef þau eru alin upp við að tilbrigði í máli séu eðlileg og við séum ekki öll eins.

En þótt leiðréttingar foreldra á málfari barna sinna séu eðlilegar gildir ekki það sama um allar málfarsleiðréttingar. Opinberar athugasemdir við málfar nafngreinds ókunnugs fullorðins fólks sem ekki hefur atvinnu af tungumálinu eiga ekki að þekkjast. Þarna eru nokkrar breytur og mér finnst athugasemdir þeim mun alvarlegri sem fleiri af þeim eiga við. Það er t.d. alvarlegra að gera athugasemdir við málnotkun almennra málnotenda en fjölmiðlafólks, það er alvarlegra að gera athugasemdir á opinberum vettvangi en í einkasamtali, það er alvarlegra að gera athugasemdir við málfar ókunnugra en málfar fólks sem maður þekkir, það er alvarlegra að gera athugasemdir við málfar nafngreinds fólks en ónafngreinds (t.d. í fjölmiðlum).

Auðvitað eru svo ýmsar aðstæður þar sem athugasemdir og leiðbeiningar – en ekki endilega leiðréttingar – eiga við. Það er t.d. sjálfsagt að kennarar bendi nemendum á hvað er „viðurkennt“ mál – en láti nemendurna síðan um það hvort þeir kjósa að breyta máli sínu til samræmis við það, í stað þess að leiðrétta þá. Það er auðvitað líka sjálfsagt að prófarkalesarar bendi á frávik frá „viðurkenndu“ máli en eðlileg viðbrögð fara eftir eðli textans. Ef um er að ræða texta í fjölmiðli, skrifaðan af starfsfólki miðilsins, er ekki óeðlilegt að prófarkalesari breyti honum í samræmi við reglur miðilsins. Ef um er að ræða bókmenntatexta er hins vegar eðlilegt að prófarkalesari láti nægja að benda á frávikið en láti höfund ráða hvort hann breytir textanum.

Posted on

Um málfarsgrín í áramótaskaupi

Einhver ykkar hafa skilið afsökunarbeiðni sem ég setti inn í „Málspjall“ í gærmorgun þannig að ég væri að biðjast afsökunar á upphaflegum pistli frá því á nýársdag um málfarsfordóma í áramótaskaupinu. Svo er alls ekki – ég stend við allt sem segir í þeim pistli. Ég var að biðjast afsökunar á færslu sem ég setti inn, og tók svo út, um frétt um gagnrýni á áramótaskaupið. Einhver hafa skilið mig svo að ég telji að ekki hefði mátt gera grín að menntamálaráðherra yfirleitt – „Ef það má ekki gera grín að menntamálaráðherra og ambögunum sem hann lætur út úr sér, þá getum við auðvitað bara lagt þetta niður“ segir Jakob Bjarnar Grétarsson. En ég hef til dæmis ekkert við það að athuga að grín skyldi gert að ambögum í enskunni hjá ráðherranum.

Ástæðan fyrir því að mér fannst óviðurkvæmilegt að gera grín að málfari menntamálaráðherra er ekki sú að ekki megi gera grín að ráðafólki, heldur sú að það sem gert var grín að hjá honum voru ekki sérkenni á íslensku hans, engar „ambögur“, heldur eðlilegt mál tugþúsunda Íslendinga – mál sem elítan hefur áratugum saman notað til að gera lítið úr fólki og halda því niðri. Grínið beindist því ekki bara að ráðherranum, heldur einnig og ekki síður að öllu því fólki sem hefur mátt þola það að vera hætt og spottað fyrir að tala „rangt mál“ – mál sem það hefur alist upp við og því er eðlilegt. Þau sem aldrei hafa orðið fyrir slíku átta sig kannski ekki á því að það svíður undan þessu, en það var ljóst af umræðum að sum þekkja þetta af eigin raun.

Ég var ekki að krefjast ritskoðunar enda hef ég auðvitað ekkert vald til þess. Ég var bara að segja þá skoðun mína að málfarsfordómar af því tagi sem þarna birtust, og mörgum þykja sjálfsagðir og eðlilegir, séu engu betri en fordómar vegna fötlunar, kynhneigðar, hörundslitar, holdafars o.s.frv. – fordómar sem yfirleitt þykja ekki lengur við hæfi á opinberum vettvangi. Á Facebook og í einkaskilaboðum fæ ég iðulega þakkir frá fólki sem er jaðarsett í tungumálinu af ýmsum ástæðum fyrir að halda málstað þess á lofti. Þess vegna er mér slétt sama þótt ég sé kallaður húmorslaus „gamall skarfur“, talinn „fórnarlamb like-menningar“ sem ástundi dyggðaskreytingu, og vera það sem er skelfilegast af öllu – „woke“. Ég ætla að halda því áfram.

Posted on

Hverfull greinir

Í framhaldi af pistli um þrettánda(nn) fór ég að hugsa um önnur tilvik þar sem greinir er ýmist notaður eða ekki. Í mörgum sérnöfnum, svo sem staða- og fyrirtækjaheitum, er greinirinn fastur hluti af heitinu – Melabúðin, Morgunblað, Skeifan, Forlag, Kaffifélag, Norræna hús o.s.frv. Það er í flestum tilvikum útilokað, eða a.m.k. mjög skrítið, að nota þessi heiti án greinis þegar talað er um þau. Við segjum yfirleitt ekki allt fæst í Melabúð, hann er blaðamaður á Morgunblaði, hún vinnur í Skeifu, Forlag gefur bókina út, ég sat lengi á Kaffifélagi, bókasafnið í Norræna húsi er gott. Auðvitað er hægt að segja þetta allt saman en orðin sem um ræðir eru þá ekki skilin sem sérnöfn heldur samnöfn – og væru þá ekki með stórum staf í rituðu máli.

En þótt greinirinn sé skyldubundinn þarna er það ekki algilt í þessum heitum. Ef þau eru notuð í forsetningarlið, með samböndum sem vísa til áfangastaðar og eru sett saman úr atviksorði sem táknar stefnu, eins og upp/niður/inn/út o.fl., og forsetningu, yfirleitt í eða á, þá er hægt að hafa þau án greinis. Í DV 2011 segir: „Það má stundum sjá mig hlaupa út í Melabúð eftir grilluðum kjúkling.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Um jólin 2002 mætti ungur tónlistarmaður upp á Morgunblað.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Ég tók strætisvagn númer þrjú áleiðis upp í Skeifu.“ Í Kjarnanum 2020 segir: „hann er búinn að vera að mæta niður á Kaffifélag.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „fulltrúar Besta flokksins örkuðu út í Norræna hús.“

Sama máli gegnir þegar heitin eru notuð í forsetningarlið með samböndum sem vísa til dvalarstaðar og eru sett saman úr atviksorði sem táknar staðsetningu, eins og uppi/niðri/inni/úti o.fl., og forsetningu, yfirleitt í eða á. Í Fréttablaðinu 2007 segir: „fólk er farið að stoppa mig úti í Melabúð til þess að skrá sig á námskeið.“ Í Vísi 1981 segir: „Ég tala nú ekki um þegar allt er orðið tölvuvætt eins og er að gerast niðri á Morgunblaði.“ Í Alþýðublaðinu 1990 segir: „Þá ákváðum við að taka sénsinn á að halda eina ólöglega veislu uppi í Skeifu.“ Í Stundinni 2019 segir: „Ég er líka með góða yfirlesara og fyrsta flokks ritstjórn uppi á Forlagi.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „Ég er til dæmis alveg gáttaður á þessu leikriti úti í Norræna húsi.“

Í pistlinum um orðið þrettándinn nefndi ég að þegar verið er að tala um daginn sjálfan verður orðið að hafa greini, t.d. í dag er þrettándinn en ekki *í dag er þrettándi, en ef orðið er aftur á móti notað í forsetningarlið í tímaviðmiðunum er oftast eðlilegra að hafa það án greinis – fram á þrettánda, síðan um þrettánda o.s.frv. Mér finnst þessari verkaskiptingu mynda með og án greinis svipa svolítið til þess sem fjallað er um í þessum pistli. Þegar orðið er notað (oftast í nefnifalli) og verið að tala um staðinn eða fyrirtækið verður greinirinn að vera með, en þegar það er notað í forsetningarlið í vísun til áfangastaðar eða dvalarstaðar er eðlilegt að hafa það án greinis. En ég veit ekki hvort þarna eru einhver tengsl á milli – a.m.k. átta ég mig ekki á þeim.

Posted on

Þrettándinn

Í dag er þrettándinn. Það heiti er eins og flest væntanlega vita stytting á þrettándi dagur jóla en það orðasamband kemur fyrir þegar í fornu máli – í annál frá fyrsta hluta fjórtándu aldar segir t.d.: „Vígður Karl bróðir Louis Frakkakonungs til konungs yfir Sikiley af páfa þrettánda dag jóla.“ Styttingin þrettándi þekkist einnig í fornu máli – í bréfi frá 1461 segir: „de tempore bók frá aðventu og fram yfir þrettánda.“ Árni Björnsson segir í Sögu daganna að styttingin komi fyrst fyrir á prenti í rímtali Guðbrands biskups Þorlákssonar 1576 og bætir við: „Frá 1692 hefur þrettándi án greinis staðið í öllum almanökum.“ Þegar þrettándi stendur án greinis má líta á orðið sem raðtölu og styttingu á þrettándi dagur jóla, í samræmi við uppruna þess.

En öðru máli gegnir ef orðið er með greini, þrettándinn – þá verður að líta á það sem nafnorð. Það virðist ekki vera fyrr en seint á nítjándu öld sem almennt er farið að nota orðið þannig – elsta dæmi sem ég finn um það er í Fjölni 1838: „Að vísu gjörði um þrettándann fádæma hörkur og harðviðri.“ Næsta dæmi er í Norðra 1855: „Veðráttufarið var fyrst eftir nýárið svipað því og fyrir það, en eptir þrettándann blotaði.“ Í Almanaki Hins íslenska þjóðvinafélags 1878 segir: „Þrettándinn var lengi haldinn sem mikill helgidagur“ og „kirkjurnar voru þá allar ljósum prýddar, svo að fyrir þá sök var þrettándinn kallaður ljósa-hátíð“. Upp úr þessu fer dæmum fjölgandi, en myndin þrettándinn verður þó ekki algeng fyrr en á tuttugustu öld.

Auðvitað er samt enn algengt að nota orðið án greinis, einkum þegar það stendur í forsetningarlið í tímaviðmiðunum. Í Fréttatímanum 2011 segir: „Þróunin hafi versnað enda standi sprengingarnar í um vikutíma, frá því að flugeldasala hefst milli jóla og nýárs og fram á þrettánda.“ Í Bæjarblaðinu Jökli 2023 segir: „Kveikt er á ljósum aðventuna og að þrettánda.“ Í Fréttatímanum 2010 segir: „Yfirleitt voru ekki liðnir margir dagar frá þrettánda þegar myndarlegu nágrannarnir klifruðu upp á svalir og þök og fjarlægðu ljósaskreytingarnar.“ Þarna væri líka hægt að nota greini og segja fram á þrettándann, að þrettándanum og frá þrettándanum en það er samt mun algengara og eðlilegra að nota greinislausu myndina.

Þegar orðið er án greinis er hægt að líta á það sem töluorð eins og áður segir, styttingu á lengra orðasambandi, og í sjálfu sér gæti það líka verið stytting á t.d. þrettánda desember, þrettánda janúar o.s.frv. – það er bara samhengið sem sýnir að átt er við þrettándann, 6. janúar. En þegar orðið er með greini verður að líta á það sem nafnorð, og ef verið er að tala um daginn sjálfan en ekki nota hann sem viðmið er hann yfirleitt hafður með greini. Ef við segjum í dag er þrettándi eða þrettándi er skemmtilegur dagur yrði það væntanlega skilið sem sem 'þrettándi dagur mánaðarins og tæplega er hægt að segja *þetta var á þrettánda eða *ég á afmæli á þrettánda – þar verður að hafa orðið með greini, nota nafnorð en ekki töluorð.

Posted on

Þetta hófst að lokum – eða hafðist það?

Í nýrri skáldsögu sem ég var að lesa rakst ég á setningu sem byrjaði á „Einhvern veginn hófst það samt“. Af samhenginu var ljóst að merkingin er þarna 'klárast, takast' eins og miðmyndin hafast er skýrð í Íslenskri nútímamálsorðabók. Venjuleg þátíð hennar er hins vegar ekki hófst heldur hafðist eins og sést á notkunardæminu það gekk erfiðlega að ná skipinu af strandstað en hafðist þó. Myndin hófst er þátíð af miðmyndarsögninni hefjast sem er skýrð 'fara í gang, byrja' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en sú merking átti augljóslega ekki við í umræddu dæmi. Þarna er því tveimur sögnum blandað saman en við nánari athugun kom í ljós að það er ekki einsdæmi og ekki alveg nýtt – stundum er reyndar ekki alveg ljóst hvor merkingin er lögð í sambandið.

Elsta örugga dæmi sem ég fann í fljótu bragði er á Bland.is 2003: „Það hófst að lokum og hann elskaði mjólkina sína.“ Í Bæjarins besta 2005 segir: „Það var dálítið basl að fá grasið á þakinu til þess að vaxa en það hófst á endanum.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þetta var erfið fæðing hjá okkur en þetta hófst að lokum.“ Í Bæjarins besta 2007 segir: „En það hófst að lokum.“ Í blaðinu 2007 segir: „Það tók mig svolítinn tíma að sannfæra hann um að taka þátt í þessu, en það hófst á endanum.“ Í Bjarma 2010 segir: „Það gekk ekki vandræðalaust að raða hópnum í tvo báta og leggja af stað, en það hófst að lokum.“ Í Víkurfréttum 2011 segir: „En þetta hófst að lokum.“ Í Fréttablaðinu 2014 segir: „Þetta hófst á endanum og er ótrúlega gaman.“

Það er slæðingur um þessa merkingu í hófst á tímarit.is og tugir eða hundruð dæma á samfélagsmiðlum þannig að ljóst er að þessi notkun hefur verið að breiðast út undanfarinn aldarfjórðung eða svo. Þótt sagnirnar séu eiginlega andstæðrar merkingar er breytingin skiljanleg út frá nútíðarbeygingu þeirra sem fellur saman í framsöguhætti eintölu – ráða verður af samhengi hvort þetta hefst örugglega í dag merkir ‘það tekst örugglega að ljúka þessu í dag’ eða ‘þetta byrjar örugglega í dag’. Þetta samfall getur ruglað málnotendur í ríminu og valdið því að sagt er t.d. þetta hófst á endanum í staðinn fyrir þetta hafðist á endanum. En eins og við er að búast gengur þetta ekki bara í aðra áttina – þátíðin hafðist er líka stundum notuð í stað hófst.

Þetta sést einkum í sambandinu hefjast handa. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Heimskringlu 1905 – „hjá því gat ekki farið að almenningur […] hefðist handa að lokum.“ Í Verkamanninum 1919 segir: „Reyndar væri eðlilegast að læknarnir hefðust handa í þessu máli.“ Í Morgunblaðinu 1920 segir: „Ef nú ætti að reyna að halda slíkt mót í sumar, þá þarf fljótt að hafast handa.“ Í Morgunblaðinu 1984 segir: „Þeir höfðust handa um þetta fyrir fáum árum.“ Alls eru á annað hundrað dæmi um þetta á tímarit.is en aðeins tæp þrjátíu í Risamálheildinni þannig að það virðist ekki fara í vöxt. En þótt þessi blöndun sagnanna sé skiljanleg vegna samfalls nútíðarmynda í eintölu er samt æskilegt að virða málhefð og halda beygingu þeirra aðgreindri.

Posted on

Hvað merkir „fara á svig við alþjóðalög“?

„Aðgerðir Bandaríkjamanna í Caracas, höfuðborg Venesúela, í nótt fóru á svig við þjóðarrétt og alþjóðalög að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra“ segir á mbl.is. En hvað merkir fara á svig við? Í fornu máli hafði sambandið bókstaflega merkingu, 'sveigja hjá, krækja fyrir' og í Íslenskri orðabók er ganga á svig við eitthvað skýrt 'fara í sveig fram hjá e-u, forðast e-ð' – sama máli gegnir um Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924 þar sem fara, ganga á svig við eitthvað er skýrt 'gaa uden om, søge at undgaa n-t'. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er eingöngu gefin yfirfærð merking sambandsins og nokkuð afdráttarlaus – þar er beinlínis sagtfara á svig við sannleikann merki 'segja ekki satt'.

Bókstafleg merking sambandsins var ennþá algeng á nítjándu öld – í Ísafold 1894 segir: „Þýzku hersveitirnar gengu tvöfalt og þrefalt á við hinar frönsku, […], fóru á svig við þær í langa króka og langt fram úr þeim.“ Í Dagskrá 1896 segir: „Við göngum á svig við tvo þrjá bestu veiðistaðina.“ En yfirfærð merking tíðkaðist einnig á þessum tíma – í Austra 1897 segir: „Það þarf til þess höfuð og hjarta í óvilhöllum manni, sem ekki er hræddur við að halda uppi lögunum, og lætur ekki múta sér til þess að fara á svig við þau.“ Í Þjóðólfi 1898 segir: „Er veiting þessi ný sönnun þess, hvernig stjórnin gengur á svig við menntastofnanirnar hér heima.“ Þarna er ljóst að fara á svig við merkir ‚sniðganga, líta fram hjá, taka ekki mark á‘.

Þegar talað er um að fara á svig við lög er stundum átt við að nýta sér einhverjar gloppur í lögum, ganga gegn anda laganna eða eitthvað slíkt. En oftast er samt beinlínis um það að ræða að lög eru brotin og þannig er það í þessu tilviki. Ég hef lesið færslur virtra lögfræðinga sem eru sammála um að aðgerðir Bandaríkjamanna í Venesúela séu skýrt brot á alþjóðalögum. Þá er spurningin hvaða merkingu utanríkisráðherra leggur í sambandið fara á svig við alþjóðalög. Á hún við að aðgerðirnar gangi gegn anda laganna, eða telur hún að alþjóðalög hafi verið brotin en veigrar sér við að segja það og notar þess í stað sambandið fara á svig við alþjóðalög sem eins konar skrauthvörf? Við eigum kröfu á að ráðafólk tali skýrt í alvarlegum aðstæðum.

Posted on

Að taka sér göngutúr

Í nýlegu innleggi í „Málvöndunarþættinum“ sagðist höfundur hafa heyrt ungling segja ég tók mér göngutúr í staðinn fyrir ég fór í göngutúr sem höfundur sagðist alltaf segja. Hann sagðist aldrei hafa heyrt þetta orðalag áður en vita að það væri „tekið upp úr amerísku“ en á breskri ensku væri það I had a walk sem væri ég fékk mér göngutúr á íslensku. Vissulega er sagt I took a walk í ensku, frekar amerískri en breskri, en þýðir það endilega að ég tók mér göngutúr sé komið úr ensku – og þótt svo væri, er það næg ástæða til að amast við því? Og hvað þá með ég fékk mér göngutúr – bendir eitthvað til þess að það orðasamband sé undir breskum áhrifum? Sögnin er önnur, en ekki hafa sem væri bein yfirfærsla, þótt vissulega merki have oft 'fá sér'.

En því fer fjarri að orðalagið taka sér göngutúr sé nýtt í íslensku. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Gjallarhorninu 1903: „við skulum taka okkur dálítinn göngutúr úti undir berum himni.“ Þetta dæmi, og annað í sama blaði ári síðar, er úr þýddri sögu og vitanlega gæti frumtextinn hafa haft áhrif á orðalagið, og sama gildir um nokkur dæmi úr vesturíslensku blöðunum sem ég sleppi að tilfæra. En það eru líka til fjölmörg gömul dæmi um orðalagið í textum frumsömdum á íslensku. Í Norðra 1912 segir: „Hann hafði tekið sér göngutúr einn úti.“ Í Alþýðublaðinu 1921 segir: „Ef þú, lesari góður, vilt taka þér göngutúr og hrista af þér miðbæjarrykið.“ Í Íþróttablaðinu 1928 segir: „Taki maður sér t.d. göngutúr snemma morguns um götur bæjarins.“

Sambandið fá sér göngutúr virðist vera álíka gamalt. Í Frækorni 1909 segir: „Hann fékk sér göngutúr til að hugsa um, hvað hann skyldi gera.“ Í Vísi 1911 segir: „Þessvegna legg jeg bókina frá mjer á milli og fæ mjer göngutúr úti í skóginn.“ Í Vísi 1913 segir: „Hvað er gagnlegra en að fá sjer „göngutúr“ suður í Sundskála.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Og vart mun höfuðstaðarbúum annað hollara en fá sér göngutúr á fögru sumarkveldi.“ Um þetta samband gildir svipað, að mörg dæmi eru úr þýðingum, en sum einnig úr textum frumsömdum á íslensku. Einnig er talað um að ganga sér göngutúr – „Eg geng mér göngutúr á hverju kvöldi“ segir í Gjallarhorninu 1911; „þá gekk hann […] langan göngutúr“ segir í Læknablaðinu 1916.

Sögnin fara sést ekki með göngutúr fyrr en í Þrótti 1919: „Til þess að prófa nýtízkuferðalag fór eg […] þriggja daga göngutúr í sumar.“ En það samband sem nú er algengast, fara í göngutúr, kemur fyrst fyrir í Verkamanninum 1928: „A. fer í göngutúr út úr bænum kl. 9 í fyrramálið.“ Í Ljósberanum 1932 segir: „eldri börnin áttu að fá að fara í göngutúr langt út í skóg.“ Í Ungherjanum 1936 segir: „Á sumrin […] er oft farið í göngutúra og skógartúra á sunnudögum.“ Ef marka má tímarit.is virðist þetta samband ekki hafa orðið ýkja algengt fyrr en eftir 1980 þegar tíðni þess margfaldast á fáum árum. Sambandið fá sér göngutúr hefur verið algengt allan tímann, en taka sér göngutúr var fremur sjaldgæft á seinni hluta tuttugustu aldar.

Í Risamálheildinni sem sýnir málnotkun á tuttugustu og fyrstu öld er fara í göngutúr langalgengasta sambandið – um það eru meira en níu þúsund dæmi. Dæmin um fá sér göngutúr eru tæplega 1350, og um taka sér göngutúr rúm 950. Það er margfalt hærra hlutfall en á tímarit.is og bendir til þess að notkun sambandsins fari mjög í vöxt en talsverður meirihluti dæma um það er úr óformlegu máli samfélagsmiðla. Það er sem sé ljóst að taka sér göngutúr er a.m.k. 120 ára gamalt í málinu og þótt það kunni að vera tilkomið fyrir áhrif þýðinga hefur það auðvitað unnið sér hefð í íslensku. Hitt er líka nokkuð ljóst að aukna notkun þess á síðustu árum má rekja til enskra áhrifa – er það næg ástæða til að amast við því? Þið metið það bara.

Posted on

Vörutalningardagurinn

Annar janúar er einn þeirra daga sem hafa óopinbert heiti í óformlegu máli – hann er stundum kallaður vörutalningardagurinn. Þetta orð sést fyrst á prenti um þennan dag í Morgunblaðinu 1961: „Síðan kemur sunnudagur, svo nýársdagur  og þá vörutalningardagur, og verzlanir ekki opnaðar fyrr en þriðja janúar.“ Þarna er þetta þó augljóslega aðeins skilgreining eða lýsing á deginum en ekki heiti sambærilegt við þrettándinn eða eitthvað slíkt. Orðið varð ekki heiti þessa dags fyrr en eftir að Jón Gnarr notaði það í uppistandi sínu, „Ég var einu sinni nörd“, árið 1998. Þar lýsti hann því hvernig það hefði verið að eiga afmæli annan janúar þegar hafði gleymst að kaupa afmælisgjöf og allar verslanir voru lokaðar vegna þess að það var vörutalningardagur.

Jón notaði orðið líka sem lýsingu, án greinis, en upp úr þessu var farið að bæta á það greini og nota það sem heiti á deginum. Á Bland.is 2004 segir: „Ég á afmæli á vörutalningardaginn.“ Á Hugi.is 2007 segir: „Það er 2. janúar, betur þekktur sem vörutalningardagurinn.“ Í Austurglugganum 2013 segir: „Sjálf á ég afmæli á „vörutalningardaginn“ – 2. janúar.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2014 segir: „Gamli góði vörutalningardagurinn stendur fyrir sínu.“ Á twitter 2015 segir: Gleðilegan vörutalningardag kæru landsmenn!“ Á mbl.is 2019 segir: „Svo er ég ekta steingeit, enda fædd 2. janúar, á sjálfan vörutalningardaginn.“ Í Viðskiptablaðinu 2022 segir: „enda kemur hópurinn ekki saman fyrr en á sjálfan vörutalningardaginn, 2. janúar.“

Það er hátt á þriðja tug dæma um orðið í Risamálheildinni, flest af samfélagsmiðlum og meirihlutinn frá síðustu árunum 2013-2023. Það er skondið að heitið vörutalningardagurinn kom fyrst fram um þær mundir sem það var að verða úrelt – vegna strikamerkinga og rafrænnar skráningar á öllum vörum er það liðin tíð að verslanir séu lokaðar vegna vörutalningar annan janúar. Orðið hefur samt þótt fyndið og þess vegna komist í nokkra notkun, a.m.k. tímabundið. Mér sýnist þó að dregið hafi úr notkun þess á allra síðustu árum, e.t.v. vegna þess að yngra fólk man ekki eftir lokunum verslana vegna vörutalningar og tengir orðið því ekki við neitt. Líklega verður þetta eitt þeirra fjölmörgu orða sem eru aðeins notuð í stuttan tíma og hverfa svo.

Posted on

Málfarsfordómar í áramótaskaupi

Áður fyrr – og ekki fyrir mjög löngu – tíðkaðist og þótti sjálfsagt og eðlilegt að gera grín að fólki og hæðast að því vegna holdafars, fötlunar, þroskaskerðingar, geðröskunar, kynhneigðar, hörundslitar, trúarbragða og fleiri einkenna. Þetta er því miður allt til ennþá í þjóðfélaginu en er sem betur fer að mestu horfið af opinberum vettvangi – við vitum flest að þetta er ekki við hæfi. Það er eðlilegt að gera sérstakar kröfur til almannaútvarpsins, Ríkisútvarpsins, hvað þetta varðar og sérstaklega alvarlegt ef fordómar af þessu tagi koma þar fram. En jafnvel í Ríkissjónvarpinu virðist ein sambærileg tegund fordóma þó enn þykja eðlileg og sjálfsögð – og fyndin. Það eru málfarsfordómar þar sem gert er grín að tilteknum einkennum á máli fólks.

Áberandi fólk í þjóðlífinu verður að láta sér lynda að gert sé grín að skoðunum þess og athöfnum. En það á ekki að líðast – sérstaklega ekki í Ríkissjónvarpinu – að hæðst sé að fólki vegna málfars eins og gert var í upphafsatriði áramótaskaupsins í gær, og þá skiptir engu máli hvort um er að ræða mennta- og barnamálaráðherra eða einhvern annan. Þarna voru ráðherranum lögð í munn ýmis frávik frá viðurkenndu máli – sum þeirra hafa vissulega komið fram í máli hans en önnur alls ekki, og sum eru ekki eðlilegt mál nokkurra sem eiga íslensku að móðurmáli svo að ég viti. Þið getið kallað mig húmorslausan ef þið viljið, en mér fannst þetta ekki fyndið – og ekki bara það: Mér fannst þetta ósmekklegt, óviðeigandi og beinlínis ljótt.

Það er enginn vafi á því að menntamálaráðherra talar eðlilega íslensku – sömu íslensku og tugir þúsunda annarra sem eiga íslensku að móðurmáli. Fólk getur haft þá skoðun fyrir mér að sum einkenni á máli hans falli undir „rangt mál“ sem beri að forðast. Fólk getur líka haft þá skoðun fyrir mér að maður sem talar á þann hátt eigi ekki að vera menntamálaráðherra. Ég er ósammála hvoru tveggja en það er ekki málið – aðalatriðið er að þótt fólk hafi þessar skoðanir gefur það engum leyfi til að hæðast að málfari ráðherrans. Til að setja þetta í samhengi má nefna að við getum haft þá skoðun að óæskilegt og óheilbrigt sé að fólk sé í yfirþyngd, en það gefur okkur ekki leyfi til að vera með opinbera fitufordóma. Þetta er alveg sambærilegt.

Það er nauðsynlegt að við áttum okkur á að fordómar gagnvart því málfari sem fólk hefur alist upp við, og er því eðlilegt, eru engu betri en þeir fordómar sem nefndir voru í upphafi. Þess vegna er óviðunandi að gert sé opinbert grín að málfari fólks og upphafsatriði áramótaskaupsins – þáttar sem mestöll þjóðin horfir á – var handritshöfundum og Ríkisútvarpinu til minnkunar. En kannski var ekki við öðru að búast, miðað við það sem einn handritshöfunda sagði í Vikunni hjá Gísla Marteini á þriðjudagskvöldið að hefði vantað á síðasta ári til að gera grín að. Höfum það nú áramótaheit okkar að hætta að hæðast að málfari fólks á opinberum vettvangi og temja okkur virðingu gagnvart öðru fólki og einkennum þess, hvort sem er í málfari eða öðru.

Posted on

Gaml(a)ársdagur

Í dag er gamlársdagur – eða er kannski gamlaársdagur? Um það eru skiptar skoðanir. Í Íslenskri stafsetningarorðabók sem er á vegum Íslenskrar málnefndar og verður að teljast eins konar hæstiréttur um stafsetningu er aðeins fyrrnefnda myndin gefin, og sama gildir um Réttritunarorðabók handa grunnskólum sem Baldur Jónsson ritstýrði og Námsgagnastofnun og Íslensk málnefnd gáfu út 1989. Í Íslenskri orðabók, 3. útgáfu 2002, eru hins vegar báðar myndir gefnar án þess að gert sé upp á milli þeirra og í Stafsetningarorðabók Halldórs Halldórssonar sem var síðast gefin út 1994 segir: „gamlársdagur eða gamlaársdagur, rétt, að hver riti eftir sínum framburði.“ Allt það sama gildir vitanlega um gamlárskvöld eða gamlaárskvöld.

Orðin gaml(a)ársdagur og gaml(a)árskvöld koma ekki fyrir í fornu máli. Í Sturlungu er talað um „átta aptan jóla“ sem merkir 'kvöldið fyrir áttunda dag jóla', þ.e. gamlárskvöld, eftir því sem Pétur Sigurðsson segir í Safni til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta. Árni Björnsson segir í Sögu daganna að áður fyrr hafi dagurinn yfirleitt verið „kenndur við Sylvester páfa sem þá á sér messudag, eða nefndur síðasti dagur ársins, dagurinn fyrir nýársdag eða annað í þeim dúr“. Hann segir að gamlárskvöld sjáist ekki í rituðu máli fyrr en 1791 og gamlársdagur ekki fyrr en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar 1862, en reyndar má finna nokkur aðeins eldri dæmi um myndina gamlaársdagur – það elsta í Þjóðólfi 1855. Svo er líka til myndin gaml(a)ársdagskvöld.

Ritháttur þessara orða hefur lengi vafist fyrir fólki. Fyrir sextíu árum benti Davíð Oddsson (síðar forsætisráðherra) á það í háðskri grein í Skólablaði Menntaskólans í Reykjavík að kennarar þar teldu gamlaársdagur hinn eina rétta rithátt þrátt fyrir að uppflettirit ýmist viðurkenndu hvort tveggja eða hefðu aðeins gamlársdagur. Væntanlega endurspeglar rithátturinn gamlaársdagur/-kvöld myndun orðanna – um er að ræða lýsingarorð í veikri beygingu á undan nafnorði, gamla+ár, sem myndar svo eignarfallssamsetningu með dagur/ kvöld. Það er mjög eðlilegt að a falli niður í framburði á undan sérhljóði. Hliðstæðar tvímyndir eru t.d. til í örnefnunum Litl(a)holt og Mikl(a)holt þótt seinni hluti hefjist þar ekki á sérhljóði.

Ég efast um að gamlaársdagur, með a, sé algengur framburður – allavega hefur rithátturinn gamlársdagur, án a, alla tíð verið mun algengari en hinn þótt hann gangi í raun í berhögg við þá meginreglu stafsetningar að fara eftir uppruna orða (alltaf er t.d. ritað Elliðaár þótt a-ið sé líklega sjaldnast borið fram). Rithættinum gamalársdagur og gamalárskvöld bregður einnig fyrir – elstu dæmi um þær myndir eru frá því upp úr 1870 og nokkrir tugir dæma um þær eru í Risamálheildinni, einkum af samfélagsmiðlum. Þessar myndir er í sjálfu sér alveg rökréttar – þar er stofn lýsingarorðsins, gamal-, notaður í stað beygðrar myndar, sbr. gamaldags, gamalmenni, gamalær o.fl. En líklega er réttast að halda sig við ritháttinn gamlársdag/kvöld.