Posted on

Frostbit

Nafnorðið frostbit var eitt sinn til umræðu í „Málspjalli“ og einnig í öðrum málfarshópum á Facebook. Sumum finnst augljóst að orðið sé tekið hrátt úr ensku vegna þess að þar er til orðið frostbite sem merkir 'kal' og þess vegna er stundum amast við því. Af uppruna þess fer þó tvennum sögum, og auk þess hefur komið fram í umræðum í áðurnefndum hópum að fólk er ekki á einu máli um hvað orðið merki – hvort það hafi sömu merkingu og kal sem er skýrt 'sár á húð (t.d. á fingrum) af völdum frosts' í Íslenskri nútímamálsorðabók, eða hvort það hafi vægari merkingu og vísi ekki beinlínis til skemmda á húð heldur til þess þegar húðin verður rauð eða blá af kulda og með fylgir jafnvel sársauki eða tilfinningaleysi.

Elsta dæmi um frostbit er í Heimskringlu 1891: „Og við taugatognun, mari, bruna, frostbiti o. s. frv. á hún engan sinn líka.“ Heimskringla var auðvitað gefin út í Winnipeg og því líklegt að þarna sé um ensk áhrif að ræða, og öll elstu dæmin eru úr vesturheimsblöðum. Þrjú dæmi eru úr blöðum gefnum út á Íslandi fram til 1950, en tvö þeirra eru í textum þýddum úr ensku og eitt frá manni sem hafði dvalið langdvölum í enskumælandi löndum. En frá því um 1950 og fram yfir 1990 eru margir tugir dæma um orðið á tímarit.is, nær öll úr krossgátum þar sem það er skýring á kal – sem er hentugt orð í krossgátum vegna þess að það er stutt og samsett úr algengum bókstöfum. Eftir 1990 hverfa krossgátur að mestu úr blöðunum og dæmum fækkar.

Þó má finna slangur af dæmum um orðið og ekki alltaf auðvelt að ráða í merkinguna. Í DV 1988 segir: „Er það gert vegna mikillar hættu á kali og frostbiti fyrir skíðamenn.“ Þarna virðist gert ráð fyrir að kal og frostbit sé ekki það sama. En eftir aldamótin virðist frostbit oft notað í sömu merkingu og kal. Það er t.d. augljóst í Fréttablaðinu 2001 þar sem segir: „15 ára gamall Serpi, sem missti fimm fingur vegna frostbits í fyrra, er yngsti maður sem klifið hefur hæsta tind í heimi.“ Varla er þó átt við kal í dæmum eins og „Frostbit í kinnar og útivist er kannski aðdráttarafl út af fyrir sig?“ í Akureyri 2012, eða „Kuldakrem ver húðina fyrir frostbiti“ í Morgunblaðinu 2016, eða „Ég sé frostbitið fólk bisa við að hlýða Víði“ í Fréttablaðinu 2020.

Nafnorðið frostbit er ekki að finna í helstu orðabókum en öðru máli gegnir um lýsingarorðið frostbitinn sem er skýrt 'rauður eða blár (í andliti eða á höndum) af völdum frosts' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það orð er líka eldra en nafnorðið og ekki að sjá að það megi rekja til ensku – kemur fyrst fyrir í kvæði eftir Matthías Jochumsson í Þjóðólfi 1874: „Sá nákaldi veturinn, Norðurlandsbygð / hefir nætt um þín frostbitnu sár.“ Alls eru um 250 dæmi um orðið á tímarit.is – allnokkur hluti úr vesturíslensku blöðunum, hugsanlega fyrir áhrif frá frostbitten sem merkir 'kalinn'. Sambandið frostið bítur er líka vel þekkt. Í Skeggja 1919 segir: „Frostið bítur heljuhart.“ Í 19. júní 1920 segir: „Bjóðist geisli, er blæs hann kalt / og bíti frost og hríðar.“

Nafnorðið frostbit er rétt myndað íslenskt orð og enda þótt það kunni að vera myndað með hliðsjón af frostbite í ensku á það sér líka skýrar rammíslenskar hliðstæður í lýsingarorðinu frostbitinn og sambandið frostið bítur. Út frá þeim samböndum væri eðlilegt að það merkti ‚rauð eða blá húð af völdum frosts‘ eða eitthvað slíkt, fremur en ‚sár á húð af völdum frosts‘ eins og kal, og það virðist oftast vera raunin, t.d. í nýlegum dæmum í Risamálheildinni. En þá er líka rétt að hafa í huga að í daglegu máli er kal a.m.k. stundum notað í vægari merkingu en orðabókarmerkingunni sem tilgreind er hér að framan. Mér finnst sem sé ekkert að því að tala um frostbit en vitanlega mikilvægt að muna eftir orðinu kal og nota það þar sem við á.

Posted on

Mannanafnarugl

Í framhaldi af umræðu í „Málspjalli“ um nafnið Ranimosk sér Morgunblaðið ástæðu til að spyrja formann mannanafnanefndar út í úrskurði og verklagsreglur nefndarinnar. Svörin sýna glöggt út í hvaða fen nefndin er komin en þótt ég telji að hún sé oft á villigötum í úrskurðum sínum er henni nokkur vorkunn – það er útilokað að framfylgja gildandi lögum en taka um leið eðlilegt tillit til þeirra þjóðfélagsbreytinga og hugarfarsbreytinga sem hafa orðið á undanförnum þrjátíu árum. Þess vegna er brýnt að endurskoða lögin og undarlegt að núverandi dómsmálaráðherra skuli ekki vera með áform um það í þingmálaskrá sinni, í ljósi þess að flokkur hennar, Viðreisn, lagði mikla áherslu á það fyrir fáum árum að lögunum yrði breytt.

Í viðtalinu er sagt að samkvæmt verklagsreglum mannanafnanefndar séu erlend tökunöfn „tekin upp á mannanafnaskrá svo lengi sem þau eru skrifuð á sama hátt og í landinu sem þau eru frá“. „Eins og með nafnið Charles, ef einhver vill heita það á Íslandi væri hægt með vísan til þessarar reglu að fá það samþykkt með rithættinum Charles en ekki Tjarles.“ Nafnið Charles er reyndar þegar á skrá þannig að á þetta reynir ekki, en í verklagsreglunum segir einnig: „Heimilt er að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum.“ Samkvæmt þessu ætti rithátturinn Tjarles að vera heimill því að hann samræmist óneitanlega almennum íslenskum ritreglum betur en Charles – ýmis orð byrja á tja-, svo sem tjara, tjald o.fl. Hins vegar væri Tsjarles óheimilt.

Í verklagsreglum mannanafnanefndar stendur að ritháttur teljist hefðbundinn „sé hann gjaldgengur í veitimáli“ en bætt við: „Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z.“ Ef þetta er skilið bókstaflega, sem og orð formannsins um að tökunöfn sem „eru skrifuð á sama hátt og í landinu sem þau eru frá“ séu leyfð, táknar það að nöfn úr málum sem ekki nota latneska stafrófið verði ekki leyfð. Hugsanlega er ákvæðið um að heimilt sé „að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum“ túlkað þannig að leyfilegt sé að umrita nöfn úr tungumálum sem rituð eru með öðru stafrófi en því latneska – að öðrum kosti er þarna um að ræða augljóst misrétti milli tungumála.

Í viðtalinu segir: „Breytingar voru gerðar árið 2021 og var þá slakað á kröfunum sem gerðar eru til nýrra nafna á skrá.“ Þarna er ekki vísað til breytinga á lögunum sjálfum heldur breytinga á þeim verklagsreglum sem mannanafnanefnd setur sér sjálf. Umræddar breytingar voru ótvírætt til bóta, en hins vegar er umdeilanlegt hvaða svigrúm nefndin hefur í þessu efni. Formaðurinn telur „að reglur mannanafnanefndar séu skýrar“ og ákvæði um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama sé „eina ákvæðið sem mat er á“. En það er ekki rétt. Það er mjög matskennt hvort nafn brýtur í bága við íslenskt málkerfi, og mannanafnanefnd hefur komið sér upp ýmsum vinnureglum við mat á því, sumum hverjum umdeilanlegum og jafnvel afar hæpnum.

En það er ekki nóg með að nefndin hafi breytt verklagsreglum sínum hvað varðar hefð og rithátt. Túlkun hennar á því hvort nafn geti tekið eignarfallsendingu virðist líka hafa breyst án þess að það komi nokkurs staðar fram í reglum. Í úrskurði frá 2018 segir: „Ekki er hefð fyrir því í íslensku að eignarfallsendingunni -ar sé bætt við stofn sem endar á -e.“ En í nýlegum úrskurði segir: „Eiginnafnið Harne (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu, Harnear, og uppfyllir að öðru leyti ákvæði 5. gr. laga um mannanöfn.“ Engar skýringar er að finna á þessari breyttu túlkun. Það er vitaskuld óheppilegt og varla í anda góðrar stjórnsýslu þegar nefndin breytir túlkun sinni án þess að breytingin sé tilkynnt, hvað þá skýrð eða rökstudd.

Posted on

Að taka sturtu

Í „Málspjalli“ var spurt í dag hvort það ógnaði íslenskunni að taka sturtu. Þetta orðalag er nýlegt í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2004: „Vaknaði fyrir alvöru, tók sturtu.“ Það hefur oft verið gagnrýnt. Í Morgunblaðinu 2018 sagði Helgi Snær Sigurðsson: „æ oftar verður maður var við að fólk gerir ekki greinarmun á ensku orðalagi og íslensku. Fólk „tekur“ sturtu, svo dæmi sé tekið.“ Í Víkurfréttum 2020 sagði Inga Birna Ragnarsdóttir: „Lendi oft í að leiðrétta ellefu ára stjúpson minn sem notar enska setningaruppbyggingu. Til dæmis: […] „ég ætla að taka sturtu“ í staðinn fyrir „ég ætla að fara í sturtu“.“ Rúm fimmtíu dæmi eru um þetta orðalag í Risamálheildinni, öll af samfélagsmiðlum, en í mörgum þeirra er verið að gagnrýna það.

En þótt taka sturtu sé ekki gamalt í málinu, og trúlega komið úr ensku, má finna eldri dæmi um orðalagið taka steypibað en orðið steypibað er samheiti við sturta og þótti betra mál – í orðalista með fyrirsögninni „Vandið málið! Varist mállýti!“ í Hlín 1942 er línan „Sturta = steypibað.“ Í Heilbrigðisskýrslum 1931 segir: „Enginn fær að fara í laugina án þess að taka steypibað að loknu sundi.“ Í Bræðrabandinu 1945 segir: „Allir urðu að taka steypibað einu sinni í viku.“ Í Heilsuvernd 1956 segir: „Það er alltaf nóg að taka steypibað.“ Í Vísi 1959 segir: „Þá var hann spurður hvernig hann hefði tekið steypibað og haldið sér þurrum fyrir því.“ Í Vikunni 1967 segir: „Kerlaug er ágæt í 7-8 mánuði, en síðasta mánuðinn er öruggara að taka steypibað.“

Mun eldri dæmi má þó finna um sambandið taka bað. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar 1899: „Hinum […] var leyft að fara tafarlaust, eptir að hafa tekið bað.“ Almanakið var að vísu gefið út í Winnipeg þannig að þarna gæti verið um ensk áhrif að ræða, en skömmu síðar fer þetta að sjást í blöðum á Íslandi. Í Þjóðólfi 1909 segir: „Því næst dró hún stórt baðker yfir hlemminn […] og tók að afklæða sig, eins og hún ætlaði að taka bað.“ Í Syrpu 1915 segir: „Hún tók bað og fékk nýjan klæðnað frá hvirfli til ilja.“ Í Íslendingi 1920 segir: „Eru tveir klefar í hvorri; fara baðgestir úr fötum og klæða sig í öðrum, en taka bað í hinum.“ Í Vísi 1929 segir: „Fólki skal bent á, að best er að taka bað kl. 10-12 árdegis.“

Sum þessara dæma um sambandið taka bað eru vissulega úr þýðingum og því hugsanlega undir áhrifum frá ensku orðalagi, en ýmis dæmi um sambandið má þó finna í textum frumsömdum á íslensku á tímarit.is, enda er hægt að finna mun eldri dæmi um þetta samband. Í Þorláks sögu helga segir: „Ormur breiðbælingur […] tók bað í Skálholti.“ Í Gísls þætti Illugasonar segir: „Eftir það tóku þeir bað.“ Í Þiðriks sögu af Bern segir: „Hann hefir tekið bað í þeim stað er nú er kallað Þiðreks bað.“ Einnig eru allmörg dæmi í fornu máli um sambandið taka laugar í sömu merkingu, t.d. „Flosi tók laugar og lið hans“ í Brennu-Njáls sögu, „Gakk nú þar til er Magnús konungur hefir tekið laugar“ í Morkinskinnu og „þá tók konungur þar laugar“ í Heimskringlu.

Við höfum því dæmi um fjögur hliðstæð orðasambönd – taka sturtu, taka steypibað, taka bað og taka laugar. Tvö þau síðastnefndu koma fyrir í fornu máli, taka steypibað er hátt í hundrað ára gamalt, en elstu dæmi um taka sturtu eru frá þessari öld. Vitanlega gæti það samband hafa orðið til út frá eldri samböndum en þó er miklu líklegra að notkun þess í nútímamáli megi rekja til enska sambandsins take a shower. Og þá er spurningin: Eigum við að láta sambandið gjalda (sennilegs) ensks ætternis síns og amast við því, eða eigum við að segja að það sé ekkert athugavert við það vegna þess að algerlega hliðstæð sambönd hafi tíðkast allt frá fornu máli? Ég hef tilhneigingu til að láta sambandið njóta vafans og segja að það sé góð og gild íslenska.

Posted on

Verkstjórn

Elsta dæmi um nafnorðið verkstjórn á tímarit.is og í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er í Ármanni á Alþingi 1829: „verkstjórnin géck mér eptir því betur og betur sem eg var lengur við hana.“ Þarna hefur orðið augljóslega merkinguna 'það að stjórna verki' eins og það er skýrt bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók og það var nánast eina merking orðsins þar til fyrir ári þótt einhver dæmi séu um merkinguna 'hópur sem stjórnar verki', svo sem í Sveitarstjórnarmálum 1967: „Annar vinnuhópurinn fékk tækifæri til þess að velja fulltrúa úr sínum hópi til þess að ræða við verkstjórnina um tilgang breytinganna.“ En á vetrarsólstöðum fyrir réttu ári bætti orðið við sig merkingu sem hefur verið mikið notuð síðan.

Þegar Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kom út af ríkisráðsfundi þar sem myndun nýrrar ríkisstjórnar var staðfest sagði hún: „Þetta er verkstjórn en ekki setustjórn.“ Þarna á orðið verkstjórn sem andstæða við setustjórn augljóslega að vísa til þess að stjórnin stefni að því að vera vinnusöm – „Við ætlum að láta verkin tala“ sagði Inga Sæland á blaðamannafundi þennan sama dag og í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í febrúar sagði Ragnar Þór Ingólfsson: „Við ætlum að koma þessu í verk enda erum við verkstjórn.“ Ég veit ekki hvort Kristrún varð fyrst til að nota orðið í þessari merkingu en það er ekki ólíklegt. Hvað sem því líður er ljóst að þessi merking orðsins náði strax fótfestu í fjölmiðlum og einkum á Alþingi.

Í þingræðum undanfarið ár eru rúm hundrað dæmi um orðið verkstjórn, nær öll í hinni nýju merkingu þótt einstöku dæmi séu um þá eldri: „Þetta er verkstjórnin í þessari svokölluðu verkríkisstjórn“ sagði Sigríður Á. Andersen nýlega. Orðið er notað jafnt af stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum þótt fylkingar greini vissulega á um hvort það sé réttnefni á ríkisstjórninni. En hvergi kemur fram gagnrýni á að orðinu hafi verið gefin ný merking. Sú merking er í sjálfu sér gagnsæ og alveg eðlileg – orðið stjórn hefur mjög oft merkinguna ‚ríkisstjórn‘, og notkun orðhlutans verk- samræmist merkingu hans í orðinu verkmaður sem er skýrt 'duglegur maður, sá sem kemur miklu í verk' í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Það er auðvitað alsiða að gefa ríkisstjórnum óopinber heiti og þau hafa verið með ýmsu móti. Stjórnir hafa verið kenndar við samsetningu sína (helmingaskiptastjórnin, stjórn hinna vinnandi stétta), stefnu (vinstri stjórnin), staðinn þar sem þær voru kynntar (Viðeyjarstjórnin, Þingvallastjórnin), athafnir og áform (nýsköpunarstjórnin, viðreisnarstjórnin) og stundum við forsætisráðherrann (Stefanía, kóka-kóla stjórnin). Núverandi ríkisstjórn var í upphafi stundum kölluð sólstöðustjórnin og heitið valkyrjustjórnin sást jafnvel áður en hún var mynduð. En munurinn á orðinu verkstjórn um stjórnina og flestum eða öllum orðum um aðrar ríkisstjórnir er sá að verkstjórn er ekki hugsað sem sérnafn heldur sem lýsing á eðli stjórnarinnar.

Posted on

Túmatar, apútek – og kommónistar

Af nokkrum gömlum tökuorðum sem hafa komið í málið úr dönsku eru til tvímyndir sem hafa ýmist einhljóðið ú eða tvíhljóðið ó. Þekktast þeirra er líklega tómatur / túmatur. Það er vissulega langoftast með ó en á tímarit.is eru þó nokkuð á annað hundrað dæmi um myndir með ú og í Risamálheildinni eru rúmlega 250 dæmi um slíkar myndir. Töluverður hluti síðarnefndu dæmanna sýnir reyndar ekki virka notkun myndanna heldur er verið að gera grín að þeim, furða sig á þeim eða hafna þeim, en það sýnir samt sem áður að þær eru talsvert þekktar í nútímamáli. Orðið er upphaflega komið úr tungumálinu nahuatl sem Toltekar og Astekar í Mexíkó töluðu, og var þar tomatl, eins og Erla Erlendsdóttir rekur í grein í Orði og tungu 2005.

Í dönsku varð ritmyndin tomat og í þeirri mynd barst orðið til Íslands undir lok nítjándu aldar. Í Ísafold 1890 segir: „Alls konar þurkaðar súpujurtir mjög ódýrar (Tomater, Persille, Porrelög, Grönkaal, Rödkaal, Hvidkaal, Gulerödder og Julienne).“ Í Andvara 1894 segir: „Mikið er og komið undir því, að uppskeran á „tomat“-ávextinum heppnist vel.“ Í Kvennablaðinu 1897 segir: „„Tomaterne“ eru skornar í bita“ – eins og Erla Erlendsdóttir bendir á í áðurnefndri grein er orðið þarna í kvenkyni. En fljótlega fékk það íslenska ritmynd – í Þjóðólfi 1894 segir: „Í verzlun H.Th.A. Thomsens fæst […] fisk- og tómat-sósa.“ Í Nýrri danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Jónas Jónasson frá 1896 er danska orðið tomat þýtt tómat.

Myndin tómat getur formsins vegna annaðhvort verið endingarlaust sterkt karlkynsorð eða hvorugkynsorð og oft er útilokað að skera úr því hvort er. Þó má snemma finna ótvíræðar karlkynsmyndir – í Fanney 1906 segir: „Einn borðaði t.d. að eins eitt epli, annar einn tómat […] o.s.frv.“ og í sömu grein kemur fram fleirtölumyndin tómatar. En ótvíræðar hvorugkynsmyndir má einnig finna – í Frey 1911 segir: „á tómötin komu græn ber.“ Karlkyn með nefnifallsendingunni -ur sést fyrst 1936. Veika myndin tómati kemur fram um svipað leyti – í Nýja dagblaðinu 1934 segir: „þar sem bíður þeirra tómati og gráðaostur.“ Orðið er einnig til sem veikt kvenkynsorð – í Tímanum 1925 segir: „Ekki veit eg, hvaðan nafnið tómata er komið.“

Elsta dæmi um ritmynd með ú er í Íslendingi 1919: „Sardínur í olíu og túmat.“ Ótvíræð karlkynsmynd sést fyrst í Vísi 1928: „Nýkomið: Túmatar og kartöflur.“ Veika karlkynsmyndin túmati kemur fyrst fram í Vikunni 1961: „hún sagði, að hann væri rjóður og kringluleitur eins og túmati.“ Þar sem hægt er að greina kynið ótvírætt á annað borð virðist alltaf vera um karlkyn að ræða. En ástæðan fyrir tvímyndunum er væntanlega árekstur ritháttar og framburðar. Sennilegt er að rithátturinn tómat(ur) hafi verið valinn vegna líkinda við danskan rithátt, en í dönsku er orðið borið fram [toˈmæˀd], með einhljóði, ekki tvíhljóði eins og íslensku ó, og þótt danska hljóðið sé ekki nákvæmlega eins og íslenskt ú hljómar það svipað í íslenskum eyrum.

Annað dæmi þar sem ég held að hliðstæðar tvímyndir hafi þekkst þótt ég finni litlar heimildir um það er apótek / apútek. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er þó eitt dæmi um apútek, úr Vefarinn með tólfkóngaviti frá 1854: „Jeg er ekki óhrædd um það, að apúteks meðölin fari að rata hingað eptirleiðis.“ Önnur dæmi hef ég ekki fundið nema á vefnum fastinn.is þar sem segir m.a.: „Frábær staðsetning þar sem örstutt er í Hagkaup, Vínbúðina, apútek og fleira.“ Þetta er ekki innsláttarvilla því að það sést víðar á sama vef. Sérhljóðið er þarna í áhersluleysi milli tveggja áhersluatkvæða og sennilega sjaldnast borið fram sem skýrt ó heldur einhvers konar óráðið kringt uppmælt hálfnálægt sérhljóð, [ʊ], sem getur verið skynjað ýmist sem ú eða ó.

Þriðja orðið þar sem hliðstæð víxl koma fram er kommúnisti / kommónisti, en þar eru það myndir með ú sem eru yfirgnæfandi. Elsta dæmi um orðið er í bréfi frá 1849: „sumir eru kommúnistar, þeir heimta jöfn réttindi, jafna nautn.“ Þegar leitað er að dæmum um myndir með ó á tímarit.is finnast hátt á annað hundrað dæmi en flest þeirra reynast vera ljóslestrarvillur. Einstöku dæmi með ó má þó finna. Í Þjóðviljanum 1980 segir: „Hér áður var fullt af þorski í Grindavík en engir kommónistar.“ Í Degi 1981 segir: „Þetta eru einkum kommónistar og framsóknarmenn.“ Í Skessuhorni 2007 segir: „Það frétti peysu- lopa- lið / og lagsmenn kommónista.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Svo er oft með kommónista, verkalýðsrekendur og lýðsleikjur.“

Í Risamálheildinni eru þrjátíu dæmi með ó, langflest nýleg af samfélagsmiðlum sem sýnir að eitthvert líf er í þessum myndum. Athyglisvert dæmi er úr endurminningum Ragnars Stefánssonar, Það skelfur, frá 2013: „Á þessum árum þótti kommónisti sterkara skammaryrði en kommúnisti.“ Þetta bendir til þess að myndir með ó hafi verið talsvert meira notaðar en ritaðar heimildir sýna, enda sáust talmálsmyndir sjaldan í ritmáli fyrir daga samfélagsmiðla. Þarna gildir sama og um apótek / apútek að sérhljóðið sem um ræðir er í áhersluleysi milli tveggja áhersluatkvæða og sennilega oftast borið fram sem einhvers  konar millihljóð sem getur verið skynjað ýmist sem ú eða ó – og líka sem o, kommonisti, sem fáein dæmi eru um.

Posted on

Meinlausar málbreytingar

Það er í eðli tungumála að breytast – það er óhjákvæmileg afleiðing af hlutverki þeirra og flutningi milli kynslóða. Okkur finnst samt flestum að íslenskan eigi að vera eins og hún var – eða eins og okkur var kennt að hún ætti að vera – þegar við vorum að alast upp. Við getum að vísu sætt okkur við að það þurfi ný orð fyrir nýjungar af ýmsu tagi, þótt okkur finnist þau oft óþjál og framandi í fyrstu, en að öðru leyti viljum við að málið haldist óbreytt – framburður, beygingar, setningagerð, merking orða og orðasambanda og annað sé eins og við erum vön. Ef út af því bregður finnst okkur iðulega að um rangt mál sé að ræða sem nauðsyn sé að leiðrétta. Mér sýnist að algengustu umkvörtunarefnum af þessu tagi megi skipta í tíu flokka.

(1) Röng fallmynd notuð (byggingu í stað byggingar, einkanir í stað einkunnir, trúnna í stað trúna); (2) rangt fall notað (mér langar í stað mig langar, spá í þessu í stað spá í þetta); (3) eintöluorð notað í fleirtölu (verð, orðrómar, fælnir); (4) rangt orð notað (ristavél í stað brauðrist, fólk í stað maður, opna hurð í stað opna dyr); (5) orð eða orðasamband notað í rangri merkingu (erlendis, notast við, ávarpa málið); (6) orð eða orðasamband ofnotað (taka samtalið, heldur betur); (7) óþarft orð notað (hán, leghafi); (8) eftiröpun erlends orðs eða orðasambands notuð (aðvörun, snjóstormur, renna út á tíma); (9) óaðlagað erlent orð notað (ókei, sorrí, næs); (10) röng setningagerð notuð (það var barið hana, öll eru velkomin, ég vona að hann kemur).

Ég hef skrifað um öll þau dæmi sem hér eru nefnd, og fjölmörg önnur úr flestum þessum flokkum. En ég er orðinn sjötugur og alinn upp í sveit þannig að sú íslenska sem ég tileinkaði mér endurspeglar málið eins og það var um miðja tuttugustu öld, og þótt ég hafi tekið upp sumar þeirra nýjunga sem nefndar eru hér að framan samræmast þær í fæstum tilvikum mínu upphaflega máli. En þótt ég kunni misjafnlega vel við þessar breytingar sé ég enga ástæðu til að amast sérstaklega við þeim, hvað þá að hafa áhyggjur af þeim eða áhrifum þeirra á tungumálið og framtíð þess, enda er engin þeirra líkleg til að valda breytingu á grunnstoðum málkerfisins eða torvelda svo að heitið geti skilning komandi kynslóða á málfari fyrri tíma.

Vissulega er samt ýmislegt þarna sem rétt er að gefa gætur. Það væri t.d. mikil eftirsjá að viðtengingarhættinum þótt breytingar á notkun hans þurfi ekki endilega að tákna að hann sé að hverfa. Það er líka rétt að gjalda varhug við mikilli aukningu á eftiröpun enskra sambanda eins og renna út á tíma – ekki vegna þess að slík sambönd séu óæskileg í sjálfu sér, heldur vegna þess að hugsunarlaus upptaka þeirra getur bent til þekkingarskorts á íslenskri málhefð. Mikil fjölgun á óaðlöguðum erlendum orðum gæti líka til lengri tíma haft áhrif á hljóðskipunarreglur málsins og veikt beygingakerfið. En engin ástæða er til að hafa áhyggjur af breytingum á föllum og fallmyndum, fleirtölu orða sem áður voru talin eintöluorð, eða breyttri merkingu stöku orða.

Íslenskunni stafar engin ógn af því að breytast. Hún hefur alltaf verið að breytast, er að breytast, og mun halda áfram að breytast hvort sem okkur líkar betur eða verr og hversu mikið sem við berjumst gegn tilteknum breytingum – og hún þarf sífellt að vera að breytast til að þjóna samfélaginu á hverjum tíma. Það er hins vegar fullkomlega eðlilegt og mannlegt að ýmsar breytingar fari í taugarnar á okkur vegna þess að við viljum hafa málið eins og við erum vön. En við megum alls ekki láta pirring okkar bitna á þeim sem nota málið öðruvísi en við, heldur verðum að sýna máli annarra – líka þeirra sem eru að læra íslensku – virðingu og tillitssemi. Aðalatriðið er að íslenska sé nothæf á öllum sviðum og notuð ef þess er nokkur kostur.

Posted on

„Málvilla“ getur hætt að vera „villa“

Ég var í gær að skrifa um það hversu erfitt er að þvo málvillustimpilinn af tilbrigðum sem hafa einu sinni fengið hann á sig – í sumum tilvikum algerlega að ósekju alla tíð, eins og sambandið forða slysi. Í öðrum tilvikum hefur stimpillinn vissulega átt rétt á sér í upphafi vegna þess að tilbrigðið sem um er að ræða var frávik frá málhefð á þeim tíma. En ef það hefur samt sem áður breiðst út og er nú orðið málvenja og eðlilegt mál fjölda fólks, jafnvel verulegs hluta málnotenda, þá er vitanlega engin skynsemi í því að halda áfram að líta á það sem „frávik“ eða „málvillu“. Málið hefur alltaf verið að breytast, er enn að breytast, og mun halda áfram að breytast, alveg sama hvað við berjumst gegn breytingum og berjum hausnum við steininn.

Í fjörutíu ár hefur legið fyrir almennt viðurkennd skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“ sem sett var fram í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum 1986 – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Skilgreiningin er orðuð svo á Vísindavefnum: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Það er ljóst að fjöldi þeirra tilbrigða sem venja er að kalla „málvillur“ hljóta að teljast „rétt mál“ samkvæmt þessari skilgreiningu, svo sem hin svokallaða „þágufallssýki“ sem sannanlega er málvenja talsverðs hluta málnotenda. En það er samt enn barist gegn henni og hún talin röng.

Það sem liggur á bak við tregðu kennslubóka, kennara og málsamfélagsins til að breyta viðhorfi til útbreiddra tilbrigða í máli og hætta að telja þau „villur“ er ekki síst sú tvíhyggja sem okkur hefur verið innrætt, meðvitað og ómeðvitað – að öll tilbrigði í máli séu annaðhvort „rétt“ eða „röng“, og í hverju tilviki sé aðeins eitt „rétt“ en öll hin „röng“. Okkur finnst að ef við breytum viðhorfi til einstaks tilbrigðis, förum að telja eitthvað „rétt“ sem áður hafði verið talið „rangt“, þá leiði það jafnframt til þess að það sem hafði verið talið „rétt“ verði núna „rangt“. En auðvitað er það ekki þannig – það tilbrigði sem áður var talið „rétt“ heldur áfram að vera það svo lengi sem það er eitthvað notað. Það hafa alltaf verið tilbrigði í málinu og málið þolir það alveg.

Auk þessa finnst mörgum að ef hætt er að berjast gegn tilteknu tilbrigði sem hefur verið talið „rangt“ sé með því verið að segja að starf kennara og foreldra við að kenna börnum „rétta“ tilbrigðið og leiðrétta þau þegar þau notuðu það „ranga“ hafi verið tilgangslaust, unnið fyrir gýg – þarna sé í raun verið að henda blautri tusku í andlit þeirra sem hafi lagt líf og sál í þessa baráttu fyrir réttu og vönduðu máli. Mér finnst stundum að þegar kemur að tilvikum af þessu tagi liggi á bak við andstöðu gegn breytingum hugmynd sem mætti orða svo: Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt. Þess vegna sé ekki hægt að bakka – það sé undanhald, eftirgjöf eða uppgjöf, viðurkenning á því að við höfum verið á rangri leið.

Við þurfum að breyta þessu hugarfari og átta okkur á – og viðurkenna – að það er engin minnkun að því að skipta um skoðun og breyta um viðhorf til einstakra tilbrigða í máli. Málið breytist hvort sem okkur líkar betur eða verr, og þekking á því breytist líka og eykst. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að það breytist hvaða tilbrigði í málinu eru talin „rétt“. Það er hins vegar fullkomlega óeðlilegt að halda dauðahaldi í allar reglur sem okkur voru innrættar, oft fyrir mörgum áratugum, um það hvað sé „rétt“ og hvað „rangt“ – ef þessar reglur eru í andstöðu við nútíma þekkingu eða málið eins og það er notað í dag. Með því að neita að horfast í augu við breytingar – og viðurkenna þær – gerum við málinu margfalt meiri skaða en gagn.

Posted on

Brennimerkt orðalag

Stundum gerist það að eðlilegt og hefðbundið íslenskt orðalag sem er í fullu samræmi við málhefð fær að ósekju á sig þann stimpil að vera „rangt mál“ – oftast vegna misskilnings eða vanþekkingar. En þegar orð eða orðalag hefur fengið á sig þennan stimpil er hægara sagt en gert að þvo hann af, og dugir ekki þótt sýnt sé með skýrum rökum að hann eigi ekki rétt á sér – eftir sem áður er hamrað á því að þetta sé rangt. Því er eiginlega nær að tala um brennimark en stimpil. Eitt skýrasta dæmið um þetta er sambandið forða slysi sem barist hefur verið gegn undanfarin sjötíu ár a.m.k., þrátt fyrir að Helgi Hálfdanarson hafi sýnt fram á það með skýrum rökum fyrir meira en fimmtíu árum að þetta samband er fullkomlega eðlilegt og rétt mál.

Þetta orðalag hefur tíðkast a.m.k. síðan á nítjándu öld – elsta dæmi sem ég finn um það er í Stefni 1899: „með því mætti forða slysum.“ Eldri dæmi má finna með öðrum andlögum en slys. Í Tímanum 1872 segir: „forðað þeirri eyðilegging, sem ann­ars hefði ber­lega legið fyrir höndum“. Í Ísafold 1876 er talað um „að leita láns úr landssjóði til að forða hallæri hjer í sjávarsveit­unum“. Í Norðanfara 1877 segir: „farið er að skjóta saman stórfje til að forða meiri mannfelli“. Í Fróða 1882 seg­ir: „sendu þangað matvæli á 10 hestum til að forða hung­urs­neyð í bráð“. Í Þjóðólfi 1883 segir: „svo mál­leysu sé forðað“. Í Ísafold 1888 segir: „þar varð forðað miklu óhappi“. Í Ísafold 1891 segir: „Hjer hafa hollar hend­ur að hlúð og forðað grandi“.

Fram yfir miðja tuttugustu öld var margoft talað um að forða slysi án þess að nokkrum þætti það athugavert að því er séð verði. En í „Móðurmálsþætti“ Vísis 1956 sagði Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Sögnin að forða er oft ranglega notuð í merkingunni að koma í veg fyrir, afstýra. Oft er sagt og ritað: Hann forðaði slysi, lögregan forðaði vandræðum. […] Öll þessi dæmi eru röng. Forða merkir að bjarga. Forða slysi merkir því að bjarga slysi, vandræðum að bjarga vandræðum. En hvorki slysum né vandræðum. er forðað (bjargað), heldur er þeim afstýrt, komið í veg fyrir þau.“ Á næstu áratugum og fram undir þetta má finna fjölda dæma í blöðum og tímaritum um að amast hafi verið við orðalaginu, sem er talið óæskilegt í Málfarsbankanum.

En svolítið öðruvísi dæmi eru líka til. Í Þjóðólfi 1856 segir: „til að forða þeim kúgun þeirri, sem hér er kvartað yfir“. Í Þjóðólfi 1873 segir: „að forða Reykvíkingum öllu grandi, öllum vansa“. Í Kristilegu smáriti handa Íslendingum 1865 segir: „Vak þú yfir mér í dag, og forða mér öllu illu“. Í Baldri 1868 segir: „geta þó fengið björg til að forða sjer hungri“. Í Þjóðólfi 1869 segir: „til að forða þeim eyðingu“. Í Þjóðólfi 1873 segir: „biðja stjórnina að forða sér hungrsdauða“. Eldri dæmi eru líka til: „skipar oss því að flýja fyrir henni og forða oss hennar nánd“ segir í Fimmtíu heilögum hugvekjum frá 1630. „Forða hríðum / forða mér við hríðum“ segir í „Áradalsóði“ eftir Jón Guðmundsson lærða frá svipuðum tíma – og fleiri dæmi mætti nefna.

Í þessum dæmum tekur forða sem sé með sér tvö þágufallsandlög, forða einhverjum einhverju, eins og t.d. lofa og úthlutahún lofaði mér öllu fögru, hann úthlutaði þeim verkefnum. Það er alkunna að þessar sagnir geta sleppt fyrra andlaginu en haldið því seinna eftir – hún lofaði öllu fögru, hann úthlutaði verkefnum. Uppruna dæma eins og forða mannfelli / hungursneyð /óhappi / grandi / slysi o.s.frv. má greina á sama hátt – þ.e. á bak við þau liggur forða (þjóðinni) mannfelli / hungursneyð, forða (sér) óhappi / grandi / slysi o.s.frv. Í dæmum eins og forða slysi, forða tjóni, forða óhappi er þágufallsandlagið upprunnið sem seinna andlag sagnarinnar, en andlagið í forða sér, forða lífi sínu, forða barninu o.s.frv. sem það fyrra.

Þótt lofa og úthluta taki tvö þágufallsandlög eru merkingarleg vensl þeirra við sögnina því ólík. Annað þeirra vísar til persónu, þiggjanda loforðs eða úthlutunar, hitt vísar til þess hlutar eða verknaðar sem er lofað eða úthlutað. Svipað er með forða eins og Helgi Hálfdanarson benti á í Morgunblaðinu 1974: „Glöggt dæmi um þetta er orðalagið að forða slysi og ofsóknin á hendur því. Áratugum saman hefur þessi ágæti talsháttur verið hundeltur með þeim freka útúrsnúningi, að hann hljóti að merkja forða slysinu frá einhverju. Engum getur þó dulizt, að merkingin er sú, að einhverju, sem ekki er nefnt, er forðað frá slysi. […] [M]unu vandfundin boðleg rök gegn þessari notkun sagnarinnar að forða, enda var hún algeng til skamms tíma.“

En samt var haldið áfram að amast við forða slysi. Í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu 2004 segir Jón G. Friðjónsson: „Í nútímamáli ber oft við að sögnin sé látin merkja ‘koma í veg fyrir e-ð, afstýra e-u, hindra e-ð’. […] Slík notkun mun einungis vera kunn úr nútímamáli og getur ekki talist til fyrirmyndar.“ Í sama þætti í Morgunblaðinu 2006 segir Jón: „Í pistlum þessum hefur áður verið á það bent að sögnin forða er alloft notuð með sérkennilegum hætti. […] [G]uð forði okkur frá því að þetta nýmæli nái að festa rætur.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir Njörður P. Njarðvík: „Ég hélt að allir væru hættir þeirri vitleysu að „forða slysum“ […]. Hvert á að forða slysum? Frá hverju á að forða slysum? Sjá ekki allir hvað þetta er vitlaust?“

Nýjustu dæmin af þessu tagi sem ég hef séð eru í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu bæði 2018 og 2019. Líklega hefur þessi barátta haft einhver áhrif – a.m.k. hefur dæmum um forða slysi á tímarit.is farið fækkandi á síðustu áratugum. Útskýring Helga Hálfdanarsonar á því að ekkert sé athugavert við að tala um að forða slysi virðist því ekki hafa haft nein áhrif – sem er sérlega áhugavert. Helgi var nefnilega iðinn við að benda á ýmis tilbrigði í máli sem hann taldi röng, og yfirleitt var tekið mark á honum um það – margt af því sem hann upphófst með (og er sumt býsna vafasamt) hefur t.d. ratað inn í Málfarsbankann. En þarna var hann að reyna að endurreisa sambandið forða slysi – en það gekk ekki. Sambandið var brennimerkt – og er það enn.

Posted on

Hvenær er hús tveggja hæða?

Við vitum öll að áhrifamikil öfl í þjóðfélaginu – stjórnvöld, fjölmiðlar, stórfyrirtæki og valdamiklir einstaklingar – leitast sífellt við að hafa áhrif á skoðanir okkar og gerðir og beita til þess tungumálinu. Það er auðvitað hluti af lýðræðislegri umræðu og ekkert við það að athuga sé það gert á heiðarlegan hátt. En öðru máli gegnir þegar tungumálinu er misbeitt og reynt að telja okkur trú um að íslensk orð sem við öll þekkjum, og vitum hvað merkja, merki í raun eitthvað allt annað. Þetta er því miður alltof algengt en eitt grófasta dæmi um þetta sem ég hef séð nýlega er að finna í yfirlýsingunni „Um uppbyggingu við Skaftafell – skýringar og samhengi“  sem bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar birti á vef sveitarfélagsins.

Yfirlýsingin er birt vegna gagnrýni sem hefur komið fram á byggingu gistihúsa í grennd við Skaftafell, ekki síst að húsin sem áttu að vera á einni hæð eiga nú að vera tveggja hæða. Bæjarstjórinn fullyrðir í Vísi að gagnrýnin eigi ekki rétt á sér: „Það sem skiptir máli er að uppbyggingin samræmist samþykktu skipulagi og settum skilmálum“ segir hann. Það kann vel að vera og ég geri ekki athugasemdir við það, heldur við orð bæjarstjórans í áðurnefndri yfirlýsingu – „húsin eru ekki tveggja hæða í hefðbundnum skilningi“. Í yfirlýsingunni kemur þó fram að milligólf séu í húsunum: „Hvort í húsum séu milligólf eða ekki hefur lítil sem engin áhrif á það hvernig byggðin birtist í landslaginu“ – sem má í sjálfu sér vel vera rétt.

En frá sjónarmiði íslenskunnar snýst málið ekki um það, heldur um þá fullyrðingu bæjarstjórans um eðli húsanna að þau séu „ekki tveggja hæða í hefðbundnum skilningi“. Á myndum má glöggt sjá að gluggarnir á þremur hliðum húsanna eru á tveimur hæðum, auk þess sem húsin eru með svölum. Hús með milligólfi, gluggum á þremur hliðum yfir öðrum gluggum og svölum að auki eru vitanlega tveggja hæða í öllum skilningi og það er augljós og vísvitandi rangfærsla að reyna að halda öðru fram. Ekki bara það – það er dónaskapur og móðgun við málnotendur að reyna að telja þeim trú um að íslensk orð merki eitthvað annað en þau merkja í málvitund almennings. Slíka misnotkun íslenskunnar verður að fordæma harðlega.

Posted on

Að láta lífið

Í grein um Michael Jackson í DV í gær rakst ég á setninguna „Eftir að hann lét lífið árið 2009 hafa þessar ásakanir aftur farið á mikið flug“. Ég staldraði við orðalagið lét lífið vegna þess að ég veit ekki betur en Jackson hafi dáið úr hjartaáfalli vegna ofneyslu lyfja, og það samræmist ekki þeirri merkingu sem ég legg í sambandið láta lífið sem í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýrt 'deyja (af slysi eða af völdum árásar)'. Það er svigagreinin sem þarna skiptir höfuðmáli – sambandið láta lífið er – eða var – ekki samheiti við sögnina deyja heldur vísaði til dauða af tilteknum orsökum. Vissulega má halda því fram að ofneyslan sem olli dauða Michael Jacksons hafi verið slys í einhverjum skilningi en merkingarvíkkun sambandsins er samt ekki einsdæmi.

Reyndar má finna gömul dæmi þar sem sambandi láta lífið er notað um dauðdaga sem ekki orsakast af slysum eða árásum í venjulegum skilningi. Í Heimskringlu 1893 segir t.d.: „Ef eigi er bót á ráðin þegar í stað, hljóta margir að láta lífið af hungri.“ Í Lögbergi 1894 segir: „Canada missir góða borgara sína svo hundruðum skiptir þannig, að þeir láta lífið af því að drekka óhreint vatn.“ En vissulega má flokka hungursneyð og eitrun undir einhvers konar slysfarir. Það er reyndar athyglisvert að frá því fyrir 1890 og alveg fram á fjórða áratug tuttugustu aldar er þetta samband margfalt meira notað í vesturíslensku blöðunum en í blöðum gefnum út á Íslandi, af hverju sem það kann að stafa. En þar er langoftast um að ræða dauðsföll í slysum eða ófriði.

Einstöku dæmi af svipuðu tagi koma fyrir alla tuttugustu öldina, en um og eftir síðustu aldamót virðist dæmum þar sem láta lífið er notað án þess að um slys eða ófrið sé að ræða fara smátt og smátt fjölgandi. Í Í Víkurfréttum 2000 segir: „Margir einstaklingar hafa þegar látið lífið vegna E-töflunnar.“ Í DV 2001 segir: „Um 80 manns í Evrópu hafa látið lífið af nýju afbrigði Creutzfeldt-Jakobs-veikinnar.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „lesbíur séu 60 prósentum líklegri en gagnkynhneigðar konur til að láta lífið úr krabbameini.“ Í Bændablaðinu 2021 segir: „Þá var talið að um 700.000 manns létu lífið á ári vegna sýklalyfjaónæmis.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Milljónir voru án rafmagns og vatns og tugir létu lífið í kuldakastinu.“

Sambandið láta lífið var líka iðulega notað um dauðsföll af völdum kórónuveirunnar. Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Veiran á upptök sín að rekja til Wuhan í Kína en töluverður fjöldi hefur látið lífið vegna hennar.“ Í Fréttablaðinu sama ár segir: „Á fjórða hundrað hafa nú látið lífið af völdum kórónaveirunnar.“ Í Morgunblaðinu 2021 segir: „Alls voru 3.711 manns um borð en þar af smituðust 712 og 14 létu lífið.“ Einnig virðist sambandið oft vera notað þegar fólk fyrirfer sér. Í Monitor 2011 segir: „Það var sorglegt þegar hönnuðurinn Alexander McQueen lét lífið í febrúar.“ Í Tímariti hjúkrunarfræðinga 2024 segir: „Víða um heim eru starfrækt samtök til forvarnar og stuðnings við eftirlifendur þeirra sem láta lífið í sjálfsvígi.“

Ljóst er að notkun sambandsins láta lífið um dauðsföll af völdum sjúkdóma, einkum farsótta, lyfjaneyslu og sjálfsvíga hefur aukist verulega á síðustu árum. Merking þess hefur því greinilega víkkað – ekkert af þessu fellur undir áðurnefnda orðabókarskilgreiningu, 'af slysi eða af völdum árásar'. En það táknar ekki að sambandið sé orðið algert samheiti við deyja. Mér sýnist að það sé sameiginlegt langflestum dæmum um sambandið að um er að ræða ótímabæran dauða. Einstöku dæmi má vissulega finna sem ekki falla undir það, s.s. „Afi lét lífið 92 ára að aldri“ í Morgunblaðinu 2011, en það er undantekning. Skilgreiningin gæti því verið 'deyja ótímabærum dauða (af völdum slyss, árásar, ófriðar, loftslags, farsóttar, lyfjaneyslu, sjálfsvígs o.fl.)'.