Ég veit ekki hversu oft ég hef séð því haldið fram – síðast í a.m.k. tveimur athugasemdum í „Málspjalli“ í gær – að ég telji að ekki megi leiðrétta málfar barna. Og ég veit ekki hversu oft ég hef andmælt þessu enda er það beinlínis rangt – ég hef aldrei haldið neinu slíku fram. Þvert á móti – ég hef oft sagt að það sé eðlilegt og sjálfsagt að foreldrar leiðrétti málfar barna sinna á máltökuskeiði og leiðbeini þeim um málfar. Það er bara hluti af almennu uppeldi. Hitt er annað mál að rannsóknir benda til þess að beinar leiðréttingar („Þú átt að segja mig langar en ekki mér langar“) skili oft litlu og áhrifaríkara sé að endurtaka það sem börnin segja með breyttu orðalagi. Langsamlega áhrifaríkast er samt að hafa gott mál fyrir þeim – tala við þau og lesa fyrir þau.
Börn eru oft mjög afdráttarlaus í tvíhyggju, í því að eitt sé rétt en annað rangt – ekki í tungumálinu sérstaklega heldur í fjölmörgu í umhverfi sínu, svo sem siðum, venjum og skoðunum. En rétt eins og það er sjálfsagt að foreldrar ali börn sín upp við það sem þau telja gott og vandað mál er líka sjálfsagt að ala börnin upp við víðsýni, tillitssemi og virðingu fyrir öðru fólki og skoðunum þess, siðum og venjum – þar á meðal í málfari. Þetta er ekkert flókið. Því er stundum haldið fram að það sé ómögulegt að kenna íslensku ef allt sé leyfilegt í máli. En í fyrsta lagi dettur engum í hug að segja að „allt“ sé leyfilegt, og í öðru lagi ráða börnin ágætlega við þetta, ef þau eru alin upp við að tilbrigði í máli séu eðlileg og við séum ekki öll eins.
En þótt leiðréttingar foreldra á málfari barna sinna séu eðlilegar gildir ekki það sama um allar málfarsleiðréttingar. Opinberar athugasemdir við málfar nafngreinds ókunnugs fullorðins fólks sem ekki hefur atvinnu af tungumálinu eiga ekki að þekkjast. Þarna eru nokkrar breytur og mér finnst athugasemdir þeim mun alvarlegri sem fleiri af þeim eiga við. Það er t.d. alvarlegra að gera athugasemdir við málnotkun almennra málnotenda en fjölmiðlafólks, það er alvarlegra að gera athugasemdir á opinberum vettvangi en í einkasamtali, það er alvarlegra að gera athugasemdir við málfar ókunnugra en málfar fólks sem maður þekkir, það er alvarlegra að gera athugasemdir við málfar nafngreinds fólks en ónafngreinds (t.d. í fjölmiðlum).
Auðvitað eru svo ýmsar aðstæður þar sem athugasemdir og leiðbeiningar – en ekki endilega leiðréttingar – eiga við. Það er t.d. sjálfsagt að kennarar bendi nemendum á hvað er „viðurkennt“ mál – en láti nemendurna síðan um það hvort þeir kjósa að breyta máli sínu til samræmis við það, í stað þess að leiðrétta þá. Það er auðvitað líka sjálfsagt að prófarkalesarar bendi á frávik frá „viðurkenndu“ máli en eðlileg viðbrögð fara eftir eðli textans. Ef um er að ræða texta í fjölmiðli, skrifaðan af starfsfólki miðilsins, er ekki óeðlilegt að prófarkalesari breyti honum í samræmi við reglur miðilsins. Ef um er að ræða bókmenntatexta er hins vegar eðlilegt að prófarkalesari láti nægja að benda á frávikið en láti höfund ráða hvort hann breytir textanum.

+354-861-6417
eirikurr