Posted on Færðu inn athugasemd

Germynd er fyrir gerendur

Einu sinni varð nokkur umræða á Facebook um frásagnir fjölmiðla af ofbeldisverki sem var framið í fyrrakvöld þegar karlmaður hrinti konu fram af svölum. Ýmsir gagnrýndu að í fyrstu fyrirsögnum fjölmiðla hefði verið sagt „Kona féll fram af svölum“ þegar fram kæmi í fréttum að henni hefði verið hrint. Aðrir bentu á að í fréttunum kæmi fram að þótt vitni hefðu sagt að konunni hefði verið hrint hefði það ekki fengist staðfest hjá lögreglu fyrir birtingu fréttarinnar og því hefðu fyrirsagnirnar aðeins sagt það sem vitað var með vissu. Á vef Ríkisútvarpsins, þar sem fyrirsögnin var upphaflega „Kona féll af svölum í Breiðholti“ seint um kvöld, var fyrirsögninni breytt snemma næsta morgun í „Konu hrint fram af svölum í Breiðholti“.

Eftirfarandi athugasemd hafði þá verið bætt við fréttina: „Frétt uppfærð klukkan 06:30. Í fyrri útgáfu kom fram að konan hefði fallið fram af svölum. Inngangi fréttarinnar og fyrirsögn hefur verið breytt til samræmis við upplýsingar frá lögreglu.“ Vísir skrifaði líka frétt um málið snemma morguns með fyrirsögninni „Konu hrint fram af svölum í Breiðholti“ en á mbl.is var fyrirsögnin um morguninn „Alvarlega slösuð eftir fall“ þrátt fyrir að í fréttinni væri fullyrt að konunni hefði verið hrint. Þetta minnti mig á fyrirlestur um ofbeldi gegn konum sem ég sá á netinu fyrir nokkrum árum og skrifaði færslu um á Facebook – Halla Sverrisdóttir þýddi erindið svo og það birtist á Knúz.

Þar var talað um hvernig við getum – meðvitað eða ómeðvitað – haft áhrif á þau hughrif sem kvikna hjá lesendum eða áheyrendum með mismunandi beitingu tungumálsins.  Af orðalaginu Kona féll fram af svölum er eðlilegast að draga þá ályktun að um slys hafi verið að ræða, þótt ég skilji þau rök blaðamanna að meðan ekki hafi fengist staðfesting á ofbeldisverki sé rétt að fara varlega í staðhæfingum. En þegar staðfest hefur verið að um ofbeldisverk var að ræða hafa fjölmiðlarnir fyrirsagnirnar samt í þolmynd, ekki germynd – þær beinast enn að þolandanum, ekki gerandanum. Þær hefðu getað verið Karlmaður hrinti konu fram af svölum eða Karlmaður framdi ofbeldisverk eða eitthvað slíkt.

En þannig voru þær ekki – og þannig eru fyrirsagnir og fréttir sjaldnast. Gerandinn, sá sem er valdur að hinum fréttnæma atburði, er í skugganum – en þolandinn, sem olli ekki atburðinum en var staddur á röngum stað á röngum tíma, fær alla athyglina. Mér dettur ekki í hug að blaðamenn séu vitandi vits að hlífa gerandanum í þessu dæmi eða öðrum svipuðum. En þarna er ákveðin hefð sem við þurfum að vinna gegn – hefð sem er mótuð af rótgrónum viðhorfum og viðheldur þeim. Látum ekki tungumálið ganga í lið með gerendum – notum germynd þar sem við á, ekki þolmynd. Muninum verður ekki betur lýst en með broti úr Ljósi heimsins eftir Halldór Laxness:

„Hvað er að þér, Jósep? spurði hann að lokum.
Gamli maðurinn svaraði upp úr grátinum, og var enn ekki farinn að hafa rænu á að verka af sér forina:
Ég var barinn, sagði hann. Mér var hrint.
Ýngra barn mundi hafa sagt um hina krakkana: Þau börðu mig, þau hrintu mér – og nefnt nöfn. Eftir að hafa verið mishepnað skáld, búið fjörutíu ár á koti og mist sjö börn í jörðina og sjóinn, sagði hann aðeins: ég var barinn; mér var hrint. Hann ásakaði ekki neinn. Það afl sem stjórnaði lífi hans var ópersónulegt.“

Posted on

Að eiga samtal og taka samtalið

Ég hef stundum séð amast við meintri ofnotkun sambandsins eiga samtal þar sem ýmsum finnst einfaldara og eðlilegra að segja tala við eða tala saman, ræða við eða ræða saman, o.fl. Þess hefur verið getið til að þetta sé komið úr ensku, have a conversation, og það hljómar ekki ólíklega. Það myndi þá samræmast því sem oft er haldið fram, að vísu með litlum rökum, að íslenska sé „sagnamál“ en enska „nafnorðamál“. Það er vissulega rétt að tíðni sambandsins hefur aukist verulega á síðustu fimmtán árum eða svo og þar kunna ensk áhrif að skipta máli. En uppruna sambandsins er tæpast hægt að rekja til ensku, því að það hefur tíðkast í íslensku a.m.k. síðan í lok nítjándu aldar og var nokkuð algengt alla tuttugustu öldina.

Í Skírni 1892 segir: „Maður […] talar latínu við hann, nema að ferðamaðurinn sé ekki fær um að eiga samtal á dauðu máli.“ Í Landsyfirréttardómum og hæstaréttardómum í íslenskum málum 1895 segir: „en er þeir haustið 1891 áttu samtal um þetta.“ Í Þjóðólfi 1899 segir: „Hún kom, svo þau áttu samtal í tjaldinu.“ Í Austra 1899 segir: „Eg heyrði hér um daginn nokkra bændur eiga samtal um friðarboðskap keisarans.“ Í Sameiningunni 1903 segir: „Ef sagt hefði verið fyrir fám árum, að maðr einn hefði átt samtal við annan mann.“ Í Ísafold 1905 segir: „Við og við verður átt samtal við börnin um ýmislegt á göngu um nágrennið.“ Í Reykjavík 1908 segir: „Eg kæri mig ekkert um að eiga samtal undir fjögur augu við þennan ræðumann.“

Það eru ýmis dæmi um það á seinustu árum að notkun tiltekins orðs eða orðasambands sem lengi hefur verið í málinu aukist vegna enskra áhrifa og þetta kann vel að vera eitt af þeim. En annað samband þessu skylt, sem einnig hefur verið amast við en er mun yngra, er taka samtal(). Elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2002: „blaðamenn DV höfðu með skrifum sínum nauðbeygt hann til að taka samtalið við Davíð.“ Næsta dæmi á tímarit.is sést ekki fyrr en í Kjarnanum 2013: „flokkurinn hefur aldrei verið hræddur við að taka samtalið um alþjóðasamstarf fyrr en nú.“ Upp úr þessu fer dæmum um sambandið fjölgandi og það hefur breiðst gífurlega út á síðustu 5-10 árum – alls eru hátt í 900 dæmi um það í Risamálheildinni.

Það er ekkert ótrúlegt að farið hafi verið að nota taka samtal() undir einhvers konar sameiginlegum áhrifum frá eiga samtal og have a conversation, en tæpast er hægt að kenna enskum áhrifum um þá sprengingu sem hefur orðið í notkun sambandsins undanfarið. Það hefur af einhverjum ástæðum orðið klisja í þjóðfélagsumræðunni, ekki síst meðal stjórnmálafólks – í Risamálheildinni eru alls rúm hundrað dæmi um það úr ræðum á Alþingi, sem er mjög hátt hlutfall miðað við hlut þessara ræðna af heildinni. Öfugt við flestar önnur málfarsnýmæli er aðeins lítið brot af dæmunum, innan við hundrað, úr samfélagsmiðlum. Þótt sambandið taka samtal() megi teljast fullgild íslenska út af fyrir sig verður varla annað sagt en það sé ofnotað.

Posted on

Mig brast kjark – eða mér brast kjarkur

Ég var spurður hvaða frumlagsfall ætti að nota með sögninni þverra – á að nota nefnifall og segja kjarkurinn þvarr eða þolfall og segja kjarkinn þvarr? Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin aðeins sýnd með nefnifallsfrumlagi en í Málfarsbankanum segir: „Sögnin þverra getur verið notuð ópersónulega og stendur þá með henni frumlag í þolfalli. Mig þverr kraft. Yfirleitt er þó sögnin notuð persónulega. Kraftarnir þurru. Kraftarnir hafa þorrið.“ Þarna er því nefnifall ef sögnin er áhrifslaus (án andlags) en þolfallsfrumlag með andlagi. Í Íslenskri orðabók og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru þessar tvær setningagerðir nefndar, en einnig sú þriðja – dagsbirtuna þvarr þar sem frumlagið er í þolfalli þrátt fyrir að sögnin sé án andlags.

Málfarsbankanum og Íslenskri orðabók ber saman um að sé sögnin áhrifssögn standi bæði frumlag og andlag í þolfalli – mig þverr kraft, manninn þvarr kjark. En í Íslenskri orðabók er gert ráð fyrir að andlagið geti líka verið í nefnifalli – manninn þvarr kjarkur. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru sömu setningagerðir nefndar, og auk þess dæmi um þágufallsfrumlag. Þar eru nefnd dæmin gestina þvarr mátt og henni þvarr allur máttur þar sem þolfallsandlag fylgir þolfallsfrumlagi en nefnifallsandlag fylgir þágufallsfrumlagi. Það er þekkt mynstur hjá sögnum þar sem frumlagið hvarflar milli þolfalls og þágufalls – þannig er t.d. venjulega sagt mig brast kjark en hins vegar mér brast kjarkur, en yfirleitt ekki mig brast kjarkur.

Þótt hvorki orðabækur né Málfarsbankinn nefni að þverra geti tekið þágufallsfrumlag virðist það lengi hafa verið algengt – ég sé reyndar ekki betur en að a.m.k. síðan á nítjándu öld hafi þágufallsfrumlag verið margfalt algengara en þolfallsfrumlag og sé enn, og því fylgi nær alltaf nefnifallsandlag. Í Iðunni 1884 segir: „Þegar hinni dökku sveit þvarr rómur.“ Í Reykjavík 1904 segir: „Svo fór líka, að Valtýskunni óx heldur fylgi, en heimastjórnarflokknum þvarr það að sama skapi.“ Í Verði ljós 1904 segir: „honum þvarr allur máttur.“ Í Ísafold 1908 segir: „þeim þvarr þrek og þrautseigja.“ Í Ísafold 1910 segir: „Með ellinni þvarr honum heilsa og þróttur.“ Næstum öll dæmi um þverra með andlagi í Risamálheildinni virðast hafa þágufallsfrumlag.

Dæmi um þolfallsfrumlag eru vissulega til, en sárafá. Í Kirkjuritinu 1937 segir: „Hann þvarr hvergi stilling né hugprýði.“ Í Fréttablaðinu 2011 segir: „mig þvarr úthald til að fylgjast með Tíma nornarinnar síðasta vor.“ Í þessum dæmum sést ekki hvort andlagið er í nefnifalli eða þolfalli (orð eins og stilling voru áður endingarlaus í þolfalli). En ótvíræð dæmi má finna um hvort tveggja. Í Faxa 1973 segir: „Mig þvarr því mátt“ en í Vikunni 1988 segir: „mig þvarr allur máttur“. Tvö dæmi eru sérlega athyglisverð. Í þýddri frásögn í Úrvali 1956 segir: „En gæsin brauzt um og reyndi að losa sig, unz hana þvarr máttur að nýju“ en í sama texta í Æskunni 1960 er setningin: „En gæsin brauzt um og reyndi að losa sig, unz hana þvarr mátt að nýju“.

Þegar þverra er án andlags er frumlagið langoftast í nefnifalli eins og Málfarsbankinn segir, en dæmi um þolfallsfrumlag eins og nefnd eru í Íslenskri orðabók og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru þó til. Í Vísi 1960 segir: „kraftana þvarr nú undarlega fljótt.“ Í Tímanum 1981 segir: „jafnvel frægir skákmenn geta átt von á breytingum til hins verra þegar aldurinn færist yfir eða kraftana þverr af einhverjum ástæðum.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Sá sem hana fremur, stingur sig í kviðinn með hnífi eða stuttu sverði og ristir upp á við þar til máttinn þverr.“ Í Skagfirðingabók 1994 segir: „Þar sem heilsu Stefáns hrakaði næstu árin, máttinn þvarr.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „þegar þá þvarr fóru þeir félagar að hlæja af ásetningi.“

Ekki verður skilist við sögnina þverra án þess að nefna að áður fyrr beygðist hún iðulega veikt. Í athugasemd við hana í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Allmörg dæmi um veika beygingu, þt. þverraði, eru í Ritmálssafni og á timarit.is, aðallega frá 19. öld, en þeim fer fækkandi með árunum.“ Slík dæmi má þó finna þegar í Guðbrandsbiblíu frá 1584: „viðsmjörið í krúsinni þverraði ekki.“ Nútíðarmyndir sagnarinnar voru einnig iðulega veikar – í Heima er bezt 1961 segir t.d.: „En sigurgleði fulltrúans þverrar brátt.“ Bæði sterk og veik beyging er gefin í Íslenskri orðabók og ekki gert upp á milli. Veika beygingin virðist hafa verið nokkuð algeng fram yfir miðja tuttugustu öld, en er nú líklega nær horfin – en reyndar er sögnin ekki algeng.

Spurningunni sem ég nefndi í upphafi svaraði ég – áður en ég hafði kannað málið vandlega: „Ég held að öruggara sé að hafa nefnifall þarna en það mætti alveg verja þolfallið líka.“ Málfarsbankinn gerir ráð fyrir nefnifalli eins og áður segir en ýmis dæmi eru um þolfall og varla hægt að líta alveg fram hjá þeim. Hins vegar er ljóst að dæmi Málfarsbankans um notkun þverra með andlagi þar sem bæði frumlag og andlag eru í þolfalli, mig þverr kraft, er ekki í samræmi við hefðbundna málnotkun – allt frá nítjándu öld hefur sögnin í yfirgnæfandi meirihluta tilvika verið höfð með þágufallsfrumlagi og nefnifallsandlagi, mér þverr kraftur. Engar forsendur eru fyrir öðru en telja þetta rétta – og eðlilegustu – notkun sagnarinnar.

Posted on

Vilhallur, óvilhallur – og vilhollur

Í grein í DV staldraði ég við setninguna „Bankahrunið batt enda á skammvinna setu Geirs H. Haarde á stóli forsætisráðherra, en ég hygg að sagan verði honum vilhöll“. Í mínu máli hefur lýsingarorðið vilhallur merkinguna 'hlutdrægur' eins og það er skýrt í Íslenskri orðabók, og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'partisk'. Það er líka upphafleg merking orðsins eins og fram kemur í dæmum úr fornu máli. Í Eymundar þætti í Flateyjarbók segir t.d.: „grunar mig að liðsmenn yðrir muni vilhallt sagt hafa og eigi væri enn sannindi vituð þessa máls.“ En ég er nokkuð viss um að merkingin í umræddri tilvitnun átti ekki að vera sú að höfundur teldi að dómur sögunnar um Geir yrði hlutdrægur honum í vil.

Það sem höfundur vill væntanlega koma á framfæri er að hann telur að Geir muni fá góðan dóm í sögunni. Skýring Íslenskrar nútímamálsorðabókar, 'hlynntur e-u, hallur undir e-ð', er nær þessari merkingu en hlutdrægur en þó tæpast nógu hlutlaus. Orðið virðist sem sé hafa breytt um merkingu á seinni árum, í máli sumra a.m.k., og merkja ekki lengur 'hlutdrægur' heldur 'hlynntur, vinveittur, hagstæður' eða eitthvað slíkt. Þessi breyting virðist hafa verið í gangi nokkuð lengi, jafnvel síðan á nítjándu öld, en erfitt er að skoða aldur hennar og útbreiðslu í textum því að oft geta báðar merkingar átt við. Þegar orðið er notað án þess að nafnorð eða fornafn í þágufalli fylgi með (vilhallur einhverjum) er þó ljóst að merkingin er 'hlutdrægur'.

Þannig segir t.d. í Iðunni 1887: „Jæja, þar sérðu, hvort það er við lambið að leika sér, við slægan mann og vilhallan dómara.“ Í Vísi 1939 segir: „Það eitt nægir heldur ekki, að blöðin sjálf séu vilhöll í fréttaflutningi sínum.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Líklega hefur dómnefndin verið vilhöll, enda var vitað fyrir að hún vildi ekki Sigurð.“ En í Nýjum félagsritum 1846 segir: „Málalok í verzlunarmálinu voru svo góð og vilhöll landsmönnum, að þeir mega með öllum rétti fagna þeim.“ Hér merkir vilhöll eiginlega 'hagstæð' eða eitthvað slíkt. Í Skírni 1875 segir: „Frakkar leggja sig sem mest í líma við að gera Rússa sjer vilhalla.“ Hér merkir vilhalla væntanlega 'hliðholla' – hugsanlega líka 'hlutdræga' en það þarf þó ekki að vera.

Ekki er hægt að fjalla um orðið vilhallur nema skoða það líka með neitunarforskeyti, óvilhallur – sem er reyndar margfalt algengara orð. Það er skýrt 'óhlutdrægur' í Íslenskri orðabók og 'sem ekki lætur stjórnast af samúð eða fjandskap við annan aðila í deilu, óhlutdrægur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Búast mætti við að merking þess orðs breyttist á svipaðan hátt, þannig að það færi að merkja 'óvinveittur, óhagstæður' eða eitthvað slíkt. En ekki fer mikið fyrir því þótt finna megi nýleg dæmi. Í Kjarnanum 2021 segir: Það má nefnilega segja að forgangsröðun stjórnvalda á Íslandi hafi verið fremur óvilhöll ungu fólki.“ Í ræðu á Alþingi 2012 segir: „Enginn getur haldið því fram að forseti ASÍ sé sérstaklega óvilhallur þessari ríkisstjórn.“

En eins og með vilhallur er ekki alltaf auðvelt að greina nákvæmlega hvaða merkingu þau sem nota óvilhallur leggja í orðið. Gott dæmi um það má finna í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2004 þar sem Jón G. Friðjónsson vitnar í setninguna „Þegar við bættist óvilhöll dómgæsla þá var á brattann að sækja“ í íþróttafrétt í Morgunblaðinu sama ár og segir: „Hér virðist lo. óvilhallur notað í merkingunni 'hlutdrægur', þ.e. í þveröfugri merkingu við það sem við eigum að venjast. Trúlega er það forskeytið ó- sem veldur þessu klúðri.“ Þetta kann að vera rétt, en ég held samt frekar að merkingin sé þarna 'óvinveitt, óhagstæð' – þótt vitanlega megi til sanns vegar færa að dómgæsla sem er óvinveitt eða óhagstæð sé um leið hlutdræg.

Við skoðun á dæmum um vilhallur rakst ég á annað mjög svipað orð – (ó)vilhollur. Elsta dæmi um það er í Nýjum félagsritum 1855: „þókti mér hann bera bezt skyn á, og vera vilhollastr máli voru og bókagjörð á næst undanförnum öldum.“ Augljóst virðist að þetta er afbrigði af vilhallur og hefur lifað lengi við hlið þess og gerir enn – alls eru rúm sjötíu dæmi um orðið á tímarit.is og um fimmtíu í Risamálheildinni. Það er væntanlega orðið til fyrir áhrif frá lýsingarorðinu hliðhollur og hefur oftast svipaða merkingu þótt merkingunni 'hlutdrægur' bregði einnig fyrir. Það má halda því fram að í þessari merkingu sé það ekki síður gagnsætt en vilhallur og í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að viðurkenna það sem gott og gilt orð frekar en misskilning.

En svo að aftur sé komið að orðinu vilhallur verður ekki betur séð en báðar merkingarnar, 'hlutdrægur' og 'hlynntur, vinveittur, hagstæður', séu algengar í nútímamáli en eins og áður segir er ekki alltaf auðvelt að greina þar á milli enda oft um huglægt mat að ræða – það sem sumum finnst augljós hlutdrægni getur öðrum fundist málefnalegur stuðningur við annan aðilann. Vegna þess hve mörkin eru óljós er uppkoma nýrri merkingarinnar mjög skiljanleg – orðið vilhallur má líka hugsa sér að merki 'hallast í vil' og ekkert sem segir að eitthvað sé óeðlilegt við það. Þótt merkingin 'hlutdrægur' sé eldri er hin merkingin svo gömul og útbreidd að engin leið er að kalla hana ranga. En þessi tvíræðni orðsins getur vissulega verið óheppileg.

Posted on

Uppáhaldsorð eða eftirlætisorð?

Orðin uppáhald og eftirlæti í merkingunni ‘sá eða sú sem einhver hefur í hávegum umfram aðra’ eins og það síðarnefnda er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók voru nýlega til umræðu í „Málspjalli“. Málshefjandi sagði að það fyrrnefnda væri „svo löngu komið inn í málið að það telst hrein íslenska þó það sé danskt að uppruna“ og yfirtæki síðarnefnda orðið „sem er þó miklu skemmtilegra orð“. Hún sagði einnig að einn íslenskukennari sinn hefði hvatt nemendur til að nota eftirlæti fremur en uppáhald enda hefði Jónas Hallgrímsson aldrei notað það síðarnefnda. Engin athugasemd er þó gerð við uppáhald í Málfarsbankanum þar sem segir einungis: „Orðið uppáhald má finna í fjölmörgum samsetningum: uppáhaldsbragðtegundinuppáhaldsfag.“

Orðið eftirlæti kemur oft fyrir í fornu máli og merkir þá yfirleitt ‘eftirlátssemi, greiði, hlýðni’ eða eitthvað slíkt. „Veit eg eigi hvort mér er þunglegra, angurlyndi föður þíns eða eftirlæti við hann“ segir í Gísla sögu Súrssonar. „Melkorka spyr hví hann vildi eigi veita henni eftirlæti það að flytja hana til Íslands“ segir í Laxdæla sögu. Hins vegar er ekki að sjá að orðið sé notað um fólk í fornu máli (t.d. hún er eftirlæti mitt) eða í samsetningum (t.d. eftirlætissonur). Í umræðu í „Málspjalli“ sagði Haukur Þorgeirsson að það virtist „býsna ungt“ að nota eftirlæti í sömu merkingu og uppáhald. Óljóst er hvenær sú merking kemur til – samsetningar með eftirlætis- eru til a.m.k. frá nítjándu öld, en ekki er alltaf auðvelt að átta sig á nákvæmri merkingu þeirra.

Í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1884 segir t.d. um Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups: „hún var ágætlega gáfuð til munns og handa, og eftirlætisbarn föður síns.“ Brynjólfur átti tvö börn, en þetta þarf ekki endilega að þýða að hann hafi haft meira uppáhald á Ragnheiði en Halldóri syni sínum, heldur að hann hafi haft mikið eftirlæti á henni. En í Lögbergi 1901 virðist merkingin fremur vera ‘uppáhaldsbarn’: „Hún var talin gáfuðust allra þeirra systkina, og var eftirlætisbarn föður síns á meðan hann lifði.“ Sennilega hafa báðar merkingarnar lengi lifað hlið við hlið og gera jafnvel enn eins og sést í Morgunblaðinu 2003: „Ég var auðvitað eftirlætisbarn, aldrei þurfti ég að vinna neitt innanhúss“. Hér er merkingin sennilega ekki ‘uppáhaldsbarn’.

Eitt af því sem gæti bent til þess að orðin eftirlæti og uppáhald hafi ekki alltaf alveg sömu merkingu er að þau standa iðulega hlið við hlið. Í Kennaranum 1899 segir: „Hann var uppáhald og eftirlæti föður síns.“ Í Lögbergi 1923 segir: „Hún var eftirlæti foreldra sinna og uppáhald leiksystkina sinna.“ Í Þjóðviljanum 1982 segir: „Sigurjón Ólafsson varð ungur uppáhald og eftirlæti fagurkera og færustu sérfræðinga í myndmennt.“ Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Tariq-ol-Islam varð strax eftirlæti og uppáhald hinna „trúuðu“.“ Vissulega þarf þetta ekki að sýna að fólk leggi mismunandi merkingu í orðin heldur getur einfaldlega verið um að ræða tvítekningu sömu merkingar til áherslu – slíkt er algengt, eins og t.d. glens og gaman.

Orðið uppáhald er mun yngra en eftirlæti – elstu dæmi um það eru frá lokum átjándu aldar, úr Kvöldvökum Hannesar Finnssonar: „við það annað vórud þjer ordinn mesta uppáhald Kalífans“, „eins eru konúngarnir og þeirra uppáhald“ og „eg vard uppáhaldid hans“. Þarna er ekki annað að sjá en orðið hafi sömu merkingu og í nútímamáli, ‘sem er hafður í hávegum umfram aðra’. Á nítjándu öld fara svo að koma fram ýmsar samsetningar með uppáhalds- að fyrri lið – „Enn 25. dag nóvembers kom Akbar, uppáhaldssonur Dost Mahomed‘s […] í leikinn“ segir í Skírni 1843; „Önnur villa er að hafa uppáhaldsbörn“ segir í Norðra 1856; „eg er uppáhalds-innistúlkan hennar Undinu, sem er uppáhaldsdóttir sækóngsins“ segir í Barnablaðinu 1899.

Í innlegginu í „Málspjalli“ sem vitnað var til í upphafi var nefnt að uppáhald væri „danskt að uppruna“. Í umræðum kom fram að þátttakendur áttuðu sig ekki á því af hvaða danska orði eða orðasambandi þetta væri komið, og ég finn ekkert sem bendir til dansks uppruna orðsins. En orð sem mynduð eru á svipaðan hátt, með tveimur forskeytum, þykja stundum kauðsleg (svo sem óásættanleguróínáanlegur o.fl.) og hugsanlegt er að fólk hafi einfaldlega gefið sér að orð sem ekki væri fallegt hlyti að eiga sér danskan uppruna. En þótt svo sé ekki má vitanlega halda því fram – eins og oft er gert – að samsetningar með eftirlætis- séu mun fegurri en með uppáhalds-. Ég geri ekki athugasemd við það, en hvort tveggja er vitaskuld góð og gild íslenska.

Posted on

Skiptir íslenskukunnátta máli fyrir verkafólk?

Formaður Eflingar skrifar langan pistil á Facebook í framhaldi af erindi sínu á málþingi ASÍ á föstudaginn var um stöðu kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði. Þótt ég sé ósammála henni um sumt er mjög margt þarna sem ég get tekið undir, ekki síst um óæskileg áhrif þeirrar atvinnustefnu sem hefur „síðasta áratug snúist um að hingað flyttist fólk í þeim tilgangi að vinna í láglaunastörfum“. Ég skrifaði í pistli í fyrra: „Mín skoðun er sú að framtíð íslenskunnar verði ekki tryggð nema með gerbreyttri atvinnu- og launastefnu þar sem hætt verði að leggja áherslu á að fá til landsins tugþúsundir fólks í láglaunastörf þar sem þarf að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og fólk hefur hvorki tíma né orku, né heldur hvata, til íslenskunáms.“

Ein ástæðan sem formaðurinn nefnir fyrir því að frjálst flæði vinnuafls sé „eftirsóknarvert fyrir efnahagslega og pólitíska valdastétt“ er þessi: „Lýðræðisleg þátttaka væri að mestu skilin eftir í heimalandinu. Fyrsta kynslóð innflytjenda tæki yfirleitt ekki þátt í kosningum, sem gerði það að verkum að þau yrðu ekki hópur sem gæti haft áhrif á útkomu þingkosninga; því væri mjög auðvelt fyrir stjórnmálafólk að láta sem hagsmunir þeirra skiptu engu máli.“ Þetta er alveg rétt, en ég held að þarna hlyti aukin íslenskukunnátta að geta breytt einhverju. Ef innflytjendur skildu almennt íslensku gætu þeir frekar fylgst með pólitískri umræðu, líkur á að þeir tækju þátt í kosningum ykjust, og stjórnmálafólk og flokkar sæju frekar hag sinn í að taka tillit til þeirra.

Formaðurinn segir einnig: „Að sjálfsögðu er alltaf gagnlegt að geta talað tungumál landsins sem búið er í. En það er ekki töfralausn á þeim grafalvarlegu kerfisbundnu vandamálum sem aðflutt verkafólk býr við. Við vinnum ekki gegn stéttaskiptingu, arðráni og misskiptingu með því að læra íslensku. Jafnvel þótt allt aðflutta verkafólkið sem starfar á íslenskum vinnumarkaði myndi á morgun vakna altalandi á íslensku yrðu þau enn verkamenn við störf á byggingasvæðum, á hótelum, við ræstingar, í eldhúsum, á hjúkrunarheimilum og leikskólum.“ Í framhaldi af þessu segir formaðurinn „það er ekki mitt hlutverk eða félaga minna í stjórn eða trúnaðarráði eða samninganefnd að kenna fólki íslensku eða vinna að verndun þjóðtungunnar“.

Þetta er auðvitað hárrétt – þótt því megi bæta við að það er ekki heldur hlutverk verkalýðsfélaga að gera lítið úr verndun þjóðtungunnar eins og mér finnst formaðurinn stundum gera með tali sínu. Ég held reyndar að ein leið til að vinna gegn stéttaskiptingu, arðráðni og misskiptingu sé að innflytjendur læri íslensku og fer ekki ofan af því að með því aukast möguleikar þeirra á vinnumarkaði auk þess sem dregið er úr hættu á að svindlað sé á þeim. En vitaskuld er það rétt að íslenskukunnátta ein og sér bætir stöðu fólks ekki endilega mikið. Aðalvandinn er nefnilega viðhorf Íslendinga – til ensku, ófullkominnar íslensku, og ekki síst til innflytjenda almennt. Ef okkur er í raun og veru annt um íslenskuna þurfum við virkilega að taka okkur tak í þeim efnum.

Okkur formann Eflingar greinir vissulega á um það hvort íslenskukunnátta sé eða geti orðið innflytjendum til hagsbóta á einhvern hátt. Eins og ég hef oft reynt að rökstyðja held ég að svo sé, en ætla ekki að fara að þrasa um það – það er allt í lagi að við séum ósammála um þetta. Formaðurinn tekur vitanlega afstöðu út frá því sem hún telur gagnast umbjóðendum sínum best og það kann vel að vera að einhliða áhersla á mikilvægi íslenskukennslu dragi athyglina frá öðru sem máli skiptir fyrir innflytjendur. En ég tel að hagsmunir innflytjenda geti vel farið saman við hagsmuni íslenskunnar – eða ættu a.m.k. ekki að þurfa að rekast ekki á við þá. Það er hvorki innflytjendum í hag né íslenskunni að þessu tvennu sé stillt upp sem andstæðum.

Posted on

Að daga uppi – eða dala uppi

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins nýlega stóð: „Svo eiga sumir gripir það til að dala uppi á heimilum fólks.“ Í „Málvöndunarþættinum“ var réttilega bent á að dala uppi ætti væntanlega að vera daga uppi, enda hefur þessu nú verið breytt. Mér fannst samt forvitnilegt að kanna hvort þetta væri einföld innsláttarvilla eða hvort einhver fleiri dæmi væru um dala uppi í þessari merkingu – og svo reyndist vera. Í Víkurfréttum 2005 segir: „Hvar ætli það verkefni hafi dalað uppi?“ Á Twitter 2018 segir: „Þetta má ekki dala uppi eins og Sundabrautin.“ Í Ljósmæðrablaðinu 2021 segir: „Hugmyndir koma stundum viljandi og stundum óvænt, sumar dala uppi snemma.“ Í Vísi 2022 segir: „Svo þornuðu sjensarnir upp og hann dalaði uppi einn.“ Örfá önnur dæmi má finna.

Sambandið daga uppi er skýrt 'gleymist, verður afgangs' í Íslenskri nútímamálsorðabók. En þar er einnig gefið sambandið <tröllið> dagar uppi – 'tröllið verður að steini (þegar dagsbirtan fellur á það)'. Þar er komin upphafleg merking sambandsins sem víða kemur fyrir í þjóðsögum en merkingin 'gleymist, verður afgangs' er yfirfærð – og mjög eðlileg. En ef fólk þekkir ekki þessi tengsl eða áttar sig ekki á þeim verður merking sambandsins ekki gagnsæ og það skapar forsendur fyrir breytingum. Hugsanlegt er að málnotendur tengi þetta við sögnina dala sem merkir 'fara aftur, versna' – þarna munar aðeins einu hljóði og þótt merkingin sé ekki sú sama er alveg hægt að sjá ákveðinn merkingarskyldleika. Þetta er þó bara órökstudd tilgáta.

Í framangreindum dæmum um dala uppi sést ekki hvort frumlagið er í nefnifalli eða þolfalli, en í Íslenskri nútímamálsorðabók kemur fram að fall frumlagsins með sambandinu daga uppi geti verið hvort heldur sem er. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók er sambandið hins vegar eingöngu gefið með þolfallsfrumlagi, og í Málfarsbankanum segir: „Sögnin daga er ópersónuleg. Með henni stendur frumlag í þolfalli. Frumvörpin dagaði (ekki „döguðu“) uppi í þinginu. Tröllkarlana dagar uppi.“ Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2007 nefnir Jón G. Friðjónsson setninguna „þá erum við eins og nátttröll sem hafa dagað uppi í breyttum heimi“ sem dæmi um setningu „þar sem vikið er frá málvenju“. En það er hæpið.

Í greininni „Sagnir með aukafallsfrumlagi“ í Íslensku máli 1997 segir Jóhannes Gísli Jónsson: „Aukafallsfrumlag er sjaldan þolandi og aukafallsfrumlag með þetta merkingarhlutverk hefur tilhneigingu til að fá nefnifall.“ Sem dæmi um þetta nefnir hann „Tröllskessuna (þf.) àTröllskessan (nf.) dagaði uppi“. Þetta er fjarri því að vera nýtt. Í Þjóðólfi 1893 segir: „þau döguðu uppi, voru ekki útrædd.“ Í Kirkjublaðinu 1894 segir: „flögðin döguðu uppi fyrir hinni upprennandi morgunsól.“ Í Vikuútgáfu Alþýðublaðsins 1929 segir: „Hún dagaði uppi.“ Í Morgunblaðinu 1932 segir: „Áskorun þessi dagaði uppi í þinginu.“ Svo mörg og gömul dæmi eru um nefnifall með daga uppi að það hlýtur að teljast málvenja og jafnrétt og þolfall.

Nú spyrjið þið kannski: Hvers vegna í ósköpunum að eyða púðri í dala uppi sem er augljós villa sprottin af misskilningi eða misheyrn og hefur lítið breiðst út? Svarið er að það er alltaf gaman og áhugavert að skoða tilbrigði í málinu og velta því fyrir sér hvernig og hvers vegna þau koma upp. Tilbrigði af þessu tagi – sem í upphafi eru auðvitað málvillur – geta nefnilega sagt manni ýmislegt um eðli málsins og málbreytinga, og stundum breiðast þau út og verða á endanum rétt mál. Athuganir á svona tilbrigðum geta líka leitt mann út á aðrar áhugaverðar brautir – ef ég hefði ekki farið að garfa í dala uppi hefði ég ekki áttað mig á tilbrigðunum í frumlagsfalli með daga uppi. En aðallega er ég samt að skrifa um þetta vegna þess að mér finnst það svo gaman.

Posted on

Neikvæð umræða er niðurdrepandi

Þegar ég stofnaði hópinn „Málspjall“ fyrir rúmum fimm árum var eitt helsta markmiðið að efla jákvæða umræðu um íslenskuna – mér fannst allt of mikil neikvæðni og oft á tíðum Þórðargleði ríkja í umræðunni, ekki síst í „Málvöndunarþættinum“. Þetta hefur að einhverju leyti tekist – ég hef leitast við að skrifa hér fræðandi pistla um ýmis tilbrigði í málinu og svara fyrirspurnum án þess að fordæma tilbrigði. En ég átta mig á því að í seinni tíð hefur umræðan orðið neikvæðari en skyldi, og á því ber ég fulla ábyrgð með fjölmörgum pistlum um dapurlegar framtíðarhorfur íslenskunnar og óþarfa enskunotkun á ýmsum sviðum. Hvorugt er sérlega upplífgandi eða jákvætt og því í fullkominni andstöðu við upphafleg markmið hópsins.

Vissulega hef ég það mér til afsökunar að markmið skrifanna er ekki að hneykslast heldur að vekja fólk til vitundar um stöðu íslenskunnar og  brýna það til að gera betur, og ég held að það sé mikilvægt og geri vonandi eitthvert gagn. En það breytir því ekki að þetta setur neikvæðan svip á umræðuna og hætt er við að það fæli fólk frá hópnum. Og ekki bara það – hættan er líka sú að þessi neikvæða umræða verki þveröfugt við það sem stefnt er að og dragi úr trú fólks á íslenskuna og framtíð hennar. Þarna er vandrataður vegur milli hvatningar sem blæs fólki í brjóst heilbrigðum metnaði fyrir hönd íslenskunnar og trú á framtíð hennar, og svo svartagallsrauss sem fyllir fólk bölsýni og sannfærir það um að íslenskan sé á fallandi fæti.

En þrátt fyrir að umræðan undanfarið – ekki bara í „Málspjalli“ heldur líka annars staðar – hafi oft verið með neikvæðum formerkjum hefur hún sýnt að áhugi á stöðu íslenskunnar er mikill. Áskorunin er því að virkja þann áhuga til raunverulegra aðgerða – án þess að gera tunguna að pólitísku bitbeini um leið. Það er vel hægt – umræða um minnkandi lestur á skáldsögum Halldórs Laxness í framhaldsskólum hefur til dæmis kallað fram ýmsar frásagnir af frjórri og skapandi íslenskukennslu í skólum. Það þarf að snúa neikvæðum barlómi og tuði upp í jákvæða umræðu um hvað hægt sé að gera – og gera það síðan. Það er nefnilega ýmislegt hægt að gera, og flest af því kostar ekki neitt – nema smávegis hugsun og tillitssemi. Þar má m.a. nefna:

Að tala sem mest við börn og unglinga og fjölga símalausum samverustundum barna og foreldra; að lesa fyrir börnin og með þeim, hvetja þau til lestrar og vera þeim góð fyrirmynd á því sviði; að nota alltaf íslensku ef þess er nokkur kostur og vera uppörvandi við fólk sem er að læra málið í stað þess að leiðrétta það óumbeðið eða skipta yfir í ensku; að þrýsta á stjórnvöld að móta stefnu um móttöku og inngildingu innflytjenda og fylgja þeirri stefnu eftir með aðgerðum; og vitaskuld að vera jákvæð og skapandi í okkar eigin málnotkun og sýna málnotkun annarra virðingu og umburðarlyndi þótt hún sé önnur en við teljum rétta eða erum vön. Margt fleira mætti nefna og ég heiti á ykkur að fylla „Málspjall“ af jákvæðum fréttum af íslenskunni.

Posted on

Pólitísk misnotkun íslenskunnar

Í grein í Viðskiptablaðinu í gær vísar varaformaður Miðflokksins í grein sem Bubbi Morthens („mistæk samviska þjóðarinnar“) skrifaði nýlega í Morgunblaðið og segir: „Bubbi er þó sömu fjötrum bundinn og okkar helsti málfarslegi aðgerðaleysissinni, Eiríkur Rögnvaldsson. Í þeirra hópi snarhemlar öll umfjöllun um innflytjendamál á hárréttum stað við leyfileg mörk opinberrar umræðu á frjálslyndum vinstri væng, nefnilega í léttvægum athugasemdum um ófullnægjandi aðkomu hins opinbera að íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þótt sú umræða sé áratugagömul og þótt það verkefni hafi augljóslega aldrei verið alveg raunhæft, get ég sannarlega tekið undir að útlendingar verða að hafa hér bæði hvata og tækifæri til þess að læra íslensku.“

En í þessum orðum opinberar varaformaðurinn að hann hefur annaðhvort ekki kynnt sér málið ýkja vel eða er ekki sérlega annt um sannleikann. Tæpast er hægt að segja að umræða um mikilvægi opinbers stuðnings við íslenskukennslu innflytjenda sé „áratugagömul“ enda voru innflytjendur sárafáir fram yfir aldamót. Ég sé ekki heldur hvers vegna verkefnið var „augljóslega […] aldrei raunhæft“. En þetta eru aukaatriði. Aðalatriðið er að það er fráleitt að halda því fram að umræða um þessi mál, a.m.k. af minni hálfu, hafi ekki náð lengra en að „léttvægum athugasemdum um ófullnægjandi aðkomu hins opinbera að íslenskukennslu fyrir útlendinga“. Þau sem hafa lesið það sem ég hef skrifað vita að þetta er rangt – kolrangt.

Ég hef vissulega oft gagnrýnt stjórnvöld, bæði fyrri ríkisstjórn og þá sem nú situr, fyrir lítinn stuðning við kennslu í íslensku sem öðru máli. En ég hef ekki síður gagnrýnt atvinnurekendur fyrir að gera engar kröfur um íslenskukunnáttu og liðsinna starfsfólki ekki við íslenskunám. Ég hef gagnrýnt ferðaþjónustuna harkalega fyrir að halda ferðafólki frá íslensku á ýmsan hátt. Ég hef skrifað um óþarfa og óeðlilega enskunotkun á ýmsum sviðum – á ráðstefnum, á skiltum, í auglýsingum og víðar. Ég hef brýnt fyrir fólki að sýna þeim sem eru að læra málið þolinmæði, stilla óumbeðnum leiðréttingum í hóf og skipta ekki að óþörfu yfir í ensku. Ég hef skrifað um meðvirkni okkar og meðvitundarleysi gagnvart því hvernig íslenskan hörfar fyrir ensku.

En ég hef líka skrifað um nauðsyn breyttrar atvinnustefnu og sagt: „Mín skoðun er sú að framtíð íslenskunnar verði ekki tryggð nema með gerbreyttri atvinnu- og launastefnu þar sem hætt verði að leggja áherslu á að fá til landsins tugþúsundir fólks í láglaunastörf þar sem þarf að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og fólk hefur hvorki tíma né orku, né heldur hvata, til íslenskunáms. Þess í stað þarf að leggja áherslu á atvinnugreinar þar sem eru færri en betur launuð störf sem krefjast menntunar. Vandinn verður þá minni vegna þess að fólkið er færra, og við fáum fólk sem hefur betri aðstæður til íslenskunáms.“ En ég bætti við: „Kannski verðum við bara að sætta okkur við að fórna íslenskunni fyrir hagvöxtinn.“

Það verður ekki betur séð en varaformaðurinn reki vanda íslenskunnar fyrst og fremst til fjölgunar innflytjenda. Gott og vel – segjum að ég sé réttnefndur „aðgerðaleysissinni“ sem ekki hefur neitt fram að færa til bjargar íslenskunni – af því að ég vil ekki tala gegn innflytjendum – og hugum að því hvaða aðgerðir varaformaðurinn boði í því efni. Ég sé ekki að hann nefni neitt, nema nauðsyn þess að auka fæðingartíðni og fækka þar með innflytjendum (hann segir „ljóst að þessi innflytjendastraumur til Íslands helst að einhverju leyti í hendur við samdrátt í barneignum“ sem er auðvitað nokkuð sérkennileg skýring vegna þess að það hlýtur að taka a.m.k. tuttugu ár að samdráttur í barneignum komi fram í fækkun fólks á vinnumarkaði).

En segjum samt að varaformanninum yrði að þeirri ósk að fæðingartíðni snarhækkaði og innflutningur fólks til landsins stöðvaðist algerlega nú þegar. Eftir sem áður eru fyrir í landinu tugir þúsunda innflytjenda sem tala ekki íslensku nema að takmörkuðu leyti, og það fólk er ekkert að fara – ef það gerði það, annaðhvort af frjálsum vilja eða yrði hrakið burt með einhverjum ráðum, hryndi þjóðfélagið samstundis eins og öllum má ljóst vera. Við þurfum á þessu fólki að halda næstu áratugina, a.m.k. þangað til börnin sem fæðast á næstu árum geta tekið við störfunum sem það sinnir nú. Ef við viljum halda íslenskunni sem aðalsamskiptamáli í atvinnulífinu verðum við þess vegna að kenna innflytjendum íslensku. Við höfum ekkert val.

Auðvitað veit varaformaður Miðflokksins þetta allt saman þótt hann hiki ekki við að ljúga því að ég sé „aðgerðaleysissinni“ sem hafi engar tillögur að aðgerðum til að bæta stöðu tungunnar. En tilgangur hans með þessum skrifum er augljóslega ekki að ræða uppbyggilega um vanda íslenskunnar – sem vissulega er raunverulegur – og lausnir á honum. Tilgangurinn er að slá pólitískar keilur. Það er t.d. vitanlega meðvitað hjá honum að tala alls staðar um útlendinga frekar en innflytjendur. Það er dapurlegt – en ekki óvænt – að íslenskan skuli þannig gerð að pólitísku bitbeini. Það er ekki til þess fallið að efla samstöðu um hana, sem er þó mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Við skulum sameinast um að hafna pólitískri misnotkun íslenskunnar.

Posted on

Eðlilegar kröfur um íslenskukunnáttu

Þegar komið er inn í verslun eða á veitingastað og starfsfólk ávarpað á íslensku er svarið iðulega „English please“. Fólk verður oft pirrað yfir þessu og það er eðlilegt – íslenska er opinbert mál á Íslandi og við eigum að geta vænst þess að geta notað hana við kaup á hvers kyns vörum og þjónustu. En í staðinn fyrir að taka pirringinn út á starfsfólkinu, eða yppta öxlum og skipta yfir í ensku án frekari umhugsunar, ættum við að velta aðeins fyrir okkur hvers vegna þetta er svona. Hvernig stendur á því að fólk í þjónustustörfum getur ekki talað tungumál landsins – og virðist stundum ekki sjá neina ástæðu til þess? Hugsaðu þér nú að þú sért útlendingur sem er kominn til Íslands til að vinna. Þú veist lítið um landið og ekkert um tungumálið sem þar er talað.

Það fyrsta sem mætir þér við komuna til landsins eru skiltin í Leifsstöð þar sem enska er víðast hvar enn með stærra letri á undan íslensku þrátt fyrir ítrekuð loforð um breytingar. Svo tekurðu flugrútuna til Reykjavíkur þar sem þú hefur bókað gistingu í nokkrar nætur í „X Apartments“ stutt frá Hlemmi. Þar eru allar merkingar og upplýsingar eingöngu á ensku. Daginn eftir röltirðu niður Laugaveginn og heyrir heilmikla ensku og önnur tungumál sem þú kannast við – og hugsanlega einhverja íslensku en þú getur ekki vitað það því að þú þekkir ekki málið. En á þessari göngu sérðu að nær allar verslanir og veitingastaðir heita enskum nöfnum, og nær öll skilti og merkingar eru á ensku. Sama máli gegnir um matseðla fyrir utan veitingastaði.

Þú ferð inn á veitingastað í miðborginni til að spyrjast fyrir um möguleika á vinnu. Þér er sagt að það vanti alltaf fólk og spurt hvort þú getir byrjað á morgun. Samtalið fer vitanlega fram á ensku, og ekki er minnst á kröfur um íslenskukunnáttu. Enda hvarflar ekki annað að þér eftir áðurgreind kynni af Íslandi en enska sé opinbert tungumál í landinu, eða a.m.k. alls staðar gjaldgeng. Þess vegna veist þú ekki hvaðan á þig stendur veðrið þegar viðskiptavinur ávarpar þig á máli sem þú skilur ekki en giskar á að hljóti að vera íslenska. Kannski finnst þér þetta dónaskapur af því að þú vissir ekki betur en enska væri aðalsamskiptamál landsins. Kannski segirðu þess vegna óþarflega hvatvíslega „English please“ og pirrar viðskiptavininn.

Það sem ég er að benda á með þessu er að það er alls staðar verið að senda þau skilaboð að enska sé fullgilt samskiptamál á Íslandi og það hefur vitanlega leitt til þess að mörgum sem hingað koma finnst eðlilegt að nota hana en ástæðulaust að læra íslensku. Eigendur og stjórnendur fyrirtækja bera þarna mikla ábyrgð – þeir senda þessi skilaboð með skiltum og merkingum, og þeir hafa svikist um að gera kröfur um íslenskukunnáttu til starfsfólks síns. En ábyrgðin er líka hjá okkur, almennum málnotendum – við höfum látið þetta viðgangast, látið þetta yfir okkur ganga án þess að mótmæla kröftuglega. Við eigum auðvitað ekki að láta bjóða okkur þetta. Við eigum að krefjast þess að geta notað íslensku á öllum sviðum.

Það er samt vitanlega ekki þannig að við getum skellt slíkri kröfu á fyrirvaralaust. Það verður að gefa fólki aðlögunartíma til að læra íslensku – annað er vitanlega ótækt gagnvart fólki sem hingað hefur komið og ráðið sig í vinnu án þess að til þess væru gerðar nokkrar kröfur um íslenskukunnáttu. Við súpum seyðið af því að hafa ekki verið búin undir straum innflytjenda á síðustu 10-15 árum og hafa ekki mótað neina stefnu á þessu sviði heldur flotið sofandi að feigðarósi. En ég legg áherslu á að krafan um íslenskukunnáttu starfsfólks á ekki að beinast að fólkinu sjálfu heldur að atvinnurekendum – það eru þeir sem þurfa að sjá til þess að starfsfólk þeirra hafi tíma, aðstöðu og fjárhagslegar forsendur til að læra málið.