Happ og hending

Í stórmerku bréfi sem langamma mín skrifaði verðandi tengdasyni sínum, afa mínum, fyrir nærri hundrað árum, haustið 1926, segir: „Þú hefur – sem betur fer – aldrei þekt hvað það er að vera öreigi. Það er að eiga ekki nokkurn skapaðann hlut í eigu sinni sem tryggir framtíð manns. Ekki þak yfir höfuðið, ekki blett af landi til að rækta, ekkert nema það sem happ og hending veitir fyrir hvern daginn.“ Það sem mér fannst áhugaverðast í þessu var sambandið happ og hending sem ég hafði ekki séð áður og vissi ekki hvort hefði tíðkast eða hvort langamma hefði búið það til. Þegar ég fór að skoða málið kom í ljós að þetta er ekki einsdæmi þótt sambandið sé vissulega sjaldgæft – aðeins sex dæmi eru um það á tímarit.is og eitt í Risamálheildinni.

Elsta dæmið á tímarit.is er í kvæði eftir vesturíslenska skáldið Guttorm J. Guttormsson í Heimskringlu 1906: „Sorgin, yndið, happ og hending, / hulin orsök, mönnum dulin“. Annað dæmi úr kvæði eftir Guttorm er í Eimreiðinni 1952: „Fylgi happ og hending æ / hvirfilbyl – en í báðum tilvikum er þetta bundið í stuðla og því e.t.v. ekki alveg marktækt. Í Lögbergi 1924 segir: „Það er ómótmælanlegur sannleikur að allra hygnustu menn láta stundum happ og hending ráða.“ Í ályktun frá fulltrúafundi Kaupfélags Austur-Skaftfellinga í Tímanum 1953 segir: „Þessar póstsendingar eru svo settar í land einhvers staðar á Austfjörðum og ræður þá happ og hending hvenær þær komast hingað.“

Tvö yngstu dæmin á tímarit.is eru úr greinum eftir Ólaf Jónsson í Vísi 1971 og 1974, það síðara er: „happ og hending ræður jafnan miklu um hvenær „röðin kemur“ að hverjum þeim höfundi sem til álita kemur við verðlaunaveitingu.“ Eina dæmið í Risamálheildinni – og það eina sem ég hef fundið frá síðustu fimmtíu árum – er úr viðtali við bónda í Suðursveit í Morgunblaðinu 2011: „En við skild­um eft­ir grím­ur hjá ferðaþjón­ustuaðilum líka en þar er happ og hend­ing hvort magn pass­ar við mann­fjöld­ann.“ Það er því ljóst að sambandið happ og hending hefur áður verið þekkt víða um land og í Vesturheimi en væntanlega alltaf verið sjaldgæft og virðist nú alveg horfið. Mér finnst þetta skemmtilegt samband og væri gaman að endurvekja það.

Kerum eða kerjum?

Í hópnum „Málspjall“ var í gær spurt hvort þágufall fleirtölu af ker gæti verið bæði kerum og kerjum, og vísað í orðið gler þar sem þágufall fleirtölu er glerjum. Tilefnið er væntanlega fyrirsögn í Vísi – „Telja eldinn hafa komið upp úr kerum með olíu og eldsneyti“. Því er til að svara að í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru myndirnar kerum og kerjum báðar gefnar í þágufalli fleirtölu, sem og kera og kerja í eignarfalli fleirtölu. En oft hefur verið amast við myndunum með j. Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: Heyrst hefur: Vatnið er geymt í kerjum. Rétt væri: Vatnið er geymt í kerum. (Munið „leirkerasmiðinn“ á góðum stað!). Og í Málfarsbankanum segir: „þgf.ft. kerum, ef.ft. kera. Sbr. leirkerasmiður.“

Orðið ker kemur fyrir í fornu máli og er þar ævinlega j-laust í þágufalli og eignarfalli fleirtölu. Hins vegar eru myndir með j ekki nýjar. Elsta dæmi sem ég finn á tímarit.is er í Norðlingi 1875: „Í blautum kerjum fær maðurinn á 1 hest.“ Í Norðanfara sama ár segir: „þar sem reynt var að höggva meira í kerjum og votengi.“ Í Heimskringlu 1887 segir: „Millum kerja þessara er víða smá skógur og lúða gras.“ Þarna er ker í merkingunni ‘kringlóttir flóapollar’ sem nefnd er í Íslenskri orðabók, en í „Nál. 2 ál. undir yfirborði fundust leifar af 2 kerjum og svo sem 1 fet á milli“ í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1906 er orðið í merkingunni ‘grunnt og fremur stórt opið ílát, kringlótt eða ílangt, einkum undir vökva’ sbr. Íslenska nútímamálsorðabók.

Myndir með virðast hafa verið að sækja á. Á tímarit.is eru rúmlega 2.500 dæmi um kerum (eitthvað af þeim gæti þó verið um karlkynsorðið keri) en 1.650 dæmi um kerjum. Í Risamálheildinni eru rúm 750 dæmi um kerum en tæp 540 um kerjum. Það er nokkuð ljóst að er komið inn í beyginguna fyrir áhrif frá orðum með svipaða stofngerð, eins og hvorugkynsorðunum bergler og sker og karlkynsorðinu her. Orð með þessa stofngerð án j eru til, en flest sjaldgæf eða ekki notuð í fleirtölu, nema hvort tveggja sé. Þetta eru orð eins og der (húfuder) og ger – myndinni fuglagerjum af samsetningunni fuglager bregður þó fyrir: „Hann er algengur í fuglagerjum á Faxaflóa“ segir t.d. í Náttúrufræðingnum 2010.

Myndin leirkerasmiður sem Málfarsbankinn og Gætum tungunnar vísa til „á góðum stað“ kemur fyrir á nokkrum stöðum í Biblíunni og er vissulega án j. Það eru hins vegar ekki nægileg rök fyrir því að beyging orðsins ker eigi að vera j-laus. Það er algengt í málinu að beygingarmynd orða sem hluta af samsetningum sé frábrugðin því sem er í orðunum einum sér. Þetta á enn frekar við um orð sem eru gömul í málinu – breytingar á beygingu orðanna sjálfstæðra hafa ekki endilega áhrif á myndir þeirra í samsetningum. Það er eðlilegt að ker verði fyrir áhrifum frá orðum með svipaða stofngerð, myndirnar kerjum og kerja eru gamlar í málinu og verða sífellt algengari. Engin ástæða er til annars en telja þær jafnréttar og kerum og kera.

Að raungerast

Sögnina raungera er að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem hún er skýrð ‘gera e-ð að veruleika’. Sögnin er hins vegar ekki í Íslenskri orðabók enda var hún til skamms tíma frekar sjaldgæf. Elsta dæmi um hana er í Stefni 1931: „þá greinir á um, hver skuli vera grundvöllurinn undir raungerðri kröfu einstaklings um hluta af þeim.“ Í Heimdalli 1933 segir: „að hinar heilbrigðu og réttlátu kröfur þeirra í þessum málum yrðu raungerðar.“ Í Rétti 1937 segir: „Allt í einu trúði hann, að ósk sín væri raungerð.“ Fram um 1970 eru aðeins örfá dæmi um sögnina en þá fjölgar þeim mjög, sérstaklega þó eftir aldamót. Fjölgunina má ekki síst rekja til miðmyndarinnar raungerast sem hefur einkum orðið algeng á síðustu tíu árum eða svo.

Í Málvöndunarþættinum var eimitt sagt nýlega að raungerast væri „einn tískufrasinn“. Það má til sanns vegar færa – yfirgnæfandi hluti dæma um miðmyndina er frá þessari öld, einkum frá síðustu fimm árum. Miðmyndin er ekki sérstök fletta og ekki skýrð sérstaklega í orðabókum en ef til vill væri þó ástæða til þess vegna þess að merking hennar er ekki alveg fyrirsegjanleg út frá germyndinni. Í Málvöndunarþættinum var spurt hver væri munurinn á því að raungerast og bara gerast, eða koma í ljós, en hvorug þeirra orðskýringa er fullnægjandi. Vissulega vísar miðmyndin oftast til þess, eins og germyndin, að eitthvað verði að veruleika, en það skiptir máli að mjög oft er um að ræða eitthvað sem búist hefur verið við eða spáð hefur verið.

Þetta sýna ýmis dæmi. Í Alþýðublaðinu 1974 segir: „Er þar einna merkilegast að finna hve mikið af spásögnum hans hafa þegar raungerst.“ Í Þjóðviljanum 1979 segir: „Það er enginn möguleiki á þvi aö væntingar raungerist ekki.“ Í Þjóðviljanum 1980 segir: „En miðað við þá áherslu sem á þessar kenningar er lögð nú er ekki að efa að þær eiga eftir að raungerast í okkar atvinnuumhverfi.“ Í Morgunblaðinu 1988 segir: „þá er kikkið að sjá það sem maður hafði ímyndað sér raungerast.“ Í Helgarpóstinum 1988 segir: „Það er enginn möguleiki á því að væntingar raungerist ekki.“ Í Velferð 2010 segir: „Snilldarhugmyndin sem raungerðist hefur gefið Hjartaheillum og félögum þess milljónir króna á undanförnum árum.“

Samsettum sögnum hefur farið töluvert fjölgandi í málinu að undanförnu og það er auðvitað ekkert athugavert við miðmyndina raungerast en hins vegar má vitanlega velta því fyrir sér hvernig standi á því að notkun hennar hefur aukist gífurlega á fáum árum. Varla stafar það af því að það sé svo miklu algengara en áður að spár rætist eða væntingar verði að veruleika, heldur hlýtur þessi merking að hafa verið orðuð á annan hátt – væntanlega með einhverjum orðasamböndum því að engin ein sögn nær þessari merkingu nákvæmlega svo að ég viti. Það er svo sem auðvelt að láta það fara í taugarnar á sér þegar notkun einhverra orða eykst stórkostlega og þau verða eins konar tískuorð, en það er samt yfirleitt ósköp meinlaust.

Nýr vettvangur pistla

Eins og margsinnis hefur komið fram er tilgangur þessa hóps að vera vettvangur umræðna um íslenskt mál, málfræði, málfar og málnotkun. Hér er hægt að spyrja um og ræða hvaðeina sem varðar þetta efni, en jafnframt hef ég leitast við að sinna tilganginum með því að skrifa pistla um ýmislegt sem ég tel eiga erindi til fólks. Margir þeirra hafa að geyma hlutlausa fræðslu og fróðleik um ýmis atriði í íslensku máli og málnotkun, en í öðrum er ég að segja mína eigin skoðun á margvíslegum álitamálum. Frá upphafi hópsins fyrir tæpum fimm árum hef ég skrifað hér fjölda pistla af þessu tagi – áður hafði ég skrifað sams konar pistla í Málvöndunarþættinum um eins árs skeið. Pistlarnir eru nú orðnir samtals 1230, hver að meðaltali 400-500 orð.

Það tekur því dálitla stund að lesa hvern pistil og þeir eru misjafnlega auðmeltir þannig að ég býst ekki við að lesendur þeirra hafi verið ýkja margir að jafnaði. Hins vegar hef ég oft fengið góð viðbrögð við þessum pistlum og veit af ýmsum dyggum lesendum sem hafa áhuga á þeim. Aðalatriðið er þó að ég hef sjálfur haft mjög gaman af þessum pistlaskrifum og hef lært einhver býsn á þeim – einkum á því að fjalla um uppruna, sögu, notkun og tilbrigði einstakra orða, orðasambanda og setningagerða. Það bregst ekki að í grúski og pælingum til undirbúnings þessari umfjöllun komist ég að ýmsu sem ég vissi ekki fyrir – og sem í mörgum tilvikum hefur hvergi verið rakið áður svo að ég viti. Ég ætla þess vegna að halda þessum skrifum áfram.

Nú er hins vegar kominn vettvangur sem er að mörgu leyti heppilegri en Facebook sem aldrei var ætlað fyrir langa pistla af þessu tagi. Það er Substack sem fleiri og fleiri eru farin að nýta sér. Þar er hægt að gerast áskrifandi að pistlum og fá þá senda í tölvupósti en jafnframt er hægt að skoða eldri pistla á notandasíðu á Substack eða í sérstöku appi. Ég ætla því að hætta að birta langa pistla hér í hópnum, nema í undantekningartilvikum, en láta nægja að setja hér hlekk á þá á Substack-síðu minni. Þau sem hafa áhuga á þessum pistlum geta þá gerst áskrifendur að þeim og fengið þá í pósti, en þeir munu ekki þvælast fyrir öðrum. Eftir sem áður mun ég halda áfram að svara hér fyrirspurnum og taka þátt í umræðum eftir því sem tilefni gefst til.

Tálmun

Í Málvöndunarþættinum sá ég að fólk var að velta fyrir sér hvort orðið tálmun hefði „einhverja sérstaka merkingu“ eða merkti það sama og hindrun. Sagnirnar tálma og hindra eru skýrðar hvor með annarri í Íslenskri orðsifjabók og í Íslenskri orðbók og Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið tálmun skýrt 'það að tálma e-ð, hindrun'. Það er þó ljóst að orðin hafa lengi haft dálítið mismunandi notkunarsvið – tálmun er formlegra og er fremur notað í lagalegri merkingu. Í 73. grein Stjórnarskrár segir t.d.: „Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.“ Einnig er iðulega talað um tálmun á atvinnurétti, tálmun á skoðanafrelsi, tálmun á upplýsingarétti, tálmun á trúfrelsi, tálmun á umferð o.fl.

Svo virðist sem tálmun sé fremur notað þegar hindrunum er beitt á meðvitaðan hátt þótt vissulega sé einnig hægt að nota hindrun í þeirri merkingu. En í seinni tíð er orðið tálmun oftast notað í merkingunni 'koma í veg fyrir umgengni foreldris við barn'. Þessi merking er ekki nefnd sérstaklega í orðabókum og virðist hafa þróast smátt og smátt á undanförnum áratugum. Hana má líklega rekja til Barnalaga nr. 9/1981 þar sem segir: „Nú torveldar það foreldri, sem hefir forsjá barns, að hitt fái að umgangast barnið, og getur dómsmálaráðuneytið þá knúið það að viðlögðum allt að 20000 króna dagsektum, er renni til ríkissjóðs, til að láta af tálmunum.“ Þarna er ljóst af því sem á undan er komið að „tálmunum“ merkir 'tálmunum á umgengni'.

Framan af virðist orðið tálmun líka yfirleitt hafa verið notað í nábýli við orðið umgengni. Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Okkur er kunnugt um að tillögur séu í undirbúningi hjá dómsmálaráðuneytinu sem feli í sér hertari viðurlög við tálmun á umgengni.“ Í grein í Morgunblaðinu 2003 kemur nafnorðið tálmun og sögnin tálma fjórum sinnum fyrir, alltaf í sambandi við nafnorðið umgengni. Í grein í Morgunblaðinu 2004 kemur fyrir samsetningin umgengnistálmun. En í grein í DV 2008 er tálmun notað í þessari merkingu án þess að umgengni sé í setningunni: „þrátt fyrir að börnin hafi verið beitt mjög alvarlegum tálmunum.“ Í sömu grein koma fyrir samsetningar eins og tálmunartímabil og tálmunarferli.

Þarna er ljóst að tengsl orðsins tálmun við orðið umgengni eru að rofna og tálmun eitt og sér er farið að merkja 'tálmun á umgengni'. Þetta kemur líka fram í grein í Tímariti lögfræðinga 2009: „Þegar umgengni liggur niðri til lengri tíma liggja venjulega flóknar og margþættar ástæður þar að baki. Ein af þeim ástæðum er tálmun.“ Vissulega kemur umgengni þarna fyrir í nágrenninu en samt er ljóst að tálmun hefur þarna yfirtekið merkingu sambandsins tálmun á umgengni. Þessi þróun hefur svo haldið áfram og tálmun er nú iðulega notað án þess að umgengni sé nærri. Í mbl.is 2023 segir t.d.: „Hér fær hún spurningu frá manni sem segist hafa orðið fyrir tálmun.“ Í Stundinni 2019 segir: „ég hef í gegnum tíðina verið mjög gagnrýninn á tálmun.“

Þetta er mjög áhugavert dæmi um það hvernig merking orðs úr almennu máli þrengist smátt og smátt og verður sérhæfð – það má segja að almennt orð verði að íðorði þegar tálmun yfirtekur merkingu sambandsins tálmun á umgengni. Vitanlega tengist þetta því að fyrirbærið sem vísað er til er margfalt meira rætt en áður og þess vegna þægilegt að geta vísað til þess með einu orði. Það er alls ekki einsdæmi að merking orða breytist á þennan hátt og orð úr almennu máli verði að íðorðum. Oft fer vel á því, en vissulega getur það stundum leitt til misskilnings ef sérhæfð merking orðsins flækist fyrir almennu merkingunni – eða öfugt. Í flestum tilvikum er samt trúlegt að samhengið dugi fólki til að átta sig á merkingunni.

„Frú Sæland“

Á Vísi birtist í dag grein eftir mann sem titlaður er formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins. Greinin heitir „Misskilningur frú Sæland“ og fjallar um svör Ingu Sæland félags- og húsnæðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi. Í greininni er einnig vísað til ráðherrans sem „frú Sæland“. Þarna er beitt vel þekktri og alveg sérlega ómerkilegri aðferð við að gera lítið úr fólki – að kalla það öðru nafni en venja er. Á yfirborðinu er „frú Sæland“ vitanlega mjög virðulegt og hátíðlegt en engum blandast hugur um að með þessum titli er verið að tala niður til ráðherrans á einkar ósmekklegan hátt. En því miður er þetta ekki einsdæmi – slík misþyrming mannanafna er algeng í pólitískri umræðu og ekki síst beitt gagnvart konum.
Einu sinni birti ég hér pistil sem heitir „Misþyrming mannanafna“ og fjallar um sambærileg tilvik. Lokaorðin í honum voru þessi, og eru enn í fullu gildi: „Tungumálið er öflugt valdatæki – í raun öflugasta valdatæki sem fólk í lýðræðisþjóðfélagi býr yfir. Á okkur hvílir sú ábyrgð að beita þessu valdatæki til góðs en ekki til að meiða annað fólk. Fátt er okkur hjartfólgnara en nafnið. Það hefur verið hluti af okkur frá því að við munum fyrst eftir okkur og við samsömum okkur því. Þess vegna á ríkisvaldið ekki að skipta sér af því hvaða nöfn foreldrar gefa börnum sínum eða hvaða nöfn fullorðið fólk kýs sér. Og þess vegna er það alvarleg og ómerkileg árás á fólk að breyta nafni þess, skrumskæla það eða misþyrma á einhvern hátt.“

Vo fyrir dyrum

Orð sem höfðu að geyma hljóðasambandið í fornu máli hafa þess í stað yfirleitt fengið vo í nútímamáli, eins og fjölmörg dæmi sýna – vár > vor, svá > svo, þvá > þvo, váði > voði, vándur > vondur o.s.frv. Í greininni „Tungan“ segir Stefán Karlsson: „Þessi breyting var altæk og orð í nútímamáli með vá eru að heita má öll annað hvort áhrifsmyndir (kváðu, sváfu) eða tökumyndir úr fornmáli ( þ.e. tjón, hætta, og samsetningar af því orði).“ Það má þó finna ýmis dæmi frá nítjándu öld og byrjun þeirrar tuttugustu um myndina vo sem hefði mátt búast við út frá venjulegri hljóðþróun – ekki síst í sambandinu vo fyrir dyrum, t.d. í Þjóðólfi 1856, 1857 og 1868, í Skírni 1861, í Norðanfara 1865 og 1885, í Landinu 1918, og víðar.

Þessi mynd kemur líka fyrir í ýmsum samsetningum. Í Norðlingi 1880 segir: „Vér eigum talsvert fé eftir fólkstali, en oss vantar votryggingar.“ Í neðanmálsgrein segir: „Votrygging, votryggja (assurere), af nafninu vo : vá = voði : váði, og tryggja: tryggja við voða […]. Mætti þá og kalla votryggisfélög eðr því um líkt.“ Orðið volegur kemur fyrir í kvæði eftir Benedikt Gröndal í Fjölni 1847: „Vindurinn volega æðir.“ Orðið vogestur kemur fyrir í Norðurfara 1849: „það lítur svo út, sem flestir menn á Íslandi sjeu á það sáttir að leiða ei þann vogest inn í land vort.“ Þessar myndir og fleiri af sama toga tíðkuðust nokkuð og voru sumar algengar á nítjándu öld og fram á annan eða þriðja áratug þeirrar tuttugustu, en hurfu þá með öllu.

Myndin í sambandinu vá fyrir dyrum kemur fyrst fyrir í grein eftir Guðbrand Vigfússon í Skírni 1861 – í sömu grein kemur reyndar einnig fyrir sambandið vo fyrir dyrum eins og áður var nefnt. Þetta er eina dæmið um sambandið frá nítjándu öld á tímarit.is en eftir aldamótin varð það algengt en vo hvarf. Elstu dæmi um sögnina vátryggja og nafnorðið vátrygging eru í Stjórnartíðindum fyrir Ísland frá 1881: „Fangahús (vátryggð fyrir eldi)“ og „Vátrygging fangelsa gegn eldi.“ Elsta dæmi um myndina vágestur er í Norðanfara 1874: „Hafísinn þykir vágestur mikill.“ Orðið válegur kemur fyrst fyrir í kvæði eftir Valdimar Ásmundsson í Þjóðólfi 1874: „Þú veizt, að þér á vinstri hlið / er váleg Heljar slóð.“

Það er því ljóst að orðið og samsetningar af því þróuðust á sama hátt og önnur orð með þetta hljóðasamband og höfðu myndina vo þar til seint á nítjándu öld. Þá er farið að endurvekja og nota það í samsetningum, og á fáeinum áratugum útrýma endurvaktar myndir með hinum hljóðréttu myndum með vo. Þótt ég hafi ekki fundið neitt um ástæðu þessa er ljóst að þarna hlýtur einhver meðvituð ákvörðun að liggja að baki sem væntanlega tengist þeirri málhreinsunarstefnu og fornaldardýrkun sem reis hátt á þessum tíma. Raunar var eingöngu um að ræða endurvakningu í skilningi ritmálsins því að bókstafurinn á stóð fyrir allt annað hljóð í fornu máli en hann gerir í nútímamáli – táknaði áður langt a [aː] en nú tvíhljóðið [au].

Annað dæmi um að orðmynd með hafi verið endurvakin er Arnarhváll, heiti á skrifstofuhúsi ríkisins við Ingólfsstræti í Reykjavík. Þegar áform um byggingu þessa húss eru fyrst nefnd í blöðum sumarið 1929 er það nefnt Arnarhvoll, en þegar húsið er risið árið eftir er talað um það sem Arnarhvál. Það var Jónas Jónsson frá Hriflu sem beitti sér fyrir byggingu hússins og ekki ólíklegt að þessi breyting sé runnin undan rifjum hans, enda var hann mikill fornaldardýrkandi. Þessi endurvakning er þó talsvert annars eðlis en í orðinu því að hún er bundin við þetta eina orð sem sérnafn en tekur ekki til annarra orða með -hvoll. Mannsnafnið Sváfnir er einnig tekið úr fornmáli – kemur þar fyrir sem Óðinsheiti en var endurvakið á þriðja áratug tuttugustu aldar.

Eitt orð sem inniheldur hljóðasambandið , nýyrðið kvár, er svo dálítið sér á báti. Það kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna ´78 árið 2020 þegar leitað var að ókyngreindu nafnorð um fullvaxta manneskju, hliðstæðu karl og kona. Þetta orð er ekki tekið úr fornmáli, á sér enga ættingja í málinu og er ekki leitt af neinu – þarna er bara raðað saman hljóðum í samræmi við íslenskar hljóðskipunarreglur. Ég var í dómnefnd samkeppninnar og var fyrst dálítið hugsi yfir þessu orði – það mætti alveg hugsa sér að halda því fram að það ætti frekar að vera *kvor vegna þess að ef það væri erfðaorð hefði átt að breytast í vo. En ég komst að þeirri niðurstöðu að svo mörg orð í nútímamáli hefðu , þrátt fyrir umrædda breytingu, að engin ástæða væri til að hengja sig í hljóðskipunarreglu sem væri greinilega ekki til lengur í huga málnotenda.

Er neikvætt að sýna skilning og umburðarlyndi?

Á Alþingi í dag lagði Snorri Másson þá spurningu fyrir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hvort hann teldi að „það væri eðlilegt skref að lögfesta stöðu ensku og pólsku sem opinberra mála í landinu“. Tilefnið voru orð ráðherra í umræðum á þingi fyrir nokkrum dögum: „Það er rétt að hér eru fleiri en áður sem tala ekki íslensku sem fyrsta mál a.m.k. og þeim veruleika verðum við einfaldlega að mæta af skilningi og umburðarlyndi og búa okkur undir það að þannig muni veröldin breytast.“ Snorri virðist telja ámælisvert að „enska og pólska séu af Stjórnarráðinu, af hálfu skólayfirvalda, í ríkismiðlinum og víða annars staðar hjá hinu opinbera notaðar, ekki til jafns við íslenskuna en til hliðar við íslenskuna í verulegum mæli“.

Við megum ekki gleyma því að langflest þeirra sem koma til landsins eru hingað komin að okkar ósk og frumkvæði – ýmist ferðafólk eða fólk sem kemur til að vinna í greinum þar sem skortur er á innlendu vinnuafli. Það er ekki bara kurteisi við þetta fólk að veita því aðgang að ýmsum upplýsingum á tungumáli sem það skilur – það er líka mikilvægt öryggisatriði í landi þar sem margvísleg náttúruvá getur dunið á. En ekki síður er það mikilvægt til að fólk sem býr hér eigi þess kost að fylgjast með umræðu um hvers kyns þjóðfélagsmál. Innflytjendur borga hér skatta og margir þeirra hafa hér kosningarétt og ótækt að stór hópur fólks sé útilokaður frá allri þátttöku í lýðræðislegri umræðu – það er beinlínis stórhættulegt lýðræðinu.

Vitanlega viljum við að þau sem koma hingað til að setjast að læri málið, og verðum að gera miklu meira til að auðvelda þeim það. En það er alvarlegur misskilningur ef litið er svo á að eðlileg þjónusta við fólk sem ekki kann íslensku grafi undan íslenskunni á einhvern hátt. Þvert á móti – það er mun líklegra að fólk sem er komið til móts við á þann hátt verði jákvæðara gagnvart íslensku og íslensku samfélagi. Það erum ekki síst við sjálf sem gröfum undan íslenskunni með því að nota hana ekki þar sem kostur er. En það er ekki í þágu íslenskunnar að amast við öðrum tungumálum, hvað þá að beina því „til stofnana samfélagsins að forðast alla notkun útlensku í lengstu lög“ eins og Snorri Másson hvatti ráðherra til að gera.

Það er eðlilegt og óhjákvæmilegt að önnur tungumál en íslenska, einkum enska og pólska, séu stundum notuð í íslensku samfélagi, en það er fráleitt að ýja að því að eðlileg afleiðing þess sé að þau verði gerð hér opinber tungumál. Í stað þess að amast við notkun erlendra mála eigum við að leitast við að draga úr þörf fyrir hana, og sjá til þess að íslenska sé alltaf notuð þar sem þess er kostur. En við eigum ekki að nota íslenskuna til að útiloka fólk – við eigum að nota hana til að bjóða fólk velkomið. Við eigum að berjast fyrir íslenskunni eftir mætti, en á jákvæðan hátt. Tungumál eru mikilvæg, en fólkið sem talar þau er mikilvægara, og það er dapurlegt þegar það er orðið neikvætt að vilja sýna fólki skilning og umburðarlyndi.

Naumt tap Hákons

Ég sá á Facebook að vakin var athygli á fyrirsögninni „Naumt tap Hákons og félaga“ á mbl.is, og spurt hvort eignarfallið væri ekki Hákonar. Það er vissulega hin hefðbundna mynd, og sú eina sem gefin er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en myndin Hákons er þó fjarri því að vera einsdæmi og hefur oft verið amast við henni í málfarsþáttum. Jón Aðalsteinn Jónsson nefndi nokkur dæmi um hana í dálkinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1991 og sagði: „Þetta ef. hefur heyrzt oftar í fjölmiðlum.“  Á sama vettvangi tíu árum síðar sagðist Jón Aðalsteinn hafa heyrt talað um „brúðkaup Hákons, en ekki Hákonar, eins og ég ætla, að flestir segi enn í dag samkv. fornri venju“ og sagði: „Því er fljótsvarað, að ef. Hákonar er upphaflega myndin.“

Það er vissulega rétt að eignarfallið var yfirleitt Hákonar áður fyrr en myndin Hákons er þó gömul og kemur m.a.s. fyrir í Heimskringlu Snorra Sturlusonar: „Ólafur Tryggvason hélt utan í fjörðinn með fimm langskipum en þar reri innan í móti Erlendur sonur Hákons jarls með þremur skipum“ segir í Ólafs sögu Tryggvasonar. Á tímarit.is eru rúm 1500 dæmi um Hákons, það elsta í Norðanfara 1865: „húsfrú Sigríður Jónsdóttir kona prestsins sjera Hákons Espólíns á Kolfreyjustað.“ Einnig eru dæmi um myndina í samsetningum – í Austra 1906 segir: „Bjørgvinarbúar hafa skotið saman allmiklu fé til þess að skreyta gömlu Hákons-höllina þar.“ Töluvert ber svo á myndinni Hákons alla tuttugustu öldina, einkum eftir 1980.

Sú notkun endurspeglast í áðurnefndum athugasemdum Jóns Aðalsteins, sem og í bókinni Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson frá 1991 þar sem sagt er að eignarfallið af HákonHákons. Þetta gagnrýndi Baldur Jónsson í Málfregnum 1992 og sagði: „Til dæmis er ótvírætt að eignarfallið af Hákon hefir verið Hákonar síðan land byggðist.“ Undir þetta tók Þórhallur Vilmundarson í gagnrýni á bókina í Lesbók Morgunblaðsins 1992: „Eignarfallið hefur að sjálfsögðu frá öndverðu og fram á þennan dag verið Hákonar […].“ Gísli Jónsson sagði í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2001: „eignarfallið „Hákons“ sést í vönduðum fræðibókum […] Ástæðulaust sýnist mér a.m.k. að nota ekki gamla eignarfallið Hákonar.“

En eignarfallsmyndin Hákons hefur haldið áfram að breiðast út á þessari öld. Í Risamálheildinni eru 1.100 dæmi um hana, en rúm 2.500 um „viðurkenndu“ myndina Hákonar. Öfugt við það sem algengast er um málbreytingar er „nýja“ myndin síst meira áberandi á samfélagsmiðlum en í hefðbundnari miðlum og hefur því greinilega fest sig tryggilega í sessi í formlegu málsniði. Þetta er breyting sem er sauðmeinlaus og á sér fjölda hliðstæðna í málinu þótt breytingar á eignarfalli karlmannsnafna hafi reyndar flestar gengið í hina áttina (Haralds > Haraldar, Höskulds > Höskuldar, Ágústs > Ágústar, Þórhalls > Þórhallar). Engin ástæða er til annars en viðurkenna Hákons sem fullgilda eignarfallsmynd við hlið Hákonar.

Sótt

Nýlega var ég að skrifa um sambandið elna sóttin sem er frekar sjaldgæft í nútímamáli og væntanlega bundið við ritmál. Orðið sótt er líka sagt „gamaldags“ í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem það er annars vegar skýrt 'sjúkdómur, veikindi' og hins vegar 'fæðingarhríðir, jóðsótt' og þetta rímar við það sem fram kom í umræðum um sambandið elna sóttin. Það rifjaðist hins vegar upp fyrir mér að í mínu ungdæmi þekkti ég orðið vel en aðeins í merkingunni 'niðurgangur'. Þessa merkingu heyrði ég eingöngu á heimilinu, enda kannski ekki mikið rætt um niðurgang á opinberum vettvangi eða í almennu spjalli utan heimilis. En ég hef ekki heyrt eða séð orðið notað í þessari merkingu í meira en sextíu ár.

Ég fór því að velta fyrir mér hvort þessi merking væri þekkt eða hvort þetta hefðu bara verið einhvers konar skrauthvörf sem aðeins hefðu verið notuð á mínu heimili – slíkt er vel þekkt. En svo reyndist ekki vera, heldur er þessi merking gefin í ýmsum orðabókum. Orðið sótt er t.d. skýrt 'sjúkleiki, veiki, hitaveiki; niðurgangur' í Íslenskri orðsifjabók, og ein skýring orðsins í Íslenskri orðabók er 'þunnur saur, niðurgangur'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er ein skýring orðsins '(niðurgangur) Diarré, tynd Afføring (hos Kreaturer, is. Faar)'. Af þessu er svo að sjá sem orðið sé eingöngu notað um skepnur, einkum sauðfé. Þessi merking kemur glöggt fram í ýmsum gömlum dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

„A vorum er þad tídt, ad magurt saudfje fær svo kallada Sýki eda Sótt, hvar af þad vanmegnast og deyr“ segir í Klausturpóstinum 1819. „sótt kálfa stillir opt krít nidurskafin til muna í mjólk þeirra“ segir í Klausturpóstinum 1820. „Vid þá lengri rófu á spønsku fé vill loda saur, þegar sótt fær“ segir í Klausturpóstinum 1825. „Neðan til í Árnes sýslu, þar sem fé gengur í sölvafjöru og fær jafnaðarlega sótt“ segir í Nýjum félagsritum 1852. „Hin eiginlega „sótt“ er afrás skaðlegra óhreininda þarmanna“ segir í Búnaðarriti 1893. „Niðurgangur sem einnig er nefndur sótt“ segir í Dýralækningabók Magnúsar Einarssonar frá 1931. „Hann hefur fengið svo mikla sótt, að hún rennur niður af honum eins og lækjarvatn“ segir um hest í Grímu hinni nýju.

Engin dæmi eru í Ritmálssafni um að sótt í þessari merkingu sé notað um fólk, og í fljótu bragði finn ég engin örugg dæmi á tímarit.is. Samhengisins vegna gæti þó verið um þessa merkingu að ræða í Heilbrigðisskýrslum 1897: „Veikin yfirleitt mjög væg; byrjaði á sumum með hálsbólgu, á sumum með sótt og uppköstum.“ Þarna gæti merkingin þó einnig verið 'sótthiti'. Í ljósi þess hve húsdýr léku stórt hlutverk í daglegu lífi fólks áður fyrr er þó ekkert óeðlilegt að orðafar um dýr færist yfir á fólk, og hvorki í Íslenskri orðsifjabók Íslenskri orðabók er tekið fram að þessi notkun orðsins sé bundin við skepnur. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að notkun þess um fólk hafi ekki eingöngu tíðkast á æskuheimili mínu heldur verið sæmilega þekkt.