Posted on

Skolskál, klyftalaug, bossabað, rassbað

Í Facebook-færslu um daginn skrifaði Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir: „Hvers vegna eru ekki öll heimili með bidet (íslensk þýðing óskast) eða bidet úðara tengdan við klósettið?“ Mörg tóku undir þessa færslu sem vakti svo mikla athygli að Ugla var fengin til að ræða málið í „Reykjavík síðdegis“ á Bylgjunni. Þetta væri auðvitað ekki viðfangsefni málspjalls nema vegna svigagreinarinnar „íslensk þýðing óskast“ – það vantar sem sé gott íslenskt orð um þetta fyrirbæri. Fyrirsögn viðtalsins á Vísi er „Ættu öll íslensk heimili að vera með skolskál – Bidet?“ og það orð hefur vissulega verið notað sem þýðing á bidet, t.d. í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi frá 1984 og í Hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.

Orðið skolskál er hins vegar ekki flettiorð í íslenskum orðabókum þótt það hafi lengi verið eitthvað notað – en í ýmsum merkingum. Elsta dæmi um það er í auglýsingu í Morgunblaðinu 1928, en það er þar í upptalningu á ýmsum vörum og útilokað að sjá hver merkingin er. En í elsta dæmi þar sem hægt er að átta sig á merkingunni, í Morgunblaðinu 1937, er hún greinilega ekki 'bidet': „Skálar þessar voru kallaðar „skolskálar“ hjer áður fyr og notaðar í matarveislum greifanna þarna um slóðir. Þær voru látnar á borðið, og glösin fylt með vatni. Þegar greifinn gaf merki, tóku gestirnir hver sitt glas og supu á. Vatninu var þó ekki rent niður, heldur tóku nú allir að skola kverkarnar af miklum móð.“ Nokkrar aðrar merkingar koma líka fyrir í skolskál.

Í Árbók Tannlæknafélags Íslands 1942 segir: „Þyrfti þá að ætla tannlækninum sérstakt herbergi í skólahúsinu búið þeim tækjum, sem erfiðast er að flytja, t.d. [...] skolskál.“ Í Melkorku 1945 segir: „Þessari tegund vaska er auðvelt að breyta í tvöfaldan uppþvottavask með því að fella sérstaklega gerða skolskál úr ryðfríu stáli niður í skolpvaskinn á meðan þvegið er upp.“ Í Vikunni 1958 segir: „til hreinlætisauka eru á borðum skolskálar með sítrónusneiðum, svo að fólk geti skolað af fingrunum eftir máltíðina.“ Það er fyrst í auglýsingu í Íþróttablaðinu 1958 sem merkingin ‚bidet‘ kemur fram: „Hreinlætistæki, svo sem [...] Skolskálar (Bidets) [...].“ Þessi auglýsing var birt margsinnis í ýmsum blöðum og tímaritum fram um 1970.

Í þeim fáu dæmum sem finnast um orðið frá síðustu áratugum hefur það oftast merkinguna 'bidet' en þá oft greinilega talin þörf á að skýra það. Í Tímanum 1982 segir: „Skolskálar (bitet) munu ekki vera mikið keyptar en þó eitthvað.“ Í Morgunblaðinu 1989 segir: „Víða erlendis eru svokallaðar skolskálar (bidet) algengar, en þær virðast aldrei hafa fest fullkomlega í sessi hér á landi.“ Aðrar merkingar eru þó einnig í gangi. Í DV 1993 segir: „Þeir sitja við hringlaga borð og hafa við hlið sér skolskálar.“ Í Vikunni 2000 segir: „Sums staðar eru bornar fram litlar skálar með vatni til að fólk geti skolað fingur sína. Sumir kalla þetta skolskálar sem er fremur ljótt orð og á ekki við.“ En vegna þessarar margræðni orðsins er það tæpast heppilegt fyrir bidet.

Í Íðorðabankanum er þó að finna íslenska þýðingu á bidet – það er orðið klyftalaug. Þetta orð sást fyrst í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands 1985 en í DV 1995 sagði höfundur orðsins, Halldór Halldórsson prófessor, sögu þess. „Orðið klyftalaug er samsett úr orðinu klyftir (kvk., flt.), sem merkir „klof“, en hefir þó kurteislegri blæ. Það mætti því segja, að þetta væri skrauthverft orð. Síðari hluti orðsins, laug, merkir „bað“ eða öllu heldur „þvottatæki". Orðið klyftalaug ætti því engan að meiða og hefir þann kost að vera myndað á sama hátt og handlaug og mundlaug, þ.e. fyrri hluti orðsins táknar þann líkamshluta, sem þveginn er.“ Halldór taldi „klyftalaug vera smekklegra en rassbað, bossabað og önnur slík“ sem hann hefði heyrt um bidet.

Síðastnefndu orðin eru þess eðlis að varla er hægt að búast við mörgum dæmum um þau á prenti, en í Morgunblaðinu 1997 segir þó: „Eitt tæki, sem var þó nokkuð algengt fyrir áratug eða svo, er nú að mestu horfið. Það var kallað„bidett“, ýmist kallað á íslensku rassbað eða fótabað og var einkum ætlað konum til hreinlætis.“ En klyftalaug hefur ekki heldur náð fótfestu – engin dæmi eru um það á tímarit.is nema þau sem áður eru nefnd, í grein Halldórs um orðið og í orðalista í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands. Orðið klyftir er nánast óþekkt og hvort sem fólk þekkir það eða ekki virðist það ekki hafa „kurteislegri blæ“ en klof í huga málnotenda. Þetta er því dæmi um misheppnað nýyrði – og enn vantar gott íslenskt orð yfir bidet.

Posted on

Að strengja eða setja sér áramótaheit

Nýlega var spurt í „Málspjalli“ hvort fólk væri hætt að strengja áramótaheit – hvort allt eins mætti setja sér áramótaheit „eins og mér finnst flestir gera í dag“ sagði fyrirspyrjandi. Því er til að svara að þótt seinna sambandið hafi vissulega rutt sér til rúms á seinustu árum fer því fjarri að hið fyrrnefnda sé horfið úr málinu. Í Risamálheildinni er vel á níunda hundrað dæma um strengja áramótaheit en rúm þrjú hundruð um setja sér áramótaheit. Orðið áramótaheit sem er skýrt 'heit sem strengt er í upphafi árs, t.d. um bætt líferni' í Íslenskri nútímamálsorðabók er reyndar ekki gamalt í málinu og er t.d. hvorki að finna í Íslenskri orðabókRitmálssafni Orðabókar Háskólans. Elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1959.

Næstelsta dæmið um orðið, í Degi 1962, fellur vel að áðurnefndri skýringu: „Væri það ekki verðugt áramótaheit, að bragða ekki vín árið 1963?“ Sambandið strengja áramótaheit sést fyrst í Vísi 1970: „þess vegna skulum við bara herða upp hugann, enda sá tími kominn, að menn fara að strengja sín áramótaheit.“ Nokkru síðar er svo farið að grennslast fyrir um áform fólks – í Dagblaðinu 1978 segir: „Dagblaðið ræddi við nokkra þeirra og spurði [...] hvort þeir ætluðu sér að strengja einhver áramótaheit.“ Í Vísi 1980 er spurt: „Ætlarðu að strengja áramótaheit?“ Í DV 1982 er spurt: „Strengdir þú eitthvert áramótaheit?“ Í Tímanum 1982 segir: „Eflaust hafa mörg ykkar strengt áramótaheit.“ Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Margir strengja áramótaheit.“

Sambandið verður algengt á níunda áratugnum, en í upphafi þess tíunda fer sambandið setja sér áramótaheit einnig að sjást. Í Alþýðublaðinu 1991 er spurt: „Seturðu þér áramótaheit?“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Skokkhópurinn [...] setur sér áramótaheit.“ Í DV 1997 segir: „Það eru mjög margir sem setja sér áramótaheit.“ Í DV 1999 segir: „Ég hef nú bara aldrei sett mér áramótaheit.“ Upp úr því verður sambandið algengara – stöku sinnum er þó talað um heit í stað áramótaheit en þá í tengslum við áramót. Í DV 1999 segir: „Þessi áramótin hef ég ákveðið að setja mér heit.“ Í Austurglugganum 2012 segir: „Margir nota nýtt ár, nýtt upphaf til að setja sér heit um breytta hegðun.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Margir setja sér heit um áramót.“

Annað orð sömu eða svipaðrar merkingar er nýársheit sem er mun eldra þótt það sé ekki að finna í helstu orðabókum – elsta dæmi um það er í Þjóðviljanum 1888: „Og séu efndirnar bornar saman við hin árlegu nýársheit.“ Í Lögbergi 1904 er elsta dæmið um að strengja nýársheit – „Eins og allt gott fólk, höfum við strengt fallegt nýársheit.“ Framan af var orðið eingöngu notað í vesturíslensku blöðunum en um miðja öldina var farið að nota það í íslenskum blöðum, einkum eftir 1970. Um miðjan níunda áratuginn náði áramótaheit þó yfirhöndinni og hefur verið mun algengara síðan og er ellefu sinnum algengara í Risamálheildinni. Einstöku dæmi eru um setja sér nýársheit – í DV 2015 segir: „Emma var niðurlægð og setti sér nýársheit um að grenna sig.“

Sambandið strengja heit er auðvitað ævagamalt í málinu og það er vissulega hægt að halda því fram að það sé óæskilegt að breyta því og fara að nota aðra sögn með nafnorðinu heit sem er skýrt '(hátíðlegt) loforð' í orðabókum. Stundum var reyndar líka talað um að vinna áramótaheit/ nýársheit – í Morgunblaðinu 1986 segir: „Um áramót er það nokkuð algengt að fólk vinni áramótaheit.“ En þegar strengd voru heit var það jafnan gert opinberlega og yfirleitt auglýst vandlega, jafnvel með því að stíga á stokk – „Oddur stígur þá á stokk og strengir þess heit, að hann skal vís verða, hver konungur er í Görðum“ segir í Örvar-Odds sögu; „Rís upp með fjöri, stíg á stokk / og streng þess heit að rjúfa ei flokk“ segir í kvæði séra Friðriks Friðrikssonar.

Hins vegar eru áramótaheit/nýársheit nokkuð sérstök tegund heita – þau eru ekkert endilega opinber heldur ekki síður algengt að fólk haldi áramótaheitum sínum fyrir sig. Þau eru eiginlega fremur markmið sem fólk setur sér en loforð þótt auðvitað megi segja að fólk sé að lofa sjálfu sér einhverju. Sambandið setja sér markmið er gamalgróið, a.m.k. síðan í byrjun tuttugustu aldar, og ekkert óeðlilegt að sú setningagerð hafi áhrif á orðið áramótaheit og farið sé að tala um setja sér áramótaheit – stöku sinnum kemur reyndar líka fyrir strengja sér áramótaheit. Þegar við bætist að sambandið strengja áramótaheit er ekki nema 10-20 árum eldra en hitt er ljóst að engin ástæða er til að amast við því að tala um að setja sér áramótaheit.

Posted on

Háborin fyrirmynd

Í gær var spurt í „Málspjalli“ hvort hægt væri að nota lýsingarorðið háborinn í sambandinu til háborinnar fyrirmyndar. Fyrirspyrjandi bætti við: „Maður er svo vanur neikvæðri merkingu með þessu orðasambandi.“ Lýsingarorðið háborinn merkir bókstaflega 'ættgöfugur' og það er fyrsta skýring orðsins bæði í Íslenskri orðabók og Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Önnur skýring í síðarnefnda ritinu er 'uhyre stor' eða 'afarstór, afarmikill' með dæminu það er háborin skömm og sama dæmi er notað í Íslenskri orðabók. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er bókstaflega merkingin ekki nefnd og líklega horfin úr málinu – orðið kemur þar aðeins fyrir í samhenginu til háborinnar skammar sem er skýrt 'það er hneisa, það er skömm að því'.

Þegar háborinn hefur ekki bókstaflega merkingu er orðið alveg frá upphafi eingöngu notað í neikvæðu samhengi. Í Suðra 1883 segir: „slíkt er Íslendingum til háborinnar háðungar.“ Í Þjóðviljanum 1890 segir: „hann hafði áður [...] orðið sér til háborinnar vanvirðu.“ Í Heimskringlu 1894 segir: „En ég er frænda mínum gramur [...] fyrir það, að vera sá háborinn afturhaldsmaður.“  Í Ísafold 1901 segir: „vegabréfið mátti að hábornum skriffinskusið ekki senda meðal póstbréfa.“ Í Heimskringlu 1903 segir: „þar kemur fram eitt hið hábornasta!! skammarstryk, sem Greenwaystj. gerði.“ Í Freyju 1905 segir: „sulturinn kúgaði hann til hlýðni við háborinn níðing.“ Í Reykjavík 1910 segir: „það væri hin hábornasta svívirðing.“

Elsta dæmi um sambandið til háborinnar skammar er í Nýjum kvöldvökum 1906: „þetta er ykkur til háborinnar skammar.“ Nokkur önnur neikvæð lýsingarorð koma fyrir í þessu samhengi, einkum framan af  – háðung og vanvirða hafa verið nefnd áður en fleiri má telja. Í Skeggja 1918 segir: „það er til háborinnar minkunnar fyrir þorpið.“ Í Sjómannablaðinu Víkingi 1949 segir: „umhverfi skólans er til háborinnar vansæmdar.“ Í DV 2000 segir: „hún er forráðamönnum menntamála á undanförnum áratugum til háborinnar hneisu.“ En nafnorðið skömm hefur þó alla tíð verið nær einhaft í þessu sambandi, og mjög algengt – á tímarit.is eru rúm tvö þúsund dæmi um til háborinnar skammar og í Risamálheildinni eru dæmin rúmlega þrjú þúsund.

En undir síðustu aldamót fór sambandinu til háborinnar fyrirmyndar að bregða fyrir. Elsta dæmi sem ég finn um það er í auglýsingu í Morgunblaðinu 1992: „Hollí – til háborinnar fyrirmyndar ...“ Í DV 2002 segir: „Þórir [...] sagði framkomu og umgengni keppenda hafa verið til „háborinnar fyrirmyndar“ eins og hann orðaði það.“ Í Morgunblaðinu 2006 segir: „á heildina litið er þátturinn alveg til háborinnar fyrirmyndar eins og maðurinn sagði.“ Á Twitter 2009 segir: „Þess vegna er til háborinnar fyrirmyndar 🙂 að fjárlög skuli gera ráð fyrir 5 milljarða „ófyrirséðum útgjöldum“.“ Samhengið, og broskallinn í síðasta dæminu, bendir til þess að sambandið sé þarna fremur notað í gamansemi en í fullri alvöru. En það er kannski að breytast.

Í Fréttablaðinu 2014 segir: „Og svo er nostalgían kringum Brynju-ísinn vitaskuld óviðjafnanleg og til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „við smökkuðum jafnframt á lambaskanka sem var til háborinnar fyrirmyndar.“ Í DV 2018 segir: „Kvikmyndataka, stíll og sérstaklega tónlist er til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „Þetta var svakalega flott hjá honum og eiginlega bara til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Morgunblaðinu 2019 segir: „Eldhúsið er einstaklega glæsilegt og efnisvalið til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Vísi 2021 segir: „Varnarleikur ÍR-inga afleitur en hittni heimamanna til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Morgunblaðinu 2022 segir: „stuðningurinn sem bæði lið fengu var til háborinnar fyrirmyndar.“

Ég sé ekki annað en þessi dæmi, og flest önnur nýleg dæmi um til háborinnar fyrirmyndar, séu í fullri alvöru þótt vitanlega sé oft erfitt að meta það. Það er ljóst að sambandið hefur breiðst mikið út á síðustu árum – alls eru rúm 160 dæmi um það í Risamálheildinni, þar af rúm 60 sem eru ekki af samfélagsmiðlum. Vitanlega er bókstafleg merking orðsins háborinn fremur jákvæð en neikvæð og þess vegna má svo sem halda því fram að það sé ekkert óeðlilegt að nota það með jákvæðu orði eins og fyrirmynd. En í þessu tilviki er þó ljóst að í heila öld var orðið nánast eingöngu notað í sambandinu til háborinnar skammar og það er almennt séð óæskilegt að hrófla við föstum orðasamböndum. Þess vegna er til háborinnar fyrimyndar óheppilegt orðalag.

Posted on

„Rökleysa“ og „ósamræmi“ – vegna vetrarhörku

Í „Málspjalli“ var í gær vísað í fyrirsögnina „Lýsa yfir neyðarástandi vegna vetraharkna“ á mbl.is og spurt hvort þetta væri ekki „óvenjuleg notkun á vetrahörku“. Þarna vantar reyndar r inn í orðið því að venjulega er fyrri liðurinn hafður í eignarfalli eintölu, vetrarharka, en ég held að það hafi ekki verið ástæða spurningarinnar, heldur seinni hlutinn, -harkna. Það er alveg rétt að myndin vetrarharkna er harla óvenjuleg – um hana eru aðeins fjögur dæmi á tímarit.is og ekkert í Risamálheildinni. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eignarfall fleirtölu gefið upp bæði með og án n, vetrarharka og vetrarharkna. Sama gildir um merkingarskylt orð með frost- sem fyrri lið – bæði frostharka og frostharkna er gefið upp sem eignarfall fleirtölu.

Það er samt ekki svo að n-lausar myndir af eignarfalli fleirtölu þessara orða séu eitthvað meira notaðar. Þvert á móti – ég finn engin dæmi um að sagt sé t.d. *vegna vetrarharka eða *sökum frostharka. Á tímarit.is eru aftur á móti um hundrað dæmi um eignarfall eintölu þessara orða í samböndunum vegna/sökum vetrarhörku/frosthörku, og í Risamálheildinni eru dæmin tæp fimmtíu. Það sem er athyglisvert í þessu er að þessi orð eru annars næstum aldrei notuð í eintölu – í Íslenskri nútímamálsorðabók er fleirtalan vetrarhörkur uppflettimynd, og sama gildir um frosthörkur. Í Íslenskri orðabók er frostharka uppflettimynd en sagt „oft í ft.“. Í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 er frostharka skýrt 'stærk Frost' en frosthörkur 'vedholdende stærk Frost'.

Þarna eru sem sé orð sem næstum alltaf eru höfð í fleirtölu, vetrarhörkur og frosthörkur, en þegar kemur að eignarfallinu bregður öðruvísi við – þá er næstum alltaf notuð eintalan vetrarhörku/frosthörku í stað fleirtölunnar vetrarhark(n)a/frosthark(n)a. Þetta kann í fljótu bragði að virðast mjög sérkennilegt en á sér þó ýmsar hliðstæður. Ég hef oft skrifað um það að málnotendur virðast forðast að nota eignarfall fleirtölu veikra kvenkynsorða í fyrri lið samsettra orða enda þótt það væri „rökrétt“ og nota eignarfall eintölu í staðinn – stjörnuskoðun, perutré, gráfíkjukaka, í stað *stjarnaskoðun, *per(n)atré, *gráfíknakaka. Væntanlega er það vegna þess að eignarfall fleirtölu fellur saman við nefnifall eintölu, eða myndir með n hljóma torkennilega.

En vegna þess að þarna er um að ræða fyrri lið í samsetningum hljótast engin víxl í beygingu af þessu – eintölumyndin er notuð í öllum föllum samsettu orðanna. Í orðunum vetrarhörkur og frosthörkur eru aftur á móti víxl innan beygingardæmanna – fleirtala notuð í nefnifalli, þolfalli og þágufalli en eintala í eignarfalli. Það sem er áhugavert er að við tökum ekkert eftir þessu – við notum eintöluna umhugsunarlaust í eignarfallinu og hugsum ekkert út í það að þarna er í raun ósamræmi og vitanlega ekkert „rökrétt“. En þannig er tungumálið – það er fullt af hvers kyns ósamræmi og „rökleysu“ sem truflar okkur ekki neitt og veldur engum skaða. Þvert á móti – tungumál sem er fullkomlega „rökrétt“ er nefnilega bara dautt og leiðinlegt.

Posted on

Að gera mikið að – eða af

Ég hef stundum skrifað um orðasambönd þar sem ýmist er notuð forsetningin eða af, svo sem leita að/af, að/af gefnu tilefni o.fl. Í þessum samböndum, sem eru fjölmörg, er önnur forsetningin jafnan talin „rétt“ en hin „röng“, þrátt fyrir að sú „ranga“ sé stundum mjög algeng og eigi sér langa sögu í sambandinu. Eitt þessara sambanda er gera mikið/lítið að/af einhverju. Í Málfarsbankanum kemur fram að þar eigi að nota forsetninguna og sama máli gegnir um Íslenska orðabók og Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924. En þetta hefur þó lengi vafist fyrir málnotendum, jafnvel þeim sem skrifa um íslenskt mál. Það kom glöggt fram í pistli Guðna Kolbeinsson um og af í „Íslenskuþætti Alþýðublaðsins“ árið 1976, fyrir hálfri öld:

„Einn af lesendum þessa blaðs hringdi til mín nýlega og kvaðst hafa séð málvillu í einum íslenskuþættinum hér i blaðinu. Hefði þar verið talað um að gera mikið af einhverju í stað mikið að einhverju. Kvað hann rugling í þessu orðasambandi mjög algengan. Ég varð að kannast við að það væri mér eðlilegt mál að tala um að gera mikið eða lítið af einhverju og sannfærðist raunar ekki um að ég færi hér villur vega fyrr en ég hafði flett upp í tiltækum orðabókum. Varð ég þá að játa afglöp mín. Hér er á ferðinni enn eitt dæmið um rugling á að og af. Að vísu vel skiljanlegan rugling þar sem oft er talað um mikið af einhverju [...], en samt fer þessi málanotkun: að gera mikið af einhverju, í bága við málhefð og er skylt að forðast hana.

Þarna má spyrja hvað það merki að fara „í bága við málhefð“. Það er ljóst að þótt gera mikið að sé vissulega eldra var gera mikið af engin nýjung á þessum tíma – elstu dæmi um það eru frá nítjándu öld. Í Þjóðólfi 1886 segir: „aldrei er gert of mikið af því sem gott er.“ Í Heimskringlu 1891 segir: „enda gerði hann ekki mikið af því.“ Í Skírni 1896 segir: „En enskir menn hafa gert mikið af að nema sér lönd á svæði þessu.“ Upp úr aldamótum fara að sjást fleiri og fleiri dæmi um af í þessu sambandi á tímarit.is og upp úr miðri öldinni verður það algengara en þannig að óhætt er að fullyrða að hefð hafi verið komin á sambandið gera mikið af fyrir hálfri öld, þegar Guðni Kolbeinsson sagði að það færi „í bága við málhefð“.

Sambandið af öllu má of mikið gera eða of mikið má af öllu gera hefur þó sérstöðu – það er fast orðasamband eins og hin óvenjulega orðaröð með sögnina gera aftast bendir til og merkir 'allt er best í hófi' eins og fram kemur hjá Jóni G. Friðjónssyni í Merg málsins. Elsta dæmi um það er í Lanztíðindum 1850: „of mikið má af öllu gjöra.“ Í Norðra 1855 segir: „þá má þó of mikið af öllu gjöra.“ Í Austra 1885 segir: „Af öllu má of mikið gera.“ Í þessu sambandi var forsetningin af sem sé notuð frá upphafi, og er ekki ólíklegt að það hafi stuðlað að notkun hennar í öðrum samböndum þar sem gera og mikið koma saman. En ekki kemur á óvart að áhrifa í hina áttina gæti einnig: „Frá fyrri hluta 20. aldar eru kunn afbrigði með “ segir Jón G. Friðjónsson.

Þótt af næði yfirhöndinni í gera mikið af var lengi haldið áfram að gera athugasemdir við það. Í Þjóðviljanum 1962 er þessi vísa um „málblóm Alþýðublaðsmanna“: „Aungvum líkjast AB menn, / ógn er málið skrítið: / þeir gera mikið AF ÞVÍ enn / en AÐ ÞVÍ heldur Iítið.“ Í bréfi sem Gísli Jónsson birti í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1985 segir: „þessi villa er rótgróin.“ Jón Aðalsteinn Jónsson sagði í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1990: „Þá hefur verið ruglazt á samb. að gera mikið að e-u og sett af í staðinn.“ Helgi Skúli Kjartansson nefndi þetta líka í Íslensku máli 2004 í umræðu um það „vandamál að velja á milli forsetninganna og af í vissum orðasamböndum þar sem mjótt er á munum merkingarlega.“

Það er nefnilega erfitt að finna einhver merkingarleg rök fyrir vali milli og af í þessu sambandi. Oft er vísað til þess að grunnmerking forsetninganna sé ólík eins og fram komi í Íslenskri orðsifjabók merki ‚í áttina til‘ en af merki ‚frá, burt‘. En hvoruga merkinguna er auðvelt að tengja við gera mikið að/af – Jón G. Friðjónsson segist í pistli í Málfarsbankanum hafa talið að merkingar- og notkunarmunur og af „væri mikill og augljós, aðeins í nokkrum tilvikum gætti óvissu, t.d. gera mikið/lítið að/(af) einhverju. Eins og Gísli Jónsson benti á í Morgunblaðinu 1985 má þó vissulega styðjast við það „að nafnorð sem samsvara að gera mikið að einhverju eru auðvitað aðgerðir og aðgerðaleysi, ekki afgerðir eða afgerðaleysi“.

En baráttan fyrir í þessu sambandi er augljóslega löngu töpuð – og var töpuð þegar fyrir hálfri öld þótt Guðni Kolbeinsson segði gera mikið að þá fara „í bága við málhefð“. Í Risamálheildinni er af meira en tíu sinnum algengara en og í Íslenskri nútímamálsorðabók er eingöngu gefið sambandið gera mikið af, enda er það væntanlega í samræmi við málkennd meginhluta málnotenda undanfarna áratugi og gera mikið er líklega flestum framandi. Það er athyglisvert að enda þótt gera mikið að sé enn að finna í lista um sambönd sem eiga að taka í Málfarsbankanum virðist sérstök grein um það (sem fram kemur ef gera er flett upp á Málið.is) vera horfin. Hugsanlega má túlka það svo að gera mikið af sé nú viðurkennt mál.

Posted on

Að úthluta einhverjum einhverju – eða eitthvað

Ég var spurður að því í dag hvort hægt væri að segja bæði mér var úthlutuð lóðin og mér var úthlutað lóðinni. Ég svaraði því til að setningar af fyrri gerðinni sæjust vissulega stundum en í Málfarsbankanum segði: „Sögnin úthluta getur tekið með sér tvo þágufallsliði í germynd. Ríkið úthlutaði stöðinni rásum. Húsvörðurinn úthlutaði mér þessum skáp. Báðir liðirnir eiga að halda þágufallinu í þolmynd. Stöðinni var úthlutað rásum. Mér var úthlutað þessum skáp.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin eingöngu gefin upp með tveimur þágufallsliðum og sama gildir um Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924. Í Íslenskri orðabók segir hins vegar: „úthluta e-m e-u (e-ð)“, þ.e. gert er ráð fyrir að seinna andlagið geti einnig verið í þolfalli.

Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2004 segir Jón G. Friðjónsson: „Dæmi í seðlasafni Orðabókar Háskólans sýna að fallstjórn sagnarinnar úthluta hefur reyndar alllengi verið nokkuð breytileg. Flestir munu þó vera sammála um að í nútímamáli sé rétt að segja úthluta einhverjum einhverju en síður úthluta einhverjum eitthvað.“ Í könnun sem Ása Bergný Tómasdóttir gerði í BA-ritgerð sinni kom glöggt í ljós að fallnotkunin er á reiki. Þar samþykkti rúmlega þriðjungur þátttakenda setninguna Sveitarfélög þurfa að úthluta trúfélögum ókeypis lóðir þar sem seinna andlagið er í þolfalli, en þrír fjórðu þátttakenda samþykktu setninguna Kennarinn úthlutaði nemendunum auðveldum verkefnum þar sem seinna andlagið er í þágufalli eins og talið er „rétt“.

„Málnotkun virðist vera í föstum skorðum í germyndarsetningum sem þessum en svo er hins vegar ekki í samsvarandi þolmyndarsetningum“ segir Jón G. Friðjónsson einnig í áðurnefndum pistli. Það er sem sé algengt að liðurinn sem vísar til hins úthlutaða haldi ekki þágufalli sínu í þolmynd heldur fái þar nefnifall, þannig að þótt sagt sé bærinn úthlutaði mér lóðinni í germynd sé sagt mér var úthlutuð lóðin í þolmynd. Þetta er stundum kallað „fallglötun“ og um hana er fjallað í meistararitgerð Ásbjargar Benediktsdóttur frá 2023. Það er hins vegar snúið að átta sig á því hvort þágufallið glastast raunverulega við breytinguna úr germynd í þolmyndi eða hvort nefnifallið stafar af því að viðkomandi málnotendur hafi þolfall á andlaginu í germynd.

Í pistli frá 2015 í Málfarsbankanum segir Jón G. Friðjónsson að bæði úthluta e-m e-u og úthluta e-m e-ð virðist „í samræmi við hefðbundna notkun og málkerfið“ og í pistli frá 2016 tilgreinir hann ýmis gömul dæmi um úthluta e-m e-ð og segir: „Dæmi [...] falla mjög vel að málkennd minni og þau eru öll studd afar traustum heimildum.“ Þetta mynstur er t.d. notað í elstu dæminu á tímarit.is, úr Fjölni 1835: „einginn vinnur nú til að kaupa þessi hjálparmeðöl, þó honum væri úthlutuð ein bók til að útleggja.“ Í Fjölni 1839 segir: „Með annarri konúnglegri ákvörðun [...] eru landsyfirvöldum úthlutaðir 1000 dalir árlega.“ Ýmis fleiri dæmi um þetta fallamynstur má finna á nítjándu öld og alla tíð síðan, en þágufall á seinna andlagi var þá þegar einnig algengt.

Jón G. Friðjónsson segir að „að teknu tilliti til aldurs og heimilda virðist hafa orðið breyting, þ.e. úthluta e-m e-ð úthluta e-m e-u“ og bætir við: „Dæmin sýna að breytingin er ekki um garð gengin [...].“ Ég fæ samt ekki betur séð en þágufallið hafi verið algengara en þolfallið á seinna andlaginu alveg síðan á nítjándu öld en þolfallið sé heldur að sækja í sig veðrið í seinni tíð. Það er ekki óeðlilegt vegna þess að flestar sagnir svipaðrar merkingar taka með sér þágufall og þolfall, svo sem gefa, afhenda o.fl. Hvað sem þessu líður er ljóst að úthluta einhverjum einhverju er algengasta fallmynstrið er úthluta einhverjum eitthvað er líka algengt og á sér langa hefð. Þess vegna hlýtur mér var úthlutuð lóðin að teljast jafnrétt og mér var úthlutað lóðinni.

Posted on

Að standa upp fyrir sjálfum sér

Í frétt í DV í gær haft eftir konu um nafngreindan erlendan mann: „Hún skrifaði athugasemd þar sem hún sagðist ánægð með að hann standi loksins upp fyrir sjálfum sér.“ Á Fótbolti.net er haft eftir þeim sem vísað er til: „Það er enginn að stjórna mér heldur er ég að standa upp fyrir mér í fyrsta sinn“ – í frumtextanum segir „I‘m standing up for myself for the first time in my life“. Þarna er í báðum tilvikum notað sambandið standa upp fyrir einhverjum sem er augljóslega þýðing á stand up for something/someone í ensku en það samband merkir 'to defend or support a particular idea or a person who is being criticized or attacked' eða 'að verja eða styðja tiltekna hugmynd eða manneskju sem sætir gagnrýni eða árásum'.

Þetta samband hefur töluvert verið notað í íslensku undanfarin tuttugu ár eða svo. Elsta dæmi sem ég finn um það er á Hugi.is 2004: „sjálfur stend ég upp fyrir sjálfum mér ef einhver byrjar með leiðindi.“ Á Bland.is 2005 segir: „Dáist að konum sem standa upp fyrir sjálfum sér og láta níðinginn heyra það!“ Elsta dæmið á tímarit.is er í Bæjarins besta 2007: „Það er mín ósk að geðfatlaðir standi upp fyrir sjálfum sér og verði sýnilegri.“ Í Fréttablaðinu 2008 segir: „Hvenær munu Ólafar landsins standa upp fyrir sjálfum sér?“ Sambandið virðist hafa breiðst mikið út eftir að lagið „Stattu upp“ með hljómsveitinni Blár ópal lenti í öðru sæti í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2012, en þar er línan „Stattu upp fyrir sjálfum þér“ margendurtekin.

Í „Molum um málfar og miðla“ árið 2012 segist Eiður Guðnason hafa fengið spurninguna „Myndi molaskrifari álíta sem svo að ,,Stattu upp fyrir sjálfum þér“ teldist til góðrar notkunar á íslensku? Svarið er nei, – en Molaskrifari lítur nú eiginlega á þetta sem grínbull.“ Í Morgunblaðinu 2016 spyr Svanhildur Hólm Valsdóttir: „Hvernig fer maður líka að því að „standa upp fyrir sjálfum sér“ eins og var sungið í undankeppni Eurovision fyrir nokkrum árum; „Stattu upp fyrir sjálfum þér.“ Ég hef átt í mestu vandræðum með sjálfa mig þegar ég heyri þetta því ég get ómögulega séð fyrir mér hvernig hægt er að koma því í verk. Einhverjir myndu segja að ég væri pínu bókstafleg en ég virka svona – hlutir þurfa helst að vera rökréttir.“

Bókstafleg og hefðbundin – og „rökrétt“ – merking sambandsins standa upp fyrir einhverjum er 'bjóða einhverjum sæti sitt', t.d. í strætó – og sú merking er auðvitað enn í fullu gildi. En þrátt fyrir að sambandið standa upp fyrir sjálfum sér hafi verið talið „grínbull“ og „órökrétt“ hefur notkun þess haldið áfram að aukast og í Risamálheildinni eru rúm 150 dæmi um það. Þó fer því fjarri að öllum hugnist sambandið og í allmörgum þessara dæma er einmitt verið að gagnrýna það. Á Twitter 2016 segir t.d.: „Ömurlegt þegar fólk stendur upp fyrir sjálfum sér í stað þess að standa með sér.“ Það getur í sjálfu sér verið í lagi að gefa orðasamböndum nýja og yfirfærða merkingu, jafnvel þótt hún sé komin úr ensku. En þarna byggist þetta á misskilningi.

Enska atviksorðið up merkir nefnilega bæði 'upp' og 'uppi' og á ensku getur stand up því vísað bæði til hreyfingar ('rísa upp') og kyrrstöðu – og það er síðarnefnda merkingin sem á við ef ég skil þetta rétt. Í íslensku hlýtur standa upp hins vegar að vísa til hreyfingar en standa uppi væri ekki eðlilegt í þessu samhengi. Hins vegar eru til ýmis sambönd sem hægt væri að nota í svipaðri merkingu og um ræðir, svo sem standa með sjálfum sér, standa á rétti sínum, standa í lappirnar o.fl. Þótt ekki sé ástæða til að amast við yfirfærslu enskra orðasambanda sem falla að reglum málsins gegnir öðru máli þegar yfirfærslan brýtur gegn venjulegri málnotkun og byggist auk þess á vanþekkingu eða misskilningi. Hættum að tala um að standa upp fyrir sjálfum sér.

Posted on

Magn og fjöldi

Nýlega var í „Málspjalli“ spurt um notkun orðsins magn í setningunni „Til að áætla magn ferðamanna á landinu var heildarfjöldi [svo] þeirra árið 2024 deilt niður á 52 vikur“ sem tekin er úr skýrslunni Tillögur að neyðarbirgðum matvæla á Íslandi frá árinu 2025. Fyrirspyrjandi sagðist hafa vanist því að nota orðið fjöldi í samböndum af þessu tagi. Vissulega er meginreglan sú að tala um fjölda þegar átt er við eitthvað teljanlegt en nota magn um safnheiti, en þó er rétt að athuga að í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið magn skýrt 'það sem tekur til umfangs, stærðar eða fjölda' og í Íslenskri orðabók er það skýrt 'megind, það sem tekur til massa, stærðar eða fjölda e-s'. Þarna er því á báðum stöðum gert ráð fyrir að magn geti vísað til fjölda.

Það er ekki einsdæmi að talað sé um magn ferðamanna eða magn af ferðamönnum. Í DV 1992 segir: „Núna sjá Portúgalar mikið eftir því að hafa lagt svona mikla áherslu á magn ferðamanna frekar en gæði.“ Á vef Víkurfrétta 2002 segir: „það sem hefur kannski komið mér mest á óvart er hið ótrúlega magn af ferðamönnum sem koma hingað í öllum veðrum.“ Í DV 2005 segir: „Gríðarlegt magn af ferðamönnum koma til Reykjavíkur.“ Á mbl.is 2016 segir: „við erum með óhemju magn af ferðamönnum á öllu landinu.“ Í fréttum Ríkisútvarpsins 2015 sagði: „Það hefur ekki farið framhjá neinum að ferðamenn streyma hingað í áður óþekktu magni.“ Þetta tók Eiður Guðnason upp í málfarsmolum sínum og sagði: „Ekki magn ferðamanna, takk.“

En orðið magn hefur svo sem verið notað um annars konar fólk en bara ferðafólk. Í grein Helga J. Halldórssonar, „Málfar blaða og útvarps“, í Skírni 1975 segir: „Kona skrifaði mér og sagðist hafa heyrt í útvarpinu talað um mikið magn af fólki við jarðarför.“ Í DV 2006 segir: „Á svæðinu var ótrúlegt magn af fólki.“ Í Eyjafréttum 2010 segir: „Mikil snerting við mikið magn af fólki.“ Í Vísi 2011 segir: „Það er alveg gríðarlegt magn af fólki sem birtist.“ Á mbl.is 2022 segir: „Það er náttúrulega ofboðslegt magn af fólki sem gengur Laugaveginn.“ Þetta hefur stundum verið gagnrýnt – í Fréttablaðinu 2007 segir Njörður P. Njarðvík: „Megum við kannski búast við að heyra talað um verulegt magn af fólki á sýningu? Hljómar það ekki fremur aulalega?“

Þegar að er gáð kemur í ljós að ýmis fordæmi eru fyrir því að nota magn um teljanleg fyrirbæri. Í Morgunblaðinu 1978 segir t.d.: „Bændur á Sikiley framleiða umtalsvert magn af appelsínum sem enginn hefur neitt við að gera.“ Þótt appelsínur séu auðvitað teljanlegar væri mjög óeðlilegt að tala þarna um mikinn fjölda appelsína fremur en umtalsvert magn af appelsínum. Í Frey 1985 segir: „Getum boðið mikið magn af girðingarstaurum úr trönuefni á mjög hagstæðu verði.“ Hér gegnir sama máli – girðingarstaurar eru teljanlegir en óeðlilegt væri að tala um fjölda girðingarstaura. Í Vísi 1975 er auglýst „talsvert magn af gangstéttarhellum“ en ekki töluverður fjöldi af gangstéttarhellum þótt gangstéttarhellur séu teljanlegar – og svo mætti lengi telja.

Það er sameiginlegt flestum eða öllum dæmum þar sem magn er notað um teljanleg fyrirbæri, hvort sem það er fólk eða annað, að stökin í hópnum, einstaklingarnir, skipta ekki máli heldur heildin – massinn. Oftast er um mikinn fjölda að ræða – þótt talað sé um mikið magn af fólki er aldrei sagt *lítið magn af fólki heldur fátt fólk. Í dæminu um magn ferðamanna í upphafi er það ekki beinlínis fjöldi ferðamanna sem skiptir máli heldur vægi þeirra í matarþörf þeirra sem eru í landinu á hverjum tíma. En vissulega er það oft matsatriði hvort það er massinn sem skiptir máli frekar en einstaklingarnir, og þá hvort eðlilegt er að nota magn – það getur bæði farið eftir þeim fyrirbærum sem um er að ræða (ferðafólk, appelsínur) og verið misjafnt milli málnotenda.

Posted on

Að þjónka

Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í gær stóð: „Vill að ríkið setji markmiðin og hætti að þjónka við lykilgreinar.“ Þarna er notuð sögnin þjónka sem vissulega er til í málinu en var þó til skamms tíma sjaldgæf, a.m.k. ekki nógu algeng til að komast í Íslenska nútímamálsorðabók. Hana er þó að finna í Íslenskri orðabók og tvær merkingar hennar gefnar, önnur þeirra 'þjóna'. Eitt dæmi er um sögnina í fornum textum og þar hefur hún merkinguna 'þjóna', en oft virðist þjónka þó vera neikvæðari og fela í sér meiri undirlægjuhátt en þjóna. Það rímar við skýringuna 'þrælsleg hlýðni' sem Íslensk nútímamálsorðabók hefur á nafnorðinu þjónkun sem væntanlega er leitt af sögninni en er margfalt algengara og fjöldi dæma er um í fornu máli.

En auk merkingarinnar 'þjóna' er merkingin 'undiroka' gefin í Íslenskri orðabók og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er eingöngu sú merking gefinþjónka er þá 'gera að þjón'‘ eins og þrælka er 'gera að þræl'. Merkingarnar 'þjóna' og 'undiroka' virðast vera andstæðar og því er nokkuð sérkennilegt að sama sögnin skuli hafa þær báðar. Í merkingunni 'undiroka' tekur sögnin með sér andlag í þolfalli. Í Tímanum 1959 segir: „að ástæða sé til að vera á varðbergi gegn eiturlyfjaneyzlu í þjóðfélagi, þar sem [...] hömluleysi heilans þjónkar mannskepnuna.“ Í Stúdentablaði jafnaðarmanna 1964 segir: „hugsunina notar maðurinn til þess að þjónka náttúruöflin.“ Þessi merking virðist alltaf hafa verið mjög sjaldgæf og er horfin úr sögninni.

Sögnin þjónka er nefnd í riti Alexanders Jóhannessonar, Die Suffixe im Isländischen, frá 1927, en engin dæmi eru um hana í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og elsta dæmi sem ég finn um hana á tímarit.is er í Heimdalli 1930: „Kardínáli frá Rómaborg studdi þennan nýja málstað, að Íslendingar færu að eins og aðrar þjóðir og þjónkuðu undir einhvern konung.“ Þarna er merkingin sú sama og í þjóna en sambandið þjóna undir er skýrt 'vera í þjónustu einhvers' í Íslenskri orðabók – þarna ætti 'heyra undir' þó betur við. Í leikdómi í Árbliki 1938 segir: „Guðjón þjónkar og flestum hlutverkum vel.“ Í þessum dæmum er merkingin frekar hlutlaus, en í flestum dæmum er merkingin þó neikvæðari, eins og í fréttinni sem vísað var til í upphafi.

Í Alþýðublaðinu 1944 segir: „að ríkisstjórnin muni telja sér frekar skylt að þjónka undir atvinnurekendavaldið.“ Í Stéttabaráttunni 1974 segir: „Thieu klíkan hefur þverbrotið hvert ákvæði samkomulagsins [...] til að þjónka bandarísku heimsvaldastefnunni.“ Í Austurlandi 1982 segir: „Að þjónka undir útlendinga virðist eitt aðalmarkmið þessa hóps.“ Í DV 1988 segir: „Til hvers er eiginlega verið að hafa strætisvagnaferðir svona lengi fram eftir, nema til að þjónka við þá unglinga sem eru að þvælast í miðborginni.“ Í DV 2002 segir: „Það er með eindæmum, hvernig stjórnvöld [...] þjónka við sjómenn.“ Þessi dæmi sýna að sögnin er notuð á fjölbreyttan hátt setningafræðilega – tekur með sér forsetningu, ýmist undir eða við, eða andlag í þágufalli.

Merking sagnarinnar virðist því hafa breyst á tuttugustu öld, úr því að vera sú sama og í þjóna yfir í 'sýna þrælslund' eða eitthvað slíkt. Sama breyting virðist hafa orðið á nafnorðinu þjónkun – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'þjónusta, þjónustuveiting', í Íslenskri orðabók er skýringin annars vegar ‚þjónusta, það að veita þjónustu‘, og hins vegar 'þrælsleg hlýðni', sem er eina skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók eins og fyrr segir. Stundum er sögnin notuð í miðmynd, í sömu merkingu og germyndin að því er virðist. Í Baldri 1947 segir: „þeim var meira í mun að þjónkast kröfum Bandaríkjamanna en þörfum íslenzkrar alþýðu.“ Í Tímariti Máls og menningar 1958 segir: „forystumenn flestir vildu þjónkast herveldinu.“

Sögnin þjónka var lengi sjaldgæf eins og áður segir en virðist hafa sótt mjög í sig veðrið að undanförnu – verulegur hluti þeirra rúmu hundrað dæma sem eru um hana á tímarit.is er frá þessari öld. Í Risamálheildinni eru um 180 dæmi um hana, flest frá þessari öld – þar af þriðjungur úr Alþingisræðum þar sem „klögumálin gengu á víxl“. Í flestum tilvikum virðist hún vísa til undirlægjuháttar en stundum er merkingin þó sú sama og í þjóna, eins og í „Ég var að reyna að finna mig aftur en gymmið þjónkaði ekki alveg minni lund“ í Fréttablaðinu 2018. Í þessum dæmum tekur sögnin oftast þágufallsandlag en sambandið þjónka við sem vísað var til í upphafi kemur einnig fyrir í hátt í þrjátíu af þessum dæmum – og er auðvitað gott og gilt.

Posted on

Að hringja sig (inn) veikan

Nýlega var spurt í „Málspjalli“ hvenær fólk hefði byrjað að hringja sig inn veikt – hvort þetta væru áhrif frá call in sick í ensku. Þetta orðalag finnst ekki í orðabókum og er væntanlega ekki ýkja gamalt en eins og með aðrar nýjungar er trúlegt að það hafi tíðkast í málinu um hríð áður en það komst á prent. Elsta ritmálsdæmi sem ég finn er í Alþýðublaðinu 1988: „margir þorðu ekki fyrir sitt litla líf í vinnuna, hringdu sig inn veika.“ Í Helgarpóstinum 1996 segir: „ég var eiginlega aldrei í ástandi til að mæta og hringdi mig inn veika trekk í trekk.“ Orðalagið er orðið algengt á samfélagsmiðlum upp úr aldamótum en dæmum um það á prenti fer smátt og smátt fjölgandi upp úr því þótt það verði ekki verulega algengt fyrr en á síðustu tíu árum eða svo.

Dæmin um þetta orðalag í Risamálheildinni eru um 900, þar af um 700 af samfélagsmiðlum. En einnig eru alls um 100 dæmi um það án inn, einkum á samfélagsmiðlum. Á Bland.is 2004 segir: „Ætti ég að hringja mig veika?“ Á Twitter 2016 segir: „Er búinn að hringja mig veikan í vinnunni á morgun.“ Örfá dæmi eru úr öðrum textum. Í Morgunblaðinu 2012 segir: „getur verið snúið að taka sér leyfi eða hringja sig veikan.“ Á mbl.is 2023 segir: „Það er náttúrlega bömmer að hringja sig veika í vinnunni.“ Ég er reyndar viss um að sögnin hringja er ekki alltaf notuð í bókstaflegri merkingu í hringja sig (inn) veikan – það er nokkuð öruggt að í sumum tilvikum hefur fólk sent tilkynningu í tölvupósti, á samfélagsmiðlum eða í smáskilaboðum.

Áður var oftast notað orðalagið tilkynna sig veikan – elsta dæmi um það er í Íþróttablaðinu 1974: „Ég man t.d. einu sinni [...] að ég mætti ekki, og tilkynnti mig veikan.“ Þetta orðalag er enn algengt, en á seinni árum mun sjaldgæfara en hringja sig (inn) veikan. Einnig er stundum sagt melda sig veikan – „stór hluti símvirkjanna hefur þegar meldað sig veikan“ segir í DV 1984. Fleiri sagnir sem merkja 'tilkynna, láta vita' koma til greina, eins og segja – „Samkvæmt upplýsingum stjórnarmanna KSÍ báðu forráðamenn Stuttgart Ásgeir að segja sig veikan“ segir í Tímanum 1983. En sögnin hringja hefur þessa merkingu aðeins í sambandinu hringja sig (inn) – við getum sagt ég tilkynnti þetta, ég sagði þetta, ég meldaði þetta, en ekki *ég hringdi þetta.

Sagnir þessarar merkingar er yfirleitt hægt að nota í tveimur setningagerðum – annars vegar með nafnhætti og þolfallsandlagi, eins og ég tilkynnti mig veikan, ég sagði mig veikan, ég meldaði mig veikan, og hins vegar með -setningu, ég tilkynnti að ég væri veikur, ég sagði að ég væri veikur, og jafnvel ég meldaði að ég væri veikur. Það er hins vegar útilokað að hafa aukasetningu á eftir hringja (inn) – við getum ekki sagt *ég hringdi (inn) að ég væri veikur, enda hefur hringja ekki umrædda merkingu nema í hringja sig (inn) eins og fyrr segir. Þótt sambandið hringja sig (inn) sé komið inn í málið, væntanlega úr ensku, hagar það sér sem sjálfstætt fast samband og hefur ekki áhrif á merkingu eða setningarstöðu hringja að öðru leyti.