Í nýútkominni bók sem ég var að lesa, Utanveltumaður eftir Valdimar Gunnarsson, staldraði ég við tilvitnun í grein eftir Jón Jensson í Ísafold 1894 þar sem segir: „mjer var alveg ókunnugt um hæfilegleika hr. Fr. B. A. í þessu efni og áreiðanlegleik hans“. Það voru orðin hæfilegleikur (eða hæfilegleiki) og áreiðanlegleikur sem komu mér spánskt fyrir sjónir – ég hefði sleppt viðskeytinu -leg- úr orðunum og talað um hæfileika og áreiðanleik. Við athugun kom í ljós að lengri myndir ýmissa slíkra orða tíðkuðust áður fyrr. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er að finna 85 orð af þessu tagi, þar af nokkrar tvímyndir með -legleiki eða -legleikur, en fæst þessara orða ef nokkur er að finna í Íslenskri orðabók eða Íslenskri nútímamálsorðabók.
Mörg orðanna eru aftur á móti í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 sem sýnir að þau hafa verið þekkt í byrjun síðustu aldar. Meðal orða af þessu tagi sem virðast hafa verið nokkuð algeng er eiginlegleiki. Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 2003 segir Jón Aðalsteinn Jónsson: „Fyrr á tíð var talað um eiginlegleika manna, en síðar breyttist það í eiginleika. Þannig er mál okkar á sífelldri hreyfingu.“ Önnur algeng orð með -legleik- eru t.d. innilegleiki/-leikur, maklegleiki/-leikur, mögulegleiki/-leikur, verulegleiki/-leikur, og ýmis fleiri. Öll hafa þessi orð styst þannig að -leg- hefur fallið brott og eru nú innileiki, makleiki, möguleiki og veruleiki. Í öllum tilvikum eru styttri myndirnar margfalt algengari en þær lengri.
Sameiginlegt lengri myndunum er að samkvæmt tímarit.is virðist tíðni þeirra hafa verið mest kringum aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, en allar eru þær sárasjaldgæfar núorðið. Það virðist líka ljóst að lengri myndirnar eru yfirleitt eldri. Þannig er elsta dæmi um eiginlegleika á tímarit.is frá 1831 en það elsta um eiginleika frá 1851; elsta dæmi um hæfilegleika frá 1822 en um hæfileika frá 1877; elsta dæmi um mögulegleika frá 1850 en um möguleika frá 1874; um verulegleika frá 1844 en veruleika frá 1890; o.s.frv. Þetta bendir til þess að styttri myndirnar, þær sem venjulegar eru í nútímamáli, hafi orðið til við styttingu myndanna með -leg- frekar en að um sjálfstæða og óháða orðmyndun sé að ræða.
Í lengri myndunum koma viðskeytin -leg- og -leik- hvort á eftir öðru, en um ýmsar slíkar viðskeytaraðir hefur Þorsteinn G. Indriðason skrifað í Orð og tungu 2021. Viðskeytið -leg- er skylt lýsingarorðinu líkur og merking þess er oft eitthvað í þá átt, 'líkur', 'sem lítur út fyrir að vera', 'sem minnir á' o.þ.h. – kjánalegur er 'líkur kjána' eða 'sem lítur út fyrir að vera kjáni', góðlegur er 'sem lítur út fyrir að vera góður'; en merkingin er oft mjög óljós. „Viðliðurinn -leikur, -leiki“ er skyldur nafnorðinu leikur og einkum notaður til að mynda nafnorð af lýsingarorðum – „hefur í öndverðu vísast verið hafður með þeim forliðum sem eiginleg merking hans hæfði, síðar hefur hann orðið algengari og merkingin óljósari“ segir í Íslenskri orðsifjabók.
Ekki verður betur séð en styttri myndirnar hafi yfirleitt alveg sömu merkingu og þær lengri þrátt fyrir að heilt viðskeyti sé fallið brott úr þeim. Úr því að -leg- má þannig missa sig mætti ætla að það væri þarna merkingarlaust. Þegar orðin sem nefnd eru hér að framan eru skoðuð kemur í ljós að merking -leg- í grunnorðunum – áreiðanlegur, eiginlegur, hæfilegur, innilegur, maklegur, mögulegur, verulegur – er ekki mjög ljós. Hvert orð fyrir sig hefur ákveðna merkingu sem heild, en það er ekki hægt að segja að fyrri hlutinn hafi einhverja afmarkaða merkingu – hvað er t.d. inni- í innilegur eða mögu- í mögulegur? Í þessum orðum hefur -leg- því ekki ákveðna afmarkaða merkingu heldur hlutverk – það hlutverk að mynda lýsingarorð.
Með viðskeytinu -leiki/-leikur má mynda nafnorð af lýsingarorðum eins og áður segir, og það hefur verið gert við mörg lýsingarorð sem mynduð eru með viðskeytinu -leg- eins og dæmin hér að framan sýna. En þá eru orðin auðvitað ekki lengur lýsingarorð og viðskeytinu -leg- sem hafði enga afmarkaða merkingu heldur fyrst og fremst það hlutverk að búa til lýsingarorð er þá í raun ofaukið. Þess vegna er ekkert undarlegt að með tímanum falli það brott og orðin styttist. En þótt flest gömul orð af þessu tagi hafi styst er líklega enn verið að búa til ný orð með -legleik-sem eiga þá eftir að styttast. Í Risamálheildinni má finna slík dæmi af samfélagsmiðlum sem virðast vera nýleg, svo sem asnalegleiki, leiðinlegleiki, sorglegleiki og fleiri.

+354-861-6417
eirikurr