Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í gær stóð: „Vill að ríkið setji markmiðin og hætti að þjónka við lykilgreinar.“ Þarna er notuð sögnin þjónka sem vissulega er til í málinu en var þó til skamms tíma sjaldgæf, a.m.k. ekki nógu algeng til að komast í Íslenska nútímamálsorðabók. Hana er þó að finna í Íslenskri orðabók og tvær merkingar hennar gefnar, önnur þeirra 'þjóna'. Eitt dæmi er um sögnina í fornum textum og þar hefur hún merkinguna 'þjóna', en oft virðist þjónka þó vera neikvæðari og fela í sér meiri undirlægjuhátt en þjóna. Það rímar við skýringuna 'þrælsleg hlýðni' sem Íslensk nútímamálsorðabók hefur á nafnorðinu þjónkun sem væntanlega er leitt af sögninni en er margfalt algengara og fjöldi dæma er um í fornu máli.
En auk merkingarinnar 'þjóna' er merkingin 'undiroka' gefin í Íslenskri orðabók og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er eingöngu sú merking gefin – þjónka er þá 'gera að þjón'‘ eins og þrælka er 'gera að þræl'. Merkingarnar 'þjóna' og 'undiroka' virðast vera andstæðar og því er nokkuð sérkennilegt að sama sögnin skuli hafa þær báðar. Í merkingunni 'undiroka' tekur sögnin með sér andlag í þolfalli. Í Tímanum 1959 segir: „að ástæða sé til að vera á varðbergi gegn eiturlyfjaneyzlu í þjóðfélagi, þar sem [...] hömluleysi heilans þjónkar mannskepnuna.“ Í Stúdentablaði jafnaðarmanna 1964 segir: „hugsunina notar maðurinn til þess að þjónka náttúruöflin.“ Þessi merking virðist alltaf hafa verið mjög sjaldgæf og er horfin úr sögninni.
Sögnin þjónka er nefnd í riti Alexanders Jóhannessonar, Die Suffixe im Isländischen, frá 1927, en engin dæmi eru um hana í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og elsta dæmi sem ég finn um hana á tímarit.is er í Heimdalli 1930: „Kardínáli frá Rómaborg studdi þennan nýja málstað, að Íslendingar færu að eins og aðrar þjóðir og þjónkuðu undir einhvern konung.“ Þarna er merkingin sú sama og í þjóna en sambandið þjóna undir er skýrt 'vera í þjónustu einhvers' í Íslenskri orðabók – þarna ætti 'heyra undir' þó betur við. Í leikdómi í Árbliki 1938 segir: „Guðjón þjónkar og flestum hlutverkum vel.“ Í þessum dæmum er merkingin frekar hlutlaus, en í flestum dæmum er merkingin þó neikvæðari, eins og í fréttinni sem vísað var til í upphafi.
Í Alþýðublaðinu 1944 segir: „að ríkisstjórnin muni telja sér frekar skylt að þjónka undir atvinnurekendavaldið.“ Í Stéttabaráttunni 1974 segir: „Thieu klíkan hefur þverbrotið hvert ákvæði samkomulagsins [...] til að þjónka bandarísku heimsvaldastefnunni.“ Í Austurlandi 1982 segir: „Að þjónka undir útlendinga virðist eitt aðalmarkmið þessa hóps.“ Í DV 1988 segir: „Til hvers er eiginlega verið að hafa strætisvagnaferðir svona lengi fram eftir, nema til að þjónka við þá unglinga sem eru að þvælast í miðborginni.“ Í DV 2002 segir: „Það er með eindæmum, hvernig stjórnvöld [...] þjónka við sjómenn.“ Þessi dæmi sýna að sögnin er notuð á fjölbreyttan hátt setningafræðilega – tekur með sér forsetningu, ýmist undir eða við, eða andlag í þágufalli.
Merking sagnarinnar virðist því hafa breyst á tuttugustu öld, úr því að vera sú sama og í þjóna yfir í 'sýna þrælslund' eða eitthvað slíkt. Sama breyting virðist hafa orðið á nafnorðinu þjónkun – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'þjónusta, þjónustuveiting', í Íslenskri orðabók er skýringin annars vegar ‚þjónusta, það að veita þjónustu‘, og hins vegar 'þrælsleg hlýðni', sem er eina skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók eins og fyrr segir. Stundum er sögnin notuð í miðmynd, í sömu merkingu og germyndin að því er virðist. Í Baldri 1947 segir: „þeim var meira í mun að þjónkast kröfum Bandaríkjamanna en þörfum íslenzkrar alþýðu.“ Í Tímariti Máls og menningar 1958 segir: „forystumenn flestir vildu þjónkast herveldinu.“
Sögnin þjónka var lengi sjaldgæf eins og áður segir en virðist hafa sótt mjög í sig veðrið að undanförnu – verulegur hluti þeirra rúmu hundrað dæma sem eru um hana á tímarit.is er frá þessari öld. Í Risamálheildinni eru um 180 dæmi um hana, flest frá þessari öld – þar af þriðjungur úr Alþingisræðum þar sem „klögumálin gengu á víxl“. Í flestum tilvikum virðist hún vísa til undirlægjuháttar en stundum er merkingin þó sú sama og í þjóna, eins og í „Ég var að reyna að finna mig aftur en gymmið þjónkaði ekki alveg minni lund“ í Fréttablaðinu 2018. Í þessum dæmum tekur sögnin oftast þágufallsandlag en sambandið þjónka við sem vísað var til í upphafi kemur einnig fyrir í hátt í þrjátíu af þessum dæmum – og er auðvitað gott og gilt.

+354-861-6417
eirikurr