Posted on

Að bíða eða bera ekki sitt barð eða bar eða barr

Í „Málvöndunarþættinum“ var tilfærð setningin „Síðar stigu tvær konur til viðbótar fram með ásakanir gegn leikaranum sem hefur ekki borið sitt barð síðan“ úr frétt í DV og spurt „Hvaða barð?“. Þetta er ekki óeðlileg spurning vegna þess að í venjulegri gerð orðasambandsins sem um er að ræða er notað orðið barr en ekki barð – sambandið bera ekki sitt barr er skýrt 'ná sér ekki aftur' í Íslenskri orðabók. Í fljótu bragði mætti því ætla að þarna hafi misskilningur eða misheyrn valdið því að notað sé rangt en hljóðlíkt orð, barð í stað barr – eða einfaldlega sé um prentvillu að ræða. En við nánari athugun kemur í ljós að málið er ekki endilega svo einfalt –umrætt orðasamband á sér forvitnilega sögu og er til í ýmsum myndum allt frá sautjándu öld.

Í kvæðum eftir séra Jón Magnússon frá miðri sautjándu öld segir: „þaðan af aldrei beið sitt barð“ og „Svo á holdinu aldrei barð sitt beið“. Í kvæði frá seinni hluta átjándu aldar segir: „Aldrei meir sitt biðu barð.“ Í kvæði eftir Benedikt Jónsson Gröndal frá því um 1800 segir: „En hvört minn fífill bíður barð.“ Í Safni af íslenzkum orðskviðum eftir Guðmund Jónsson frá 1830 segir: „Ég bíð aldrei mitt bar.“ Í Fróða 1882 segir: „að hann máske bíður aldrei sitt barð.“ Í Lögbergi 1906 segir: „og hefir aldrei beðið sitt barð síðan.“ Í Íslenskum þjóðsögum og sögnum Sigfúsar Sigfússonar frá því í byrjun tuttugustu aldar segir: „og beið Eiríkur eigi sitt barð síðan.“ Ekki verður betur séð en merkingin í þessum dæmum sé svipuð og í bera ekki sitt barr.

Undir lok nítjándu aldar hverfa dæmi um bíða sitt barð að mestu en sögnin bera kemur í stað bíða. Í Fjallkonunni 1893 segir: „Ekkjan ber aldrei barð sitt rétt upp frá því.“ Í Landskjálftum á Íslandi eftir Þorvald Thoroddsen frá því um 1900 segir: „fjölda margir munu aldrei bera sitt barð eða verða jafngóðir.“ Í Fjallkonunni 1900 segir: „síðan hefir Spánn aldrei borið sitt barð.“ Í Heimskringlu 1922 segir: „Og beri Alþjóðafélagið barð sitt eftir þetta.“ Í Heimskringlu 1943 segir: „Bar Rosseau-nýlendan ekki barð sitt eftir þetta.“ Í Heimskringlu 1946 segir: „Þó jafnvel þjóðirnar [...] reisi þeim nú í þakkarskyni níðstöng, munu Bandaríkin barð sitt bera.“ Dæmin þrjú frá tuttugustu öld eru öll úr vesturíslensku sem sýnir að þetta hefur varðveist lengur þar.

Nútíðarmynd sambandsins, bera ekki sitt barr, kemur fyrst fyrir í orðabók Björns Halldórssonar, Lexico Islandico-Latino-Danicum, frá síðari hluta átjándu aldar að því er Jón G. Friðjónsson segir í Merg málsins. En þar er reyndar notuð myndin bar – „Hann ber ekki sitt bar úr þessu“. Sama máli gegnir um öll nítjándu aldar dæmi á tímarit.is, það elsta í Skírni 1861: „bar ekki sitt bar hin næstu 100 ár.“ Myndin barr kemur ekki fyrir í þessu sambandi fyrr en í Heimskringlu 1909: „En eftir það kvaðst hann aldrei hafa borið sitt barr.“ Allmörg dæmi eru þó um myndina barr í öðru samhengi á tímarit.is frá síðustu áratugum nítjándu aldar, en fyrst hún kemur ekki fyrir í umræddu sambandi má spyrja hvort barr og bar sé endilega sama orðið.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er bar sérstakt flettiorð sem er skýrt 'fræ fífunnar' og 'frjóangi' en einnig sem 'barr' – þessar skýringar er einnig að finna í Íslenskri orðabók. Það er sem sé vel hugsanlegt að merking orðsins bar í bera ekki sitt bar sé ekki 'barr'. Í Merg málsins segir Jón G. Friðjónsson: „Líkingin er dregin af barrtré sem fellir nálarnar.“ Mér finnst þetta ekki endilega líkleg skýring í ljósi þess að þegar sambandið kom fram voru engin barrtré á Íslandi. Auðvitað gæti þetta verið komið úr dönsku eða myndað út frá dönskum aðstæðum, en önnur skýring liggur þó beinna við – að bar merki þarna 'frjóangi' eða 'brumhnappur' – sem raunar er ein skýring myndarinnar barr í Íslenskri orðabók, með dæminu bera ekki sitt barr.

Hér eru komnar fjórar myndir sambandsins: bíða sitt barð, bera sitt barð, bera sitt bar, bera sitt barr – og sú fimmta, bíða sitt barr, kemur fyrir í kvæði eftir Stephan G. Stephansson: „Er hitnaði skap hans þá beið hann sitt barr.“ Reyndar eru samböndin langoftast höfð með neitun – bíða/bera ekki sitt barð/bar/barr. Spurningin er hvernig hægt sé að koma þessu heim og saman. Byrjum á sögninni sem er upphaflega bíða en verður síðar bera. Þegar sögnin bíða tekur þolfallsandlag merkir hún yfirleitt 'hljóta, fá, öðlast'. Það má því hugsa sér að bíða ekki sitt bar(r) merki 'bruma ekki', 'fá ekki frjóanga' eða eitthvað slíkt, og bera ekki sitt bar(r) hefur þá sömu merkingu – 'bera ekki brum', 'bera ekki frjóanga' eða eitthvað í þá átt.

Þá er eftir að skýra barð. Það orð getur haft ýmsar merkingar en engin þeirra sem er gefin upp í orðabókum virðist eiga við þarna. Eina skýringin sem mér kemur í hug er sú að barð hafi getað merkt það sama og bar(r). Kvæði Benedikts Jónssonar Gröndal sem áður var vitnað til og heitir „Heilsan“ finnst mér geta bent til þess: „Á haustin allir fíflar fölna / en furðuverk ei lítið er: / Þeir hljóta fyrst að sortna og sölna, / svo endurlifni þeirra fjer [þ.e. fjör];  / en hvört minn fífill bíður barð / blinduð skynsemi tvíla varð.“ Þarna virðist barð merkja bókstaflega 'fræ' eða 'frjókorn'. En hvað sem um þetta er, og hvernig sem tengslum mismunandi mynda orðasambandsins er háttað, virðist orðalag áðurnefndrar fréttar DV eiga fullan rétt á sér.

Posted on

Að bregða einhverjum í þátíð

Eitt sinn var spurt á Vísindavefnum „Hvernig bregður maður einhverjum í þátíð?“ og með fylgdi skýringin: „Orðin að bregða einhverjum eru sjaldan notuð í þátíð. Hvað segir maður þegar maður er nýbúinn að bregða einhverjum? Ég bregðaði þér?“ Í svari Guðrúnar Kvaran segir: „Ein ástæða þess að þátíð er sjaldan notuð í annarri persónu eintölu er að sambandið þú brást mér merkir yfirleitt 'þú hefur svikið mig' og sambandið þú brást mér það er 'lést mér bregða' gæti valdið misskilningi.“ Þetta er í sjálfu sér rétt en hins vegar var ekki spurt um aðra persónu eintölu heldur fyrstu persónu sem ætti að vera ég brá þér. Það gæti vissulega misskilist líka – merkingin er augljóslega önnur í „Ég brá þér á sniðglímu og þú lást“ í Fálkanum 1965.

Það virðist þó vera rétt að í þeirri merkingu sem hér um ræðir er sögnin sjaldan notuð í þátíð – en hið sama gildir reyndar um nútíðina. Í nær öllum dæmum sem ég hef fundið um sögnina í hinni nýju setningagerð með nefnifallsfrumlagi og þágufallsandlagi stendur hún nefnilega í nafnhætti en ekki í persónuhætti. Þetta sést á notkunardæminu í Íslenskri nútímamálsorðabókhættu að bregða henni sífellt – og í dæmum í fyrri pistli mínum um bregða. Örfá dæmi um persónuhátt má þó finna á samfélagsmiðlum, t.d. „Ég tek aldrei eftir því að hann sé sofandi fyrr en kennarinn bregður honum“ á Hugi.is 2009, „Hún brá honum illilega“ á Twitter 2014, og „Ef hún fer í fýlu þá bregður henni“ á Twitter 2016. En þetta eru algerar undantekningar.

Þótt sögnin bregða sé að þróa með sér nýja setningagerð og þar með bæta við sig merkingu virðist hún því ekki komin alla leið í þessu ferli – málnotendur geta notað hana á nýjan hátt í nafnhætti en af einhverjum ástæðum mun síður í persónuháttum. Vissulega gæti slík notkun valdið misskilningi vegna samfalls eins og áður er nefnt, en það er þó ekki nægileg skýring á þessum mun. Í fyrsta lagi er líka samfall í nafnhætti sem ætti þá eins að geta valdið misskilningi – ég reyndi að bregða þér getur merkt bæði 'ég reyndi að láta þér bregða' og 'ég reyndi að fella þig'. Í öðru lagi eru ótal dæmi í málinu um samfall beygingarmynda sem virðist ekki valda neinum vandræðum. Hugsanlega eru þarna bara eðlileg stig í þeirri þróun sem um er að ræða.

Um þátíðina bregðaði sem nefnd var í spurningunni á Vísindavefnum eru ýmsar munnlegar heimildir en mjög litlar skriflegar. Henni mun lengi hafa brugðið fyrir en líklega þó einkum í máli barna, bæði í merkingunni 'gera hverft við' og '(reyna að) fella' og e.t.v. fleiri merkingum sagnarinnar. Það er þó hugsanlegt að hún sé í seinni tíð fremur notuð í merkingunni 'gera hverft við' til að forðast samfall við merkinguna '(reyna að) fella' þannig að ég brá þér merki 'ég reyndi að fella þig' en ég bregðaði þér merki  'ég gerði þér hverft við'. Þetta er þó aðeins tilgáta en flest þeirra fáu ritmálsdæma sem ég hef um bregðaði virðast fremur hafa merkinguna 'gera hverft við' þótt stundum skorti samhengi til að skera úr um merkinguna með vissu.

Í Risamálheildinni eru aðeins tíu dæmi um myndina bregðaði en í þeim flestum er réttmæti hennar reyndar dregið í efa. Á Hugi.is 2007 segir: „ég fór þarna bakvið gaurinn og bregðaði? honum“ og í athugasemd segir: „bregðaði -> brá (sama hversu skringilega það kann að hljóma).“ Á Bland.is 2007 segir: „Hann bregðaði mér er eitt ljótasta orðskrípi sem ég hef heyrt.“ Á Bland.is 2011 segir: „þetta gæti vel verið vitlaust orðað hjá mér en bregðaði er allavega ekki til.“ Einnig eru fimm dæmi um lýsingarháttinn bregðað – á Bland.is 2015 segir: „Hann virðist hafa kitlað og gripið um upphandlegg hennar í framhaldi af því að hafa bregðað henni.“ Það er þó ekki að sjá að þessar myndir séu í verulegri notkun í máli fullorðinna – enn sem komið er.

Posted on

Þér brá – ég brá þér

Sterka sögnin bregða er með algengari sögnum málsins og hefur ýmsar merkingar eins og títt er um slíkar sagnir. Ein þeirra er 'verða hverft við, verða bilt við, kippast til' og í þeirri merkingu tekur sögnin þágufallsfrumlag sem vísar til þeirra sem bregður, eins og „Mér brá og stóð alveg stjarfur“ í Skessuhorni 2020. Í þessari merkingu kemur sögnin fyrir í fornu máli í samböndum eins og bregða í brún og bregða við. Í Laxdæla sögu segir: „Þá brá Guðrúnu mjög í brún um atburð þenna.“ Í Brennu-Njáls sögu segir: „Þeir Grímur og Helgi komu heim áður borð voru ofan tekin og brá mönnum mjög við það.“ Einnig kemur þessi merking fyrir í lýsingarhættinum brugðið – í Bárðar sögu Snæfellsáss segir: „Ekki sáu þeir presti brugðið um nokkuð.“

En á seinustu árum er sögnin í þessari merkingu farin að sjást í nýrri setningagerð þar sem hún hefur geranda og fær þar með merkinguna 'gera (e-m) bilt við, hverft við'. Í stað þess að hafa þágufallsfrumlag hefur hún þá nefnifallsfrumlag og þágufallsandlag, í setningum eins og „Ég fór á bak við hurð og ætlaði að bregða honum í góðu gríni“ í Fréttablaðinu 2013. Frumlagið vísar þá til þeirra sem gera einhverjum bilt við en þágufallsliðurinn hefur sama hlutverk og í hinni setningagerðinni þótt hér sé hann ekki frumlag heldur andlag. Þessi notkun sagnarinnar virðist vera nýleg – hún er hvorki nefnd í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 né síðustu útgáfu Íslenskrar orðabókar en er hins vegar gefin í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran að það sé „einkum í máli barna“ sem notkun bregða með nefnifallsfrumlagi og þágufallsandlagi komi fyrir. Svarið er frá 2002 og þetta bendir til þess að þessi notkun hafi verið nýjung á þessum tíma og aldur dæma á tímarit.is bendir til hins sama. Elsta örugga dæmið sem ég hef fundið um þessa notkun er í Fjarðarpóstinum 1991: „Bregða honum, því þá hrekkur hann í kút.“ Í Tímanum 1993 segir: „áhorfandinn [...] sér lítið annað en andlit söguhetjunnar og veit þá að nú á að bregða honum.“ Í DV 2006 segir: „Vargas ætlað að hjálpa rúmlega tvítugum frænda sínum [...] að losna við hiksta með því að bregða honum hressilega.“ Í DV 2010 segir: „Ég ætla ekkert að drepa hann – bara bregða honum smá.“

Í grein Guðrúnar segir enn fremur: „Sambandið að bregða einhverjum er vel þekkt, meðal annars í glímu, um að gera tilraun til að fella einhvern. Sambandið að láta einhverjum bregða merkir að 'láta einhvern hrökkva við', til dæmis ,,lét ég þér bregða?“ Þessum samböndum slær oft saman, einkum í máli barna, þannig að sagt er t.d. ,,ég ætlaði ekki að bregða þér,“ það er 'láta þig hrökkva við' eða ,,brá ég þér?“ 'lét ég þig hrökkva við'.“ Þótt aðrar merkingar sagnarinnar geti vissulega hafa haft áhrif þarna er engin nauðsyn að líta svo á að þarna sé samböndum að slá saman. Eðlilegast er að segja að sögnin bregða í tiltekinni merkingu sé að þróa með sér nýja setningagerð með bæði frumlagi og andlagi í stað eintóms frumlags.

Þarna er sem sé að verða til parið þér brá ég brá þér. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að sögn sem hefur verið notuð án geranda komi sér upp geranda ef hægt er að hugsa sér einhvern slíkan, eins og auðvelt er í þessu tilviki. Allnokkur dæmi eru í málinu um sagnir sem ýmist eru notaðar með þágufallsfrumlagi án geranda eða nefnifallsfrumlagi sem táknar geranda og þágufallsandlagi, t.d. fénu fjölgaði hann fjölgaði fénu. Sögnin bregða virðist vera að ganga inn í það mynstur. Einnig eru til sambærileg víxl þar sem nefnifallsfrumlag sem ekki táknar geranda verður að þolfallsandlagi þegar gerandi bætist við, t.d. garðurinn stækkaði hún stækkaði garðinn. Sögnin streyma hefur nýlega bæst í það mynstur eins og ég hef skrifað um.

Posted on

Af gefnu tilefni – að því tilefni

Ég var spurður í morgun hvort ekki væri „alveg í lagi að segja af gefnu tilefni“. Ég sagði að það hefði yfirleitt verið kennt að það væri rangt, og í Málfarsbankanum segði: „Athuga þó að sagt er að gefnu tilefni.“ Aftur á móti er sagt af engu tilefni, af þessu tilefni o.s.frv. Ástæðan fyrir því að ekki er notuð sama forsetning í af engu tilefni og gefnu tilefni er sú að setningagerðin er önnur. Í fyrra dæminu stendur óákveðna fornafnið engu sem einkunn með tilefni en í því seinna stendur lýsingarhátturinn gefnu sem viðurlag og gæti líka staðið á eftir nafnorðinu – að tilefninu gefnu eða að þessu tilefni gefnu. Merkingin er þá 'eftir að tilefni hefur verið gefið'. Aftur á móti er útilokað að breyta orðaröð í hinu dæminu og segja *af tilefni(nu) engu.

Forsetningin hefur því sams konar tímatilvísun í að gefnu tilefni og hún hefur í ýmsum samböndum eins og að loknu verki, að liðnum degi, að honum látnum o.s.frv.. En sú tilvísun er væntanlega ekki sérlega ljós í huga málnotenda í sambandinu að gefnu tilefni, enda er tímavísunin ekki eins ríkur þáttur í gefa og í ljúka, líða og látast. Við það bætast áhrif frá öðrum samböndum með tilefni þar sem forsetningin af er notuð, eins og af þessu tilefni og af engu tilefni. Þess vegna „verður að læra sérstaklega hvort orðið er notað“ segir Árni Böðvarsson í Íslensku málfari og leggur áherslu á að rétt sé „að segja [...] að gefnu tilefni, [...] en [...] „af gefnu tilefni“ er rangt.“ Sama gerir Jón G. Friðjónsson í „Íslensku máli“ í Morgunblaðinu 2003.

En það er sannarlega engin nýjung að segja af gefnu tilefni. Alls eru hátt í 3.400 dæmi um það samband á tímarit.is, það elsta í Norðanfara 1882: „Af gefnu tilefni frá minni hálfu.“ Dæmin um gefnu tilefni eru vissulega sex sinnum fleiri, eða um 20.400, en það elsta er úr Skuld 1877 og því litlu eldra en elsta dæmið með af: „Að gefnu tilefni skulum vér geta þess.“ Í Risamálheildinni er munurinn öllu minni – þar eru dæmin með rúmlega fjórum sinnum fleiri en dæmin með af. Eins og við er að búast fara áhrifin líka í hina áttina, þannig að komi í stað af. Á tímarit.is eru samtals hátt í 2.500 dæmi um því tilefni og þessu tilefni í stað af því tilefni og af þessu tilefni, og í Risamálheildinni eru hátt í 2.200 dæmi um sömu sambönd.

Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru dæmin um af gefnu tilefni meira en helmingur á við dæmin um – 962 á móti 1716. Það er því ljóst að í óformlegu máli almennra málnotenda er sambandið af gefnu tilefni mjög algengt. Í pistli frá 2018 í Málfarsbankanum segir Jón G. Friðjónsson: „verð ég að viðurkenna að ég sé engan merkingarmun á orðasamböndunum að gefnu tilefni og af gefnu tilefni; ég hef ekki séð nein dæmi er sýni þennan mun.“ Það er þá tæpast við því að búast að almennir málnotendur sjái nokkurn mun sem leiðbeini þeim um hvora forsetninguna „eigi“ að nota og það verður þá bara utanbókarlærdómur sem veldur ruglingi. Auðvitað er löngu komin hefð á af gefnu tilefni og algerlega fráleitt að telja það rangt.

Posted on

Blind(ó)færð

Í fyrirsögn á mbl.is í dag segir „Þurftu frá að hverfa vegna blindfærðar“ og orðið blindfærð er einnig notað í texta fréttarinnar. Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var bent á þetta og sagt: „Ég vandist því að talað var um blindbyl annars vegar og ófærð hins vegar.“ Orðið blindfærð er ekki að finna í neinum orðabókum en þetta er samt ekki fyrsta dæmið um það. Á Facebook-síðu mbl.is 2015 segir: „hætta er á blindfærð á fjallvegum með kvöldinu“ og á mbl.is 2024 segir: „Spáð er 14 til 18 metrum á sekúndu, blindfærð og skafrenningi.“ Nú hefur blindfærð reyndar verið breytt í blindófærð sem er gefið í Íslensku orðaneti og eitt dæmi finnst um, í Vikuútgáfu Alþýðublaðsins 1932: „heimilisfeðurnir reknir af heimilum sínum í blindófærð um hávetur.“

Þótt blind(ó)færð hljómi ókunnuglega er löng hefð fyrir því að nota hvorugkyn lýsingarorðanna blindaður og blindur um lélegt skyggni, oftast vegna snjókomu – einkum þegar fólk er á ferð. Í Degi 1957 segir: „Gerði þá myrkt af hríð og mjög blindað.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Mikið hafði snjóað í logni um nóttina og því mjög blindað.“ Í Vísi 1961 segir: „Dimmt var í lofti, snjór yfir öllu og mjög blint.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Loka varð Reykjanesbraut um tíma en mjög blint var á brautinni.“ Einnig má finna dæmi um að lýsingarorðið blindur sé notað með nafnorðinu færð – í Fréttablaðinu 2007 segir: „því gæti orðið nokkuð blind færð.“ Þarna er auðvitað stutt yfir í samsetninguna blindfærð sem er ágætlega gagnsæ.

Nokkrar samsetningar sem enda á -færð eru til – langalgengust auðvitað ófærð en einnig t.d. vetrarfærð, vonskufærð, kafalds(ó)færð, þæfings(ó)færð. Tvö þau síðarnefndu koma fyrir bæði með -færð og -ófærð sem seinni lið. Ég sé ekki að blindfærð – eða blindófærð, hvort sem heldur væri – sé neitt verri eða óeðlilegri samsetning. Einhverjum gæti fundist þetta orð óþarft vegna þess að það merki sama og ófærð en ég er ósammála – merkingin í blindfærð er þrengri en í ófærð vegna þess að fram kemur að ástæða ófærðarinnar er vont skyggni. Ef ástæðan er snjór á vegum frekar en vont skyggni er hins vegar hægt að tala um kafalds(ó)færð eða þæfings(ó)færð. Mér finnst blindfærð gott og gagnlegt orð – og alveg ástæðulaust að breyta því í blindófærð.

Posted on

Aflifendur

Í gær var spurt í „Málspjalli“ um „gott, kraftmikið og valdeflandi orð“ sem mætti nota sem þýðingu á enska orðinu survivor. Skýring þess orðs í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi er í þrennu lagi: '1. eftirlifandi, maður sem lifir (e-n) . 2. e-r sem kemst lifs af. 3. e-ð sem enn er til eða heldur velli.' Í umræðum í „Málspjalli“ var stungið upp á orðum eins og sigurvegari og lifandi og nýyrðum eins og yfirstígandi, þraukari og tóri, auk þess sem ýmis nefndu lýsingarorð eins og lífseigur, þrautseigur og bjargfær eða orðasambönd eins og lifa af og bentu á að ekki væri alltaf nauðsynlegt að nota nafnorð í íslensku þótt það sé gert í ensku. Það er alveg rétt, en í þessu tilviki væri samt gott að hafa eitthvert nafnorð tiltækt.

Einn möguleiki væri að nota nafnorðið aflifandi – í fleirtölu aflifendur. Það orð hefur reyndar áður skotið upp kollinum, í umræðu um sams konar fyrirspurn í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ fyrir rúmu ári. Þar sagði Arnþrúður Heimisdóttir: „Orðið væri trúlega „aflifandi“, ef það nýyrði væri til.“ En það er ekkert því til fyrirstöðu að taka þetta orð upp og nota það í þessari merkingu. Það má hugsa sér að það sé leitt af lýsingarhætti nútíðar af sögninni aflifa sem er til í málinu og gefin í Íslenskri orðabók í merkingunni 'lifa af, lifa e-n' með dæmunum aflifa harðan vetur og aflifa ættmenn sína. Hér væri það fyrri merkingin og dæmið sem ætti við – í Víkverja 1874 segir t.d.: „Nú erum vér hér og víðar á landinu búnir að aflifa harðan vetr.“

Orðið aflifandi er hliðstætt við eftirlifandi sem vissulega er oftast notað sem lýsingarorð í merkingunni 'sem lifir eftir andlát tiltekins manns' (hún er eftirlifandi eiginkona hans)  en getur einnig verið nafnorð í merkingunni 'sá sem eftir lifir (eftir að aðrir deyja)' og er þá einkum notað í fleirtölu (eftirlifendur styrjaldarinnar, sjálfsvíg eru erfiðust fyrir eftirlifendur). En í stað þess að hugsa sér að nafnorðin aflifandi og eftirlifandi séu upphaflega lýsingarháttur nútíðar af sjaldgæfu sögnunum aflifa og eftirlifa má líta svo á að þarna sé um að ræða lýsingarhátt nútíðar af sögninni lifa, lifandi, og forsetningunum af og eftir sé bætt þar fyrir framan. Hvort tveggja er í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur. Mér finnst aflifandi alveg koma til greina.

En auðvitað er þetta ekki fullkomið orð fremur en flest önnur nýyrði og einhverjum kann að finnast að það nái ekki merkingunni í survivor eða sé villandi. Enska orðið merkir oft eða jafnvel oftast ekki beinlínis 'lifa af' heldur 'komast af, komast í gegnum' eða eitthvað slíkt (t.d. er talað um sexual assault survivor) og í umræðum var reyndar bent á að afkomandi væri kannski besta orðið – ef það væri ekki frátekið fyrir aðra merkingu. Í umræðum var líka nefnt að orðið væri óþægilega svipað aflífandi af sögninni aflífa. Þegar orð eru ókunnugleg reynum við alltaf að lesa einhverja merkingu út úr þeim og lendum þá stundum á villigötum. En ef málsamfélagið gefur nýjum orðum ákveðna merkingu venjumst við henni yfirleitt fljótlega.

Posted on

Vegna hvers annars

Fyrirsögnin „Leigubílstjórar kölluðu til lögreglu vegna hvors annars“ vakti athygli mína á mbl.is í dag, og einnig orðalagið „Tveir leigubílstjórar óskuðu eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna hvers annars“ í texta fréttarinnar. Þarna er í tveimur atriðum vikið frá málstaðli – því sem venjulega er talið „rétt mál“. Annað atriðið varðar notkun fornafnanna hvor og hver. Í Málfarsbankanum segir: „Óákveðna fornafnið hvor á við þegar rætt er um annan af tveimur“ og „Fornafnið hver á við þegar rætt er um einn af þremur eða fleirum.“ Þarna er innbyrðis ósamræmi í fréttinni – fornafnið hvor er réttilega notað í fyrirsögninni miðað við þetta, en í texta fréttarinnar er fornafnið hver notað þrátt fyrir að bílstjórarnir séu aðeins tveir.

Hitt atriðið þar sem vikið er frá málstaðli er fallið á hvor/hver og staða forsetningarinnar í samböndunum. Í Málfarsbankanum segir: „Orðin hvor og annar eiga ekki að beygjast saman. Orðið hvor á að standa í sama falli og gerandinn (venjulega í nefnifalli) en annar stendur nær aldrei í nefnifalli.“ Síðan eru tekin nokkur dæmi um þetta, m.a.Þeir óku hvor til annars (ekki: „til hvors annars“)“ – forsetningin á sem sé að standa næst á undan orðinu sem hún stjórnar. Þetta dæmi er sambærilegt við dæmin í fréttinni nema þar er notuð forsetningin vegna en ekki til, en báðar stjórna eignarfalli. Í fyrirsögninni og fréttinni hefði því þurft að standa hvor vegna annars en ekki vegna hvors/hvers annars til að orðalagið samræmdist því sem talið er „rétt“.

Þegar málfar sem víkur frá málstaðli sleppur í gegnum nálaraugað á vefmiðlum er algengt, a.m.k. á mbl.is, að því sé fljótlega breytt og fært í viðurkennt horf – væntanlega ýmist vegna þess að starfsfólk miðilsins sjálfs veitir því athygli að þetta er ekki í samræmi við staðalinn, eða vegna utanaðkomandi ábendinga. En þetta orðalag hefur staðið óhaggað bæði í fyrirsögninni og texta fréttarinnar síðan upp úr klukkan hálf átta í morgun, eða í hátt í tólf tíma þegar þetta er skrifað. Það hlýtur að benda til þess að engin taki eftir orðalagi af þessu tagi, eða það trufli lesendur ekki neitt. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart – ég er nokkuð viss um að „ranga“ orðalagið er í góðu samræmi við málkennd meginþorra málnotenda en það „rétta“ alls ekki.

Þetta staðfestist í raun fyrir nokkrum árum í viðamikilli rannsókn sem við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor stóðum fyrir, eins og ég hef áður skrifað um. Þar var fólk á öllum aldri beðið að leggja mat á ýmsar setningar, þar á meðal þeim líkar vel hvorum við annan sem er sambærilegt við hvor vegna annars og þeim líkar vel við hvorn annan sem er sambærilegt við vegna hvors annars. Verulegur hluti fólks í öllum aldurshópum taldi að fyrri setningin, sú „rétta“, væri annaðhvort „mjög óeðli­leg“ eða „frekar óeðlileg“. Aftur á móti taldi yfirgnæfandi meirihluti fólks í öllum ald­urs­hópum að seinni setningin, sú „ranga“, væri annað­hvort „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“, en mjög fáum fannst hún „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðli­leg“.

„Ranga“ notkun sambandsins hvor annar má rekja alveg aftur á sextándu öld og í rannsókn sem Dagbjört Guðmundsdóttir gerði á notkun sambandanna fyrir tíu árum fann hún á áttunda þúsund dæma frá tuttugustu öld um „ranga“ notkun þess á tímarit.is. Í ljósi þess sem að framan segir má spyrja hvaða tilgangi það þjóni, og hvaða vit sé í því, að halda áfram að kenna málnotkun sem er greinilega í andstöðu við málkennd venjulegra málnotenda sem hina einu réttu, en telja almenna málnotkun „ranga“. Mín skoðun er sú að það geri ekki annað en rugla málnotendur í ríminu og eina vitið sé að taka hina „röngu“ notkun í sátt, við hlið hinnar „réttu“. Það er ekkert að því að málnotendur eigi val – íslenskan þolir það alveg.

Posted on

Leiðrétting á fullyrðingum um leiðréttingar

Ég veit ekki hversu oft ég hef séð því haldið fram – síðast í a.m.k. tveimur athugasemdum í „Málspjalli“ í gær – að ég telji að ekki megi leiðrétta málfar barna. Og ég veit ekki hversu oft ég hef andmælt þessu enda er það beinlínis rangt – ég hef aldrei haldið neinu slíku fram. Þvert á móti – ég hef oft sagt að það sé eðlilegt og sjálfsagt að foreldrar leiðrétti málfar barna sinna á máltökuskeiði og leiðbeini þeim um málfar. Það er bara hluti af almennu uppeldi. Hitt er annað mál að rannsóknir benda til þess að beinar leiðréttingar („Þú átt að segja mig langar en ekki mér langar“) skili oft litlu og áhrifaríkara sé að endurtaka það sem börnin segja með breyttu orðalagi. Langsamlega áhrifaríkast er samt að hafa gott mál fyrir þeim – tala við þau og lesa fyrir þau.

Börn eru oft mjög afdráttarlaus í tvíhyggju, í því að eitt sé rétt en annað rangt – ekki í tungumálinu sérstaklega heldur í fjölmörgu í umhverfi sínu, svo sem siðum, venjum og skoðunum. En rétt eins og það er sjálfsagt að foreldrar ali börn sín upp við það sem þau telja gott og vandað mál er líka sjálfsagt að ala börnin upp við víðsýni, tillitssemi og virðingu fyrir öðru fólki og skoðunum þess, siðum og venjum – þar á meðal í málfari. Þetta er ekkert flókið. Því er stundum haldið fram að það sé ómögulegt að kenna íslensku ef allt sé leyfilegt í máli. En í fyrsta lagi dettur engum í hug að segja að „allt“ sé leyfilegt, og í öðru lagi ráða börnin ágætlega við þetta, ef þau eru alin upp við að tilbrigði í máli séu eðlileg og við séum ekki öll eins.

En þótt leiðréttingar foreldra á málfari barna sinna séu eðlilegar gildir ekki það sama um allar málfarsleiðréttingar. Opinberar athugasemdir við málfar nafngreinds ókunnugs fullorðins fólks sem ekki hefur atvinnu af tungumálinu eiga ekki að þekkjast. Þarna eru nokkrar breytur og mér finnst athugasemdir þeim mun alvarlegri sem fleiri af þeim eiga við. Það er t.d. alvarlegra að gera athugasemdir við málnotkun almennra málnotenda en fjölmiðlafólks, það er alvarlegra að gera athugasemdir á opinberum vettvangi en í einkasamtali, það er alvarlegra að gera athugasemdir við málfar ókunnugra en málfar fólks sem maður þekkir, það er alvarlegra að gera athugasemdir við málfar nafngreinds fólks en ónafngreinds (t.d. í fjölmiðlum).

Auðvitað eru svo ýmsar aðstæður þar sem athugasemdir og leiðbeiningar – en ekki endilega leiðréttingar – eiga við. Það er t.d. sjálfsagt að kennarar bendi nemendum á hvað er „viðurkennt“ mál – en láti nemendurna síðan um það hvort þeir kjósa að breyta máli sínu til samræmis við það, í stað þess að leiðrétta þá. Það er auðvitað líka sjálfsagt að prófarkalesarar bendi á frávik frá „viðurkenndu“ máli en eðlileg viðbrögð fara eftir eðli textans. Ef um er að ræða texta í fjölmiðli, skrifaðan af starfsfólki miðilsins, er ekki óeðlilegt að prófarkalesari breyti honum í samræmi við reglur miðilsins. Ef um er að ræða bókmenntatexta er hins vegar eðlilegt að prófarkalesari láti nægja að benda á frávikið en láti höfund ráða hvort hann breytir textanum.

Posted on

Um málfarsgrín í áramótaskaupi

Einhver ykkar hafa skilið afsökunarbeiðni sem ég setti inn í „Málspjall“ í gærmorgun þannig að ég væri að biðjast afsökunar á upphaflegum pistli frá því á nýársdag um málfarsfordóma í áramótaskaupinu. Svo er alls ekki – ég stend við allt sem segir í þeim pistli. Ég var að biðjast afsökunar á færslu sem ég setti inn, og tók svo út, um frétt um gagnrýni á áramótaskaupið. Einhver hafa skilið mig svo að ég telji að ekki hefði mátt gera grín að menntamálaráðherra yfirleitt – „Ef það má ekki gera grín að menntamálaráðherra og ambögunum sem hann lætur út úr sér, þá getum við auðvitað bara lagt þetta niður“ segir Jakob Bjarnar Grétarsson. En ég hef til dæmis ekkert við það að athuga að grín skyldi gert að ambögum í enskunni hjá ráðherranum.

Ástæðan fyrir því að mér fannst óviðurkvæmilegt að gera grín að málfari menntamálaráðherra er ekki sú að ekki megi gera grín að ráðafólki, heldur sú að það sem gert var grín að hjá honum voru ekki sérkenni á íslensku hans, engar „ambögur“, heldur eðlilegt mál tugþúsunda Íslendinga – mál sem elítan hefur áratugum saman notað til að gera lítið úr fólki og halda því niðri. Grínið beindist því ekki bara að ráðherranum, heldur einnig og ekki síður að öllu því fólki sem hefur mátt þola það að vera hætt og spottað fyrir að tala „rangt mál“ – mál sem það hefur alist upp við og því er eðlilegt. Þau sem aldrei hafa orðið fyrir slíku átta sig kannski ekki á því að það svíður undan þessu, en það var ljóst af umræðum að sum þekkja þetta af eigin raun.

Ég var ekki að krefjast ritskoðunar enda hef ég auðvitað ekkert vald til þess. Ég var bara að segja þá skoðun mína að málfarsfordómar af því tagi sem þarna birtust, og mörgum þykja sjálfsagðir og eðlilegir, séu engu betri en fordómar vegna fötlunar, kynhneigðar, hörundslitar, holdafars o.s.frv. – fordómar sem yfirleitt þykja ekki lengur við hæfi á opinberum vettvangi. Á Facebook og í einkaskilaboðum fæ ég iðulega þakkir frá fólki sem er jaðarsett í tungumálinu af ýmsum ástæðum fyrir að halda málstað þess á lofti. Þess vegna er mér slétt sama þótt ég sé kallaður húmorslaus „gamall skarfur“, talinn „fórnarlamb like-menningar“ sem ástundi dyggðaskreytingu, og vera það sem er skelfilegast af öllu – „woke“. Ég ætla að halda því áfram.

Posted on

Hverfull greinir

Í framhaldi af pistli um þrettánda(nn) fór ég að hugsa um önnur tilvik þar sem greinir er ýmist notaður eða ekki. Í mörgum sérnöfnum, svo sem staða- og fyrirtækjaheitum, er greinirinn fastur hluti af heitinu – Melabúðin, Morgunblað, Skeifan, Forlag, Kaffifélag, Norræna hús o.s.frv. Það er í flestum tilvikum útilokað, eða a.m.k. mjög skrítið, að nota þessi heiti án greinis þegar talað er um þau. Við segjum yfirleitt ekki allt fæst í Melabúð, hann er blaðamaður á Morgunblaði, hún vinnur í Skeifu, Forlag gefur bókina út, ég sat lengi á Kaffifélagi, bókasafnið í Norræna húsi er gott. Auðvitað er hægt að segja þetta allt saman en orðin sem um ræðir eru þá ekki skilin sem sérnöfn heldur samnöfn – og væru þá ekki með stórum staf í rituðu máli.

En þótt greinirinn sé skyldubundinn þarna er það ekki algilt í þessum heitum. Ef þau eru notuð í forsetningarlið, með samböndum sem vísa til áfangastaðar og eru sett saman úr atviksorði sem táknar stefnu, eins og upp/niður/inn/út o.fl., og forsetningu, yfirleitt í eða á, þá er hægt að hafa þau án greinis. Í DV 2011 segir: „Það má stundum sjá mig hlaupa út í Melabúð eftir grilluðum kjúkling.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Um jólin 2002 mætti ungur tónlistarmaður upp á Morgunblað.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Ég tók strætisvagn númer þrjú áleiðis upp í Skeifu.“ Í Kjarnanum 2020 segir: „hann er búinn að vera að mæta niður á Kaffifélag.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „fulltrúar Besta flokksins örkuðu út í Norræna hús.“

Sama máli gegnir þegar heitin eru notuð í forsetningarlið með samböndum sem vísa til dvalarstaðar og eru sett saman úr atviksorði sem táknar staðsetningu, eins og uppi/niðri/inni/úti o.fl., og forsetningu, yfirleitt í eða á. Í Fréttablaðinu 2007 segir: „fólk er farið að stoppa mig úti í Melabúð til þess að skrá sig á námskeið.“ Í Vísi 1981 segir: „Ég tala nú ekki um þegar allt er orðið tölvuvætt eins og er að gerast niðri á Morgunblaði.“ Í Alþýðublaðinu 1990 segir: „Þá ákváðum við að taka sénsinn á að halda eina ólöglega veislu uppi í Skeifu.“ Í Stundinni 2019 segir: „Ég er líka með góða yfirlesara og fyrsta flokks ritstjórn uppi á Forlagi.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „Ég er til dæmis alveg gáttaður á þessu leikriti úti í Norræna húsi.“

Í pistlinum um orðið þrettándinn nefndi ég að þegar verið er að tala um daginn sjálfan verður orðið að hafa greini, t.d. í dag er þrettándinn en ekki *í dag er þrettándi, en ef orðið er aftur á móti notað í forsetningarlið í tímaviðmiðunum er oftast eðlilegra að hafa það án greinis – fram á þrettánda, síðan um þrettánda o.s.frv. Mér finnst þessari verkaskiptingu mynda með og án greinis svipa svolítið til þess sem fjallað er um í þessum pistli. Þegar orðið er notað (oftast í nefnifalli) og verið að tala um staðinn eða fyrirtækið verður greinirinn að vera með, en þegar það er notað í forsetningarlið í vísun til áfangastaðar eða dvalarstaðar er eðlilegt að hafa það án greinis. En ég veit ekki hvort þarna eru einhver tengsl á milli – a.m.k. átta ég mig ekki á þeim.