Posted on

Hæfi(leg)leikar

Í nýútkominni bók sem ég var að lesa, Utanveltumaður eftir Valdimar Gunnarsson, staldraði ég við tilvitnun í grein eftir Jón Jensson í Ísafold 1894 þar sem segir: „mjer var alveg ókunnugt um hæfilegleika hr. Fr. B. A. í þessu efni og áreiðanlegleik hans“. Það voru orðin hæfilegleikur (eða hæfilegleiki) og áreiðanlegleikur sem komu mér spánskt fyrir sjónir – ég hefði sleppt viðskeytinu -leg- úr orðunum og talað um hæfileika og áreiðanleik. Við athugun kom í ljós að lengri myndir ýmissa slíkra orða tíðkuðust áður fyrr. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er að finna 85 orð af þessu tagi, þar af nokkrar tvímyndir með -legleiki eða -legleikur, en fæst þessara orða ef nokkur er að finna í Íslenskri orðabók eða Íslenskri nútímamálsorðabók.

Mörg orðanna eru aftur á móti í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 sem sýnir að þau hafa verið þekkt í byrjun síðustu aldar. Meðal orða af þessu tagi sem virðast hafa verið nokkuð algeng er eiginlegleiki. Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 2003 segir Jón Aðalsteinn Jónsson: „Fyrr á tíð var talað um eiginlegleika manna, en síðar breyttist það í eiginleika. Þannig er mál okkar á sífelldri hreyfingu.“ Önnur algeng orð með -legleik- eru t.d. innilegleiki/-leikur, maklegleiki/-leikur, mögulegleiki/-leikur, verulegleiki/-leikur, og ýmis fleiri. Öll hafa þessi orð styst þannig að -leg- hefur fallið brott og eru nú innileiki, makleiki, möguleiki og veruleiki. Í öllum tilvikum eru styttri myndirnar margfalt algengari en þær lengri.

Sameiginlegt lengri myndunum er að samkvæmt tímarit.is virðist tíðni þeirra hafa verið mest kringum aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, en allar eru þær sárasjaldgæfar núorðið. Það virðist líka ljóst að lengri myndirnar eru yfirleitt eldri. Þannig er elsta dæmi um eiginlegleika á tímarit.is frá 1831 en það elsta um eiginleika frá 1851; elsta dæmi um hæfilegleika frá 1822 en um hæfileika frá 1877; elsta dæmi um mögulegleika frá 1850 en um möguleika frá 1874; um verulegleika frá 1844 en veruleika frá 1890; o.s.frv. Þetta bendir til þess að styttri myndirnar, þær sem venjulegar eru í nútímamáli, hafi orðið til við styttingu myndanna með -leg- frekar en að um sjálfstæða og óháða orðmyndun sé að ræða.

Í lengri myndunum koma viðskeytin -leg- og -leik- hvort á eftir öðru, en um ýmsar slíkar viðskeytaraðir hefur Þorsteinn G. Indriðason skrifað í Orð og tungu 2021. Viðskeytið -leg- er skylt lýsingarorðinu líkur og merking þess er oft eitthvað í þá átt, 'líkur', 'sem lítur út fyrir að vera', 'sem minnir á' o.þ.h. – kjánalegur er 'líkur kjána' eða 'sem lítur út fyrir að vera kjáni', góðlegur er 'sem lítur út fyrir að vera góður'; en merkingin er oft mjög óljós. „Viðliðurinn -leikur, -leiki“ er skyldur nafnorðinu leikur og einkum notaður til að mynda nafnorð af lýsingarorðum – „hefur í öndverðu vísast verið hafður með þeim forliðum sem eiginleg merking hans hæfði, síðar hefur hann orðið algengari og merkingin óljósari“ segir í Íslenskri orðsifjabók.

Ekki verður betur séð en styttri myndirnar hafi yfirleitt alveg sömu merkingu og þær lengri þrátt fyrir að heilt viðskeyti sé fallið brott úr þeim. Úr því að -leg- má þannig missa sig mætti ætla að það væri þarna merkingarlaust. Þegar orðin sem nefnd eru hér að framan eru skoðuð kemur í ljós að merking -leg- í grunnorðunum – áreiðanlegur, eiginlegur, hæfilegur, innilegur,  maklegur, mögulegur, verulegur – er ekki mjög ljós. Hvert orð fyrir sig hefur ákveðna merkingu sem heild, en það er ekki hægt að segja að fyrri hlutinn hafi einhverja afmarkaða merkingu – hvað er t.d. inni- í innilegur eða mögu- í mögulegur? Í þessum orðum hefur -leg- því ekki ákveðna afmarkaða merkingu heldur hlutverk – það hlutverk að mynda lýsingarorð.

Með viðskeytinu -leiki/-leikur má mynda nafnorð af lýsingarorðum eins og áður segir, og það hefur verið gert við mörg lýsingarorð sem mynduð eru með viðskeytinu -leg- eins og dæmin hér að framan sýna. En þá eru orðin auðvitað ekki lengur lýsingarorð og viðskeytinu -leg- sem hafði enga afmarkaða merkingu heldur fyrst og fremst það hlutverk að búa til lýsingarorð er þá í raun ofaukið. Þess vegna er ekkert undarlegt að með tímanum falli það brott og orðin styttist. En þótt flest gömul orð af þessu tagi hafi styst er líklega enn verið að búa til ný orð með -legleik-sem eiga þá eftir að styttast. Í Risamálheildinni má finna slík dæmi af samfélagsmiðlum sem virðast vera nýleg, svo sem asnalegleiki, leiðinlegleiki, sorglegleiki og fleiri.

Posted on

Að faila eða feila – þarna er efinn

Í frásögn DV af viðtali Sýnar sport við þjálfara karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu segir: „Við failuðum á okkar markmiði, það er ekki disaster að faila.“ Það er auðvitað enginn vafi á því að disaster er komið beint úr ensku og bæði merking og ritháttur benda til að faila sé það líka  – ensk sögn sem merkir 'mistakast, misheppnast' er skrifuð fail. Enska sögnin er reyndar oftast notuð með andlagi frekar en forsetningu í þessari merkingu þannig að ef þetta tekið beint úr ensku hefði e.t.v. mátt búast við við failuðum okkar markmiði. En þarna er reyndar leitað langt yfir skammt – sögnin feila er gömul tökusögn sem hefur tíðkast í málinu a.m.k. síðan á sextándu öld – dæmi eru um hana í Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar frá 1540.

Sögnin feila er komin af feilen í miðlágþýsku sem aftur er komin úr fornfrönsku og upphaflega af fallere í latínu. Enska sögnin fail er einnig komin af fallere gegnum fornfrönsku þannig að feila og fail er í raun sama sögnin. Í eldri íslenskum dæmum er feila yfirleitt afturbeygð, feila sér – „er það ósköp, að höfundurinn skuli ekki feila sjer við, að bjóða almenningi þvílíkt rugl og þvílíkan þvætting“ segir í Íslendingi 1861. Þarna merkir sögnin 'blygðast sín, vera feiminn, smeykur við e-ð, hika við e-ð' eins og hún er skýrð í Íslenskri orðabók, og sama skýring er gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Þetta virðist hafa verið aðalmerking eða eina merking sagnarinnar langt fram á tuttugustu öld og er gefin án athugasemda um málsnið.

En í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin eingöngu skýrð 'gera mistök, mistakast, misheppnast' sem er merkingin sem faila hefur í dæminu sem vísað var til í upphafi – þessi merking, og að auki 'skjátlast', er reyndar einnig gefin í Íslenskri orðabók en merkt „óforml.“ Sögnin virðist því hafa fengið nýja merkingu, hugsanlega fyrir áhrif frá dönsku og/eða ensku, á seinni hluta tuttugustu aldar þótt einstöku eldri dæmi megi finna. Í Unga hermanninum 1922 segir: „honum feilar aldrei þegar hann dæmir okkur.“ Í Harðjaxli réttlætis og laga 1924 segir: „þar feilar yður, hr. ritstjóri.“ Í Heimskringlu 1938 segir: „Honum feilar víst ekki þar eða hvað?“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1944 segir: „Skjóni heilan bar mig heim / honum feilaði eigi.“

Upp úr miðri öldinni verður nýja merkingin smátt og smátt algengari og sú eldri virðist hverfa með öllu. Eins og dæmin hér á undan sýna tók sögnin framan af frumlag í þágufalli í nýju merkingunni og þannig er hún gefin, merkt með ? („vont mál“), í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983. Þolfalli bregður meira að segja fyrir – „Örugg vissa er fyrir því að mig feilar aldrei“ auglýsir maður sem spáir í spil og les í bolla í Íslendingi 1949. En um 1970 fer nefnifall smátt og smátt að koma í staðinn. „Ef ég feilaði, barði hún mig með brauðkefli“ segir í Múlaþingi 1969. Í Mánudagsblaðinu 1973 segir: „Kroppurinn […] feilar ekki að vekja hjá manni syndsamlegar hugsanir.“ Í Stúdentablaðinu 1976 segir: „Þar feilar hann reyndar.“

Sambandið feila á fer svo að sjást á áttunda áratugnum, stundum afturbeygt en þá með þolfalli en ekki þágufalli eins og var í eldri merkingunni. Í Mánudagsblaðinu 1972 segir: „einn eigenda […] feilaði sig á óþarfa mikilmennsku.“ Í Þjóðviljanum 1978 segir: „Hann feilar á einu grundvallaratriði.“ Í Norðurlandi 1980 segir: „almættið virðist hafa feilað sig á barómetinu.“ Í Heima er bezt 1980 segir: „þar held ég að sé komið að því atriði sem flestir feila á.“ Í Alþýðublaðinu 1981 segir: „En honum feilaði á einu.“ Í Vísi 1981 segir: „Það er það sem þeir feila sig á, sko.“ Í DV 1982 segir: „Það væri synd að feila á lokasprettinum.“ Þegar sögnin er afturbeygð er merkingin oft fremur 'misreikna sig' eða 'skjátlast' en 'mistakast'.

En aftur að tilefni þessara skrifa – dæminu um fail í viðtalinu við landsliðsþjálfarann. Nú veit ég auðvitað ekkert hvort hann tengir feila við ensku sögnina fail eða hvort sú tenging er komin frá blaðamanninum sem skrifaði viðtalið upp. En þessi tenging er greinilega ekki einsdæmi heldur í huga margra – alls eru á tólfta hundrað dæmi um sagnmyndir með rithættinum faila í Risamálheildinni, öll nema þrjú af samfélagsmiðlum (sum reyndar í merkingunni 'fella' sem fail getur líka haft). Þetta sýnir að mörgum málnotendum virðist ekki kunnugt um að feila er gömul sögn í málinu og taka hugsunarlaust upp enskan rithátt hennar. Það er ekkert athugavert við að nota sögnina feila í þeirri merkingu sem hún hafði í viðtalinu – ef hún er skrifuð feila.

Posted on

Sólítt og vandað

Ég var spurður að því í dag hvort einhver möguleiki væri að segja hversu mörg íslensk orð væru í hættu að hverfa úr málinu, eða hversu mörg féllu úr notkun á hverju ári. Ég sagði að það væri útilokað að segja nokkuð um þetta. Í fyrsta lagi er það skilgreiningaratriði hvenær orð er „dautt“ eða „horfið“ úr málinu – er orð ekki „til“ í málinu í einhverjum skilningi ef heimildir eru um það, jafnvel þótt það sé aldrei notað í nútímamáli? Í öðru lagi er ógerlegt að fullyrða að eitthvert orð sem heimildir eru um sé algerlega horfið úr notkun – þótt við heyrum það aldrei, og þótt við finnum engin rituð dæmi um það í nýlegum textum, sýnir það ekki að orðið sé horfið. Ýmis dæmi eru um að orð lifi öldum saman í málinu án þess að komast nokkru sinni á prent.

En svo er ekki heldur neitt athugavert við það að orð falli úr notkun. Þjóðfélagið breytist, atvinnuhættir breytast, tæknin breytist, og það er fullkomlega eðlilegt að orð sem tengjast úreltum þjóðfélagsháttum, úreltum atvinnuháttum eða úreltri tækni hverfi úr málinu en önnur orð komi í staðinn. Vissulega er okkur stundum sárt um orð sem voru hluti af málinu þegar við vorum að alast upp og sjáum eftir þeim ef þau falla úr notkun. En ef ástæðan fyrir hvarfi þeirra er sú að við þurfum ekki á þeim að halda lengur vegna þess að það sem þau vísuðu til er ekki hluti af nútíma þjóðfélagi tökum við sjaldnast eftir því að við erum hætt að heyra þau eða sjá. Stundum rekumst við samt á þau og áttum okkur þá á að við höfum ekki heyrt þau lengi.

Eitt slíkt dæmi – reyndar ekki um orð heldur orðasamband – rakst ég einmitt á í vikunni, í viðtali við rúmlega sextugan mann í sjónvarpsþætti. Það var sambandið sólítt og vandað sem ég hef ekki heyrt áratugum saman svo að ég muni en man vel eftir á bernskuheimili mínu upp úr 1960. Einhvern veginn finnst mér samt að það hafi verið notað sem einhvers konar tilvitnun. Merkingin er 'traust og vandað' eða eitthvað slíkt enda ljóst að sólítt er komið af danska lýsingarorðinu solid sem merkir 'traustur, rammgerður'. Orðið sólítt er þó ekki að finna í neinum íslenskum orðabókum og virðist ekki hafa verið mikið notað, a.m.k. ekki í formlegu máli – aðeins fimmtán dæmi eru um það á tímarit.is, það elsta frá 1933.

Í þrem af þessum dæmum kemur orðið fyrir í sambandinu sólítt og vandað. Í Tímariti rafvirkja 1953 segir: „Allt er jafn sólítt og vandað hjá Gvendi, sagði rafvirkinn.“ Í grein um rómverska mynt í Morgunblaðinu 1987 segir: „Menn tala um að eitthvað sé „sólítt og vandað“. Orðið solitt er dregið af nafninu á gullpeningi Konstantinusar mikla, sem kallaðist solidus.“ Í minningargrein í Morgunblaðinu 2001 segir: „Allt skyldi „traust, sólítt og vandað“ heyrðist oft á þeim árum.“ Svo skemmtilega vill til að undir þessa minningargrein skrifa m.a. foreldrar mannsins sem ég heyrði sambandið hjá í vikunni, sem sýnir að hann hefur lært sambandið í æsku. Ekkert bendir til að sambandið hafi verið notað í einum landshluta öðrum fremur.

En þrátt fyrir að nær engin dæmi séu um sambandið á prenti getur vel verið að það hafi verið þekkt og útbreitt víða um land áður fyrr en ekki komist á meira prent vegna þess að sólítt er dönskusletta. Það er hins vegar lítill vafi á því að sambandið er nær horfið núna – óformlegt mál kemst miklu frekar á prent og ef það væri eitthvað notað væru örugglega einhver dæmi um það á samfélagsmiðlum eða annars staðar á netinu. En ekki eitt einasta dæmi er um það í Risamálheildinni þar sem eru þó tuttugu dæmi um sólítt eitt og sér. Enga sérstaka skýringu er að sjá á hvarfi sambandsins og auðvitað er enginn sérstakur missir að því en af því að það er hluti af málheimi æsku minnar sé ég samt svolítið eftir því.

Posted on

Dagur íslenskrar tungu

Orðræðan um íslenskuna undanfarin ár hefur oft verið nokkuð niðurdrepandi og full svartsýni. Talað er um að íslenskan eigi undir högg að sækja, sé í vörn, og það þurfi að heyja varnarbaráttu fyrir hana. Ég hef tekið fullan þátt í þessari orðræðu og jafnvel oft verið frummælandi í henni, og ég er sannfærður um að þetta er allt saman rétt, út af fyrir sig. En þótt þessi orðræða sé rétt og vel meint, og tilgangur hennar sé að vara almenning og stjórnvöld við og hvetja til aðgerða, er alltaf hætta á að hún verki öfugt – dragi kjark úr fólki, veiki trú unga fólksins á íslenskuna og framtíð hennar, og valdi því jafnvel að fólk snúi baki við íslenskunni og hugsi sem svo að þetta sé vonlaust og eins gott að skipta bara yfir í ensku. Það má auðvitað ekki gerast.

Íslenskan þarf nefnilega að vera í sókn en ekki í vörn og sóknin á að felast í því að efla hana á allan hátt en ekki í því að berjast gegn ensku og öðrum tungumálum sem eru töluð á Íslandi og eru komin til að vera. Enskan er engin ógn nema ónæmiskerfi íslenskunnar sé veikt. Það eru ekki erlend áhrif, hvorki frá innflytjendum né interneti, sem hafa veikt það – það erum við sjálf. Við þurfum að sækja fram með því að nota íslenskuna á öllum sviðum, efla íslenska bókaútgáfu, fjölmiðla, kvikmyndagerð og hvers kyns skapandi greinar, skapa innflytjendum skilyrði og hvatningu til íslenskunáms og stórauka fjárveitingar til kennslu íslensku sem annars máls, og tryggja að íslenska dragist ekki aftur úr á sviði máltækni og gervigreindar.

Jafnframt þurfum við að vera raunsæ og átta okkur á því að heimurinn er breyttur og við lifum ekki lengur í þjóðfélagi þar sem eitt og sama tungumálið getur þjónað öllum þörfum allra íbúa. Hér búa og starfa tugir þúsunda sem ekki eiga íslensku að móðurmáli og þótt það sé æskilegt og mikilvægt – fyrir þau sjálf, fyrir samfélagið, og fyrir íslenskuna – að þau læri íslensku þá tekur það tíma, og hér munu áfram verða stórir hópar fólks sem ekki hefur fullt vald á íslensku. Þar að auki mun fólkið vitanlega halda eitthvað áfram að nota móðurmálið í sinn hóp og ekkert að því – okkur þykir hrósvert að Íslendingar í Vesturheimi hafi haldið lengi í íslenskuna og ættum þess vegna ekki að amast við því þótt sama gildi um innflytjendur á Íslandi.

En því fer vitanlega fjarri að aukin notkun erlendra mála í samfélaginu stafi eingöngu af flutningi fólks til landsins. Þrýsting frá enskunni má ekki síður rekja til aukinnar net- og fjölmiðlanotkunar sem  hefur leitt til þess að umtalsverður hluti þjóðarinnar eyðir verulegum hluta dagsins í enskum málheimi – og það eru engar líkur á að það breytist á næstunni. Þar að auki er auðvitað ljóst að sama hvað við gerum verður framboð á hvers kyns afþreyingar- og fræðsluefni, leikjum o.s.frv. alltaf margfalt meira á ensku (og öðrum erlendum málum) en íslensku. Við getum ekki keppt við það í magni en við þurfum að keppa við það í gæðum – við þurfum að sýna að það er hægt að gera gott efni á íslensku þannig að fólk eigi val.

Íslenskan er ekkert á banabeði – hún er sprelllifandi og getur átt langa og bjarta framtíð fyrir sér. En þá verðum við að hafa trú á henni og vera sátt við að hún breytist og staða hennar breytist. Hún verður aldrei aftur eina málið sem notað er í samfélaginu, heldur þarf að laga sig að nýjum veruleika – og málnotendur þurfa að gera það líka. Samfélagið er orðið fjöltyngt og verður það áfram – og það er í góðu lagi. Fjöltyngi er mjög algengt í heiminum og útbreitt og ótal dæmi sýna að tungumál geta lifað góðu lífi í sambýli hvert við annað. Helsta ógnin við íslenskuna nú er að hún verði gerð að vopni gegn tilteknum hópum og notuð til að kljúfa samfélagið. Sameinumst um að hafna tilburðum til þess – gleðilegan dag íslenskrar tungu!

Posted on

Þín íslenska er málið

Orðalag auglýsingar Almannaróms í tilefni af degi íslenskrar tungu virðist hafa farið fyrir brjóstið á sumum og ekki þykja góð íslenska (og ég tek fram að þótt ég hafi áður fyrr starfað með Almannarómi kom ég ekki nálægt þessum texta). Ég hef séð því haldið fram að orðalagið sé „gervigreindarlegt“, „amerískt“ og „auglýsingavaðall“ en einkum er það fyrirsögnin, „Þín íslenska er málið“, sem hnýtt er í. Það sem fólk hefur við hana að athuga virðist vera tvennt: Að þetta sé „ekki íslensk setningaskipan“ vegna þess að í íslensku sé eðlilegt að eignarfornafn fari á eftir nafnorðinu sem það stendur með, en einkum finnst ýmsum þó að eignarfornafnið sé algerlega óþarft þarna – nægilegt sé og eðlilegt að segja einfaldlega Íslenska er málið.

En þótt því sé vissulega oft haldið fram að það sé óíslenskulegt að hafa eignarfornafn á undan nafnorði er það einfaldlega rangt – það er aragrúi dæma um þá orðaröð í vönduðum textum frá öllum öldum og þarf ekki að leita lengi í fornsögum til að finna ótal dæmi. „Tröll hafi þína vini“ sagði Hallgerður langbrók við Gunnar. „Nú vil eg hafa þitt liðsinni um þessa fjárheimtu“ sagði Egill Skallagrímsson við Arinbjörn hersi. Það hefur sem sé alla tíð verið eðlilegt að hafa eignarfornafnið á undan ef eigandinn skiptir ekki síður máli en eignin. Vissulega má finna ýmis dæmi þar sem færa má rök fyrir því að dönsk eða ensk áhrif valdi því að eignarfornafn sé sett á undan nafnorði, en því fer órafjarri að þessa orðaröð megi alltaf rekja til erlendra áhrifa.

Hitt er vitanlega rétt að vel væri hægt að sleppa eignarfornafninu þarna og segja Íslenska er málið – en það hefði bara ekki alveg sömu merkingu. Eignarfornafnið er nefnilega ekki sett þarna að ástæðulausu heldur hefur það mikilvæga hlutverk að minna á að íslenska er alls konar – mín íslenska, þín íslenska, okkar íslenska – og allar þessar íslenskur eru jafnréttháar. Með því að hafa eignarfornafnið á undan nafnorðinu er lögð áhersla á eigandann, að við eigum öll okkar hlut í íslenskunni, og þín íslenska er málið ekkert síður en mín og okkar hinna. Vitaskuld er orðalag smekksatriði og ekkert að því að fólk hafi ólíkar skoðanir á þessari setningu, en meginatriðið er að það er nákvæmlega ekkert óíslenskulegt við hana.

Posted on

Einhleypa

Í dag var sett inn í „Málspjall“ skjáskot af auglýsingu frá Icewear þar sem stendur „Einhleyputilboð 22% Af öllum vörum fyrir Vini Icewear“. Myndinni fylgdi athugasemdin „Icewear notaði nýtt orð í sinni auglýsingaherferð. Ég man ekki eftir að hafa séð byssur í þeirra verslunum.“ Þetta er málefnaleg athugasemd – fyrri hluti orðsins einhleyputilboð (sem raunar er skrifað í tvennu lagi í auglýsingunni) hlýtur að vera nafnorðið einhleypa sem er eingöngu skýrt 'byssa með eitt hlaup' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'einhleypt byssa' í Íslenskri orðabók. Það er samt ljóst að sú er ekki merking orðsins þarna – eins og segir réttilega í athugasemdinni selur Icewear ekki byssur. Enda liggur önnur skýring beint við.

Orðið einhleypa er þarna greinilega notað í sömu merkingu og einhleypingur, 'sá eða sú sem er hvorki í sambúð né hjónabandi'. Orðmyndunarlega og merkingarlega liggur það beint við – lýsingarorðið einhleypur merkir 'sem er hvorki í sambúð né hjónabandi' og veik kvenkynsorð eiga sér iðulega samstofna lýsingarorð – enda orðið einhleypa til fyrir þótt í annarri merkingu sé. Lýsingarorðið einhleypur er líka mjög algengt í málinu en nafnorðið einhleypa í upphaflegri merkingu mjög sjaldgæft og mörgum sennilega ókunnugt með öllu. Þess vegna er ekkert undarlegt þótt það sé tekið til handargagns og því gefin ný merking. Erfitt er að leita að dæmum vegna samfalls við lýsingarorðið einhleypur en þróunin virðist hafa byrjað kringum aldamót.

Í DV 2001 segir: „Tvær frægustu einhleypurnar í Hollywood eru nú komnar í eina sæng.“ Á Málefnin.com 2004 segir: „þá er ég einhleypa en hamhleypa til allra verka.“ Á Bland.is 2006 segir: „Kallinn minn er hvort eða er aldrei heima, er nánast einhleypa.“ En vorið 2019 birtist fyrirsögnin „Einhleypa vikunnar“ í þættinum „Makamál“ á Vísi og undir henni stóð: „Makamál kynna til leiks fyrstu Einhleypu vikunnar. […] Í hverri viku munu Makamál birta létt viðtal við einhleypan og spennandi einstakling.“ Á undanförnum sex árum hafa um hundrað einhleypur – bæði karlar og konur – verið teknar fyrir í þessum þáttum og það má því ætla að orðið einhleypa í þessari merkingu sé orðið sæmilega þekkt, a.m.k. í hluta málsamfélagsins.

En reyndar er hægt að finna eldra dæmi um orðið einhleypa í þessari merkingu – og þó. Í ræðu á Alþingi 1918 sagði Magnús Torfason: „Ef við athugum hverjir verst verða úti og mest þurfa atvinnunnar, þá eru það ekki einhleypingarnir eða einhleypurnar, heldur barnamennirnir.“ Þarna merkir einhleypa greinilega 'einhleyp kona' en einhleypingur 'einhleypur karlmaður' – vísar sem sé ekki til beggja kynja. Það er vel þekkt að málnotendur reyna oft að komast hjá því að nota karlkynsorð (starfsheiti, íbúaheiti o.fl.) um konur. Í Morgunblaðinu 2018 segir: „Einnig koma við sögu […] Hreinn Sveinn sem er einhleypingur og Dúdda sem er einhleyp kona.“ Þarna væri hægt að segja Hreinn Sveinn og Dúdda sem eru einhleypingar – en það er ekki gert.

Í auglýsingunni sem nefnd var í upphafi er greinilega verið að nota einhleyputilboð í stað Singles Day tilboð sem víða sést í auglýsingum. Það er lofsvert að leitast við að nota íslensku sem mest í auglýsingum en samt er mikilvægt að það sé gert á réttan hátt og í samræmi við reglur málsins. Þarna er tvennt sem kemur til álita: Er í lagi að nota orðið einhleypa í þessari merkingu þótt það sé fyrir í málinu í annarri merkingu; og er í lagi að koma með nýtt orð þegar fyrir er í málinu orð sömu merkingar og af sama stofni? Báðum spurningum má hiklaust svara játandi – orðið er mjög sjaldgæft í eldri merkingu og misskilningur ólíklegur. Það er ekki heldur neitt að því að hafa tvö orð sitt í hvoru kyni, og einhleypa er styttra og liprara en einhleypingur.

Posted on

Sorrí með mig Stína

Í innleggi í „Málspjalli“ í dag var sagt: „Óskaplega finnst mér leitt þegar fólk segir sorry í staðinn fyrir afsakið/fyrirgefðu. Ég get engan veginn tekið það til mín!“ En síðan var bætt við að sumir segðu að þetta væri bara íslenskt orð sem ætti fullan rétt á sér. Auðvitað er enginn vafi á því að þarna er um að ræða enska orðið sorry sem er komið inn í íslenskar orðabækur í ritmyndinni sorrí. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það greint sem upphrópun, skýrt 'afsökunarbeiðni: fyrirgefðu, afsakaðu' og sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. Í Íslenskri orðabók er það tvær flettur – upphrópun í merkingunni 'fyrirgefðu, afsakið' og óbeygjanlegt lýsingarorð í merkingunni 'dapur, niðurdreginn'. Í báðum tilvikum er orðið merkt ??, 'sletta'.

Elsta dæmi sem ég finn um sorry í íslensku samhengi (fyrir utan stöku dæmi úr vesturíslensku blöðunum) er í Hugin 1936: „Ég er svo sorry, að ég skuli aldrei fá að dansa.“ Í Skólablaðinu 1939 segir: „Hann var náttúrulega voða „sorry“.“ En á hernámsárunum í síðari heimsstyrjöld fer dæmunum fjölgandi og eru þá ýmist rituð sorry, sorrý eða sorrí. Í Speglinum 1943 segir: „ég held að við yrðum allar hálf sorrí, ef við hættum því alveg.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Orð eins og „afsakið“ og „fyrirgefið“, eru næstum óþekkt fyrirbrigði, í hæsta lagi fær maður eitt lítið „adieu“ og stundum „sorry“. Í Speglinum 1946 segir: „Morgunblaðið er að vonum afskaplega sorrý yfir því, að Finnur ráðherra hefur hagnýtt sér sögukunnáttu sína.“

Fram um 1960 eru allmörg dæmi um sorrí/sorrý, langflest í Speglinum sem var gamanblað og málsnið þar óformlegra en almennt gerðist í blöðum. Aðeins örfá dæmi eru í öðrum blöðum. Í Alþýðublaðinu 1947 segir: „Þér getið ekki trúað því hvað ég er sorrý og skúffuð vegna skónna!“ Í Þjóðviljanum 1959 segir: „Bandarískir ráðamenn sögðust vera fjarska sorrý og lofuðu að gera þetta aldrei aftur.“ Í Tímanum 1959 segir: „Sorrí, sagði telpan, en ég vil bara hafa það kók.“ Dæmum fer svo smátt og smátt fjölgandi eftir 1960 en þó ekki að marki fyrr en um 1980. Myndin sorrí er flettiorð í Slangurorðabókinni 1982 – bæði sem lýsingarorð með dæminu gamli sorrí Gráni úr kvæði Megasar, og „sem uh og í samb. sorrí Stína fyrirgefðu, afsakaðu“.

Í Morgunblaðinu 2006 segir: „Hver ætli þessi Stína hafi upphaflega verið?“ Upphafið er líklega að finna í gamansögu í Hádegisblaðinu 1940: „Það var á dansleik í Iðnó. Húsið var troðfullt. Þarna var mikið af Englendingum og varð einum þeirra á það óhapp að stíga ofan á tærnar á stúlku einni, sem sat á bekksenda. Hermaðurinn hneigði sig og sagði: „Sorry“. Stúlkan stóð þegar upp, brosti vingjarnlega til hermannsins og sagði: „Stína“.“ Guðrún Kvaran vísar til svipaðrar sögu á Vísindavefnum en telur hana frá sjötta áratugnum, og segir að sambandið „virðist helst notað þegar verið er að biðjast afsökunar á einhverju í fremur kæruleysislegum tón“. E.t.v. er það að hverfa – á Twitter 2016 segir: „Af hverju segir enginn sorry stína lengur?“

En sorrí kemur einnig fyrir í öðru og nýrra orðasambandi sem er algengt í óformlegu máli – sorrí með mig. Elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2006: „Sorry með mig krakkar!“ Upp úr því fer að bera á sambandinu á samfélagsmiðlum og það verður algengt þar upp úr 2010 en er mjög sjaldgæft í formlegu málsniði. Árið 2018 gaf hljómsveitin Baggalútur út lagið „Sorry með mig“ með texta eftir Braga Valdimar Skúlason sem sagði í viðtali á mbl.is „að hugmyndin að textanum hafi fæðst í kringum frasann „sorrí með mig“, sem fólk beiti fyrir sig í tíma og ótíma.“ „Þetta er eitthvað sem fólk segir áður en það þjösnast áfram, svona afsökun sem það setur fram þegar það veit að það er að gera eitthvað af sér en er eiginlega bara alveg sama.“

Orðið sorry/sorrý/sorrí er gífurlega algengt í óformlegu máli. Í Risamálheildinni eru um 51 þúsund dæmi um fyrstnefndu ritmyndina en hluti þeirra er væntanlega úr textum á ensku. Tæp ellefu þúsund dæmi eru um myndina sorrý og sjö þúsund og fjögur hundruð um sorrí. Nær öll dæmin eru af samfélagsmiðlum – aðeins rúmlega 140 dæmi um fyrrnefndu myndina og tæp 330 um þá síðarnefndu eru úr öðrum textum. Þar sem orðið hefur tíðkast í málinu í áttatíu ár og er svo algengt sem raun ber vitni í óformlegu máli er augljóslega þýðingarlaust að berjast gegn því og eins gott að viðurkenna það sem íslenskt orð þrátt fyrir að form þess sé ekki sérlega íslenskulegt. Mér þætti eðlilegast að slíta það þá sem mest frá enskunni og rita sorrí.

Posted on

Geta karlmenn átt von á barni?

Í innleggi í „Málspjalli“ í dag var sagt: „Undrandi að sjá á RÚV frétt um að tveir ráðherrar eigi von á barni, karlkyns ráðherrar.“ Í umræðum kom fram að innleggshöfundi fannst óeðlilegt að sambandi eiga von á barni væri notað um karlmenn, og sama fannst greinilega fleiri sem tóku þátt í umræðunni þótt öðrum fyndist þetta fullkomlega eðlilegt orðalag. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að einhver hrökkvi við að sjá þetta – í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið eiga von á barni skýrt 'vera ófrísk' sem vitanlega vísar eingöngu til kvenna. Þar er líka að finna annað mjög skylt samband sem getur eingöngu vísað til kvenna (og annarra leghafa), eiga von á sér <um mánaðamótin> sem er skýrt 'eiga að fæða barn um mánaðamótin'.

En þótt sambandið eiga von á barni hafi einkum verið notað um konur má finna ýmis gömul dæmi um að það sé notað um karla. Í Nýjum kvöldvökum 1915 segir: „Perrinette var þunguð, og […] hann átti von  á barni með henni.“ Í Vikunni 1944 segir: „Maurice trúir Renny fyrir því, að hann eigi von á barni með stúlku, sem heitir Elvira Grey.“  Í Dagskrá 1946 segir: „Ef þýzkur maður átti von á barni í Noregi átti hann að skýra frá því.“ Í Heilbrigðisskýrslum 1963 segir: „hann á von á barni með annarri stúlku.“ Í Fálkanum 1964 segir: „Hann á von á barni með dóttur Plastik-Smith.“ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „En Hallgrímur varð ekki af því talinn að eiga þessa konu sem hann átti von á barni með.“ Í DV 1985 segir: „Hann á von á barni.“

Eins og þessi dæmi sýna fylgdi forsetningin með oftast sambandinu áður fyrr þegar það vísaði til karla – eiga von á barni með <einhverri konu>. Það þurfti sem sé að taka fram að karlarnir stæðu ekki í þessu hjálparlaust. Hið sama gilti hins vegar ekki um konur – barnsfaðirinn var sjaldnast nefndur. Sambandið hefur einnig lengi verið notað um hjón eða fjölskyldur. Í Alþýðublaðinu 1934 segir: „Og við eigum meira að segja von á barni.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „Fjölskylda ein, sem þegar var á fátækraframfæri, átti von á barni.“ Í Vikunni 1942 segir: „Við eigum von á barni.“ Í Alþýðublaðinu 1945 segir: „Og svo fer hann frá mér til hennar og þau eiga von á barni.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Við hjónin eigum von á barni.“

Dæmum um að karlar eigi von á barni virðist fara mjög fjölgandi kringum síðustu aldamót og upp úr því ef marka má tímarit.is. Varla leikur nokkur vafi á því að það tengist meira kynjajafnrétti og aukinni þátttöku karlmanna í umönnun barna – aukinni tilfinningu fyrir því að þótt konan gangi með barnið sé karlinn ekki stikkfrí heldur sé meðgangan og undirbúningur fæðingarinnar í raun verkefni beggja. Í Risamálheildinni eru 170 dæmi um hann á von á barni, 434 um hún á von á barni og 347 um þau eiga von á barni. Það er þess vegna enginn vafi á því að þótt sambandið eiga von á barni hafi áður einkum vísað til kvenna merkir það ekki lengur 'vera ófrísk' í málvitund mjög margra, heldur bókstaflega 'eiga von á barni'.

Posted on

Skrekkstungan

Í gærkvöldi var sýnd í sjónvarpinu úrslitakeppni Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Ég horfði á hana heima en undanfarin þrjú ár hef ég horft á hana í Borgarleikhúsinu vegna þess að ég hef verið í dómnefnd um „Skrekkstunguna“, viðurkenningu sem veitt er fyrir frjóa og skapandi notkun íslensku. Ég afþakkaði boð um að vera áfram í dómnefndinni í ár en óneitanlega öfundaði ég dómnefndarfólk svolítið. Þessi viðurkenning var tekin upp fyrir þremur árum vegna þess að aðstandendum keppninnar fannst íslenska vera á undanhaldi og vildu reyna að snúa þeirri þróun við. Það hefur sannarlega tekist – notkun íslensku í atriðunum hefur aukist ár frá ári og á þessu ári skilst mér að íslenska hafi verið í öllum atriðunum tuttugu og fimm.

Auk þess að vinna Skrekk fékk Fellaskóli Skrekkstunguna fyrir atriðið „Þrýstingsbylgja“. Þetta er sérlega ánægjulegt í ljósi þess að Fellaskóli er þekktur fyrir hátt hlutfall nemenda af erlendum uppruna. Í umsögn dómnefndar sagði: „Atriðið sem fær Skrekkstunguna árið 2025 nýtir íslensku á skapandi hátt í söng, tali og einræðu. Atriðið er á vönduðu og fallegu máli, ljóðrænt og seiðandi en líka skýrt og aðgengilegt. Málsnið hvers hluta er viðeigandi fyrir efni hans, tungumálið er óþvingað og slípað og hvert orð þjónar atriðinu. Flytjendur nota tungumálið í eigin þágu og er titillinn þar engin undantekning.“ Við þurfum að treysta krökkunum fyrir íslenskunni í stað þess að vera sífellt að gagnrýna málnotkun þeirra og tala þau niður.

Posted on

Mistök, atvik – eða einfaldlega brot á reglum

Svarbréf embættis ríkislögreglustjóra til DMR vegna viðskipta við Intra ráðgjöf slf.“ er á margan hátt áhugavert út frá sjónarhóli orðræðugreiningar – það er fullt af klisjum og hæpinni orðanotkun. Í upphafi þess segir t.d.: „Embættið harmar þau mistök sem urðu í viðskiptum við félagið og hefur dregið af þeim mikilvægan lærdóm.“ Það er nokkuð vægt að nota orðið mistök yfir skýr brot á reglum. Til skýringar segir: „Ekki var farið í útboð eða verðfyrirspurnir vegna breytinga á stjórnskipulagi embættisins enda ekki áform um að fara í samstarf til lengri tíma.“ En það er ekki hægt að nota tímalengd samstarfsins sem skýringu á því að ekki var „farið í útboð eða verðfyrirspurnir“ – það sem máli skiptir er ekki tíminn, heldur kostnaðurinn.

Orðið mistök er víðar notað til að gera lítið úr augljósum brotum á lögum og reglum. „Í ljósi þess hvert umfang og eðli samstarfsins varð voru það mistök að bjóða verkefnin ekki út eða skoða ráðningu sérstaks starfsmanns til að sinna þessum verkefnum“ og „Ljóst er að læra þarf af þessum mistökum [...].“ Einnig segir: „Að meginstefnu eru innkaup hjá embættinu gerð í gegnum útboð eða verðfyrirspurnir þar sem byggt er á umfangi hvers verkefnis.“ Þarna er látið líta svo út sem það sé einhver sérstök stefna hjá embættinu að gera innkaup „í gegnum útboð eða verðfyrirspurnir“ þegar fyrir liggur að um þetta gilda ákveðnar reglur. Embættið þarf því ekki – og á ekki – að hafa sérstaka stefnu í þeim málum – það á bara að fara að reglum.

Það er þekkt aðferð til að leiða athygli frá því sem gagnrýnt er að setja það í samhengi sem lætur það líta út fyrir að vera léttvægt. Þetta kemur skýrt fram þegar fjallað er um greiðslur til Intra. „Heildarviðskipti frá árinu 2020 til og með júní 2025 eru 130.499.463 m.kr. án vsk. en til samanburðar má nefna að heildarútgjöld embættisins á árunum 2020 til 2024 námu 32.571.887.406 ma.kr.“ og „Þau verkefni sem fjölmiðlar hafa lagt áherslu á og snúa að vali á húsbúnaði og húsnæðisbreytingum á árunum 2020 til 2025 nema 1,28% af heildarviðskiptum embættisins við félagið.“ Þarna er samanburður og lág prósenta notað til að fá fólki til að finnast þær upphæðir sem um er að ræða bara smotterí sem skipti ekki máli í heildarsamhenginu.

Í niðurlagi svarbréfsins segir: „Embætti ríkislögreglustjóra harmar þau mistök sem gerð voru í viðskiptum við félagið Intra ráðgjöf slf., og dregur lærdóm af þeim.“ Hér er enn klifað á orðinu mistök yfir skýr brot á reglum, en auk þess bætt við klisjunni dregur lærdóm af. Sérkennilegasta orðanotkunin kemur þó í lokin: „Embættið tekur undir þau sjónarmið að atvikið hafi rýrt traust til embættisins og mikilvægt sé vinna að endurheimt þess.“ Orðið atvik merkir 'eitthvað sem gerist, atburður' og er auðvitað algerlega út úr kú þarna. Með notkun þess virðist gefið í skyn að það sem hefur verið gagnrýnt hafi bara gerst si svona án þess að um nokkrar meðvitaðar ákvarðanir hafi verið að ræða (hvað þá „einbeittan brotavilja“). Það er býsna slappt.