Halla Hrund Logadóttir og fleiri þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram eftirfarandi tillögu til þingsályktunar um íslenskukennslu fyrir innflytjendur: „Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga, að útfæra fjárhagslega hvata á borð við skattfrelsi eða aðrar ívilnanir til að gera eldri borgurum kleift að veita innflytjendum íslenskukennslu og taka þátt í samtalsverkefnum til að efla íslenskukunnáttu þeirra.“ Markmið tillögunnar er að efla íslenskukunnáttu innflytjenda og stuðla að auknum menningarlegum tengslum ólíkra þjóðfélagshópa, og einnig að auka samfélagslega þátttöku eldri borgara.
Í greinargerð segir: „Þrátt fyrir aukið framboð á íslenskunámskeiðum hefur íslenskukunnátta innflytjenda batnað minna en vonir stóðu til.“ Ástæðurnar eru m.a. sagðar „skortur á fullnægjandi málstuðningi, sérstaklega í leik- og grunnskólum; fá tækifæri til að eiga samtöl á íslensku utan formlegs skólaumhverfis; fá tækifæri til að æfa framburð og talfærni; félagsleg fjarlægð milli hópa sem hamlar samskiptum og samfélagsþátttöku“. Þetta er allt satt og rétt, og einnig það sem segir í framhaldinu: „Lykilverkefni næstu ára er að tryggja að einstaklingar og fjölskyldur sem setjast hér að tileinki sér tungumálið svo að ekki myndist tvær þjóðir í einu landi með ólík tækifæri til framtíðar. Samtal við Íslendinga skiptir þar lykilmáli.“
En þótt markmið tillögunnar sé göfugt verður að setja spurningarmerki við aðferðina. Það virðist vera nokkuð útbreidd skoðun að til að geta kennt innflytjendum íslensku þurfi ekki annað en tala málið og af tillögunni má ráða að gert sé ráð fyrir því að hver sem er geti stokkið inn í íslenskukennslu án nokkurs sérstaks undirbúnings. En það má ekki gleyma því að kennsla – ekki síður íslenskukennsla en annað – er fag sem fólk menntar sig til í mörg ár. Okkur sárvantar kennara með sérmenntun í kennslu annars máls, og það er sannarlega ekki hvetjandi fyrir fólk að fara í slíkt nám ef starfið er gengisfellt á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir. Að kalla þetta „kennslu“ og tala um „að veita innflytjendum íslenskukennslu“ er fyrir neðan allar hellur.
Það breytir því ekki að vissulega gætu áhugasamir eldri borgarar gert gagn í samtalsþjálfun en ég hef miklar efasemdir um að slík vinna ætti að vera launuð – mun eðlilegra væri að kanna áhuga eldri borgara á sjálfboðavinnu við að tala við innflytjendur og sjálfsagt að athuga hvernig væri hægt að útfæra slíkt. Ég er hræddur um að samþykkt tillögu af þessu tagi yrði fyrst og fremst skálkaskjól fyrir stjórnvöld – ódýr en gagnslítil aðferð til að halda því fram að verið væri að efla kennslu íslensku sem annars máls. Það vekur líka athygli að ekkert kemur fram í greinargerð um að nokkurt samráð hafi verið haft við sérfræðinga eða kunnáttufólk á þessu sviði. Þótt tillagan sé lögð fram af góðum hug tel ég að skaðlegt væri að samþykkja hana.