Posted on

Handtaka

Í morgun hef ég séð fjölda fólks gera athugasemdir við það að fjölmiðlar skuli nota orðið handtaka (bæði sem nafnorð og sögn) í frásögnum af aðgerðum Ísraelshers gegn Möggu Stínu og öðrum skipverjum á Conscience. Mörgum finnst að með því að nota þetta orð sé verið að viðurkenna lögmæti aðgerðanna og í staðinn ætti að tala um ólögmæta handtöku, sjórán, mannrán eða eitthvað annað. Nú er rétt að nefna að þótt þeim sem gera athugasemdir við orðanotkunina og fleiri, þ. á m. mér, finnist ljóst að Ísraelsmenn hafi enga heimild samkvæmt alþjóðalögum til að stöðva skip á leið til Gasa og færa þau til hafnar er það ekki alveg óumdeilt. Gefum okkur samt að þetta sé óheimilt – leiðir það þá til þess að orðið handtaka eigi ekki við?

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið handtaka skýrt 'frelsissvipting í tiltölulega skamman tíma' og samhljóma sögn er skýrð 'taka (e-n) höndum (af yfirvaldi), taka einhvern fastan'. Skilgreining nafnorðsins í „Lögfræðiorðasafni“ í Íðorðabankanum er 'Frelsissvipting í tiltölulega skamman tíma í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls ellegar til að halda uppi lögum og reglu' og bætt er við skýringunni 'Yfirleitt er það lögregla sem tekur ákvörðun um handtöku og framkvæmir hana'. Aðgerðir Ísraelshers geta fallið undir þessar skilgreiningar – þarna eru það hernaðaryfirvöld (sem jafngilda lögreglu) sem framkvæma aðgerðina og halda því væntanlega fram að þau séu að „halda uppi lögum og reglu“ með aðgerðum sínum.

Skilgreiningar orðsins handtaka, hvort sem litið er á nafnorðið eða sögnina, fela í sjálfu sér ekki í sér að um lögmæta aðgerð sé að ræða – enda væri þá ekki hægt að tala um ólögmæta eða ólöglega handtöku sem þó er oft gert. Þess vegna er ekki hægt að halda því fram að orðið sé beinlínis ranglega notað í fréttum af umræddri aðgerð. Hitt er annað mál að væntanlega gerum við flest ósjálfrátt ráð fyrir því að lögregla og önnur yfirvöld fari að lögum í aðgerðum sínum og handtaka sé því að jafnaði lögmæt aðgerð. Þess vegna má halda því fram að handtaka sé ekki heppilegt orð þarna – en það eru sjórán og mannrán tæpast heldur vegna þess að með þeim er fullyrt um ólögmæti umdeildra aðgerða. Hlutlausasta orðið þarna væri líklega frelsissvipting.

Þetta er gott dæmi um það að fjölmiðlar þurfa að huga vel að orðanotkun sinni í umfjöllun um viðkvæm og umdeild málefni. Það er nefnilega ekki bara bókstafleg merking orðanna sem skiptir máli, heldur þau hughrif og hugrenningatengsl sem þau vekja. Það er ekki óeðlilegt að fjölmiðlar fari varlega og reyni að nota hlutlaus orð þótt þar með megi búast við að allir aðilar verði ósáttir við orðanotkunina – bæði þau sem vilja taka tiltekna afstöðu og þau sem vilja taka þveröfuga afstöðu. Þetta hefur komið skýrt fram á undanförnum mánuðum í fréttaflutningi af hryllingnum á Gasa þar sem íslenskir fjölmiðlar hafa smátt og smátt farið að nota gildishlaðnara og afdráttarlausara orðalag eftir því sem fleiri sönnur eru færðar á grimmdarverk Ísraelshers.

Posted on

Ungfrú Ísland TEEN

Ég hef undanfarið skrifað marga pistla um mikilvægi þess að auka og bæta kennslu í íslensku sem öðru máli og auðvelda innflytjendum þannig að taka fullan þátt í samfélaginu og nýta kunnáttu sína og þekkingu. Stundum finnst mér þetta samt býsna tilgangslaus barátta þegar ég sé hvernig margir Íslendingar gefa skít í móðurmálið og nota ensku þess í stað, algerlega að ástæðulausu. Dæmum um þetta fer sífellt fjölgandi og eitt þeirra verstu sem ég hef séð rakst ég á áðan eftir að hafa séð frétt um keppnina „Ungfrú Ísland Teen“ sem verður haldin í Reykjavík eftir hálfan mánuð. Mér fannst heitið dálítið sérkennileg og hallærisleg blanda af íslensku og ensku og fór að kynna mér málið nánar. Þá kom í ljós að enskan var ekki bara í heiti keppninnar.

Í frétt í Vísi frá því í vor segir: „Ungfrú Ísland hefur kynnt nýtt vörumerki keppninnar, Ungfrú Ísland Teen, sem er keppni ætluð stúlkum á aldrinum 16 til 19 ára.“ Það liggur beint við að ætla að um sé að ræða íslenskar stúlkur, en þegar ég fór að skoða heimasíðu keppninnar kom í ljós að hún var eingöngu á ensku. Þar er keppnin kynnt svo: „Ungfrú Ísland TEEN is a transformative program designed to inspire, support, and empower teen girls across Iceland.“ Síðan fylgir langur texti, allur á ensku, þar sem m.a. segir: „Ungfrú Ísland TEEN is designed for girls aged 16 to 19 years old. The program is specifically tailored to meet the needs of teenage girls, offering guidance and empowerment during this crucial period in their lives.“

Þótt textinn sé á ensku er ljóst að honum er beint til Íslendinga, ekki síst ungra stúlkna – á síðunni er t.d. hlekkur á skráningarblað með fjölda spurninga sem allar eru á íslensku. Á síðunni er einnig listi yfir „Team“ og það eru nánast allt Íslendingar. Það er því hvorki hægt að skýra enskuna með því að aðstandendur kunni ekki íslensku né með því að verið sé að höfða til fólks sem ekki kann íslensku. Auðvitað kann að vera að aðstandendum keppninnar þyki ástæða til að kynna hana á erlendum vettvangi en það er engin afsökun fyrir því að hafa síðuna eingöngu á ensku. Sama gildir um aðalkeppnina, „Ungfrú Ísland“ – allar upplýsingar um hana á síðunni eru eingöngu á ensku, en umsóknareyðublað um þátttöku er hins vegar á íslensku.

Þetta er óvenju skýrt dæmi um undirlægjuhátt gagnvart ensku sem er ekki bara ástæðulaus og óþarfur – hann er líka beinlínis skaðlegur vegna þess að þarna er verið að höfða til ungs fólks og rannsóknir sýna að viðhorf ungu kynslóðarinnar til móðurmálsins skiptir sköpum fyrir framtíð þess. Þegar enska er notuð á þennan hátt til að höfða til ungs fólks er verið að senda þau skilaboð að íslenskan sé hallærisleg, hún eigi ekki við í heimi unga fólksins, í heimi framtíðarinnar. Það er sannarlega ekki til þess fallið að skapa jákvætt viðhorf til tungunnar. Mér dettur ekki í hug að það sé með ráðum gert hjá aðstandendum keppninnar að vinna svona gegn íslenskunni, en þetta er hugsunarleysi sem við megum ekki láta viðgangast athugasemdalaust.

Posted on

Samstaða um eflingu íslenskunnar

Í framhaldi af athugasemdum sem ég gerði við frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár stofnaði ég fyrir viku undirskriftalista á Ísland.is þar sem skorað er „á ríkisstjórn og Alþingi að stórhækka framlög til kennslu í íslensku sem öðru máli í fjárlögum ársins 2026“. Ég vissi svo sem ekkert hverjar undirtektir þessi listi fengi en get ekki kvartað – nú eru komnar á fimmtánda hundrað undirskriftir og sagt hefur verið frá listanum í Vísi, á Bylgjunni og á mbl.is, ekki einu sinni heldur tvisvar. Það er gott, því að markmiðið með listanum er ekki bara að fá sem flestar undirskriftir heldur líka að vekja athygli á málinu og skapa þannig þrýsting á stjórnvöld í von um að þeim skiljist að þetta er mjög mikilvægt mál sem nýtur verulegs stuðnings í samfélaginu.

Þótt áskoruninni sé beint til stjórnvalda á hvatning til að styðja við kennslu í íslensku sem öðru máli ekki síður erindi til atvinnurekenda – fyrirtækja og stofnana sem eru með fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli í vinnu. Það er nauðsynlegt að fólk fái tækifæri til að stunda íslenskunám, sé hvatt til þess og því liðsinnt eftir því sem kostur er, svo sem með því að bjóða upp á íslenskunám á vinnutíma. Síðast en ekki síst á þessi hvatning erindi til okkar allra – við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að auðvelda fólki íslenskunám, nota íslensku í samskiptum við innflytjendur ef þess er nokkur kostur (án þess að sýna ókurteisi), taka tilraunum fólks til að tala íslensku vel og ýta undir þær. Þetta kostar ekki neitt – nema tillitssemi.

Mér finnst mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að málið snýst ekki bara um íslenskuna og framtíð hennar, heldur einnig og ekki síður um það í hvers konar samfélagi við viljum búa í framtíðinni – og búa börnum okkar. Viljum við búa í samfélagi þar sem íslenskan er burðarás og sameiningartákn, þar sem hún er samskiptamál á öllum sviðum og menningarmiðlari, sameign íbúanna – eða viljum við búa í samfélagi þar sem umtalsverður hluti íbúanna talar ekki íslensku, festist í láglaunastörfum og einangrast í afmörkuðum samfélögum, og tekur ekki þátt í samfélagslegri umræðu, kosningum eða neins konar félags- og menningarstarfi? Ég vonast til og geri ráð fyrir að fæstum hugnist síðarnefndi kosturinn – en þá þurfum við að sýna það í verki.

Ég hef iðulega verið sakaður um að hrópa „úlfur, úlfur“, mála skrattann á vegginn og hafa uppi hræðsluáróður, dómsdagsspár og annað þaðan af verra þegar ég bendi á þá leið sem mér sýnist íslenskan og íslenskt samfélag vera á. Sannarlega vonast ég til að ég hafi rangt fyrir mér og íslenskan standi þetta af sér eins og hún hefur gert hingað til, þrátt fyrir að utanaðkomandi þrýstingur á hana sé meiri en nokkru sinni fyrr, og annars eðlis sem gerir erfiðara að standast hann. En ekki veldur sá er varar, og ég ætla ekki að verða sá sem taldi sig sjá hættumerki en lét vera að benda á þau. Jafnvel þótt hættan reynist minni en mér sýnist og allt fari á besta veg getur aldrei verið nema til góðs að leggja meira rækt við íslenskuna.

En það hefur alltof lítið verið gert til að styrkja íslenskuna og gera henni kleift að standast þennan þrýsting. Ég reyni yfirleitt að vera bjartsýnn og hef iðulega talað fyrir jákvæðri umræðu um íslenskuna en óraunsæ bjartsýni getur samt komið manni í koll, og ég hef raunverulegar og einlægar áhyggjur af framtíð íslenskunnar. Hún er vitanlega ekki að fara að deyja á næstunni, en eftir því sem vægi ensku sem samskiptamáls eykst veikist íslenskan og verður undir – og hverfur að lokum. Góðu fréttirnar eru samt þær að þetta þarf ekkert að fara þannig. Við getum alveg snúið þróuninni við, eflt íslenskuna og gert hana að þeirri sameign sem hún þarf að vera. Takist að skapa um það samstöðu stjórnvalda, atvinnulífs og almennings er ástæða til bjartsýni.

Posted on

Brotið Internet

Fyrir viku skrifaði ég um sambandið brotin enska sem er töluvert notað á seinustu árum og augljóslega komið beint úr ensku, broken English. Í umræðum í „Málspjalli“ var drepið á ýmis önnur sambönd þar sem sögnin brjóta er notuð á seinni árum en aðrar sagnir voru frekar notaðar áður fyrr – brotin hjörtu, brotin loforð, brotin sambönd, brotnar fjölskyldur o.fl. Sumt af þessu er reyndar nokkuð gamalt og óvíst að það megi allt rekja til erlendra áhrifa, en enginn vafi er á enskum áhrifum í sambandi sem ég rakst á í fyrirsögn á Vísi í dag: „Sjóðheitar skvísur í hvolpajóga brutu næstum Internetið.“ Sambandið break the Internet er komið úr ensku – varð til á tíunda áratugnum og vísaði upphaflega til þess að rjúfa tengingu einstaks tækis við netið.

Ekki er að sjá að sambandið hafi ratað inn í íslensku í þeirri merkingu. En upp úr 2010 var farið að nota sambandið í óeiginlegri merkingu um eitthvað sem orsakar gífurlega netumferð eða athugasemdaflæði á samfélagsmiðlum – og er oft til þess ætlað. Sambandið náði miklu flugi eftir að það var notað við mynd af Kim Kardashian á forsíðu tímaritsins Paper árið 2014 – „Það má eiginlega segja að raunveruleikastjarnan Kim Kardashian eigi frasann Break the internet, eða Brjótið internetið, eftir að hún sat fyrir á forsíðu sama tímarits, Paper, árið 2014“ segir í Vísi 2017. Það leið ekki á löngu uns farið var að nota íslenska gerð sambandsins – strax árið 2014 má finna fjölda dæma um hana í ýmsum miðlum, þar á meðal eftirfarandi:

Í Bleikt segir: „Löngu áður en Kim reyndi að brjóta Internetið með afturenda sínum var Jennifer búin að vera nakin á forsíðu tímarits.“ Í DV segir: „Nægir þar að nefna nýlegar myndir af Kim Kardashian sem áttu víst að brjóta internetið.“ Í mbl.is segir: „Fyrir skömmu reyndi afturendi Kim Kardashian að „brjóta internetið“.“ Á Twitter segir: „Auðvitað á konan sem braut internetið að verða manneskja ársins hjá Time.“ Í einu ofangreindra dæma, og í örfáum öðrum dæmum í Risamálheildinni, eru reyndar gæsalappir um sambandið, en langoftast er það notað án þess að nokkuð bendi til þess að höfundum finnist það sérkennilegt í íslensku samhengi. Alls er á annað hundrað dæma um það í Risamálheildinni, rúmur helmingur á samfélagsmiðlum.

Það er athyglisvert og umhugsunarvert hvernig margir íslenskir miðlar tóku enska sambandið algerlega hrátt upp þegar í stað, án þess að hugsa út í – eða hirða um – að því fer fjarri að enska sögnin break samsvari alltaf íslensku sögninni brjóta. Grunnmerkingin er vissulega sú sama en báðar sagnirnar hafa ýmsar aukamerkingar sem ekki eru þær sömu í málunum tveimur. Dæmum af þessu tagi, þar sem íslensk orð eru notuð eins og um væri að ræða ensk orð sem hafa svipaða merkingu, fer sífellt fjölgandi. Það er vont, vegna þess að það bendir til minnkandi kunnáttu í íslensku, vaxandi ónæmis fyrir áhrifum enskunnar, og dofnandi vitundar um sérstöðu og sérkenni tungumála – bæði íslensku og ensku. Reynum að draga úr slíkum áhrifum enskunnar.

Posted on

Að bera börn

Í „Málspjalli“ vakti hópverji athygli á orðalagi í dapurlegri frétt Vísis af nauðungarflutningi erlendrar fjölskyldu úr landi, „Taimova þurfti að fara í keisaraskurð til að bera tvíburana“ og sagðist „vona að blaðamaðurinn hafi hlaupið á sig“ þar sem konur fæddu börn jafnvel þótt það væri með keisaraskurði. Þetta orðalag var einnig til umræðu í „Málvöndunarþættinum“ og er svo sem ekki undarlegt, því að það er vissulega mjög óvanalegt í nútímamáli að nota sögnina bera um konur. Við erum vön því hún sé eingöngu notuð þegar ær og kýr eignast afkvæmi, og þá tekur hún með sér andlag í þágufalli en ekki þolfalli eins og þarna – ærin bar tveimur lömbum, kýrin bar rauðum kálfi. En auk þess er andlaginu oft sleppt – kýrin bar í gær.

Þetta þýðir hins vegar ekki að orðalagið í fréttinni sé úr lausu lofti gripið – sögnin bera var nefnilega notuð um konur áður fyrr. Í Stokkhólms Hómilíubókinni frá um 1200 segir: „Óbyrjan bar Jóan.“ Í Norsku Hómilíubókinni frá fyrsta hluta þrettándu aldar segir: „Hún bar drottin vorn.“ Í Maríu sögu segir: „Þann mun hún bera í heim, er leysir alla frá svikum og syndum.“ Í Snorra-Eddu segir: „Hann báru að syni meyjar níu og allar systur“, „Þau áttu sonu átján og voru níu senn bornir“ og „Enn eru fleiri nornir, þær er koma til hvers barns, er borið er“. Sögnin bera var einnig notuð um ær og kýr í fornu máli eins og nú, en stjórnaði þá oftast þolfalli þótt þágufalli bregði fyrir – „síðan á 17. öld oft með afkvæmið í þgf.“ segir í Íslenskri orðabók.

Þótt sjaldgæft sé bregður því líka fyrir í nútímamáli að sögnin bera sé notuð um barnsfæðingar. Í Morgunblaðinu 1920 segir: „það gengur glæpi næst að bera börn í heiminn þar sem þannig er ástatt.“ Í Skírni 1957 segir: „Nína gat ekki borið fleiri börn í heiminn.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Til hvers er barn í heiminn borið, ef það þarf svo ungt að falla í valinn?“ Í Morgunblaðinu 1974 segir: „Hún hefur borið 11 börn í heiminn.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Ég bar þrjú börn í heiminn fyrir tímann.“ Á Bland.is 2006 segir: „Þú hefur borið 4 börn í heiminn.“ Í Morgunblaðinu 2019 segir: „á allri þessari vinnusömu ævi gekk hún um á fötluðum fæti, bar átta börn í heiminn.“ „Borið er oss barn í nótt“ segir í nýlegri sálmaþýðingu.

Auk þessa má benda á að lýsingarhátturinn borinn merkir 'fæddur' í föstum orðasamböndum eins og borinn og barnfæddur og í heiminn borinn sem bæði eru mjög algeng. Nafnorðið burður sem er leitt af sögninni bera hefur líka merkinguna 'fæðing' í samböndum eins og barnsburður. Það má því renna ýmsum stoðum undir orðalagið í áðurnefndri frétt Vísis og hæpið að halda því fram að það sé rangt þótt vissulega sé ekki óeðlilegt að það komi mörgum spánskt fyrir sjónir. Hitt er annað mál að það má alveg velta því fyrir sér hvort heppilegt sé að nota orðalag sem búast má við að sé flestum lesendum framandi, enda þótt það styðjist við forna hefð. Í þessu tilviki dregur óvenjulegt orðalag athyglina kannski frá efni fréttarinnar.

Posted on

Hækkun fjárveitinga til kennslu í íslensku sem öðru máli

Fjölgun fólks af erlendum uppruna undanfarinn áratug á sér ekki fordæmi. Fyrir áratug voru erlendir ríkisborgarar um 10% íbúa en eru nú um 20%, og um fjórðungur fólks á vinnumarkaði er af erlendum uppruna. Í skýrslu OECD um málefni innflytjenda á Íslandi sem birt var fyrir ári kom fram að hlutfall innflytjenda í ríkjum OECD sem telja sig hafa sæmilega færni í tungumáli landsins þar sem þeir búa er hvergi lægra en á Íslandi. Hér er það innan við 20%, en á bilinu 45-60% annars staðar á Norðurlöndum – meðaltalið í ríkjum OECD er tæp 60%. Þetta endurspeglar það að fjárveitingar á hvern innflytjanda til kennslu íslensku sem annars máls eru ekki nema brot af því sem önnur Norðurlönd verja til kennslu í þjóðtungum sínum.

Innflytjendur hafa átt stóran þátt í hagvextinum undanfarin ár og halda í raun uppi heilum atvinnugreinum eins og ferðaþjónustu og byggingariðnaði, og þeim fer einnig ört fjölgandi í heilbrigðiskerfinu. En margir þeirra búa yfir fjölbreyttri menntun og þekkingu sem nýtist ekki sem skyldi, ekki síst vegna takmarkaðrar íslenskukunnáttu þeirra. Þeir festast því iðulega í láglaunastörfum þar sem vinnutími er langur og þeir hafa fyrst og fremst samskipti við aðra innflytjendur og fá því lítil tækifæri til að læra íslensku. Skortur á íslenskukunnáttu hamlar einnig þátttöku innflytjenda í lýðræðislegri umræðu og kosningaþátttaka þeirra er mun minni en innfæddra. Börn innflytjenda eru enn fremur í meiri hættu að falla brott úr skólum.

En takmörkuð íslenskukunnátta innflytjenda bitnar ekki einungis á þeim sjálfum, heldur hefur einnig margvísleg áhrif á innfædda Íslendinga og samfélagið í heild. Fjöldi innflytjenda í ýmiss konar þjónustustörfum, svo sem við afgreiðslu í veitingahúsum og verslunum, veldur því að víða getur verið erfitt að fá þjónustu á íslensku. Við þurfum á þessu fólki að halda, og það hefur verið ráðið til starfa án þess að gerðar væru kröfur um íslenskukunnáttu, en skiljanlega veldur þetta stundum pirringi hjá viðskiptavinum sem telja sig – með réttu – eiga að geta fengið þjónustu á þjóðtungu og opinberu tungumáli landsins. Þetta er óheppilegt vegna þess að hætta er á að pirringurinn bitni á starfsfólkinu og leiði jafnvel til útlendingaandúðar þegar verst lætur.

Þá eru ónefnd þau áhrif sem það hefur á íslenskuna og framtíð hennar að umtalsverður hluti íbúa landsins hefur hana ekki á valdi sínu. Nú þegar er fjórðungur fólks á vinnumarkaði af erlendum uppruna eins og áður segir, og því hefur verið spáð að um miðja öldina gæti hlutfallið verið orðið helmingur. Fæstir innflytjendur eiga ensku að móðurmáli en reynslan sýnir að þeir læra (ófullkomna) ensku eftir að þeir koma til landsins og nota hana sem samskiptamál við innfædda, og einnig í samskiptum við aðra innflytjendur af ólíku þjóðerni. Ef bjöguð enska dugir til daglegra nota er lítil hvatning til að læra íslensku. Hlutverk hennar sem samskiptamáls verður því sífellt minna og ef ekkert er að gert er hætta á að hún verði undir í atvinnulífinu.

Verði ekkert gert til að auka íslenskukunnáttu innflytjenda stefnir því í óefni – fyrir fólkið sjálft, fyrir samfélagið, og fyrir íslenskuna. Það eru allar líkur á að innflytjendum haldi áfram að fjölga, og jafnvel þótt fjölgunin stöðvaðist er fæst af því fólki sem hingað er komið á leið burt. Meginhluti þess stóra hóps hefur lítið vald á íslensku og eftir því sem fólkið dvelur hér lengur án þess að læra málið minnka líkurnar á að það geri það nokkurn tíma. En jafnframt aukast líkurnar á að hér verði til einangruð samfélög innflytjenda þar sem íslenska er lítið notuð og í raun óþörf – samfélög sem einkennast af lágum launum og lítilli menntun. Við höfum ýmis dæmi frá grannlöndunum sem sýna okkur hvílík óheillaþróun slíkt væri fyrir íslenskt samfélag.

Það er þess vegna allra hagur að gert verði átak í kennslu íslensku sem annars máls. Fólkið sjálft verður hreyfanlegra á vinnumarkaði og hefur möguleika á að vinna sig upp í starfi, á auðveldara með að liðsinna börnum sínum við nám, og getur tekið meiri þátt í hvers kyns félagsstarfi og lýðræðislegri umræðu. Atvinnulífið fær hæfara starfsfólk sem á auðveldara með margs konar samskipti og nýtir betur kunnáttu sína og þekkingu, og verður þar með ánægðara í starfi. Innfæddir Íslendingar munu geta notað móðurmálið við margvíslegar aðstæður þar sem nú verður iðulega að nota ensku. Síðast en ekki síst blómstrar íslenskan vegna þess að notendum hennar fjölgar og notkunarsvið hennar stækkar í stað þess að skreppa saman.

Posted on

Brotin enska

Áhrif ensku á íslensku fara vaxandi og koma fram á ýmsan hátt. Stundum birtast þau í því að enska kemur beinlínis í stað íslensku, svo sem á skiltum, í auglýsingum, í heitum staða og viðburða o.s.frv., eða jafnvel sem vinnu- og samskiptatungumál. Einnig er mikið um að ensk orð séu tekin inn í málið, stundum alveg óbreytt með enskum framburði og stafsetningu en stundum meira og minna aðlöguð íslenskum framburði, beygingakerfi og rithætti. Hvort tveggja er augljóst og yfirleitt auðvelt að varast – ef við viljum. En lúmskustu áhrifin felast í því þegar ensk orðasambönd eru þýdd orðrétt á íslensku, með íslenskum orðum – bara öðrum orðum en venja er að nota í viðkomandi merkingu. Þetta getur verið býsna erfitt að varast.

Eitt slíkt dæmi er sambandið brotin enska sem nú er stundum notað um það sem heitir broken English á ensku. Elsta dæmi sem ég finn um það er frá 1905, „„Hvað gengur að þér, drengur minn,“ sagði ég á brotinni ensku“ í tímaritinu Freyju sem var gefið út í Kanada. En síðan finn ég ekki dæmi fyrr en í Alþýðublaðinu 1991: „„Hér verður bylting“, tautaði þjónninn á brotinni ensku.“ Í Degi 2000 segir: „Það tók mig dálítinn tíma að finna hvar hann ætti að liggja, en ákvað á endanum að hann ætti að tala brotna ensku.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Ég minnist þess jafnframt að hafa sem lítill drengur gengið um í garðinum heima og talað brotna ensku upphátt.“ Dæmum fer svo fjölgandi eftir aldamótin, og í Risamálheildinni eru 25 dæmi um sambandið.

Í „Sandkorni“ DV 2008 segir: „Í vikunni gaf Bjartur út bókina Ludmila's Broken English eftir DBC Pierre. […] [Í]slenskur titill bókarinnar er breytilegur eftir því hvort skoðuð er kápa bókarinnar, hlífðarkápa eða títilsíða. Hann er ýmist Brotin enska Lúdmílu eða Bjöguð enska Lúdmílu.“ Þetta skýrist í pistli Þrastar Helgasonar í Lesbók Morgunblaðsins skömmu síðar: „Í grein um bókina Bjöguð enska Lúdmílu eftir DBC Pierre í Lesbók 3. maí sl. er hún sögð bera titilinn Brotin enska Lúdmílu. Þessi titill er ekki frá þýðandanum Árna Óskarssyni kominn, heldur varð til vegna mistaka við útgáfu bókarinnar. Mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en bókin hafði verið prentuð og brá útgáfan þá á það ráð að prenta lausa kápu með hinum rétta titli.“

Þarna rekst á hefðbundið og enskt orðalag og greinilegt að máltilfinning þeirra sem komu að útgáfu bókarinnar hefur verið mismunandi. Orðalagið bjöguð enska hefur verið algengt síðan á nítjándu öld – í Lögbergi 1888 segir: „Við töluðum dálítið saman, því að hann gat talað bjagaða ensku.“ Alls er hátt á sjötta hundrað dæma um bjagaða ensku á tímarit.is, og tæp þrjú hundruð í Risamálheildinni. Á tímarit.is er líka fjöldi dæma um bjagaða íslensku, bjagaða dönsku, bjagaða frönsku, bjagaða þýsku o.fl., en engin dæmi um brotinn með öðrum tungumálaheitum en ensku, fyrir utan fjögur um brotna íslensku. Það er því ljóst að bjöguð enska er enn hið venjulega orðalag um þessa merkingu þrátt fyrir að sambandið brotin enska sæki á.

Hliðstæðum dæmum um beinþýdd ensk orðasambönd fer ört fjölgandi og ástæðulaust að tína til dæmi hér. Það má vissulega segja að þetta sé meinlaust að því leyti að orðin eru auðvitað íslensk, og sannarlega hafa beinþýdd erlend sambönd streymt inn í málið á öllum tímum, áður fyrst og fremst úr dönsku, og eru miklu fleiri en við áttum okkur á. Ég ætla ekki að leggja til að fólk forðist að tala um brotna ensku – það samband er komið inn í málið og tæpast á útleið. En mér finnst samt skipta máli að við vitum af því að það er hægt – og venja – að orða þetta öðruvísi. Aðalástæðan fyrir því að ég geld varhug við straumi enskættaðra orðasambanda inn í málið er ekki samböndin sjálf, heldur að þau benda til að fólk þekki ekki hefðbundið orðalag.

Posted on

TV1 Magazine

Fyrir nokkrum dögum fór í loftið nýr fjölmiðill, TV1 Magazine, sem Þorsteinn J. Vilhjálmsson stendur að. Í viðtali við Þorstein á vef Ríkisútvarpsins kemur fram að hann telur „mögulegt að nafn miðilsins komi einhverjum spánskt fyrir sjónir“ en slær það út af borðinu: „„Þetta er íslenskur fjölmiðill en um leið hugsa ég að við séum í samkeppni við aðra fjölmiðla í heiminum,“ segir Þorsteinn og nefnir Politiken í Danmörku, Times á Englandi eða New York Times í Norður-Ameríku.“ Það er metnaðarfullt en í góðu lagi að telja sig vera í samkeppni við þessa miðla en vegna þess að efni miðilsins er allt á íslensku hlýtur sú samkeppni eingöngu að vera um íslenska fjölmiðlaneytendur og því óþarfi að höfða til annarra með ensku nafni.

Þorsteinn bætir við: „Mér finnst TV1 Magazine alveg jafn gott nafn og Eimreiðin eða Ísafold en það er efnið sjálft sem skiptir öllu máli.“ Það er reyndar ekki bara nafnið sem er á ensku – valmöguleikarnir á síðunni eru nefnilega „TV“, „Radio“, „Magazine“, og svo af einhverjum ástæðum ekki „About us“ heldur „Um okkur“ sem er eiginlega dálítið stílbrot. En það er reyndar ekki rétt að efnið skipti öllu máli og ég hef enga trú á því að Þorsteinn meini það bókstaflega. Nafnið skiptir auðvitað heilmiklu máli líka – það er vörumerki miðilsins og það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að það er valið, einhver hugsun á bak við það. Og það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að valið er að hafa heiti íslensks fjölmiðils á ensku en ekki íslensku.

Það liggur auðvitað beint við að álykta að ástæðan sé sú sama og oftast er fyrir enskum heitum á íslenskum fyrirbærum, hvort sem það eru veitingastaðir, viðburðir, fjölmiðlar eða eitthvað annað – sem sé sú að íslenskan er hallærisleg, gamaldags og ósöluvænleg að mati þeirra sem velja heitin. Til að eitthvað veki athygli, til að það höfði til nútímafólks, og síðast en ekki síst til að það seljist, þarf það að heita ensku nafni – eða hvað? Er þetta kannski bara tilfinning þeirra sem velja nöfnin sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum? Ég veit ekki til þess að afstaða almennra málnotenda og neytenda til íslenskra og enskra heita hafi verið könnuð. Er það tilfellið að fólk velji fremur vöru eða afþreyingu sem heitir ensku nafni – eða er það bara ímyndun?

En hvort sem um er að ræða ímyndun eða ekki er ljóst að það vinnur gegn íslenskunni að gefa fyrirbærum ensk heiti án þess að gildar ástæður séu fyrir því. Í þessu tilviki er ekki einu sinni hægt að bera fyrir sig þá skýringu sem veitingastaðir og viðburðahaldarar nota oft, að verið sé að höfða til ferðafólks og innflytjenda sem ekki skilji íslensku. Ég veit að Þorsteinn J. Vilhjálmsson er góður fjölmiðlamaður og mér líst vel á þennan miðil, en þeim mun dapurlegra finnst mér nafn hans. Ég veit að mörgum finnst það smámunasemi að amast við enskum heitum á ýmsum íslenskum fyrirbærum og telja þau ekki hafa nein áhrif á stöðu og framtíð íslenskunnar – ekki frekar en ensk skilti, auglýsingar, merkingar, matseðlar og annað slíkt. En það er rangt.

Eins og ég hef sagt ótal sinnum hefur þetta miklu meiri áhrif á málið og framtíð þess en við áttum okkur á í fljótu bragði. Þau áhrif eru ekki bein nema að takmörkuðu leyti en óbeinu áhrifin á (ómeðvituð) viðhorf okkar og hugmyndir eru miklu meiri og lúmskari. Þau koma bæði fram í því að óþörf enskunotkun skapar þá ímynd íslenskunnar í huga okkar að hún henti ekki, eigi ekki við, eða dugi ekki við tilteknar aðstæður, og einnig í því að hún gerir okkur ónæm fyrir enskunni, lætur okkur hætta að taka eftir henni og finnast eðlilegt að hún sé notuð í stað íslensku við ýmsar aðstæður og ryður henni þannig braut inn á sífellt fleiri svið. Slík þróun dregur smátt og smátt úr viðnámsþrótti íslenskunnar og veikir hana. Það endar ekki vel.

Posted on

Enska í ráðstefnudagskrá

Eitt af því sem grefur undan íslenskunni um þessar mundir er sívaxandi óþörf og ástæðulaus enskunotkun á ýmsum sviðum, svo sem í hvers kyns merkingum, auglýsingum, skiltum o.fl. Þetta var til umræðu á málræktarþingi í gær og er meðal þess sem tekið er fyrir í ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskunnar árið 2025. Þessi óþarfa enska hefur kannski ekki svo mikil bein áhrif á tungumálið þótt erfitt sé að fullyrða nokkuð um það, en óbeinu áhrifin eru þeim mun meiri og alvarlegri. Það eru áhrifin sem þessi enskunotkun hefur á hugarfar okkar. Við hættum að kippa okkur upp við það þótt ýmislegt sem gæti verið á íslensku sé á ensku, hættum að taka eftir því, en það síast samt inn í okkur og ryður enskunni braut inn á önnur svið.

Óþörf enskunotkun er sérstaklega alvarleg hjá þeim sem ættu að standa vörð um íslenskuna. Í fyrstu grein Laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 segir „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi“, og í 8. grein laganna segir „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum […]“. Háskóli Íslands ætti að hafa sérstakar skyldur við íslenskuna og í málstefnu skólans segir líka: „Háskólanum ber því rík skylda til að stuðla að viðgangi íslenskrar tungu […]. Talmál og ritmál Háskólans er íslenska, jafnt í kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu. Íslenska er því sjálfgefið tungumál í öllu starfi skólans og notuð nema sérstakar ástæður séu til annars.“

Þess vegna brá mér þegar ég fór að skoða dagskrá Menntakviku, sem er árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og verður haldin fyrstu helgi í október. Dagskráin er mjög metnaðarfull og þar er á fimmta tug málstofa um fjölbreytileg efni. Málstofurnar eru allar á íslensku nema þrjár – en samt sem áður er öll dagskrárumgjörðin á ensku. Þar eru orð eins og Program, Titles, Participants, Topics, Presentation types, Chair, submissions in this session o.fl. Nú er mér ljóst að þarna er verið að nota erlendan hugbúnað sem væntanlega er ekki í boði á íslensku. Slíkt er ekkert óeðlilegt ef um er að ræða alþjóðlega ráðstefnu, og einnig getur verið eðlilegt að nota þetta innanhúss sem vinnuumhverfi við gerð dagskrárinnar.

En þegar dagskráin er birt almenningi er þetta vitanlega óboðlegt. Ráðstefnan er öllum opin, fer að langmestu leyti fram á íslensku, langflestir fyrirlesarar eru íslenskir, og búast má við að nær allir ráðstefnugestir séu íslenskir eða skilji a.m.k. íslensku. Þess vegna er skýlaus krafa að dagskráin sé birt í íslensku umhverfi, enda þótt hún sé unnin í hugbúnaði á ensku – birting dagskrár á ensku getur ekki fallið undir klausuna „nema sérstakar ástæður séu til annars“ í málstefnu Háskólans. Mér dettur auðvitað ekki í hug að „einbeittur brotavilji“ liggi þarna að baki – þetta er dæmigert hugsunarleysi og skilningsleysi á að svona hlutir skipta máli. Ég hef skrifað Háskólanum og gert athugasemdir við þetta, en ekki fengið nein viðbrögð.

Posted on

Svefniherbergi, svefnerbergi, svefnibergi

Í „Málvöndunarþættinum“ var nýlega spurt um orðmyndina svefniherbergi sem fyrirspyrjandi sagðist oft heyra fólk segja, og velti fyrir sér hvernig stæði á þessu auka-i inni í miðju orði. Í umræðum var nefnt að þessi mynd hefði verið algeng „í gamla daga“. Ég finn nokkuð á annan tug dæma um hana á tímarit.is fram að síðustu aldamótum, það elsta frá 1957 (flest dæmin sem koma þar upp í leit eru skönnunarvillur) en eftir það verður hún mjög algeng. Að vísu þarf að taka tíðninni á tímarit.is með fyrirvara vegna þess að þetta orð kemur langoftast fyrir í fasteignaauglýsingum sem eru endurbirtar margsinnis. En myndin er þó ekki bundin við auglýsingar – um 180 dæmi eru um hana í Risamálheildinni, nær öll af samfélagsmiðlum.

En einnig er slæðingur af dæmum um svefnerbergi, án h, á tímarit.is – að vísu langflest úr margendurbirtum fasteignaauglýsingum frá fyrsta áratug þessarar aldar. Í Risamálheildinni er á annan tug dæma af samfélagsmiðlum um þessa mynd. Bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni er einnig að finna fáein dæmi um myndina svefnbergi, og í Risamálheildinni eru einnig nokkur dæmi af Bland.is um svefnibergi, þar á meðal tvö þar sem augljóslega er verið að vekja athygli á þessari mynd – annað frá 2009, „Hahahaha svefnibergi er best!“ og hitt frá 2013, „og mamma segir svefnibergi þegar hún talar um svefnherbergi“. Í umræðu í „Málvöndunarþættinum“ sagði einn þátttakandi: „Annars heyri ég fyrir mér svefnibergi þegar ég hugsa tilbaka.“

Í umræðunni var bent á að tengihljóðin eða tengistafirnir a, i, u eru oft notuð í samsettum orðum til að brjóta upp samhljóðaklasa – eins og vissulega er í svefnherbergi. Það er alveg hugsanlegt að myndin svefniherbergi hafi orðið til við slíkt innskot, en mér finnst þetta samt ekki dæmigert orð fyrir þá orðmyndun. Í samsettum orðum þar sem seinni liður hefst á h fellur það hljóð nefnilega iðulega brott í framburði – venjulegur framburður á eldhús er t.d. eldús. Sama gildir um svefnherbergi – algengur framburður á því er svefnerbergi. En þegar h fellur brott er ekki lengur neinn samhljóðaklasi sem þarf að einfalda og því eru ekki neinar forsendur fyrir innskotshljóði. Það eru líka engin dæmi um t.d. eldahús eða eitthvað slíkt.

Þótt meginskilin í orðinu séu í svefn og herbergi er það ævinlega borið fram með aukaáherslu á -bergi, en annað atkvæðið, -her-, er áherslulaust enda þótt það sé fyrsta atkvæði í seinni lið orðsins. Vegna þessa áhersluleysis verður framburður þess oft óskýr – h fellur iðulega brott eins og áður segir, og r jafnvel líka. Þá er eingöngu e eftir af orðhlutanum -her- og e í áhersluleysi nálgast oft i enda er i dæmigert áherslulaust sérhljóð en e ekki. Framburðurinn verður þá oft eitthvað í líkingu við svefnibergi þótt sérhljóðið sé sennilega sjaldnast skýrt i heldur einhvers konar óákveðið sérhljóð (táknað [ə] í alþjóðlega hljóðritunarkerfinu). En vegna þess að við erum svo bundin við stafsetninguna tökum við sennilega sjaldnast eftir þessu.

Myndirnar svefnerbergi og svefnibergi eiga sér sem sagt eðlilegar skýringar. Myndin svefnbergi endurspeglar hugsanlega framburð sem er svo hraður eða óskýr að liðurinn -her- fellur (nær) alveg brott. Þá er eftir myndin sem byrjað var á – svefniherbergi. Þar gæti vissulega verið um að ræða innskot tengihljóðs, en mér finnst líka hugsanlegt að þetta sé einhvers konar blendingsmynd. Fólk heyrir svefnibergi sem er algengur framburður eins og áður segir (og e.t.v. sá algengasti í óformlegu tali) og telur því að fyrri hluti orðsins eigi að vera svefni- en þekkir hins vegar úr ritmynd orðsins að þar á að vera -her- og skrifar þess vegna svefniherbergi sem er þá einhvers konar sambland af framburðarmynd og ritmynd. En þetta er bara tilgáta.