Þjóðfélagsbreytingar og málfar

Ég sé oft á Fésbók, m.a. í þessum hópi, að fólk furðar sig eða hneykslast á orðfæri eða orðfátækt ungra blaðamanna. Það er alveg skiljanlegt – ég stend mig iðulega að því sjálfur að hrista hausinn yfir einhverju sem ég sé eða heyri í fréttum og brýtur í bága við það málfar og orðfæri sem ég þekki og ólst upp við. En ég er kominn á sjötugsaldur - alinn upp í sveit fyrir u.þ.b. hálfri öld. Það umhverfi sem blaðamenn (og annað fólk) á þrítugsaldri hafa alist upp í er gerólíkt – á nánast öllum sviðum. Samfélagið hefur gerbreyst, tæknin hefur gerbreyst, tengsl við útlönd hafa margfaldast - allt umhverfi okkar hefur breyst meira en við áttum okkur kannski á í fljótu bragði.

Og breytt þjóðfélag þýðir líka breytt málumhverfi og því fylgir breytt orðfæri – það þarf að tala um ótalmörg ný hugtök, fyrirbæri og svið þjóðlífsins, en ýmis hugtök, fyrirbæri og svið sem flestir þekktu fyrir nokkrum áratugum eru nú á fárra vörum eða jafnvel aðeins minning. Þess vegna er ekki við því að búast að fólk á þrítugsaldri hafi vald á öllu sama orðfæri og við sem munum tímana tvenna. Það hefur einfaldlega ekki fengið tækifæri til að tileinka sér það orðfæri sem tíðkaðist á ýmsum sviðum. En á móti kann þetta unga fólk að tala um allt mögulegt sem við höfum ekki hundsvit á.

Þetta þýðir ekki að við eigum bara að yppta öxlum og láta það afskiptalaust ef brugðið er út af málhefð, þótt rétt sé að hafa í huga að stundum er til önnur hefð en sú sem við þekkjum – hefðir geta verið mismunandi eftir landshlutum, og til getur verið eldri eða yngri hefð en sú sem við höfum vanist. Það er sjálfsagt að leitast við að halda í það orðfæri sem hefð er fyrir, og benda á ef út af bregður. En það er heppilegra að gera það í formi fræðslu og ábendinga en furðu og hneykslunar, þar sem jafnvel er gert lítið úr þeim sem verður eitthvað á að mati umvandara. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs.