Ný lýsingarorð

Nýleg lýsingarorð sem enda á -aður og lýsa ástandi eða eiginleikum fólks hafa undanfarið verið til umræðu í Málvöndunarþættinum á Facebook – orð eins og lyfjaður, verkjaður, vímaður og fleiri. Mörgum finnst þessi orð torkennileg, eins og algengt er með ný orð, og amast heldur við þeim. En er ástæða til þess?

Vissulega er oft hægt að haga máli sínu þannig að þessara orða sé ekki þörf. Í stað þess að segja að einhver sé vímaður má eins segja að hann sé í vímu, í stað þess að einhver sé lyfjaður má segja að hann sé undir áhrifum lyfja o.s.frv. En það eru ekki í sjálfu sér rök gegn orðunum að hægt sé að orða hlutina á annan hátt.

Einu málfræðilegu rökin sem ég hef séð gegn orðum af þessu tagi eru þau að lýsingarorð sem enda á -aður séu yfirleitt upprunalega lýsingarháttur þátíðar af sögnum – sofnaður af sofna, grunaður af gruna, blandaður af blanda o.s.frv. Orðin sem nefnd eru í upphafi eru hins vegar leidd af nafnorðum.

Það er þó ekki einsdæmi að lýsingarorð af þessu tagi séu (eða virðist vera) leidd af nafnorðum. Nefna má orð eins og gallaður, gáfaður, kjarkaður, skeggjaður, timbraður, ættaður og fleiri þar sem ekki verður séð að sögn liggi að baki – auk samsetninga eins og (ber)rassaður, (kald)rifjaður, (rauð)nefjaður, (tví)eggjaður o.fl.

Mörg slík orð eru e.t.v. upphaflega leidd af sögn sem er sjaldgæf eða horfin úr málinu, en samstofna nafnorð algengt. Þannig er það t.d. með orð eins og skýjaður og vængjaður – sagnirnar skýja og vængja eru mjög sjaldgæfar en nafnorðin ský og vængur mjög algeng. Þá er eðlilegt að málnotendur túlki það svo að lýsingarorðið sé leitt af nafnorðinu.

Oft er sagt að í nútímamáli sé tilhneiging til að ofnota nafnorð. Í þessu tilviki er verið að draga úr notkun nafnorða, þótt í litlu sé, með því að nota lýsingarorð í staðinn. Að öllu samanlögðu sé ég enga ástæðu til að amast við orðum af því tagi sem nefnd eru í upphafi. Hins vegar þurfum við auðvitað tíma til að venjast þeim eins og öðrum nýjum orðum.