Verknaðarnafnorð

Mörg nafnorð eru mynduð af sögnum til að tákna þá athöfn eða verknað sem í sögninni felst. Í þessari orðmyndun eru oftast notuð viðskeyti – þau helstu eru -un (hanna – hönnun), -(n)ing (mæla – mæling) og 'sla (keyra – keyrsla). Viðskeytin hafa með sér nokkur verkaskipti – þannig er –un nær eingöngu notað á sagnir sem enda á -aði í þátíð. Nú vill svo til að nánast allar sagnir sem bætast við í málinu eru af þeirri gerð, og þess vegna er –un það eina af þessum viðskeytum sem er notað eitthvað að ráði í nýmyndun orða – af öðrum sögnum er oftast löngu búið að mynda nafnorð, þótt það sé vissulega ekki algilt.

Stundum þróast orð með þessum viðskeytum yfir í það að merkja afurð verknaðarins, frekar en verknaðinn sjálfan. Þannig er t.d. með orðið teikning, sem getur vissulega merkt verknaðinn (teikning myndarinnar tók langan tíma) en er þó langoftast notað um afurðina (teikningin er falleg). Þá er stundum myndað nýtt orð með öðru viðskeyti af sögninni til að tákna verknaðinn – í þessu tilviki orðið teiknun sem aldrei getur merkt afurðina.

Vegna þess að -un er langvirkast af þessum viðskeytum er það stundum notað á sagnir af öðrum flokkum en hefð er fyrir. Í Málvöndunarþættinum á Facebook var í dag til umræðu orðið afmáning sem kom fyrir í frétt í Morgunblaðinu og kom sumum spánskt fyrir sjónir – vildu heldur nota afmáun. Hvorugt orðið er reyndar nýtt – bæði koma fyrir þegar á 19. öld. En vegna þess að sögnin afmá endar ekki á -aði í þátíð samræmist afmáning málhefðinni betur en afmáun. Hvort það dugi til að hafna afmáun læt ég liggja milli hluta, og hvort orðið fer betur í málinu er vitanlega smekksatriði.

Í tengslum við þessa umræðu var nefnt orðið horfun. Þetta orð kom skyndilega inn í málið síðla árs 1986 þegar Stöð 2 hóf útsendingar og fór að metast við Ríkissjónvarpið um það á hvora stöðina væri meira horft. Þá var búið til nafnorðið horfun (og jafnvel áhorfun), væntanlega með hlustun sem fyrirmynd. En sú fyrirmynd var ekki heppileg því að þótt hlusta endi á -aði í þátíð og myndi eðlilega nafnorð með -un gerir horfa það ekki – enda ömuðust margir við þessu orði. Það var þó mikið notað næstu árin (eins og sjá má á tímarit.is). En eftir 1994 dettur það nær algerlega úr notkun og orðið áhorf (sem er gamalt en Baldur Jónsson prófessor hafði stungið upp á að nota þegar 1987) kemur í staðinn.