Valda

Sögnin valda er oft til umræðu í málfarsþáttum, enda er hún ekki einföld í beygingu. Við segjum ég veld í nútíð en í þátíð ég olli, og í lýsingarhætti þátíðar ég hef valdið. Við það bætist að viðtengingarháttur þátíðar er (þótt ég) ylli. Það er engin furða að einhver tilbrigði komi upp í sögn sem hefur svo fjölbreyttar myndir, enda hefur það alla tíð verið svo. Í varðveittum fornum textum koma fyrir 45 mismunandi ritmyndir sem tilheyra þessari sögn, samkvæmt gagnasafni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn – tölurnar sýna tíðni hverrar myndar:

vallda (11); uolldi (5); valdit (4); ollat (4); valldit (3); valda (3); volldi (3); vollde (3); ollath (3); valldannde (2); ollad (2); olli (2); ollu (2); uallda (2); vallde (2); uelldr (1); volþo (1); volle (1); valldanndde (1); valldim (1); uelldur (1); volld (1); Veldrat (1); uolli (1); volli (1); uolle (1); wollde (1); ỏlli (1); Illi (1); volldv (1); ylldi (1); volldit (1); valldi (1); volldu (1); volldet (1); Valld (1); vylldí (1); valldí (1); volðe (1); volldde (1); olluðu (1); velldr (1); olle (1); vollda (1); velldur (1)

Athugið þó að á þessum tíma var stafsetning ekki samræmd þannig að sama beygingarmyndin getur legið að baki fleiri en einni stafsetningarmynd – væntanlega stendur valdit og valldit fyrir sömu myndina sem í nútímamáli yrði rituð valdið. Sömuleiðis stendur ollat, ollath og ollad fyrir sömu myndina sem í nútímamáli yrði rituð ollað. Fyrrnefnda beygingarmyndin, sem nú er talin rétt, kemur fyrir samtals sjö sinnum í fornum textum samkvæmt þessu, en sú síðarnefnda, sem er talin röng, kemur fyrir samtals níu sinnum.

Myndin ollað hefur haldist gegnum alla málsöguna og var sennilega algengari en valdið fram á 19. öld – hún er t.d. oftast notuð í Fjölni, riti Jónasar Hallgrímssonar, Konráðs Gíslasonar og félaga, þótt myndinni valdið bregði þar einnig fyrir. En eftir miðja 19. öld hefur sennilega verið farið að boða að ollað, svo og ollið sem einnig kemur fyrir, væri röng beyging því að þá fer að draga í sundur með myndunum í tíðni, þótt ollað haldist algeng á fyrsta þriðjungi 20. aldar. Á síðustu árum er sú mynd mjög sjaldgæf á tímarit.is en búast má við að hún sé algengari í talmáli.

Umræða um það hvort ollað/ollið sé rétt eða rangt mál er ófrjó og skilar engu. Í staðinn má íhuga hvers vegna þessi tilbrigði koma upp. Sögnin hefur vitanlega mjög sérstaka beygingu og í slíkum tilvikum er eðlilegt að börn á máltökuskeiði sæki fyrirmyndir í önnur og þekktari orð. Í þessu tilviki gæti t.d. verið um að ræða áhrif frá lýsingarhættinum orðið, af verða. Áhrif frá verða, þ.e. þátíð fleirtölu urðu, gætu líka skýrt myndina ullu sem kemur fyrir í stað ollu. Einnig eru þarna hugsanlega áhrif frá sögninni vella sem er ullu í þátíð fleirtölu og ollið í lýsingarhætti þátíðar.

En fleira er áhugavert við beygingu þessarar sagnar. Hún hefur tvær merkingar: 'orsaka eitthvað' og 'ráða við eitthvað'. En þátíðin olli er bara notuð í fyrrnefndu merkingunni – í síðarnefndu merkingunni hefur sögnin enga þátíð. A.m.k. finnst mér útilokað að segja *Hann olli ekki þessu verkefni. Annar möguleiki væri að fá lánaða þátíð samhljóða sagnar, valda (sem einkum er notuð í skák) og segja *Hann valdaði ekki þessu verkefni – en það finnst mér ekki heldur ganga.

Hvers vegna getur þátíðin olli ekki merkt 'réð ekki við'? Hvers vegna hefur sögnin valda enga þátíð í annarri merkingunni? Þetta er ein af þessum skrítnu sérviskum tungumálsins sem gera það svo áhugavert viðfangsefni.