Læra frá

Í sjónvarpsfréttum í gær heyrði ég ungan viðmælanda segja „Ég hef virkilega lært frá þessu“. Þetta hef ég ekki heyrt áður en gúgl skilar mér nokkrum dæmum um þetta frá síðustu árum. Í íslenskri málhefð er forsetningin af vitanlega notuð með læra – við lærum af einhverju, ekki frá því. Það virðist nokkuð ljóst að hér sé um að ræða áhrif frá ensku, learn from.

Það eru dæmi af þessu tagi sem mér finnst mikilvægast að taka eftir og vekja athygli á. Auðvitað eru þetta engin stórkostleg málspjöll, út af fyrir sig. Við tölum um að verða fyrir áhrifum af og verða fyrir áhrifum frá, og þá er stutt yfir í læra frá. En svona dæmi sýna hins vegar hvernig enskan læðist inn í íslenskuna án þess að við tökum eftir því.

Viðbrögðin við því eiga ekki að vera stríð gegn enskunni, eða nöldur yfir einstökum atriðum, heldur styrking íslenskunnar – áhersla á að fólk, ekki síst börn og unglingar, lesi sem mest á íslensku og noti hana á öllum sviðum.