Getur kjöt verið nýslátrað?
Í upphafi sláturtíðar má nánast bóka að umræða um nýslátrað kjöt fari af stað, og það brást ekki að þessu sinni. Ég hef nýlega séð bæði í Málvöndunarþættinum og víðar á Facebook athugasemdir við auglýsinguna „Nýslátrað lambakjöt komið í verslanir Nettó!“. Athugasemdirnar lúta að því að þetta sé órökrétt – og þar með rangt – vegna þess að kjötinu sé ekki slátrað, heldur dýrinu sem kjötið er af. Þess vegna eigi fremur að segja kjöt af nýslátruðu.
Eins og margt annað í málfari sem fólk hnýtir í á það sér langa sögu að tala um nýslátrað kjöt. Elstu dæmi á tímarit.is og í Ritmálssafni Árnastofnunar eru frá 1861, og þetta hefur alla tíð síðan verið algengt – mun algengara en að tala um kjöt af nýslátruðu nema á seinustu áratugum. Þessi langa hefð ætti að duga til að réttlæta fullkomlega að tala um nýslátrað kjöt – jafnvel þótt það teldist ekki „rökrétt“.
En reyndar þarfnast orðalagið engrar slíkrar réttlætingar. Grunnmerking sagnarinnar slátra er nefnilega ekki eingöngu að 'drepa' eins og margir virðast halda, heldur að 'lóga dýri til matar og tilreiða kjöt og innmat í því skyni'. Í Íslenskri orðabók er sögnin skýrð svo: „lóga, aflífa (og stykkja sundur til matar)“. Í Íslenskri orðsifjabók er nafnorðið slátur skýrt sem „innmatur, haus og fætur af sauðfé; blóðmör og lifrarpylsa; (nýtt) kjöt“, en sögnin slátra er leidd af nafnorðinu. Í orðabók Blöndals er slátra þýdd sem 'slagte', en sú sögn merkir „dræbe (og derefter partere og udskære) et dyr med henblik på at spise eller sælge kødet“.
Sé þetta haft í huga verður ljóst að það er fullkomlega rökrétt og eðlilegt að tala um nýslátrað kjöt. Til að rökstyðja þetta enn frekar má benda á að í fornu handriti Maríu sögu segir: „Svo gerir hann í stað, sækir kúna, drepur og slátrar.“ Þarna kemur greinilega fram að það er ekki sami verknaðurinn að drepa og slátra – í slátra felst að brytja skrokkinn niður og ganga frá kjöti og innyflum þannig að kýrin nýtist til matar enda var markmið eigandans að „skipta henni í sundur fyrir fátæka menn guðs móður til lofs“.
Hafi fólk áhyggjur af „órökréttri“ málnotkun væri nær að huga að dæmum eins og „Í pottinum var verið að sjóða nýveiddan sel“ og „Nýskotinn fugl þótti veislumatur“ sem finna má á tímarit.is. Auðvitað er ekki verið að sjóða selinn eins og hann leggur sig, heldur kjötið af honum; og það er ekki fuglinn í heild sem þykir veislumatur, heldur kjötið af honum. Það má þess vegna halda því fram að þessi málnotkun sé ekki rökrétt – það ætti að segja Í pottinum var verið að sjóða kjöt af nýveiddum sel og Kjöt af nýskotnum fugli þótti veislumatur.
Það hvarflar samt auðvitað ekki að mér að gera athugasemdir við að tala um sel og fugl í staðinn fyrir selkjöt og fuglakjöt, enda væri það fullkominn orðhengilsháttur. Ég nefni þetta bara til að vekja athygli á því hvað krafa um að málnotkun sé fullkomlega „rökrétt“ getur leitt mann út í miklar ógöngur – fyrir utan það að hefta nýsköpun og frumleika og gelda málið.