Posted on Færðu inn athugasemd

Spáið í þessu

Sögnin spá stjórnar þágufalli ein og sér – spá óveðri, spá illu – en í sambandinu spá í stjórnar hún oftast þolfalli þegar hún hefur grunnmerkingu sína, 'segja fyrir óorðna hluti' eða 'segja fyrir um (e-ð) með rökum, álykta um það sem verður' eins og hún er skýrð í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þannig er talað um að spá í spil, spá í bolla, spá í garnir, spá í korg o.fl. Áður fyrr kom reyndar stundum fyrir að notað væri þágu­fall í þessum samböndum. Í Þórðar sögu Geir­mundssonar eftir Benedikt Gröndal segir: „þarftú þá aldrei að spá í spilum eða í kaffebollum eða í lófum.“ Í Stefni 1902 segir: „Gesturinn var að spá í spilum fyrir Miss Ligram.“ Í Nýjum kvöldvökum 1912 segir: „Það nægir þeim ekki að smána guð og […] spá í spilum.“

En í seinni tíð er sögnin spá mjög oft notuð í merkingunni 'velta fyrir sér, spekúlera í' svo að vitnað sé í Íslenska nútímamálsorðabók eða 'leiða hugann að e-u, gæla við að gera e-ð' eins og segir í Íslenskri orðabók og sagt „óformlegt“. Erfitt er að negla nákvæmlega niður hvenær þessi nýja merking sambandsins kom upp en eins og títt er með málbreytingar má líklega rekja hana til dæma sem hægt er að túlka á tvo vegu og fara að sjást upp úr 1960. Í Þjóðviljanum 1963 segir t.d.: „Nú þegar eru menn farnir að spá í það hvaða lið muni komast í þessi úrslit.“ Þetta gæti bæði merkt 'spá því hvaða lið muni komast í þessi úrslit' og 'velta því fyrir sér hvaða lið muni komast í þessi úrslit'. Upp úr þessu fara að sjást dæmi sem hafa ótvírætt nýju merkinguna.

Þannig segir segir um Fjalla-Eyvind og Höllu í Vikunni 1964: „En hvað rak þau hjúin burtu, alla leið suður undir Sprengisand? […] Það er ekki á mínu valdi að spá í það.“ Tíðni sambandsins spá í jókst töluvert eftir 1960 en margfaldaðist á níunda áratugnum – þá eru meira en fimm sinnum fleiri dæmi um sambandið á tímarit.is en á áratugnum á undan, væntanlega langflest um nýju merkinguna. Hún var þó lengi talin óformleg eins og marka má af því að hún er gefin í Slangurorðabókinni frá 1982 – og enn merkt sem slík í Íslenskri orðabók. Upp úr 1990 fara svo að sjást dæmi þar sem sambandið tekur með sér þágufall í stað þolfalls áður. Í Tímanum 1993 segir: „Það er ekkert spáð í því á sjúkrahúsum af hverju óhappið hafi orðið.“

Í Degi 1996 er þetta tekið sem dæmi um það hvernig „óvandað málfar virðist sækja í sig veðrið“ – „Ég er að spá í þessu (ég er að spá í þetta sbr. að spá í bolla; ekki: spá í bollanum).“ En í spá í bolla er merkingin allt önnur eins og áður er bent á, og þegar orðasamband fær nýja merkingu dugir ekki að vísa til þess að það hafi alltaf tekið með sér þolfall, því að það er ekkert sjálfgefið að sama fall sé notað þegar merkingin er önnur. Þótt fallstjórn í fylgi vissulega stundum ákveðnu kerfi – hún stjórnar þolfalli þegar vísað er til hreyfingar (í bæinn) en þágufalli þegar um kyrrstöðu er að ræða (í bænum) – er hvorki hægt að tengja forsetninguna við hreyfingu né kyrrstöðu með spá í og því ómögulegt að segja að annað fallið sé andstætt merkingu hennar.

Auk sambandsins spá í e-ð/e-u er í Íslenskri orðabók gefið sambandið spá í e-n sem er skýrt 'hugsa til e-s með ástarkynni fyrir augum, ímynda sér kynferðissamband með e-m' og einnig sagt „óformlegt“. Það er sú merking sem sambandið hefur í kvæði Megasar frá 1972, „Spáðu í mig“. Framsetningin í Íslenskri orðabók gefur til kynna að í síðarnefndu merkingunni sé eingöngu notað þolfall en ýmist þolfall eða þágufall í merkingunni 'velta fyrir sér', og ég hélt áður að þarna væri munur á. En á samfélagsmiðlum má finna nokkuð af dæmum um þágufall í síðarnefndu merkingunni, t.d. „Ég veit fyrir víst að hún er að spá í mér en gallinn er að hún er mjög feimin og soldið yngri“ á Hugi.is 2001. Hafi þarna verið munur er hann líklega að hverfa.

Í Málfarsbankanum segir: „Sagt er spá í eitthvað, ekki „spá í einhverju“. Veðurfræðingar spá í það sem koma skal.“ Það er athyglisvert að aldrei virðist hafa verið amast við hinni nýju merkingu sem sambandið spá í fékk á sjöunda áratugnum – athugasemdir við það lúta eingöngu að fallstjórninni, og iðulega er vitnað í áðurnefnt kvæði Megasar, „Spáðu í mig“, til að rökstyðja að það eigi að taka með sér þolfall en ekki þágufall. Það er reyndar svolítið skondið að uppreisnarmaður eins og Megas sem iðulega notaði óhefðbundið og óformlegt málfar sem stuðaði fólk skuli borinn fyrir því hvað sé „rétt mál“. Þessi notkun á spá í var nýjung á þessum tíma og þótti örugglega ekki par fín eða til eftirbreytni – óháð falli.

Í pistli frá 2017 í Málfarsbankanum segir Jón G. Friðjónsson: „Myndin spá í að gera e-ð […] er algeng í nútímamáli en undirrituðum virðist afbrigðið spá í því að gera e-ð verða æ algengara, einkum meðal ungs fólks.“ Jón leggur engan dóm á þessa breytingu en bætir við: „Hér er það sagnarsambandið pæla í e-u sem togar í.“ Þetta er trúlegt – bæði samböndin virðast koma upp á svipuðum tíma í þessari merkingu og tíðni pæla í á tímarit.is fimmfaldaðist líka á níunda áratugnum. En hver sem ástæðan er fyrir fallbreytingunni eru engin merkingarleg rök til þess að telja þágufallið rangt, og ekki hefðarrök heldur því að þolfall með spá í í þeirri merkingu sem um ræðir aðeins 25-30 árum eldra en þágufallið. Hvort tveggja er rétt – jafnrétt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.