Pabbi sinn
Í Málfarsbankanum er varað við orðalaginu eins og pabbi sinn: : „Hún er alveg eins og pabbi hennar (ekki: „hún er alveg eins og pabbi sinn“).“ Það liggur samt fyrir að fjöldi fólks notar þetta orðalag – annars væri ekki amast svona oft við því. Elsta dæmi sem ég hef rekist á er frá 1966 – „annar sagðist verða bóndi eins og pabbi sinn“. Dæmum á tímarit.is fer þó ekki fjölgandi fyrr en eftir 1990 og aðallega eftir aldamót. Það er ljóst að eins og pabbi sinn hefur verið að breiðast út undanfarna áratugi og er nú líklega mál talsverðs hluta þjóðarinnar.
Ekki verður enskum áhrifum kennt um þessa breytingu en hún er út af fyrir sig vel skiljanleg. Merkingarlega er þetta mjög svipað líkur pabba sínum þar sem enginn ágreiningur er um að nota skuli afturbeygingu – ef sagt er Siggi er líkur pabba hans er vísað til pabba einhvers annars en Sigga. Hinn setningafræðilegi munur er sá að í líkur pabba sínum er afturbeygða eignarfornafnið sínum hluti andlagsins, en í eins og pabbi sinn er sinn hluti samanburðarliðar.
Ástæðan fyrir því að ekki er (eða var) hægt að segja hann er eins og pabbi sinn er sú að afturbeyging getur yfirleitt ekki vísað yfir atvikstengingu, til frumlags aðalsetningarinnar – við getum ekki sagt *hann fór þegar pabbi sinn kom eða *hann fer ef pabbi sinn kemur eða *hann fór af því að pabbi sinn kom, heldur verðum að nota persónufornafnið hans. En öfugt við þessar tengingar getur atvikstengingin eins og ekki einvörðungu tengt heilar aukasetningar við það sem á undan kemur, t.d. Prófið var þungt eins og ég átti von á (samanburðarsetning feitletruð), heldur líka orðasambönd án sagnar (samanburðarliði), t.d. Prófið var þungt eins og í fyrra (samanburðarliður feitletraður).
Ég held að sú breyting sem hefur verið í gangi undanfarna áratugi stafi af breyttri skynjun málnotenda á samanburðarliðum. Þeir hafi áður verið skynjaðir sem (ófullkomnar) setningar með sögnina „ósagða“, ef svo má segja – Siggi er eins og pabbi hans (er) – en margir skynji þá nú sem setningarliði í staðinn, án sagnar. Þar með hafi þeir svipaða stöðu og forsetningarliðir og því geti afturbeygingin vísað yfir tenginguna eins og, til frumlagsins, á sama hátt og hún vísar yfir forsetningar – við segjum Siggi kom með pabba sínum en ekki pabba hans nema um sé að ræða pabba einhvers annars en Sigga.
En ef orðarunan á eftir eins og inniheldur sögn er sá möguleiki að skynja þetta sem setningarlið í stað setningar ekki fyrir hendi – og þá ætti afturbeyging líka að vera útilokuð. Ég er alinn upp fyrir daga þessarar breytingar og hún er ekki mitt mál (enn), og þess vegna get ég ekki fullyrt hvað er tækt og hvað ótækt hjá þeim sem hafa þessa breytingu í máli sínu. En ég held samt að fólk sem segir hann er eins og pabbi sinn myndi síður segja hann er alveg eins og pabbi sinn var fyrir 30 árum. Í seinna dæminu kemur sögn (var) á eftir eins og og þar er því ótvírætt um setningu að ræða en ekki bara setningarlið.
Reyndar er oft mælt með notkun afturbeygingar í öðrum setningagerðum þar sem bæði afturbeygt fornafn og persónufornafn kæmi til greina. Í kverinu Gætum tungunnar er sagt að heyrst hafi „Bílstjórinn sagði, að honum hefði tekist að aka þessa leið“ en rétt væri „... að sér hefði tekist ... (nema bílstjórinn sé að tala um annan en sig)“. Höfundur kversins, Helgi Hálfdanarson, sagði um þetta: „Í þessu sambandi er afturbeygða fornafnið nákvæmara en hitt; þar tæki það af öll tvímæli, en persónufornafnið ekki.“ Með sömu rökum hlyti Siggi er eins og pabbi sinn að teljast réttara en Siggi er eins og pabbi hans því að í seinna tilvikinu gæti verið átt við pabba einhvers annars eins og áður segir en afturbeygingin tæki af öll tvímæli.
Með þessu er ég bara að reyna að skýra þessa breytingu, en ekki réttlæta hana eða mæla með henni. Hins vegar er þetta orðalag löngu hætt að fara í taugarnar á mér og mér er eiginlega farið að finnast það eðlilegt og það gæti jafnvel hrokkið út úr mér einhver daginn.