Bur

Haustið 2015 efndu Samtökin 78 til nýyrðasamkeppni sem var nefnd Hýryrði. Í kynningu á keppninni var sagt: „Fjölmörg orð eru til í hinsegin orðaforðanum sem enn hafa ekki fengið íslenska þýðingu, en hinsegin hugtök og orð endurspegla svo sannarlega þá breidd sem er til staðar í hinsegin samfélaginu. Það er mikilvægt að við getum öll talað um hinsegin reynslu og hinsegin líf á móðurmáli okkar.“ Meðal þeirra nýyrða sem óskað var eftir hugmyndum um voru „Ókyngreind frændsemisorð: Frænka/frændi – Kærasti/kærasta – Mamma/pabbi – Sonur/dóttir – Vinkona/vinur“.

Ein þeirra tillagna sem bárust í keppninni var að endurnýta orðið bur sem kynhlutlaust orð í kenninöfnum til hliðar við –son og –dóttir. Orðið bur er vissulega til fyrir í málinu og í orðabókum sagt merkja 'sonur' og vera karlkynsorð. Í þessari nýju notkun er gert ráð fyrir að orðið verði notað í hvorugkyni, með greini burið, og merking þess víkki – verði 'barn, afkvæmi'. Dómnefnd keppninnar tók þessu orði fegins hendi og þetta var ein þeirra tillagna sem hún mælti sérstaklega með. Orðið hefur eitthvað verið notað síðan og var m.a. tekið inn í frumvarp til laga um mannanöfn sem lagt var fram á Alþingi haustið 2018 en ekki samþykkt.

Orðið bur er komið af sögninni bera og rótskylt mörgum orðum af sama merkingarsviði – barn, (barns)burður, (tví)buri o.fl. Merkingarlega er ekkert því til fyrirstöðu að gefa því þessa víkuðu merkingu. Orðið er ákaflega sjaldgæft – í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn sem tekur til óbundins máls eru aðeins sex dæmi um það, og þó í raun aðeins fjögur því að í tveimur tilvikum er um sömu setningu að ræða í tveimur textum. Annars var orðið einkum notað í bundnu máli, og í seinni tíma máli kemur það varla eða ekki fyrir nema í skáldskap. Það er því lítil hætta á að þessi merkingarvíkkun valdi ruglingi.

Það á sér líka vel þekkt og viðurkennd fordæmi að taka orð úr eldra máli sem ekki eru lengur notuð og gefa þeim nýja merkingu. Orðið skjár merkti áður 'gegnsæ himna í glugga, notuð í stað rúðu'. En eftir að gluggar af því tagi urðu úreltir var orðið lítið notað. Upp úr 1970 var svo stungið upp á því að nota orðið í stað tökuorðsins skermur eða skermir sem hafði verið notað sem þýðing á screen – talað var um bæði sjónvarpsskerm(i) og tölvuskerm(i). Þetta orð sló strax í gegn þrátt fyrir andstöðu og nú er skermur nánast horfið úr málinu í þessari merkingu – þótt enn sé talað um lampaskerma.

Annað endurnýtt orð og ekki síður þekkt er sími sem var til en mjög sjaldgæft í fornu máli, einkum í hvorugkynsmyndinni síma, og merkti 'band, þráður'. Skömmu fyrir aldamótin 1900 var stungið upp á því að nota þetta ónýtta orð yfir nýjungina telefón sem Íslendingar voru þá farnir að frétta af þótt fyrirbærið hefði enn ekki borist til landsins. Ákveðið var að orðið skyldi vera karlkynsorð og merkingunni hliðrað aðeins til – sem lá beint við á þessum tíma þegar megineinkenni símans var einmitt þráðurinn, símalínurnar sem voru lagðar milli landa og um allt land. Þetta orð sló líka fljótlega í gegn og telefón hvarf að mestu úr notkun á öðrum áratug 20. aldar.

Hægt væri að nefna fleiri vel heppnuð dæmi um forn orð sem hafa verið fallin í gleymsku en endurvakin í nýrri – en skyldri – merkingu. Þær breytingar sem þarf að gera á kyni og merkingu orðsins bur eru smávægilegar og eiga sér skýr fordæmi. Mér finnst bur sérlega vel til endurnýtingar fallið og vonast til að það komist í almenna notkun.