Mikið er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám

Eitt af hlutverkum atviksorða er að standa með lýsingarorðum og ákvarða þau nánar. Því hlutverki gegna t.d. feitletruðu atviksorðin í setningunum Hann er ferlega leiðinlegur; Það er skelfilega ljótt að sjá þetta; Þetta er hrikalega sætt barn. En eitt af því sem er óvenjulegt í íslenskri setningagerð er að (sum) slík atviksorð er hægt að slíta frá lýsingarorðinu og láta þau standa fremst í setningunni í staðinn: Ferlega er hann leiðinlegur; Skelfilega er ljótt að sjá þetta; Hrikalega er þetta sætt barn. Merkingin er sú sama, en e.t.v. er meiri áhersla á atviksorðinu þegar það stendur fremst. Þetta er útilokað að gera í skyldum málum s.s. dönsku og ensku; *Terribly is he boring er alvond setning.

En reyndar gildir þetta ekki um öll atviksorð – ég held að fæstir geti sagt t.d. *Frekar er hann leiðinlegur, eða *Dálítið er ljótt að sjá þetta, eða *Mjög er þetta sætt barn. Það er ekki gott að átta sig á því hvaða atviksorð hægt er að hafa fremst í þessari setningagerð og hver ekki, en þó virðist sterk merking vera nauðsynleg – ferlega, skelfilega og hrikalega hafa sterkari merkingu en frekar, dálítið og mjög. Það er þó rétt að nefna að mjög gat staðið í upphafi setninga af þessu tagi í fornu máli – Mjög var sjá þunnleitur og ljótur ásýndarMjög var þar allt blóðugt í rúminuMjög var Auður þá elligömul o.s.frv.

Málið er þó snúnara en þetta, eins og ég áttaði mig á einu sinni þegar ég var að hlusta á Dýrin í Hálsaskógi – leikrit Thorbjørns Egner í þýðingu Huldu Valtýsdóttur. Þegar Lilli klifurmús hefur sloppið naumlega undan Mikka ref með því að stökkva upp í næsta tré byrjar hann strax að hæða rebba og segir Mikið er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám. Nokkru síðar í leikritinu fer Lilli ásamt Marteini skógarmús að ræða lagasetningu við Bangsapabba. Þegar Bangsamamma ber fyrir þá hunangskökur eins og góðri húsmóður sæmir segir Lilli: Mikið held ég að þær séu góðar! Samsvarandi setningar þar sem mjög væri sett í stað mikið eru hins vegar ótækar.

Hér virðist sama setningagerð vera á ferðum; atviksorð (mikið) fremst í setningu, en ákvarðar lýsingarorð sem stendur síðar í setningunni. En þetta atviksorð er ekki sérlega sterkt að merkingu og svipar að því leyti til mjög, enda orðin skýrð hvort með öðru í Íslenskri orðabók. Það mætti því búast við að þetta væru ótækar setningar, en það er öðru nær; þær eru fullkomlega eðlilegar. Því er ljóst að eitthvað fleira en merkingarstyrkur skiptir máli um þessa setningagerð. Varla er trúlegt að þessar setningar sýni einhverja sérstaka mállýsku í Hálsaskógi, og ekki er heldur sennilegt að um áhrif frá norska frumtextanum sé að ræða (þar er fyrri setningin t.d. Er det ikke veldig sørgelig at rever ikke kan klatre i trær).

En hér er ekki öll sagan sögð. Við nánari umhugsun áttaði ég mig á því að enda þótt mér fyndust áðurnefndar setningar með mikið fremst góðar og gildar gegnir öðru máli um setningarnar sem þær „ættu að“ vera leiddar af, þ.e. setningar þar sem mikið stendur næst á undan lýsingarorðinu; *Það er mikið sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám og *Ég held að þær séu mikið góðar. Í þessum setningum verður að nota mjög. Nú veit ég að til er fólk sem getur notað mikið með lýsingarorðum á þennan hátt, en fyrir mér er það málleysa. En hvernig stendur á því að samt er hægt að hafa mikið fremst í setningu en ekki mjög – og mjög inni í setningu en ekki mikið?

Ég veit það ekki svarið, en hef látið mér detta í hug að mjög og mikið séu í raun víxlmyndir sama orðs, sem hafi með sér ákveðna verkaskiptingu. Þetta styðst við það að merkingin er sú sama, og beygingarlegur skyldleiki er líka fyrir hendi – miðstig beggja er meir/meira, og efsta stig mest. Það er ekkert einsdæmi að víxlmyndir hafi með sér einhvers konar verkaskipti eftir setningarstöðu. Nafnorðið sannleikur/sannleiki er yfirleitt sterkt í frumlagsstöðu, í nefnifalli (Sannleikurinn er sagna bestur, síður sannleikinn) en veikt í andlagsstöðu, í aukafalli (Segðu sannleikann, síður sannleikinn). En hvað sem þessu líður er enn margt óljóst um þessa setningagerð.