Íslenskan og börnin

22. Íslensk málrækt felst í því að tala sem mest við börn á máltökuskeiði, lesa fyrir þau og með þeim, og vera þeim góð málfyrirmynd.

Fyrstu árin í lífi okkar eru máltökuskeið. Þá erum við að soga í okkur málið í umhverfi okkar, greina það – ósjálfrátt og ómeðvitað – finna kerfi og reglur í því, beita þessum reglum, og athuga – líka ósjálfrátt og ómeðvitað – viðbrögð umhverfisins við því sem við segjum. Iðulega reynast reglurnar sem við þóttumst finna ónákvæmar – of þröngar, of víðar eða gallaðar á annan hátt – en við endurskoðum þær þá út frá viðbrögðum umhverfisins.

En til að við náum góðu valdi á þessu mikilvæga og stórkostlega tæki, tungumálinu, þurfum við að heyra það sem mest í umhverfinu (eða sjá, ef um táknmál er að ræða). Mikilvægasta máláreitið fá börn í samtölum. Það er grundvallaratriði að tala við barnið, gefa því færi á að svara, bregðast við svarinu, og skapa þannig gagnvirkni. Á máltökuskeiðinu þurfa börnin að hafa góðar málfyrirmyndir – foreldra, leikskólakennara og aðra í umhverfinu – sem sinna þeim, sýna þeim áhuga, og efla málþroska þeirra.

Um sex ára aldur erum við flest komin með vald á meginþáttum málkerfisins en það táknar þó ekki að máltökunni sé lokið. Við eigum enn eftir að ná valdi á ýmsum flóknum atriðum og undantekningum, og við höldum vitanlega áfram að auka orðaforða okkar og tileinka okkur ýmis fíngerð blæbrigði í málnotkun langt fram eftir aldri – jafnvel ævina á enda. Lestur fyrir börn og með þeim er mjög mikilvægur til að auka orðaforða barnanna og styrkja málkerfi þeirra.

Þegar börn verða eldri og eru farin að lesa sjálf er mikilvægt að halda að þeim fjölbreyttu lesefni til að þau læri annars konar orðaforða en fæst með venjulegum yndislestri, og nái valdi á fjölskrúðugri og flóknari setningagerðum en notaðar eru í samtölum og afþreyingarefni. Þetta þarf að kenna sérstaklega, með því að láta börn og unglinga lesa viðeigandi texta. Það þarf líka að stórauka framboð á fjölbreyttu fræðslu- og afþreyingarefni á íslensku.

Nauðsynlegt er að huga sérstaklega að börnum sem hafa annað heimilismál en íslensku. Til að eiga mögu­leika á að öðlast móðurmálsfærni í ís­lensku þurfa tví­tyngd börn að verja 50% af vöku­tíma sínum í íslensku mál­um­hverfi. Íslenski skóladagurinn nær ekki þessu hlutfalli og tíminn sem börnin hafa með foreldrum sínum þegar þau koma heim er varla nógu langur til að byggja upp móðurmálsfærni í heimilismálinu heldur, auk þess sem trúlegt er að þau eyði talsverðum hluta hans í enskum málheimi – sjónvarpi, tölvuleikjum o.s.frv. Það er hugsanlegt að við séum að ala upp börn sem ekki ná móðurmálsfærni í neinu máli. Það er mjög alvarlegt.

Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er lagður á máltökuskeiði. Það er ekkert jafnmikilvægt og samtal við fullorðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka málkennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frítíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og samtals með börnum sínum. Þannig stuðlum við að því að börnin okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það.