Umsögn um drög að frumvarpi til laga um mannanöfn

Ég er sammála þeirri meginstefnu frumvarpsins að leggja sem minnstar hömlur á form og eðli mannanafna. Ég tel að aukið frelsi í þeim efnum sé nauðsynlegt vegna jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða, og skaði ekki íslenska tungu. Nánari rök fyrir þeirri afstöðu eru færð hér á eftir.

Samkvæmt frumvarpinu falla brott ákvæði sem eru í núgildandi lögum um að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og skuli ritað í samræmi við al­menn­ar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Framangreind ákvæði eru sett til verndar íslenskri tungu og eru þannig út af fyrir sig góðra gjalda verð. En þau eru öll vandmeðfarin og háð túlkun. Nöfn eru tilfinningamál og nafnréttur manna ríkur, eins og staðfest er með ýmsum dómum, bæði frá Mannréttindadómstól Evrópu, Héraðs­dómi Reykja­víkur o.fl., og með vísun til t.d. mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár Íslands. Réttur manns til nafns, og réttur foreldra til að ráða nafni barns síns, verður ekki takmarkaður nema hagsmunir samfélagsins krefjist.

Við beitingu hefðarákvæðisins hefur mannanafnanefnd komið sér upp ákveðnum vinnulags­reglum. Það er vitaskuld lofsvert og dregur úr hættu á því að sambærileg mál séu afgreidd á mismunandi hátt. En viðmiðin í þessum reglum eru umdeilanleg og eiga sér ekki beina stoð í lögum, þótt þau séu vissulega nefnd í athugasemdum með frumvarpi til núgildandi laga. Ekki er það síður túlkunaratriði hvort nöfn brjóti í bága við íslenskt málkerfi. Þegar þessu ákvæði hefur verið beitt er oft vísað til þess að í nöfnum komi fyrir hljóð eða hljóðasambönd sem ekki eru í íslensku, en einnig til orðmyndunarfræðilegra, beygingarlegra og merkingarlegra atriða. Oftast er um að ræða mjög matskennda þætti þar sem erfitt er að gæta samræmis og jafnræðis.

Því er oft haldið fram að óheftur straumur erlendra nafna geti haft óæskileg áhrif á málið. Það er í sjálfu sér ekki óhugsandi að mikill fjöldi orða sem koma inn í málið og greina sig frá íslenskum erfðaorðum á einhvern hátt, t.d. í hljóðafari eða beygingum, hafi einhver áhrif á tilfinningu málnotenda fyrir reglum og einkennum íslenskunnar. En til þess þurfa orðin að vera mjög mörg og mikið notuð. Erlend mannanöfn eiga nú þegar tiltölulega greiða leið inn í málið, eins og auðséð er þegar úrskurðir mannanafnanefndar eru skoðaðir. Það skiptir vart sköpum fyrir framtíð tung­unnar hvort haldið er í þær hömlur sem eru á upptöku nýrra erlendra (og innlendra) nafna. Mannanöfn eru svo sérstakur og afmarkaður hluti tungumálsins að ekki er líklegt að þau hafi veruleg áhrif á aðra þætti þess, enda eru nýleg nöfn sem reyna á ákvæði mannanafnalaga flest eða öll mjög sjaldgæf.

Þá er að hafa í huga að erlend nöfn hafa streymt inn í málið frá fyrstu tíð, og mörg þeirra hafa að geyma hljóðasambönd sem ekki finnast í erfðaorðum. Þar má nefna nöfn eins og Andrea, Lea, Magnea, Leó, Theódóra, William, Sebastian, Patricia, Sophus, Zophonías, Arthúr, Zoe, Nikolai, Laila, og ótalmörg fleiri. Öll þessi nöfn er hægt að gefa íslenskum ríkisborgurum óhindrað því að þau eru á mannanafnaskrá – sum hafa verið notuð lengi en önnur hafa verið heimiluð á starfstíma mannanafnanefndar. Ekki verður þess samt vart að þetta hafi haft neikvæð áhrif á tungumálið.

Auðvitað má hugsa sér nöfn sem innihalda meira framandi hljóðasambönd en þau sem hér hafa verið nefnd, s.s. Szczepan úr pólsku, Nguyen úr víetnömsku o.s.frv. En hljóðskipunarreglur tungumála breytast ekki svo glatt, og líkurnar á að slík nöfn hefðu einhver áhrif á íslenskt hljóðkerfi og hljóðskipunarreglur eru nákvæmlega engar. Og vegna þess að hljóðasambönd í þessum orðum eru nánast óframberanleg fyrir Íslendinga er ekki ólíklegt að nöfnin tækju fljótlega breytingum í átt að íslenskum hljóðskipunarreglum.

Því hefur einnig verið haldið fram að óheft innstreymi erlendra nafna gæti veikt beygingarkerfið. Eitt þeirra skilyrða sem nöfn þurfa að uppfylla samkvæmt gildandi lögum lýtur að þessu – nöfn þurfa að geta tekið eignarfallsendingu. Þó er fjöldi íslenskra erfðaorða eins í öllum föllum eintölu og hefur þar með enga sérstaka eignarfallsendingu. Þetta eru t.d. veik hvorugkynsorð (hjarta, nýra o.s.frv.), mörg kvenkynsorð sem enda á -i (gleði, keppni, lygi, reiði o.m.fl.), karlkyns- og hvorugkynsorð sem enda á löngu s (foss, koss, sess, hross, pláss o.fl.) eða samhljóði + s (háls, þurs, glans, gips o.fl.) – og sitthvað fleira mætti nefna. Þessi orð eru margfalt fleiri og algengari en þau mannanöfn sem ekki taka eignarfallsendingu – jafnvel þótt meðtalin væru öll nöfn sem hafnað hefur verið á þeirri forsendu. Samt hvarflar ekki að neinum að þessi orð stuðli að niðurbroti beygingarkerfisins eða hafi einhver óæskileg áhrif á málið.

En reyndar geta langflest nöfn tekið eignarfallsendingu og því er beygingarleysi sjaldan forsenda synjunar nafns. Það eru helst kvenmannsnöfn sem enda á -e sem erfitt getur verið að setja eignarfallsendingu á og nokkrum slíkum nöfnum hefur verið hafnað, s.s. Maxine, Aveline og Jette, þótt nöfnin Charlotte, Christine, Elsie, Irene, Kristine, Louise, Marie og Salome/Salóme hafi komist á mannanafnaskrá vegna hefðar. Af þessum nöfnum er aðeins það síðastnefnda notað eitthvað að ráði og hefur tæplega spillt beygingarkerfinu. Þótt örfáum öðrum nöfnum hafi verið hafnað á þeirri forsendu að þau taki ekki eignarfallsendingu tel ég það hæpna túlkun.

Annar hópur nafna sem ekki taka eignarfallsendingu eru karlmannsnöfn sem enda á samhljóði + sGils, Hans, Jens o.fl. Aldrei er þó amast við slíkum nöfnum, væntanlega vegna þess að það er engin sérviska þeirra að taka ekki eignarfallsendingu heldur er það einfaldlega útilokað af hljóðafarslegum ástæðum – samhljóð getur ekki verið langt á eftir öðru samhljóði og þess vegna er ekki hægt að bæta eignarfalls-s við þessi nöfn. (Reyndar væri hægt að nota eignarfallsendinguna -ar í staðinn, en það er ekki gert.) En þegar að er gáð gegnir í raun og veru alveg sama máli um kvenmannsnöfnin sem enda á -e – það eru hljóðafarslegar ástæður fyrir því að þau geta ekki tekið eignarfallsendinguna -ar (sem er sú eina sem kemur til greina). Tvö grönn sérhljóð eins og e og a geta ekki með góðu móti staðið saman í íslensku. Það er því í raun fráleitt að hafna áðurnefndum kvenmannsnöfnum á þessari forsendu.

Meira að segja Jón, algengasta karlmannsnafn á Íslandi fyrr og síðar, fellur ekki fullkomlega að málkerfinu – til þess þyrfti það að vera Jónn, eins og prjónn, sónn og tónn – sem reyndar eru allt gömul tökuorð sem hafa aðlagast kerfinu. Þegar Jón hafði verið í málinu í margar aldir kom tökuorðið telefón inn í málið seint á 19. öld, en það tók ekki langan tíma að lagað það að málinu þannig að það varð (tele)fónn í nefnifalli. Þrátt fyrir tíðni og útbreiðslu nafnsins Jón hafði endingarleysi þess í nefnifalli sem sé ekki áhrif á þetta nýja tökuorð.

En gefum okkur nú þrátt fyrir það að nöfn sem falla ekki að íslensku hljóð- og beygingarkerfi gætu „smitað út frá sér“ ef svo má segja – komið af stað eða hraðað breytingum á íslensku málkerfi. Þá hlýtur það að eiga við um öll nöfn sem eru notuð í málsamfélaginu, nöfn sem við heyrum og notum í daglegu lífi – ekki bara nöfn íslenskra ríkisborgara, sem eru þeir einu sem falla undir íslensk mannanafnalög. Hér búa nú og starfa tugir þúsunda útlendinga – fólk sem við tölum um og tölum við, og notum því í daglegu tali fjölda nafna sem ekki yrðu samþykkt. Ef íslensku málkerfi stafar hætta af erlendum nöfnum hlýtur sú hætta aðallega að stafa frá nöfnum þessa fólks en ekki þeim tiltölulega fáu nöfnum sem íslenskir ríkisborgarar sækja um að bera.

Einnig má benda á að mannanöfn eru ekki stór hluti af orðaforða málsins. Á mannanafnaskrá eru rúmlega 4100 nöfn, mörg þeirra mjög sjaldgæf og í mörgum tilvikum er örugglega bara einn nafnberi. Nú má auðvitað nota ýmsa mælikvarða á stærð íslensks orðaforða en í ritmálssafni Árnastofnunar eru t.d. dæmi um u.þ.b. 700 þúsund orð. Mörg þeirra eru líka sjaldgæf og jafnvel aðeins eitt dæmi um þau, þannig að það er ekki fráleitt að bera þetta saman. Samkvæmt því væru nöfn langt innan við 1% af heildarorðaforðanum.Vissulega má reikna þetta á annan hátt en sama hvernig það er gert verða nöfnin alltaf bara brot af orðaforðanum. Og um önnur orð – allt að 99% orðaforðans – gilda engin lög.

Enda eru erlend orð af ýmsu tagi sífellt að koma inn í málið, án þess að við höfum nokkra stjórn á því. Mörg þeirra falla ekki fullkomlega að íslensku málkerfi – eru óbeygð, brjóta hljóðskipunarreglur, eða hvort tveggja. Sum þessara orða eru lítið notuð eða um stuttan tíma, önnur haldast í málinu og laga sig þá iðulega að þeim orðum sem fyrir eru – breyta um framburð, fara að beygjast, o.s.frv. Önnur haldast í málinu án þess að laga sig að því – en án þess að „smita út frá sér“, þ.e. án þess að valda nokkrum breytingum á íslenskum orðum. Mér er ómögulegt að sjá tilganginn í því að koma lögum yfir lítið brot orðaforðans en líta fram hjá hugsanlegum áhrifum allra hinna orðanna.

Í þessu sambandi má nefna að það er alsiða að nefna börn í höfuð skyldmenna, ekki síst afa og ömmu. Þetta þykir bera vott um ræktarsemi við ætt og uppruna og er mörgum mikið tilfinningamál. En stundum er foreldrum beinlínis bannað að nefna börn sín í höfuðið á afa og ömmu þótt vilji standi til þess. Fólk sem fær íslenskan ríkisborgararétt er vissulega ekki lengur þvingað til að breyta nafni sínu, en því er meinað að fá nafna eða nöfnur þegar barnabörnin koma, ef nöfnin sem um er að ræða eru ekki á mannanafnaskrá og fullnægja ekki skilyrðum til að komast á hana. Þetta getur valdið miklum sárindum og hugarangri þeirra sem í hlut eiga, enda augljós mismunun sem stenst ekki nútímahugmyndir um jafnræði.

Annar þáttur í mannanafnalögum sem varðar íslenska málstefnu eru ættarnöfnin. Oft er bent á að Íslendingar hafi einir germanskra þjóða varðveitt þann sið að kenna sig til föður eða móður, og mikilvægt sé að halda þeim sið áfram. Iðulega er látið að því liggja að bann við upptöku ættarnafna sé liður í vernd íslenskrar tungu. Engin leið er þó að halda því fram. Þessi siður er hluti af íslenskri menningu, en ekki sérstaklega af íslenskri tungu auðvitað sé stutt þar á milli í þessu. Ættarnöfn eru í eðli sínu hvorki íslenskulegri né óíslenskulegri en föður- og móður­nöfn. Fjöldi ættarnafna er af alíslenskum rótum og óþarft að taka dæmi um það, og ef upptaka ættarnafna yrði gefin frjáls má búast við að slíkum nöfnum myndi fjölga. Mörg ættar­nöfn eiga sér vissulega erlendan uppruna en sama má segja um eiginnöfn. Erfitt er að sjá að notkun ættarnafna valdi einhverjum sérstökum málspjöllum.

Ég er ekki sannfærður um að fólk myndi í stórhópum leggja niður föður- og móðurnöfn og taka upp ættarnöfn í staðinn, þótt slíkt yrði leyft. Stundum er vísað til þess að föðurnöfn hafi horfið í Danmörku og Noregi á stuttum tíma, en slíkar vísanir til ólíkra samfélaga á öðrum tímum hafa takmarkað gildi. Nútímaviðhorf í jafnréttismálum eru t.d. líkleg til að valda því að konur séu ófúsari en áður að taka upp ættarnafn eiginmannsins. Hér má enn fremur benda á að vegna þess að Íslendingar hafa einir haldið þeim sið að kenna sig til föður (eða móður) er það ákveðið þjóðareinkenni sem vel má hugsa sér að margir vilji halda í þess vegna, en um slíkt var ekki að ræða í Danmörku og Noregi. Einnig má vísa til þess að í Færeyjum mun hafa færst í vöxt á seinustu árum að kenna sig til föður.

Ég tek heils hugar undir það að kenning til föður eða móður er menningarhefð sem æskilegt er að viðhalda. En hefðir eru lítils virði nema samfélagið þar sem þær gilda hafi áhuga á að halda í þær. Hefð sem þarf að viðhalda með lögum er ekki hefð – heldur nauðung. Hér vegur þó þyngst að núgildandi lög standast ekki með nokkru móti jafnræðiskröfur samtímans – og eru raunar að því er best verður séð brot á 65. grein stjórnarskrárinnar þar sem þar sem segir m.a. að allir „skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannrétt­inda án tillits til […] ætternis […]“. Það stenst því ekki að sumum sé leyft það sem öðrum leyfist ekki. Á þetta hefur oft verið bent, t.d. í athugasemdum nefndar sem samdi frumvarp að gildandi mannanafnalögum, og í athugasemdum Íslenskrar málnefndar við það frumvarp.

Niðurstaða mín er þessi: Engin ástæða er til að ætla að íslenskri tungu stafi hætta af þeim breytingum sem felast í fyrirliggjandi frumvarpi. Erlend mannanöfn eiga nú þegar greiða leið inn í málið og ekki hefur verið sýnt fram á að þau hafi valdið málspjöllum. Kenning til föður og móður er vissulega hluti íslensks menningararfs en ættarnöfn eru samt ekkert síður hluti íslenskrar tungu en föður- og móðurnöfn. Ekkert liggur fyrir um það að kenning til föður og móður hverfi á stuttum tíma þótt ættarnöfn verði almennt leyfð. Fyrirliggjandi frumvarp er veruleg réttarbót og afnemur þá mismunun sem felst í gildandi lögum og er í raun mannréttindabrot. Stífar reglur sem vísa í íslenska málstefnu en samræmast ekki jafnréttishugmyndum og stríða gegn réttlætiskennd fólks geta orðið til þess að ala á neikvæðum viðhorfum fólks til íslenskunnar. Því þarf hún síst af öllu á að halda um þessar mundir.