Að líða kynþokkafullum

Í ársbyrjun hnaut ég um fyrirsögnina „Held mér hafi aldrei liðið jafn kynþokkafullri“ á vef RÚV. Mér fannst þetta athyglisvert því að þarna er notað lýsingarorð í þágufalli (kynþokkafullri) í stöðu þar sem venjulegt er að hafa atviksorð, t.d. vel eða illa. Fyrir nokkrum dögum rakst ég svo á fyrirsögnina „Mér hefur aldrei liðið svona hjálparvana“ í Fréttablaðinu. Þetta virðist vera sams konar setning, þótt fall lýsingarorðsins sjáist reyndar ekki hér. Þetta vakti forvitni mína og ég fór að skoða málið nánar og leita að fleiri sambærilegum setningum.

Við nokkra leit, einkum í Risamálheildinni, fann ég rúm 40 dæmi af þessu tagi. Þetta eru setningar eins og Mér leið öruggri hjá honum,  Mér hefur sjaldan liðið jafn gamalli, Þess vegna líður okkur oft þrútnum og þungum, Mér líður flottri og kvenlegri, Þjálfaraliðið vildi fá mig inn í landsliðið því mér líður enskum, Hnetusmjör lætur mér líða svalri, Mér líður ungum á ný, Hann lætur mér líða heilbrigðri og sterkri, Hann lætur mér líða óöruggum, Allir hafa látið okkur líða velkomnum o.s.frv.

Allar þessar setningar innihalda sögnina líða ásamt lýsingarorði í þágufalli. Í þeirri merkingu sem hér um ræðir tekur líða þágufallsfrumlag og það liggur beint við að álykta að einhver tengsl séu milli þess og þágufallsins á lýsingarorðinu. Það þarf því að spyrja hvernig lýsingarorð geti komið þarna í stað atviksorðs, og hvernig þágufallið geti borist þarna á milli. Ég ímynda mér að afleiðslan hljóti að vera einhvern veginn svona:

  1. [ ___ líður [ég öruggur]]      (grunngerð) >
  2. [ ___ líður [mér öruggum]]  (fallstjórn) >
  3. [mér líður [ ___ öruggum]]  (færsla andlags í frumlagssæti)

Sögnin líða er þá frumlagslaus í grunngerð en tekur með sér smásetninguna (e. small clause) [ég öruggur]. Sögnin setur síðan smásetninguna í heild í þágufall, [mér öruggum]. Að lokum er persónufornafnið mér fært inn í tómt frumlagssætið en lýsingarorðið öruggum skilið eftir, og útkoman verður Mér líður öruggum. Afleiðslan er þá hliðstæð við þolmyndarsetningar eins og Honum var bjargað ómeiddum:

  1. [ ___ var bjargað [hann ómeiddur] >
  2. [ ___ var bjargað [honum ómeiddum] >
  3. [honum var bjargað [ ___ ómeiddum]

Hér er þá um það að ræða að setningafræðilegt ferli sem til er í málinu er víkkað út og látið taka til formgerðar sem það hefur ekki áður verkað á. Ég fæ ekki betur séð en þetta sé mjög nýleg breyting. Elsta dæmið sem ég hef fundið er frá 2007, en langflest dæmin eru frá síðustu 3-4 árum. Það er ekki ólíklegt að um sé að ræða áhrif frá ensku þar sem setningar eins og I feel safe/ insecure/ sexy/ young/ welcome o.s.frv. eru mjög algengar. Talsverður hluti dæmanna er líka úr textum með óformlegu málsniði þar sem enskra áhrifa er e.t.v. fremur að vænta.

Í ensku beygjast lýsingarorð ekki og þess vegna hefði e.t.v. mátt búast við því að lýsingarorðið kæmi fram í ómarkaðri (hlutlausri) mynd í þessari setningagerð – nefnifalli eintölu, annaðhvort karlkyni eða hvorugkyni. En þótt ég hafi vissulega fundið dæmi um að lýsingarorðið standi í nefnifalli (Hann vildi láta þeim líða velkomnirFalleg sundföt sem létu stúlkum líða sjálfsöruggar, og fáein önnur) er þágufallið yfirgnæfandi sem sýnir enn og aftur styrk beygingakerfisins. Það er engin ástæða til að hafa neitt á móti þessari nýjung.