Yfir eða undir 20 gráður

Þessi frétt birtist á mbl.is klukkan sjö að morgni og fyrirsögnin var þá „Frostið gæti farið yfir 20 gráður“. Þetta þótti sumum eitthvað athugavert og blaðamenn mbl.is hafa væntanlega fengið einhverjar athugasemdir og breytt þessu í „Frostið gæti farið undir 20 gráður“ á níunda tímanum. Sjálfsagt hafa einhverjar athugasemdir verið gerðar við hana líka og fyrir klukkan tíu var þriðja fyrirsögnin komin, „Spáð 20 stiga frosti eða meira“. Þá var væntanlega búið að gera öllum til hæfis og fyrirsögninni hefur ekki verið breytt síðan.

Aðalatriðið finnst mér vera: Er þetta líklegt til að valda misskilningi? Er ekki öllum ljóst um hvað er að ræða? Það er í góðu lagi að tala um bæði yfir og niður fyrir – fer eftir því við hvað er miðað. 22 er hærri tala en 20 og því er eðlilegt að segja yfir, en ef þetta er hugsað út frá mælinum er –22 neðar en –20 og því er eðlilegt að segja niður fyrir. Hver misskilur fyrirsögnina „Frostið gæti farið yfir 20 gráður“? Mér finnst vissulega svolítið skrítið að segja „Frostið gæti farið undir 20 gráður“ en ef maður hefur það fyrir reglu að leggja hlutina út á betri veg og ætla fólki ekki að vera að segja einhverja vitleysu skilst þetta eins og til var ætlast, enda væri væntanlega ekki fréttnæmt ef frostið yrði minna en 20 gráður.