Léleg í íslensku

Ég heyrði skemmtilegt viðtal við unga og mjög efnilega tónlistarkonu í Menningunni í Sjónvarpinu. Þegar hún var spurð út í textagerð sína sagði hún að sér fyndist erfitt að semja texta og hún væri ekkert góð í því. „Ég er rosa léleg í íslensku“ sagði hún og þess vegna semdi hún frekar á ensku.

Þetta sló mig dálítið. Ég gat nefnilega ekki betur heyrt en þessi unga stúlka talaði alveg ágætis íslensku – sletti mjög lítið og ég tók ekki eftir neinum algengum frávikum (öðru nafni „málvillum“) í máli hennar. Mér finnst afskaplega ólíklegt að hún sé betri í ensku en íslensku (nema hugsanlega hún sé tvítyngd sem ég veit ekkert um).

En þetta er ekki einsdæmi. Unglingar segjast iðulega vera lélegir í íslensku, tala vitlaust, ekki kunna íslensku, o.s.frv., og halda því fram að þeir séu betri í ensku. Hvaðan fá þeir þessar hugmyndir? Þær hljóta að koma frá okkur, hinum fullorðnu, sem erum alltaf að hnýta í málfar unglinganna, hneykslast á því, og leiðrétta það.

En það er einmitt vísasti vegurinn til að unglingarnir flýi íslenskuna og snúi sér að ensku í staðinn – sem er væntanlega ekki það sem við stefnum að með umvöndunum okkar. Þurfum við ekki aðeins að hugsa ráð okkar, hætta neikvæðni og leita leiða til að gera unga fólkið jákvætt í garð íslenskunnar?