Enska í strætó

Ég fer í strætó einu sinni á ári - þegar ég þarf að fara með bílinn minn í tékk upp í óbyggðir. Í hvert skipti ergi ég mig yfir því að í vögnunum er texti á ensku án þess að samsvarandi texti sé líka á íslensku. Ekki bara einhver texti, heldur texti sem varðar öryggisatriði og mikilvægt er því að allir skilji.


Ég hef a.m.k. tvisvar skrifað upplýsingafulltrúa Strætó um þetta og hann hefur lofað bót og betrun en það virðist ekki hafa gengið eftir. Ég sé líka ekki betur en þetta sé andstætt málstefnu Reykjavíkurborgar (ég veit að Strætó er ekki borgarfyrirtæki en borgin er langstærsti eigandinn og það væri eðlilegt að málstefnan gilti þar).

Ekki segja að þetta sé ástæðulaust nöldur því að allir skilji ensku. Í fyrsta lagi er það ekki rétt - það skilja ekki allir ensku. En í öðru lagi snýst málið ekki um það, heldur um stöðu málsins í samfélaginu. „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi“ auglýsti bæjarfógetinn árið 1848.