Notum ekki íslensku gegn fólki

Ég skrifaði nýlega pistil þar sem ég hvatti fólk til að tala íslensku við útlendinga sem eru að læra málið í stað þess að skipta strax yfir í ensku eins og Íslendingum er gjarnt þegar viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. En ég var svo bláeygur að ég hafði ekki hugsað út í að þetta er ekki endilega bara óþolinmæði og hugsunarleysi, heldur stundum notað á meðvitaðan hátt til að gera lítið úr fólki og gefa því til kynna að það eigi ekki heima hér, eins og kemur fram í viðtali við Miriam Petru Ómarsdóttur Awad í mbl.is í dag:

„„[…] það skipt­ir í raun ekki máli hversu vel þú tal­ar ís­lensku, það er samt fullt af fólki sem mun samt koma fram við þig eins og þú sért ekki Íslend­ing­ur. Birt­ing­ar­mynd­ir for­dóma eru mis­jafn­ar en úti­lok­un og nei­kvæðar at­huga­semd­ir eru hluti þeirra,“ seg­ir Miriam.

„Eitt af því sem ýtir und­ir til­finn­ing­ar um úti­lok­un er til dæm­is þegar fólk er í sí­fellu ávarpað á ensku jafn­vel þó það svari á ís­lensku eða hafi jafn­vel byrjað sam­talið á ís­lensku. Marg­ar höfðu lent í því, og ég hef sjálft mikið lent í því, að fólk tal­ar ensku við mig að fyrra bragði.

Það er samt alltaf verið að segja að út­lend­ing­ar þurfi bara að læra ís­lensku og að við verðum að vera opn­ari fyr­ir því að fólk tali ís­lensku með hreim, sem er al­veg rétt, en það er samt bara þannig að ef þú lít­ur út á ein­hvern hátt þá lít­ur fólk á þig sem út­lend­ing.““

Það er alvarlegt mál þegar íslenskan er notuð á þennan hátt. Við megum aldrei nota íslenskuna eða takmarkaða íslenskukunnáttu til að mismuna fólki. Það er vanvirðing við fólkið sem þetta bitnar á – og ekki síður vanvirðing við íslenskuna.

En þótt það sé sjálfsagt að leitast við að tala íslensku við útlendinga á það ekki alltaf við, eins og Alondra Silva Muñoz bendir á í viðtali í mbl.is í gær þegar hún er spurð hvað sé það erfiðasta við að vera inn­flytj­andi á Íslandi:

„„Ég held að það sé að finna jafn­vægi hvað varðar tungu­málið. Tungu­málið get­ur verið eitt­hvað sem úti­lok­ar þig og læt­ur þér líða eins og þér sé út­hýst en það get­ur líka verið eitt­hvað sem fólk deil­ir með þér til þess að láta þér líða vel og vald­efla þig.“

Hún seg­ir að marg­ir meini mjög vel þegar þeir tala ís­lensku við inn­flytj­end­ur og það geti látið þeim líða vel.

„En í viss­um aðstæðum viltu kannski ekki tala ís­lensku vegna þess að þú vilt ekki að neins kon­ar mis­skiln­ing­ur eigi sér stað. Til dæm­is inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins eða á mik­il­væg­um fundi í vinn­unni.““

Það er skiljanlegt að fólk óttist misskilning við slíkar aðstæður og vilji því forðast að nota tungumál sem það talar ekki reiprennandi. En hin hliðin á málinu er auðvitað sú að viðmælendurnir hugsa eins – vilja nota tungumál þar sem þeir eru á heimavelli við aðstæður þar sem misskilningur má ekki verða. Vandinn er hins vegar sá að tungumálið sem lágmarkar hættu á misskilningi er ekki það sama hjá báðum aðilum.

Það er engin einföld lausn til á þessu. Í heilbrigðiskerfinu er fólk auðvitað að sækja sér nauðsynlega þjónustu og á rétt á að komið sé til móts við það eins og hægt er. Þetta er flóknara í samskiptum á vinnustað – þar er um að ræða hlutverk sem fólk velur sér og það á ekki sömu kröfu á því að geta talað annað tungumál en opinbert mál landsins.

Mál af þessu tagi verður að vera hægt að leysa án þess að íslenskan sé alltaf víkjandi, en jafnframt án þess að brotið sé á rétti fólks eða það haft afskipt. Og það á að vera hægt, ef hafðar eru í heiðri grundvallarreglur í mannlegum samskiptum – umburðarlyndi, tillitssemi, sveigjanleiki, og virðing fyrir öðru fólki.