Smit
Fyrr í sumar var haft samband við mig frá fjölmiðli nokkrum þar sem hafði orðið ágreiningur á ritstjórninni um meðferð orðsins smit sem hefur heyrst æði oft undanfarið ár. Prófarkalesarar höfðu leiðrétt setninguna „Fjöldi smita er kominn yfir hundrað“ og sagt að hana yrði að umorða, vegna þess að smit væri ekki til í fleirtölu. Það er vissulega rétt að samkvæmt orðabókum er þetta eintöluorð, og Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gaf til skamms tíma enga fleirtölubeygingu, þótt hún sé komin inn núna. Á tímarit.is má þó finna dæmi um fleirtölu orðsins frá síðustu áratugum, en þau eru örfá.
Hér er samt ekki allt sem sýnist. Í orðabókum er merking orðsins sögð vera 'það þegar sjúkdómur (sýklar) berst frá einum einstaklingi til annars'. En í fréttum síðustu mánaða er mjög algengt að sagt sé að smitum hafi fjölgað, tvö smit hafi greinst í gær o.s.frv. Þarna hefur orðið greinilega fengið nýja merkingu, vissulega mjög skylda hinni upprunalegu. En í stað þess að það vísi til ferlisins, eins og orðabókarskilgreiningarnar gera, vísar það nú til útkomunnar úr ferlinu. Þar með verður ekkert óeðlilegt að nota það í fleirtölu og tala um mörg smit.
Annað svipað dæmi er orðið þjónusta sem til skamms tíma var oftast haft í eintölu en nú sést oft í fleirtölu. Fleirtalan þjónustur er þó til þegar í fornu máli – „Hann skipaði mönnum í þjónustur“ stendur í Heimskringlu. Í Norðra 1910 segir að eitt af hlutverkum ráðherra Íslands sé „að setja menn í hinar ýmsu þjónustur er varða ábyrgð fyrir almenningi“. Í hagskýrslum hefur liðinn „ýmsar þjónustur“ verið að finna í meira en 40 ár. Svo eru það auðvitað guðsþjónustur sem lengi verið notaðar í fleirtölu.
Nú býður fjöldi fyrirtækja ýmsar þjónustur. Í Málfarsbankanum segir: „Ekki er mælt með því að tala um þjónustu í fleirtölu (nema í þeirri fornu merkingu: þjónustustúlka). Í stað þess að segja „margar þjónustur“ er t.a.m. hægt að nota: margs konar þjónusta, ýmis þjónusta.“ En þetta gengur ekki alltaf. Merking orðsins hefur nefnilega víkkað dálítið þannig að í stað almennrar merkingar er það látið vísa til tiltekinnar skilgreindrar þjónustu sem veitt er (og seld sérstaklega) – símaþjónusta, vefþjónusta, póstþjónusta o.s.frv. Þá er eðlilegt að auglýsa ýmsar þjónustur í boði – ýmiss konar þjónusta í boði er miklu óljósara og fleirtalan þjónustur liggur beint við enda á hún sér langa hefð.
Málið snýst sem sé ekki um það hvort fleirtölumyndirnar smit og þjónustur séu til – það eru þær augljóslega, og málfræðilega er ekkert við þær að athuga. Þær fela hins vegar í sér merkingarvíkkun orðanna sem um er að ræða. Það er svo smekksatriði hvort fólk fellir sig við þessa merkingarvíkkun og því verður hver að svara fyrir sig. En það má benda á að fjölmörg hliðstæð dæmi eru til í málinu – sum almennt viðurkennd, önnur ekki. Og sum slík tilvik sem áður var amast við þykja núna góð og gild.
Til skamms tíma börðust umvandarar t.d. harkalega gegn fleirtölunni keppnir og sögðu að keppni væri aðeins til í eintölu og merkti 'kapp' – eins og orðið gerir t.d. í setningunni það var alltaf mikil keppni á milli systkinanna. En við þessa óhlutstæðu merkingu hefur bæst merkingin 'kappleikur', eins og t.d. í systkinin háðu margar keppnir. Þessi merkingarvíkkun er a.m.k. 90 ára gömul. Nú hef ég ekki séð amast við fleirtölunni keppnir í 15-20 ár og dreg þá ályktun af því að flestir séu búnir að taka hana í sátt – Málfarsbankinn segir „Fleirtalan keppnir á aðeins við þegar talað er um kappleiki eða mót en ekki þegar orðið merkir: kapp“. Önnur svipuð dæmi eru sultur og krydd. Það kemur í ljós hvernig fer með smit og þjónustur.
Annars skrifaði Höskuldur Þráinsson prófessor einu sinni ágæta smágrein um þetta efni og er rétt að vísa á hana hér.