Hroðvirkni er óafsakanleg

Eins og oft hefur komið fram vil ég fara mjög varlega í að gera athugasemdir við málfar fólks og finnst það oftast hreinn dónaskapur. En fólk sem hefur skrif að atvinnu verður að vanda sig – það er engin ástæða til að afsaka hroðvirkni. Mér blöskraði þegar ég las þessa frétt – sérstaklega vegna rangra þýðinga úr dönsku en sitthvað er líka við íslenskuna að athuga. Hér er farið yfir það helsta:

  • „Handboltastjarnan Mikkel Hansen, leikmaður PSG í Frakklandi og danska landsliðsins, er orðinn stúdent en hann fékk hvítu húfuna um helgina.“ Í frétt BT sem virðist vera helsta heimildin stendur hins vegar „For lørdag fik han sat den blå hue på hovedet“. Húfan er sem sé blá en ekki hvít.
  • „Þá er það möguleiki að setja húfuna á síðasta stúdentinn frá Vestskoven í Albertslund.“ Á dönskunni er þetta „Så blev der mulighed for at sætte huen på årets sidste hhx-student“. Þó að "mulighed" geti vissulega þýtt 'möguleiki' væri 'tækifæri' réttari þýðing þarna. Og þetta er ekki „síðasti stúdentinn“ heldur „síðasti stúdent ársins“.
  • „Mjög öflugt að ráða við fjölskylduna, handboltann og prófin“. Á dönsku: „virkeligt stærkt at klare både familie, håndbold og eksamen“. „Mjög öflugt“ er vond þýðing á „virkelig stærkt“ – eðlilegt væri 'vel af sér vikið'. Og „ráða við“ er vond þýðing á „klare“ – eðlilegt væri 'geta sinnt' eða eitthvað slíkt.
  • „Eftir að húfan fór á loft keyrði Hansen frá skólanum í hvítum jeppa sem var skreyttur með bæði fánum og greni“. Á dönsku: „Efter huen kom på plads, blev Mikkel Hansen kørt afsted i en hvid Jeep, der var pyntet med både flag og grene“. Undarlegt að segja „húfan fór á loft“, Hansen keyrði ekki frá skólanum heldur var honum ekið, og bíllinn var ekki skreyttur með greni, heldur greinum.
  • „stúdentar í Danmörku keyra þannig um götur bæjarins í rútu eftir að húfan fari á loft“. Ég veit ekki hvaðan rútan kemur – í frétt BT er talað um „studentervogn“ en vissulega kann þetta að vera úr annarri heimild. En þarna er aftur talað um að „húfan fari á loft“ sem er undarlegt, og a.m.k. ætti að nota framsöguháttinn fer en ekki viðtengingarháttinn fari.
  • „Þetta er svo sætt. Þetta er svo vel gert. Hann fær þetta sérstaklega í dag. Hann var í skólanum hjá okkur en þegar hann flutti hefur þetta verið á netinu.“ Danska orðið sejt þýðir ekki 'sætt'. Og „þegar hann flutti hefur þetta verið á netinu“ gengur ekki upp, þótt það standi „da han flyttede“ á dönsku – verður að vera 'eftir að hann flutti'.
  • „Að verða stúdent er ekki það eina góða sem hefur komið fyrir Danann á árinu því hann gifti sig unnustu sinni, Stephanie Gundelach, í maí.“ Sambandið koma fyrir er notað um eitthvað sem maður hefur ekki vald á og er því rangt þarna. Eðlilegra væri líka að nota giftist en gifti sig.