Samtengdir tvíburar

Í Fréttablaðinu var nýlega sagt frá því að „elstu samtengdu tvíburar heims“ væru látnir. Í Málvöndunarþættinum á Facebook spratt af þessu umræða um hvort ekki ætti fremur að segja samvaxnir tvíburar en samtengdir. Á móti var bent á að í Íðorðabankanum er enska heitið sem um er að ræða, conjoined twins, þýtt sem samtengdir tvíburar. Sú þýðing er komin úr Íðorðasafni lækna og varla hægt að hafna henni, þótt orðalagið samvaxnir tvíburar sé vissulega í betra samræmi við íslenska málhefð. Á tímarit.is er aðeins eitt dæmi um samtengdir tvíburar, frá 2001. Aftur á móti eru yfir 250 dæmi um orðalagið samvaxnir tvíburar, það elsta frá lokum 19. aldar. Það er því löng og rík hefð fyrir því orðalagi.

Ástæða þess að þetta orðalag er ekki notað í Íðorðasafni lækna er væntanlega sú að það hefur ekki þótt nógu nákvæmt frá fræðilegu sjónarmiði. Samtengdir tvíburar eru strangt tekið ekki samvaxnir. Ástæðan fyrir því að þeir eru samtengdir er sú að okfruma (frjóvgað egg) hefur ekki skipt sér ekki fullkomlega. Það er því ekki um það að ræða að tvíburarnir hafi „vaxið saman“ eins og orðið samvaxnir gefur í skyn. Þess vegna hefur þótt eðlilegra að nota orðið samtengdir sem er hlutlausara.

En hvað á blaðamaður að gera þegar þarf að þýða frétt um conjoined twins? Það er ekkert sérlega oft talað um samvaxna tvíbura (miklu oftar um síamstvíbura) þannig að það er vel hugsanlegt að blaðamaðurinn þekki ekki íslenska málhefð hvað þetta varðar. Hann flettir þá kannski upp á conjoined twins í Íðorðabankanum og fær upp samtengdir tvíburar, og notar það í þýðingunni. En það getur líka verið að blaðamaðurinn þekki orðalagið samvaxnir tvíburar en fletti þessu samt upp til öryggis og meti það svo að ábyggilegustu þýðinguna hljóti að vera að finna í Íðorðasafni lækna sem þar að auki er birt á vegum Árnastofnunar.

Þetta er áhugavert dæmi um árekstur almenns máls og fagmáls. Í almennu máli er hefð fyrir því að tala um samvaxna tvíbura, en í fagmálinu er talað um samtengda tvíbura. Það má svo velta því fyrir sér hvorn kostinn sé eðlilegra að velja í blaðafrétt. Hvort er mikilvægara að fylgja hefð almenns máls eða nota orð úr fagmáli sem er fræðilega „réttara“? Hvað sem öðru líður hlýtur hvort tveggja að teljast rétt mál.