Landamæri Íslands

Eftir að opnað var fyrir ferðir til landsins fyrir fáum vikum hefur orðið landamæri og samsetningar af því, ekki síst landamæraskimun, verið áberandi í fréttum. Sagt er að fólk fari í skimun á landamærum við komuna til landsins, smit hafi greinst á landamærum, o.s.frv. Ekki eru allir ánægðir með þessa notkun orðsins og benda á að í orðabókum sé það skilgreint sem 'mörk milli tveggja ríkja' eða 'staður þar sem tvö lönd mætast'. Vegna þess að Ísland er eyja geti það ekki átt sér nein landamæri.

Orðið landamæri er gamalt – kemur fyrir í fornu máli en þá og allt fram á 19. öld iðulega í eintölu. Þótt það merki vissulega oft 'mörk milli tveggja ríkja/landa' er ljóst að bæði að fornu og nýju getur það líka merkt 'ytri mörk tiltekins lands/ríkis' – án þess að tiltekið sé hvað er hinum megin við mörkin. Þannig er t.d. hægt að tala um þýsku landamærin í merkingunni 'ytri mörk Þýskalands', án þess að tiltaka öll lönd sem liggja að Þýskalandi.

Ísland liggur augljóslega ekki að neinu öðru landi, en hins vegar á það sér vitaskuld ytri mörk þótt e.t.v. megi deila um hvort þau séu í fjöruborði eða við 12 mílna landhelgislínu. Á tímarit.is má líka finna allt að 100 ára gömul dæmi um landamæri Íslands og í Lagasafninu er fjöldi dæma um að landamæri í þessari merkingu eigi við Ísland. Þegar flugfarþegar lenda á Keflavíkurflugvelli eru þeir því komnir inn fyrir landamæri Íslands.

Fyrir daga flugsamgangna komst fólk ekki inn í land nema fara yfir ytri mörk þess þar sem þau voru dregin, hvort sem var á landi eða í fjöruborði. Nú er þetta breytt – þótt flugvellir séu oft fjarri landamærum er fyrst þar hægt að ná til farþega eftir að þeir koma inn fyrir landamærin. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að tala um að skimun á landmærum, landamæraskimun, landamæraeftirlit o.s.frv. fari fram þar. Það þýðir ekki að landamæri Íslands séu í Leifsstöð.