Af kæröstum og kærustum - allra kynja

Á Vísi má í dag finna fyrirsögnina Auðveldar kæröstum og kærustum utan Schengen að koma til landsins. Fólk var eitthvað að hnýta í myndina kæröstum en það er ástæðulaust – þetta er möguleg beyging þótt hún sé vissulega sjaldgæf. Þegar nafnorð með a í stofni fá beygingarendingu sem hefst á u kemur ö í stað a ef um áhersluatkvæði (fyrsta atkvæði) er að ræða – saga sögur, hani hönum, tala tölum o.s.frv. (nefnifallsendingin -ur er undantekning af ástæðum sem óþarfi er að rekja hér).

Ef stofninn er tvíkvæður og a er í seinna atkvæði hans kemur venjulega u frekar en ö á undan endingu sem hefst á u kennari – kennurum, spilaði – spiluðum o.s.frv. Þetta er þó ekki algilt – stundum kemur ö þarna en ekki u, sbr. Ítali – Ítölum, og stundum koma fram tvímyndir, önnur með u og hin með ö – af Búlgari er til bæði Búlgurum og Búlgörum. Tvímyndirnar eru sérstaklega algengar þegar um er að ræða orð með tvö a í stofni – þá fáum við myndir eins og banönum og bönunum, kastölum og köstulum, sandölum og söndulum, o.fl.

Í þessu tilviki er um að ræða tvö orð, karlkynsorðið kærasti og kvenkynsorðið kærasta. Stofn þeirra er sá sami, kærast-, og eðlilegasta mynd þágufalls fleirtölu væri þess vegna sú sama, kærustum. En það er ekki hægt að tvítaka sömu myndina og segja Auðveldar kærustum og kærustum utan Schengen að koma til landsins. Af því að myndin kærustum dekkar bæði kyn væri vissulega hægt að hafa fyrirsögnina bara Auðveldar kærustum utan Schengen að koma til landsins, en ég hef samt á tilfinningunni að kærustum yrði yfirleitt skilið sem kvenkyn í því tilviki.

Í fréttinni er haft eftir dómsmálaráðherra: „kærustur og kærastar í einhverju formi utan Schengen geta komið hingað á þeirri undanþáguheimild“. Blaðamaður hefur væntanlega viljað láta koma fram í fyrirsögn að þetta gilti um bæði kyn og þess vegna gripið til sjaldgæfari beygingarmyndar til að ná aðgreiningu. En hvers vegna skiljum við kærustum frekar sem kvenkyn en karlkyn, ef sú tilfinning mín er rétt? Ég held að það sé vegna þess að ýmis kvenkynsorð enda á -ustaunnusta, þjónusta, orusta o.fl. – og þess vegna tengjum við myndir með -ust- frekar við kvenkyn.

Ég sagði hér áður að myndin kærustum dekkaði „bæði kyn“, en kynin eru kynin eru ekki bara tvö. Í hýryrðasamkeppni Samtakanna 78 var lagt til að kærast yrði notað sem hvorugkynsorð hliðstætt kærasti og kærasta. Í hvorugkynsorðum sem hafa a í stofni kemur u í þess stað í fleirtölu í einkvæðum orðum – barnbörn, land, lönd o.s.frv. Ef a er í seinna atkvæði tvíkvæðra hvorugkynsorða fær fleirtalan stundum u, eins og í hundrað hundruð, stundum ö, eins og í líkan – líkön, og stundum koma fram tvímyndir, eins og héröð og héruð. Fleirtalan af hvorugkynsorðinu kærast yrði væntanlega kæröst, og þágufall fleirtölu þá kæröstum.