Af kæröstum og kærustum

Á Vísi má í dag finna fyrirsögnina Auðveldar kæröstum og kærustum utan Schengen að koma til landsins. Ég sé að fólk hefur eitthvað verið að hnýta í myndina kæröstum en það er ástæðulaust – þetta er alveg eðlileg beygingarmynd þótt hún sé vissulega sjaldgæf. Í karlkynsorðum með tvíkvæðan stofn, sem hafa a í öðru atkvæði, breytist það oftast í u á undan endingu þágufalls fleirtölu, -um, sbr. kennari – kennurum. En stundum kemur þó ö þarna en ekki u, sbr. Ítali – Ítölum, og stundum koma fram tvímyndir, önnur með u og hin með ö – af Búlgari er til bæði Búlgurum og Búlgörum.

Í þessu tilviki er um að ræða tvö orð, karlkynsorðið kærasti og kvenkynsorðið kærasta. Stofn þeirra er sá sami, og eðlilegasta mynd þágufalls fleirtölu væri þess vegna sú sama, kærustum. En auðvitað er ekki hægt að segja Auðveldar kærustum og kærustum utan Schengen að koma til landsins. Vissulega væri hægt að hafa fyrirsögnina bara Auðveldar kærustum utan Schengen að koma til landsins en ég hef á tilfinningunni að flestir myndu skilja kærustum aðeins sem kvenkyn í því tilviki. Þess vegna er gripið til sjaldgæfari beygingarmyndar af karlkynsorðinu, og það er í góðu lagi.