Appelsínugul viðvörun
Eitt vinsælasta tilefni nöldurs og tuðs í Málvöndunarþættinum á Facebook er lýsingarorðið appelsínugulur. Talað er um að þetta sé leiðindaorð, barnamál, tökuþýðing, fáránlegt orð, óþjált og asnalegt, o.s.frv. Í staðinn eigi að nota rauðgulur – það sé hið rétta heiti á þessum lit. Um þetta getur fólk skrifað aftur og aftur endalaust, undir merkjum málvöndunar.
Ég ólst upp við orðið rauðgulur, enda sáust appelsínur aldrei á mínu bernskuheimili nema á jólunum og á mörkunum að maður vissi hvernig þær væru á litinn. En orðið appelsínugulur er samt mun eldra – kemur fyrst fyrir svo að vitað sé árið 1916 og er því orðið meira en aldargamalt. Síðan á fjórða áratugnum hafa orðin tvö verið notuð hlið við hlið, rauðgulur þó mun algengara framan af. En frá því um 1980 hefur appelsínugulur verið mun algengara eins og tölur af tímarit.is sýna.
Vitanlega er appelsínugulur íslenskt orð. Það er ekki tökuorð og ekki heldur tökuþýðing þótt vissulega sé líkingin við lit appelsínu fengin erlendis frá (væntanlega úr dönsku frekar en ensku). Þetta er íslensk nýmyndun sem á sér hundrað ára hefð í málinu og margar kynslóðir hafa alist upp við. Að gera það brottrækt úr íslensku væri fullkomlega fráleitt.
Auðvitað getur fólk haft málefnalegar ástæður fyrir því að kjósa rauðgulur fremur en appelsínugulur, s.s. að fyrrnefnda orðið sé eldra. Það er líka þremur atkvæðum styttra og því þjálla í meðförum. Þar að auki finnst ýmsum það fallegra og ekkert við það að athuga. En að agnúast út í appelsínugulur á ekkert skylt við málvöndun.