Streyma

Sögnin streyma er mikið notuð þessi árin, ekki síst eftir að samkomutakmarkanir tóku gildi.  Við streymum fundinum beintFundinum verður streymt o.s.frv. Þetta merkir að viðburður eða athöfn er send út gegnum netið. Oft er um að ræða beina útsendingu frá atburðum sem eru að gerast, en einnig er talað um að streyma kvikmyndum, streyma tónlist, streyma sjónvarpsstöðinni o.s.frv., þar sem sendar eru út upptökur af efni sem horft er eða hlustað á í streymi, án þess að því sé hlaðið niður á tölvu notandans.

Sögnin streyma er gömul í málinu, erfðaorð, og á sér ættingja í öðrum germönskum málum. Merking hennar er ‚fljóta, renna fram‘ sem fellur ágætlega að þeirri nýju notkun sem vísað er til hér að ofan. En hins vegar hefur setningafræðileg hegðun sagnarinnar gerbreyst. Hún var áður fyrr áhrifslaus, tók ekkert andlag og hafði engan geranda. Við sögðum áin streymir – en það er enginn sem streymir ánni. Í nýju notkuninni tekur sögnin hins vegar andlag, og frumlag hennar er gerandi. Þetta er grundvallarbreyting.

Þegar ný áhrifssögn kemur inn í málið, eða áhrifslaus sögn er gerð að áhrifssögn eins og í þessu tilviki, þarf andlagið að fá eitthvert fall. Þolfall er algengasta andlagsfallið en streyma tekur yfirleitt þágufall. Hvernig skyldi standa á því? Merkingarlega er þetta hliðstætt við senda (út) sem tekur þolfall, en e.t.v. er fólk fremur með sögnina veita í huga – veita straumnum til áhorfenda/áheyrenda. Reyndar má finna fáein dæmi um þolfall; „verður þá auðvelt að skutlast með 4G pung upp í sumarbústað og streyma kvikmyndir í sjónvarpið“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2013. En þetta er mjög sjaldgæft.

Þessi notkun er ekki gömul, frekar en sú tækni sem hún vísar til. Elsta dæmi sem ég hef fundið er í mbl.is frá árinu 2000 þar sem segir „Aðal Be stýrikerfisins er hversu vel það streymir hreyfimyndum“. Næstu ár eru dæmin sárafá, flest eða öll úr Morgunblaðinu eða mbl.is – hugsanlega flest frá sama blaðamanni. Um 2010 fer þessi notkun svo að sjást í flestum fjölmiðlum og það verður fljótlega sprenging í notkuninni – nú er hún t.d. farin að sjást í þingræðum, þingskjölum og dómum og komin inn í Íslenska orðabók á Snöru og Íslenska nútímamálsorðabók.

Það er auðvitað ekkert undarlegt að sögnin streyma skyldi bæta við sig þessari nýju merkingu. Bæði er hún náskyld hefðbundinni merkingu sagnarinnar, og svo er sögnin stream notuð um þetta fyrirbæri á ensku. Það lá því beint við að gefa streyma þetta nýja hlutverk, þótt til þess þyrfti að gerbreyta setningafræðilegu eðli hennar. Það virðist hafa gerst áreynslulaust. Og það merkilega er að málnotendur virðast hafa samþykkt þetta umyrðalaust – a.m.k. man ég ekki eftir kvörtunum yfir þessu í málfarsumræðunni, og hefur þó oft verið kvartað undan minni breytingum.