Læka eða líka við?

Einu sinni lagði ég til í færslu á Facebook „að sögnin læka og hvorugkynsnafnorðið læk verði viðurkennd sem fullgild íslensk orð. Þau innihalda engin framandi hljóð, brjóta ekki íslenskar hljóðskipunarreglur, og falla auðveldlega inn í íslenskt beygingarkerfi. Síðast en ekki síst er mikil þörf fyrir þau. Það er miklu betri kostur að nota sögnina læka en halda áfram að misþyrma sögninni líka („4 aðrir líkar þetta“; „líkaðu (við) þetta“), og nafnorðið lík er ónothæft í þessu samhengi af augljósum ástæðum“.

Það sem ég átti við með að „misþyrma sögninni líka“ var að sögnin tekur – eða tók – alltaf þágufallsfrumlag – mér líkar (við) þetta en ekki ég líka (við) þetta. Það er svo sem hægt að hugsa sér að nota sögnina þannig á samfélagsmiðlum og segja mér líkaði þetta. Það er samt svolítið óeðlilegt vegna þess að mér líkar felur í sér tilfinningu sem við höfum ekki stjórn á, en að líka (við) á samfélagsmiðlum felur í sér verknað sem við framkvæmum af ásettu ráði. Við það bætist að þegar sögnin er notuð í tengslum við samfélagsmiðla þarf ekki síst að nota hana í boðhætti – fólk er hvatt til að (láta sér) líka við tiltekna síðu eða hóp. En sagnir með aukafallsfrumlagi er ekki hægt að nota í boðhætti – boðhættir eins og *langaðu, *vantaðu o.s.frv. eru ekki til – og ekki líkaðu heldur, til skamms tíma.

En þótt sögnin læka hafi vissulega verið heilmikið notuð á þeim sjö árum sem eru liðin síðan ég skrifaði áðurnefnda færslu hefur notkun líka með nefnifallsfrumlagi stóraukist, og dæmum eins og Líkaðu við okkur á Facebook virðist fara fjölgandi. Ég hef því skipt um skoðun. Ég ætla svo sem ekki að snúast gegn læka, en mér finnst ekki lengur neitt að því að nota líka með nefnifallsfrumlagi – ég líkaði við þessa færslu. Málnotendur hafa valið að breyta sögninni á þennan hátt, og þá er ástæðulaust að amast við því. Enda eru svo sem fjölmörg dæmi um að sama sögnin taki bæði nefnifalls- og þágufallsfrumlag, í svolítið mismunandi merkingu. Ég skrifaði nýlega um sagnir eins og batna og versnaheilsan batnaði/versnaði en mér batnaði/versnaði, og fjölmargar fleiri mætti nefna.

Sögnin líka er því að bætast í þeirra hóp – ég líkaði við síðuna en mér líkar síðan. Það er ekki eins og þágufallsfrumlaginu sé ýtt út – það heldur sér í hefðbundinni notkun sagnarinnar, en ný notkun hennar með nefnifallsfrumlagi bætist við. Mér finnst það í góðu lagi þótt ég hafi verið annarrar skoðunar áður. En þetta leysir þó ekki vandann með tilsvarandi nafnorð. Eftir sem áður er ótækt að nota það sem lægi beinast við, lík, í þessari merkingu. Hugsanlegt væri að nýta sér viðskeytið -un og búa til orðið líkunég fékk bara eina líkun á þessa færslu en margar líkanir á færsluna í gær. Ég skal ekki segja hvernig fólki líst á það eða hvort þetta orð gæti náð fótfestu.

Annars sitjum við bara uppi með læk. Í fljótu bragði virðist það falla ágætlega að málinu – í því eru engin framandi hljóð eða hljóðasambönd eins og áður segir, og enginn vandi er að beygja það. Fólk sem hefur næga málsöguþekkingu áttar sig hins vegar á því að þetta orð gæti ekki verið íslenskt að uppruna vegna þess að af sögulegum ástæðum (sem hér er óþarfi að fara út í) hafa einkvæð hvorugkynsorð aldrei æ í stofni. Hvorugkynsorð með æ eru tvíkvæð og enda á -i, svo sem kvæði, færi, tæki o.s.frv. Hvort þetta er gild ástæða til að amast við læk sem tökuorði skal ósagt látið.