Hvað er skýrsla?

Uppáhaldsbækur mínar þegar ég var strákur voru bækurnar um Grím grallara (Just William) eftir Richmal Crompton (sem ég komst að löngu síðar mér til mikillar furðu að var kona) í snilldarþýðingu Guðrúnar Guðmundsdóttur. Með eftirminnilegustu köflunum í þessum bókum var frásagan af því þegar Grímur kom heim allur rifinn og tættur og Helga móðir hans fór að þýfga hann um hverju það sætti. Grímur sagði að þeir vinirnir hefðu verið að leika ljónatemjara – einn var ljónið og hinir ljónatemjarar sem reyndu að handsama það. Helga lagði umsvifalaust blátt bann við því að þeir lékju ljónatemjara aftur og Grímur lofaði vitanlega öllu fögru.

Daginn eftir kom hann samt heim í svipuðu ástandi og Helga byrjaði að skamma hann fyrir að hafa brotið gegn banni við að leika ljónatemjara. En Grímur hélt nú ekki að hann hefði brotið það – þeir voru nefnilega að leika tígrisdýratemjara. Þegar Helga innti eftir lýsingu á þeim leik kom í ljós að hann fólst í því að einn væri tígrisdýr og hinir reyndu að handsama það. Augljóslega allt annar leikur, en Grími var samt stranglega bannað að fara í hann aftur. Næsta dag kom hann enn heim í svipuðu standi og hafði verið að leika krókódílatemjara að eigin sögn – þið megið giska á hvernig sá leikur fór fram.

Mér dettur oft í hug hvort íslenskir stjórnmálamenn og framámenn á ýmsum sviðum hafi lesið Grím grallara og lært þessa tækni af honum. Svo algengt er það að maður sjái orðhengilshætti beitt í skilgreiningu á orðum. Hvað merkir t.d. orðið skýrsla? Í Íslenskri orðsifjabók segir ‘frásögn, greinargerð (t.d. um niðurstöður rannsókna eða könnunar)’ og í Íslenskri nútímamálsorðabók segir „rituð frásögn af atburði eða greinargerð um eitthvert efni í sérstöku formi fyrir félag eða opinbera stofnun“.

Því hefur verið haldið fram með vísun til þessara skilgreininga að Excel-skjal sé ekki hægt að kalla skýrslu. En margar tegundir skýrslna eru ekki frásagnir, heldur eyðublöð sem fyllt er inn í, svo sem vinnuskýrslur og tímaskýrslur, tjónaskýrslur, tollskýrslur, skattskýrslur o.s.frv. Það sem fært er inn í þessi eyðublöð er venjulega fyrst og fremst tölur en oft sáralítill eða enginn texti. Ég sé því ekki betur en Excel-skjal með textaskýringum á dálkum og línum, en að öðru leyti tómum tölum, geti fallið undir það að vera skýrsla.

Í umræðunni hefur verið vitnað til þess að Verðlagsstofa segir: „Ekki var skrifuð sérstök skýrsla af hálfu Verðlagsstofu af þessu tilefni“ og það haft til sannindamerkis um að engin skýrsla sé eða hafi verið til. En spurningin er: Getur stofnun sem tekur saman tilteknar upplýsingar ákveðið hvort skjalið sem geymir upplýsingarnar er „skýrsla“ eða ekki? Gat Grímur grallari ákveðið að leikurinn sem hann fór í héti ekki „ljónatemjari“ þótt hann væri alveg eins? Hlýtur ekki inntak upplýsinganna eða leiksins að skipta meginmáli?

Hér er meginatriði að skýrsla er ekki íðorð, orð sem er komið úr eða bundið við ákveðna fræðigrein og eigi sér fasta skilgreiningu þar, heldur algengt orð í daglegu máli – orð sem við eigum öll og notum í þeirri merkingu sem við þekkjum og erum vön. Það þarf ekki að standa skýrum stöfum „Skýrsla“ á forsíðunni til að hægt sé að kalla tiltekið skjal skýrslu, og eðli skjalsins þarf ekki heldur að falla nákvæmlega að orðabókarskilgreiningum. Miðað við lýsingar á því skjali sem deilt hefur verið um undanfarið get ég ómögulega séð að óeðlilegt sé að tala um það sem skýrslu.