Bakbrotinn

Ég sá nýlega frétt á vefmiðli um erlendan mann sem hefði „bakbrotnað“. Auðvitað er bakbrotna íslenskt orð – báðir hlutar þess eru íslenskir, og það er myndað á sama hátt og fótbrotna, handleggsbrotna, rifbrotna o.s.frv. En þetta er bara ekki orðið sem venja er að nota í íslensku, þótt vissulega megi finna fáein dæmi um það á netinu. Þess í stað er venjulega talað um að hryggbrotna. Bakbrotinn á hins vegar við ef rætt er um stól.

Í fréttinni er haft eftir manninum: „Ég er búinn að brjóta hluta af baki mínu.“ En þótt hann hafi sagt á ensku „I have broken part of my back“ (eins og sést í fréttinni) er ekki gott að orða þetta svona á íslensku. Það þarf að varast að þýða erlendar fréttir orð fyrir orð. Mikilvægt er að hugsa: „Hvernig er venja að orða þetta á íslensku?“ – og nýta tiltæk hjálpargögn til að komast að því, ef þörf krefur.