Skýrt orðalag og vönduð framsetning

5. Íslensk málrækt felst í því að leitast við að orða hugsun sína skýrt og skipulega og vanda framsetningu bæði talaðs máls og ritaðs.

Meginhlutverk tungumálsins er að vera samskiptatæki. En þessu tæki er hægt að beita á mismunandi hátt eins og öðrum tækjum, og eins og með önnur tæki má gera ráð fyrir því að bestur árangur náist ef því er beitt af þekkingu, á markvissan og hnitmiðaðan hátt. Við náum betur til áheyrenda eða lesenda ef við vöndum uppbyggingu setninga, veljum viðeigandi orð og tölum skýrt en ef setningagerðin er ruglingsleg, orðanotkun ómarkviss og framburður óáheyrilegur.

Frágangur bæði ritaðs og talaðs máls skiptir líka máli. Ritaður texti sem er fullur af hvers kyns frávikum – óvenjulegri beygingu, ritvillum, ósamræmi, óhefðbundinni notkun orðasambanda o.s.frv. er ekki traustvekjandi. Sama gildir um talað mál þar sem framburður er mjög óskýr eða kæruleysis­legur, erlendar slettur notaðar í óhófi, o.s.frv. Mál af þessu tagi truflar margt fólk og veldur því að boðskapurinn kemst ekki til skila, vegna þess að áheyrendur eða lesendur festast í forminu og láta það leiða athyglina frá merkingunni.

Þess vegna er mikilvægt að lesa ritaðan texta sem maður sendir frá sér vandlega yfir – huga vel að beygingu, fallstjórn, beygingarsamræmi, orðavali, stafsetningu, setningagerð og greinar­merkj­um. Einnig þarf að huga að samræmi í leturgerð, leturstærð, línubili o.þ.h. Þetta á auðvitað sérstaklega við um texta sem fólk birtir opinberlega á einhvern hátt, á prenti eða á netinu, rit­gerðir sem nemendur skila, o.fl. Reyndar er það þannig eftir tilkomu samfélagsmiðla að fólk skrifar miklu oftar en áður texta sem kemur fyrir augu margra.

Við þennan yfirlestur er um að gera að nýta sér hvers kyns hjálpargögn, bæði á bók og rafræn. Úrval slíkra hjálpargagna hefur stóraukist á síðustu árum og aðgengi að þeim batnað. Þar má ekki síst nefna vef Árnastofnunar, Málið.is. Þar er flett upp í sjö gagnasöfnum í einu; Beygingar­lýsingu íslensks nútímamáls, Íslenskri nútímamálsorðabók, Íðorðabankanum, Málfarsbankan­um, Íslensku orðaneti, Stafsetningarorðabók og Íslenskri orðsifjabók. Beinir hlekkir eru á öll þessi gagnasöfn nema það síðasttalda.

Risamálheildin er safn sem hefur að geyma 1,5 milljarð orða úr fjölbreyttum textum, einkum frá síðustu árum. Hægt er að leita í textunum á margvíslegan hátt, svo sem eftir málfræðilegri greiningu. Sama leitarviðmót er á safni íslenskra forntexta. Að auki má nefna Ritmálssafn Orða­bókar Háskólans með dæmum úr textum allt frá 1540, ÍSLEX – íslensk-norrænar orðabækur, Hugtakasafn Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, Nýyrðavef Árnastofnunar, íslenskar ritreglur, og íslenska fornmálsorðabók með dönskum og enskum skýring­um. Öll framantalin gögn eru opin og ókeypis á netinu.

Auk þessa er Snara sem greiða þarf áskriftargjald fyrir. Þar er m.a. Íslensk orðabók, Íslensk samheitaorðabókMergur málsins og orðabækur milli íslensku og ýmissa erlendra mála – dönsku, ensku, þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku og pólsku. Til viðbótar má vísa á kver Ólafs Oddssonar, Gott málPistla Jóns G. Friðjónssonar; og Ritgerðasmíð eftir Eirík Rögnvaldsson. Það er mikilvægt að vita um þessi hjálpargögn, læra að nota þau, og nýta sér þau reglulega. Kæruleysisleg umgengni við íslenskuna, hvort heldur er í ræðu eða riti, er engum til sóma.