Viðeigandi málsnið

6. Íslensk málrækt felst í því að velja máli sínu búning sem hæfir aðstæðum og viðmælendum eða lesendum – nota viðeigandi málsnið.

Þótt alltaf sé sjálfsagt að vanda mál sitt og framsetningu þess er nauðsynlegt að hafa í huga að hvorttveggja þarf ævinlega að laga að aðstæðum – haga orðavali, setningagerð, talhraða o.fl. eftir því sem við teljum viðeigandi hverju sinni. Orðið málsnið er notað um þetta heildaryfirbragð málsins. Stíll er skylt hugtak en tengist fremur einstaklingum, tilteknum bókmenntategundum o.þ.h. – talað er um stíl Halldórs Laxness, Íslendingasagnastíl, Biblíustíl o.s.frv. Við lærum mismunandi málsnið smátt og smátt og skiptum oftast nokkuð ósjálfrátt milli þeirra þótt vissulega komi fyrir alla að nota stundum rangt eða óviðeigandi málsnið.

Málsnið mótast ekki síst af miðlinum – hvort málinu er miðlað í rituðu formi eða töluðu. Það er margs konar munur á dæmigerðu málsniði ritmáls og dæmigerðu málsniði talmáls – yfirleitt er ritmál talið mun formfastara en talmál aftur frjálslegra. Skilin þarna á milli hafa þó dofnað verulega á seinni árum, fyrst með tilkomu tölvupósts og síðar bloggs og samfélagsmiðla þar sem málsnið er mun óformlegra en venjulegt er á prenti.

Annar mótandi þáttur er vettvangurinn. Málsniðið er ólíkt eftir því hvort við erum að spjalla við fjölskylduna inni á heimilinu, vinnufélagana í kaffitíma, tala við lækni undir fjögur augu, flytja fyrirlestur á ráðstefnu frammi fyrir fjölda áheyrenda, skrifa vinnutengdan tölvupóst til samstarfsfólks, skrifa pistil í dagblað, eða skrifa á samfélagsmiðla. Markmið okkar skiptir líka máli – erum við að spjalla um heima og geima, skiptast á skoðunum, gefa fyrirmæli, fræða, reka áróður, eða eitthvað annað. Allt kallar þetta á mismunandi málsnið.

Síðast en ekki síst mótast málsniðið mótast að sjálfsögðu af þátttakendum í samskiptunum. Konur tala og skrifa að einhverju leyti öðruvísi en karlar, unglingar tala og skrifa öðruvísi en fullorðið fólk, menntun fólks getur haft áhrif á málfar þess, staða þess í þjóðfélaginu líka, og áhugi á að fylgja málstaðli. En viðmælandinn eða markhópurinn mótar líka málfar okkar. Við tölum öðruvísi við afa og ömmu en við jafnaldra okkar, við tölum öðruvísi við kennarann en skólasystkini okkar, við skrifum öðruvísi texta í skólaritgerð en á samfélagsmiðla, o.s.frv.

Munur málsniða birtist í ýmsum þáttum – orðavali, setningagerð, framsögn, fylgni við málstaðal o.fl. Hinn óopinberi íslenski málstaðall miðast við formlegt ritmál en í óformlegu málsniði, dæmigerðu og eðlilegu talmáli, bregður oft fyrir ýmsum tilbrigðum í beygingum og setningagerð sem ekki samræmast staðlinum. Honum er hins vegar iðulega beitt til að leggja mat á málfar sem fylgir öðru málsniði. Það leiðir til þess að mörgum finnst formlegt ritmál hin eina rétta íslenska, en önnur málsnið einhvers konar óæðri frávik.

En þannig er það auðvitað ekki. Óformlegt mál er ekkert síðri íslenska en formlegt, talmál er ekkert síðri íslenska en ritmál. Óformlegt talmál getur verið vandað og viðeigandi þrátt fyrir ýmis frávik frá málstaðli og formlegt ritmál getur verið óvandað, knosað og klúðurslegt, jafnvel þótt málstaðli sé fylgt út í æsar. Málvöndun felst ekki síst í því að velja sér málsnið við hæfi. Með því móti komum við boðskap okkar best til skila og sýnum viðmælendum eða lesendum virðingu.