Veitum unglingum hlutdeild í íslenskunni
Þegar sögnin sína (eða seena) var til umræðu í Facebook-hópnum Málspjall dögum nefndi ég að í stað þess að vísa henni umsvifalaust á bug sem óþarfri enskuslettu væri reynandi að nota hana í kennslu til að vekja áhuga á ýmsum eiginleikum málsins. Lára Ómarsdóttir tók mig á orðinu og fór að skoða sögnina með 16 ára syni sínum sem fannst þetta áhugavert. Sérstaklega þótti honum athyglisvert „að unglingar gætu líka búið til ný orð sem gætu orðið viðurkennd og viðtekin venja að nota í íslensku máli“ sagði Lára.
Ég varð ósegjanlega glaður þegar ég las þetta vegna þess að hér er komið að kjarna málsins. Við erum alltaf að segja unglingunum að nota íslensku, að þau beri ábyrgð á að vernda hana og varðveita – en við gefum þeim enga hlutdeild í henni. Þau eiga að nota íslenskuna eins og við viljum hafa hana, ekki eins og þeim er eiginlegt. Þau eiga að tileinka sér reglur sem samrýmast ekki málkennd þeirra. Þau eiga að tala eins og við en ekki eins og þau sjálf.
En við þurfum að átta okkur á því og viðurkenna að við eigum íslenskuna öll saman – unga fólkið líka. Þess vegna má ungt fólk nota íslenskuna á sinn hátt. Það kemur ekki í veg fyrir að við brýnum það fyrir því að fara vel með hana. En ef við látum alltaf eins og unga fólkið sé að skemma íslenskuna fyrir okkur hinum er ekki von til þess að það fái jákvætt viðhorf til hennar og rækti með sér áhuga á að skila henni áfram til sinna barna.
Forsenda þess að íslenskan lifi áfram er auðvitað sú að nýjar og nýjar kynslóðir vilji nota hana. En þá þarf hún að þjóna þörfum þeirra – gera þeim kleift að tala um viðfangsefni sín og hugðarefni á þann hátt sem þeim er eiginlegt, með þeim orðum sem þær kjósa. Það gerir hún ekki ef við leggjum áherslu á þekkingu á orðum og orðasamböndum frá fyrri tíð og reglur sem eru í ósamræmi við málkennd fólks, t.d. um beygingar og fallstjórn.
Þess í stað þarf að þjálfa nemendur á öllum skólastigum í að leika sér með málið, átta sig á fjölbreytileik þess, og reyna á sköpunarmátt þess. Ég efast ekki um að margir kennarar geri einmitt þetta. En hendur þeirra eru ansi bundnar meðan enn er verið að prófa í „réttu“ máli og „röngu“. Hættum því – og ræktum málið þess í stað með því að leyfa því að leika lausum hala. Það margborgar sig.