Síga upp
Í Málfarsbankanum segir: „Ekki er hægt að tala um að eitthvað „sígi upp á við“, t.d. vextir. Sögnin síga á annaðhvort við hreyfingu niður á við eða áfram.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær merkingar sagnarinnar: 'mjakast niður, fara hægt og hægt niður' og 'hafa hæga framvindu'. Samkvæmt þessu ætti hvorki að vera hægt að nota sögnina um hreyfingu upp á við né aftur á bak. Um hvort tveggja eru þó ýmis gömul dæmi.
Í grein um Feneyjar í Þjóðólfi 1890 er því lýst „þegar hinir daggvotu turnar, kúlur og turnspírur hægt og hægt koma í ljós fram úr morgunmóðunni, eins og menn sæju þau síga upp úr djúpi sævarins“. Í blaðinu Austra birtist árið 1900 kvæði eftir Matthías Jochumsson, „Ferð upp í Fljótsdalshérað, 1900“. Þar segir: „Þokunni þegar svo brá / að þyrlaðist austur og vestur, / sum bak við fellin, en sum / seig upp í loptið og hvarf.“ Í Morgunblaðinu 1936 segir: „Þá hefur neyzla sjávarafurða einnig sigið upp á við.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Úrvalsvísitalan hefur sigið upp á við eftir mikla niðursveiflu um miðjan október.“
Í Nýja dagblaðinu 1937 segir: „Hann seig aftur á bak, tók síðasta andvarpið og kollsteyptist niður fyrir.“ Í Fróða 1912 segir: „loks fóru þeir að síga aftur úr, þangað til þeir voru orðnir ein 50-60 fet á eftir.“ Í Íslandi 1927 segir: „þeir, sem farið hafa mentabrautina eru alt af meira og meira að síga aftur úr á stjórnmálabrautinni“. Í DV 1994 segir: „33 varpa öndinni léttar þegar Drangey sígur aftur á bak og naumlega er komist hjá slysi.“ Eins og þessi dæmi sýna hefur sögnin síga sannanlega verið notuð um hreyfingu bæði upp á við og aftur á bak, þótt dæmin séu vissulega ekki ýkja mörg. Athyglisverðast er dæmið frá séra Matthíasi.
Þegar að er gáð er það reyndar dálítið sérkennilegt ef hægt er að nota síga um hreyfingu niður og áfram, en ekki um hreyfingu upp og til baka. Einhvern veginn fyndist manni eðlilegt að niður og til baka ætti saman, og svo upp og áfram. Ég ímynda mér að þessi sérkennilega pörun geti valdið því að málnotendur hafi tilhneigingu til að líta fram hjá allri stefnumerkingu í sögninni en horfi eingöngu á það að hún vísar ævinlega til hægrar hreyfingar – og noti hana um hæga hreyfingu í hvaða átt sem er. Þannig get ég a.m.k. notað hana – mér finnst ekkert óeðlilegt að segja að gengi eða vextir sígi upp á við.
Eftir sem áður er hreyfing niður á við þó í einhverjum skilningi innbyggð í sögnina – ef hún er notuð ein og sér, án nokkurrar áttatáknunar, vísar hún ævinlega til hægrar hreyfingar niður á við. Gengið hefur sigið getur ekki merkt 'gengið hefur hækkað hægt', og gengissig er ævinlega niður á við. Að þessu leyti má kannski líkja sögninni við líka (við) – ef hún er notuð ein og sér, mér líkar (við) þetta, merkir hún 'mér líkar þetta vel', en svo er hægt að bæta við atviksorði til að ná fram öfugri merkingu, mér líkar þetta illa, mér líkar illa við þetta. Þarna er jákvæð merking innbyggð í sögnina en hægt að neita henni.