Hljóðlát framburðarbreyting
Um daginn skrifaði ég dálítið um tilbrigði í máli og nefndi að framburður hefði að mestu sloppið undan tilhneigingum til samræmingar, þótt frá því séu vissulega undantekningar eins og „flámælið“ svokallaða. Ein ástæða fyrir harðri baráttu gegn því var örugglega sú að það olli samfalli sérhljóða sem gat komið fram í stafsetningu – fólk skrifaði „sekur“ fyrir sykur, „flögur“ fyrir flugur – og öfugt. Ástæðan var sú að fólk heyrði ekki og/eða gerði ekki mun á i og e annars vegar og u og ö hins vegar, og átti því erfitt með að gera mun í ritun.
Framburðarbreytingar og tilbrigði í framburði sem ekki koma fram í stafsetningu eða hafa áhrif á hana fá hins vegar miklu frekar að vera í friði og fólk áttar sig jafnvel ekki á þeim. Vissulega tekur fólk eftir því hvort m, n og l eru rödduð eða órödduð á undan p, t og k í orðum eins og hampur, vanta og mjólk, en bæði tilbrigðin eru fullkomlega viðurkennd og hafa engin áhrif á stafsetningu. Hins vegar taka miklu færri eftir nýlegri framburðarbreytingu á orðum eins og buxur, hugsa, loksins o.s.frv.
Þetta eru orð sem ýmist eru skrifuð með x, gs eða ks og voru áður borin fram með önghljóði á undan s – sama hljóðinu og er t.d. á undan t í orðinu hægt. En á undanförnum áratugum hefur framburður þessara orða verið að breytast og lokhljóð komið í stað önghljóðsins – sama hljóðið og í hugga. Ég er fæddur 1955 og alinn upp við önghljóðið, en mér hafði sýnst að skilin hefðu orðið kringum 1960 – fólk sem væri fætt fyrir þann tíma hefði yfirleitt önghljóðsframburðinn, en fólk fætt eftir það hefði lokhljóðsframburðinn.
Í lítilli könnun sem ég gerði á þessu á Facebook var staðfest að lokhljóðsframburðurinn er nánast óþekktur hjá fólki fæddu 1960 eða fyrr. 1/6 þeirra sem tóku þátt í könnuninni og eru fædd milli 1960 og 1970 er með lokhljóðsframburðinn, og rúmlega þriðjungur þeirra sem eru fædd milli 1970 og 1980. Aftur á móti eru 2/3 þeirra sem eru fædd eftir 1980 með lokhljóðsframburð. Þetta er svipað og ég bjóst við, nema ég hélt að umskiptin hefðu verið sneggri.
Þetta rímar við niðurstöður úr Rannsókn á íslensku nútímamáli (RÍN) sem Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason stóðu fyrir upp úr 1980 – þar var framburðurinn sjaldgæfur hjá fólki yfir tvítugt þótt hann kæmi vissulega fyrir, og var þeim mun sjaldgæfari sem fólk var eldra. Ómögulegt er að segja hvort farið hafi að örla á framburðinum allnokkru fyrir 1960, eða hvort sumt fólk fætt fyrir þann tíma hafi (ómeðvitað) tekið framburðinn upp á fullorðinsaldri þótt það hafi upphaflega haft önghljóðsframburð.
Þótt þarna sé um að ræða breytingu sem hefur breiðst mjög hratt út og tekur til fjölda orða virðist hún hafa gengið yfir athugasemdalítið og jafnvel án þess að eftir henni væri tekið, eins og áður er sagt. Eina undantekningin sem ég man eftir er í kverinu Gætum tungunnar frá 1984, en póstar úr því birtust einnig í dagblöðum um svipað leyti. Þar er lögð áhersla á að g-ið í hugsa sé „alls ekki eins og í hugga“. Það er þó ljóst að lokhljóðið er komið til að vera í þessu hljóðasambandi.
En e.t.v. er þó ekki allt sem sýnist. Það kom fram að sumum fannst eðlilegt að bera hugsa fram með önghljóði þótt þau bæru orð eins og loksins og buxur fram með lokhljóði. Manni gæti dottið í hug að þarna ætti mismunandi stafsetning hlut að máli, en ég held varla – mér finnst líklegra að hugrenningatengsl við hugur, sem er alltaf með önghljóði, skipti máli. Einnig komu fram í umræðunni dæmi um að lags, eignarfall af lag, og Kópavogs væru með önghljóði hjá þeim sem annars hefðu lokhljóðsframburð.
Þarna gæti skipt máli að önghljóð er í öðrum beygingarmyndum orðanna (lag og Kópavogur) en í orðum eins og loksins og buxur eru engin slík víxl. Það er þekkt að tilvist tiltekins hljóðs í einni beygingarmynd getur leitt til þess að hljóðið sé notað í annarri beygingarmynd orðsins þótt það sé í andstöðu við almennar reglur. Dæmi um það er framburðurinn evstur með rödduðu hljóði (v), í stað efstur með órödduðu (f). Í íslensku er yfirleitt aldrei borið fram raddað v á undan s, en því bregður oft fyrir í þessu orði fyrir áhrif frá efri þar sem alltaf er borið fram raddað v.
Ég hafði alltaf staðið í þeirri meiningu að sama gilti um öll orð sem höfðu áður önghljóð (eins og í hægt) á undan s. En það sem hér kom fram bendir til þess að málið sé flóknara. Sennilega var óheppilegt að nota sögnina hugsa sem dæmi, og e.t.v. hefði hlutfall lokhljóðsframburðarins orðið hærra ef ég hefði spurt um buxur eða loksins. Þetta þarf greinilega að kanna nánar.