Orðaforði íslensku

Oft veltir fólk því fyrir sér hversu mörg orð séu til í íslensku. Því er ómögulegt að svara en það er óhætt að segja þrennt: Þau eru mjög mörg, þeim er alltaf að fjölga, og engin leið er að tilgreina fjöldann nákvæmlega. Fólk hefur nefnilega á öllum tímum fengist við að búa til ný orð þegar á þeim þurfti að halda. Sum þeirra hafa kannski aðeins verið notuð einu sinni, en síðan fallið í gleymsku. Önnur hafa líklega verið notuð í fyrsta skipti í gær á öðru landshorni, þannig að það er ekki von að við höfum heyrt þau eða þau séu komin á orðabók.

Þess vegna þýðir ekkert að fletta upp í orðabók til að gá að því hvort eitthvert orð sé til eða ekki. Ef orðið finnst þar, getum við að vísu sagt að svo sé, en þótt það vanti í orðabókina er ekki hægt að halda því fram að það sé ekki til. Það er heldur ekki tilgangur orðabóka að innihalda öll orð málsins, enda væri það ekki hægt af framangreindum ástæðum. Orðabækur láta oftast nægja að sýna stofnorð og algengari samsetningar.

Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, sem safnað hefur verið til síðan fyrir 1950, eru hins vegar tekin sem flest orð, jafnvel sjaldgæfar samsetn­ingar. Í safninu eru nú dæmi um hátt í 700 þúsund orð, en stór hluti þess fjölda eru orð sem aldrei eru notuð í nútímamáli og aðeins er til ein heimild um; mállýskubundin orð, óvenjulegar samsetn­ingar o.s.frv. Í Íslenskri orðabók eru orðin ekki nema kringum 100 þúsund og í Íslenskri nútímamálsorðabók um 54 þúsund. Auðvitað kann fólk ekki 700 þúsund orð, og ekki heldur 100 þúsund, enda duga okkur örfá þúsund til daglegra þarfa.

Þótt Ritmálssafnið hafi heimildir um nærri 700 þúsund orð segir það ekki alla söguna; í safninu eru aðeins orð sem heimildir eru um að hafi verið notuð eftir 1540, þegar fyrsta bókin var prentuð á íslensku – Nýja testa­menti Odds Gottskálkssonar. Fjölmörg orð til viðbótar koma fyrir í fornritum, en ekki annars staðar. Upplýsingar um orð sem koma fyrir í fornum textum er að finna í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn (Dictionary of Old Norse Prose) þar sem eru skráð hátt í 65 þúsund orð.

Fjöldi íslenskra orða hefur auðvitað verið í málinu allt frá fyrstu tíð, síðan landnámsmenn komu með móðurmál sitt frá Noregi. Sögu margra þeirra má rekja mun lengra aftur, jafnvel aftur í hið svokallaða indóevrópska frum­mál. En mikill fjöldi orða hefur bæst við á þeim 1150 árum sem síðan eru liðin, og þó allra mest nú á okkar tímum. Upplýsingar um aldur og uppruna margra íslenskra orða er að finna í Íslenskri orðsifjabók, sem er á Málið.is.

Viðbætur við orðaforðann eru af ýmsum toga. Fyrst og fremst má nefna innlenda nýsköpun: þau orð sem fyrir eru fæða af sér fleiri. Það gerist ýmist með því að eitt orð er myndað af tveimur eins og þegar orðunum snjór og hús er slegið saman í snjóhús, eða svonefndum forskeytum og viðskeytum er bætt við orð sem fyrir er, og út kemur orð skyldrar merkingar.

Dæmi um það er þegar viðskeytinu ‑ing(ur) er bætt við orðið menntaskóli, og um leið breytist ó í æ og út kemur orðið menntskælingur. Við höfum líka dæmi um að þessum tveimur aðferðum slái saman, eins og þegar orðið hýsi er myndað af hús, og orðið stór um leið sett þar fyrir framan; útkoman verður stórhýsi. Þau orð sem mynduð eru þannig af íslenskum stofni eru kölluð nýyrði.

Nýyrði bætast við á öllum öldum. Um þau eru fjölmörg dæmi þegar í fornmáli, bæði um orð sem hljóta að vera þar algerlega ný, eins og hlaupár, sumarauki, samviska; og eins hitt að gömlum orðum sé gefin ný merking. Það er talið hafa gerst með ýmis orð sem tengjast jarðeldi og jarðhita, eins og hver, laug og hraun; og einnig mörg sem tengjast átrúnaði, eins og jól og blóta.