Nýyrði og tökuorð

Skipuleg nýyrðasmíð á íslensku er yfirleitt talin hefjast fyrir alvöru í lok 18. aldar í ritum Lærdómslistafélagsins. Þar var skrifað um ýmis efni sem ekki hafði áður verið fjallað um á íslensku, og því var þörf nýrra orða, og þaðan koma orð eins og farfugl, fellibylur, gróðurhús og afurð. Þegar kom fram á 19. öldina hófst svo mikil vakning um eflingu og hreinsun málsins, og þá koma einnig til fjölmörg nýyrði, t.d. var Jónas Hallgrímsson iðinn við nýyrðasmíð, og bjó til orð eins og hitabelti og ljósvaki.

Í nútímamáli hefur þörf fyrir nýyrði aukist gífurlega vegna þjóðfélags­breytinga; alltaf eru að koma upp ný hugtök og fyrirbæri sem við þurfum orð yfir. Nýyrðasmíð hefur líka verið blómleg undanfarna öld, og nýyrði sem gerð voru á tuttugustu öld einni skipta tugum þúsunda. Örlög þeirra – eins og nýyrða frá öllum tímum – hafa auðvitað verið mjög misjöfn. Sum notum við á hverjum degi, eins og útvarp, sjónvarp, tölva, tækni. Önnur hafa átt erfitt uppdráttar eða alveg horfið, eða þá aldrei vaknað til lífs meðal málnotenda, s.s. víðboð og víðvarp um útvarp, dragi um dráttarvél, og svo mætti lengi telja.

Orðaforðinn hefur líka aukist af orðum sem komin eru úr erlendum mál­um, svokölluðum tökuorðum. Erlend orð hafa verið tekin inn í málið á öllum tímum, og t.d. komu þónokkur orð af latneskum, frönskum og írskum upp­runa inn í málið fyrir landnám og á fyrstu öldum Íslands byggðar. Þar má nefna ýmis orð sem fylgdu kristninni, beint eða óbeint, eins og prest­ur, biskup, kross, djöfull o.s.frv.; en einnig ýmis önnur, eins og tafl, dúkur og klæði. En það hefur verið misjafnt eftir aðstæðum hvaðan straum­ur tökuorða hefur komið.

Á 14. og 15. öld versluðu Íslendingar tals­vert við Englendinga, og þá kom nokkuð af enskum orðum inn í málið, t.d. jafn algeng orð og sápa og par, en einnig kurteisi, fól, lávarður o.fl.Síðar jukust þýsk og dönsk áhrif á landinu, og þá kom mikið af nýjum orðum inn í málið, einkum með þýðingum guðsorðabóka um og eftir siða­skipti. Flest eru þau okkur framandi, og hafa væntanlega aldrei komist inn í venjulegt mál, orð eins og bíhalda, bevara, forbetra o.þ.u.l.; en einnig má nefna herlegheit, rólegheit, fyllirí, fiskirí, fangelsi.

Allt fram á síðustu öld komu flest tökuorð í íslensku úr dönsku, en frá því um seinni heimsstyrjöld hafa þau líklega langflest komið úr ensku. Þar má nefna orðin sjoppa, stæll, jeppi, hippi, nælon, stress, töff, næskúl, fíla, tékka, trimma, tsjilla; annars eru þessi orð svo mörg og algeng að engum ætti að vera vorkunn að finna nóg af dæmum um þau í daglegu tali sjálfs sín og annarra. Við skulum þó athuga að sjaldnast eru orðin alveg eins í íslensku og í málinu sem þau koma úr. Oftast er framburðurinn eitthvað frábrugðinn, og þar að auki fá orðin íslenskar endingar.

Þó er vissulega misjafnt hversu vel orðin aðlagast íslensku málkerfi. Jafngamalt orð og biskup hefur ekki enn fengið neina nefnifallsendingu; orðin lager, mótor, partí o.fl. brjóta t.d. þá reglu að a, i og u séu einu sérhljóðin sem koma fyrir í áherslu­lausum atkvæðum (í ósamsettum orðum); orðin næs og kúl taka engum fallend­ingum; tsjilla byrjar á samhljóðaklasa sem ekki þekkist í íslenskum orðum; og svo mætti lengi telja. Orð eins og bíll hefur hins vegar alger­lega fallið að íslensku málkerfi, bæði hljóðfræðilega og beygingarlega.

Tökuorð njóta líka mismikillar virðingar. Sum hafa verið tekin algerlega inn í málið og njóta sama réttar og önnur íslensk orð. Sem dæmi má nefna prestur, sápa, bíll. Við öðrum er aftur á móti amast af ýmsum orsökum. Stundum er það vegna þess að þau laga sig ekki að málkerfinu; innihalda hljóðasambönd sem ekki koma fyrir í íslenskum orðum, neita að beygjast, eða eitthvað álíka. Dæmi um þetta eru næs, stereó, bíó.

Önnur falla aftur á móti algerlega að málkerfinu, en er hafnað vegna þess að þau eru þegar til í málinu í annarri merkingu, eða íslenskt orð sömu merkingar er til og tökuorðið þykir þess vegna óþarft. Dæmi þessa er orðið díll (úr ensku deal) í merkingunni ‘verslun, kaup’ í samböndum eins og góður díll. Hins vegar er til orðið díll í merkingunni ‘blettur’, í samböndum eins og sjá ekki á dökkan díl, og þykir fullgild íslenska.