Nýja þolmyndin
Einhver mest áberandi nýjung í íslenskri setningagerð undanfarna áratugi er hin svokallaða „nýja þolmynd“ – setningar eins og það var barið mig í stað ég var barin(n) og það var hrint mér í stað mér var hrint. Fyrir utan „þágufallssýkina“ svokölluðu er nýja þolmyndin líklega sú málbreyting sem kallar fram hörðust viðbrögð hjá fólki. Það er kannski engin furða – hún er gerólík hefðbundnu þolmyndinni og fer því ekki fram hjá okkur. Mörgum finnst hún ljót, og ekki ætla ég að blanda mér í þá umræðu. Í staðinn skulum við reyna að átta okkur á eðli þessa fyrirbæris.
Í hefðbundinni þolmynd er germyndarandlag (þolandi) gert að frumlagi – (einhver) barði mig > ég var barin(n). Gerandinn (einhver) víkur úr frumlagssæti og er annaðhvort alveg sleppt úr setningunni eða hafður í forsetningarlið – ég var barin(n) af einhverjum. Ef germyndarandlagið er í þolfalli (mig) verður það að nefnifallsfrumlagi í þolmynd (ég), en ef það er í þágufalli eða eignarfalli heldur það falli sínu í þolmynd – (einhver) hrinti mér > mér var hrint. Það sem einkennir „nýju þolmyndina“ er að andlagið heldur germyndarstöðu sinni á eftir aðalsögninni í stað þess að færast í frumlagssæti eins og það gerir í hefðbundinni þolmynd, og heldur jafnframt aukafalli sínu, hvort sem það er þolfall (það var barið mig) eða þágufall (það var hrint mér).
Þessi nýja þolmynd var fyrst nefnd á prenti svo að ég viti í fyrsta þætti Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1979. Gísli tilfærir setninguna Það var barið mig í bakið og kallar hana „fátæklegt barnamál“. Í kverinu Gætum tungunnar sem Helgi Hálfdanarson samdi 1984 tilfærir hann setninguna Það var sagt honum að fara og segir að rétt væri Honum var sagt að fara. En þessi setningagerð á sér þó talsvert eldri rætur. Elsta dæmi sem ég hef séð er í bréfi sem níu ára barn skrifaði árið 1939. Þar stendur „þangað til verður jarðað afa“ – þ.e., þangað til afi verður jarðaður. Þótt setningin hefjist ekki á það eins og algengast er um setningar af þessu tagi er þetta greinilega sama setningagerð. Það sést á því að andlagið, afa, stendur í aukafalli á eftir sögninni.
Fyrstu rannsóknina á þessari setningagerð gerðu Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling um aldamótin, og birtu í tímaritinu Íslensku máli 2001. Þær rannsökuðu einkum 15-16 ára unglinga á ýmsum stöðum á landinu, en einnig nokkra fullorðna til samanburðar. Niðurstöðurnar voru þær að u.þ.b. 60% unglinganna sögðust geta sagt setningar á við þær sem hér hafa verið nefndar, en aðeins örfá prósent fullorðna fólksins. Ýmsar rannsóknir hafa síðan verið gerðar á þessari setningagerð og staðfesta allar að hún er að breiðast út – þau sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni yfirleitt á fullorðinsárum þótt frá því séu undantekningar, og þótt dragi úr tíðni hennar hjá sumum.
Í rannsóknarverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ voru þátttakendur á öllum aldri spurðir um álit á setningunni Síðan var borðað kökuna (í framhaldi af Afmælisbarnið blés á kertin). Í aldurshópunum innan við þrítugt fannst yfir 40% málhafa setningin „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“. Í aldurshópunum yfir fertugt fannst aftur á móti um eða yfir 95% málhafa setningin „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“. Aldurshópurinn milli þrítugs og fertugs er svo þarna mitt á milli. Það er fólk fætt á árunum 1977-1986, þannig að árgangurinn sem Sigríður og Joan rannsökuðu (f. 1984) er meðal þeirra yngstu í þeim hópi.
En ein áhugaverð spurning í þessu sambandi er hvort nýja þolmyndin sé líkleg til að útrýma þeirri hefðbundnu. Því er ekki hægt að svara með vissu á þessari stundu, en þetta fer væntanlega að verulegu leyti eftir því hvort báðar setningagerðirnar hafa sömu merkingu og sama hlutverk. Ýmislegt bendir þó til að merkingar- og notkunarsvið nýju þolmyndarinnar falli ekki alveg saman við þá hefðbundnu, og sé það rétt er vel hægt að hugsa sér að báðar lifi áfram hlið við hlið, hvor með sitt hlutverk. Fólk eins og ég, sem ekki hefur nýju þolmyndina í máli sínu, á erfitt með að meta þetta, en ítarleg umræða og greining á þessu er of fræðileg fyrir þennan vettvang.