Beygingarmynstur kvenkynsorða
Þótt íslensk nafnorð hafi fjögur föll eru það aðeins tiltölulega fá orð sem hafa fjórar mismunandi beygingarmyndir í eintölu – allt karlkynsorð. Flest kvenkynsorð hafa bara tvær mismunandi myndir í eintölu (án greinis) – annaðhvort eru nefnifall, þolfall og þágufall eins en eignarfall frábrugðið (sterk beyging, orð eins og mynd – mynd – mynd – myndar) eða nefnifall sérstök mynd en þolfall, þágufall og eignarfall eins (veik beyging, orð eins og sæla – sælu – sælu – sælu). Auk þess eru afbrigðilegu orðin ær og kýr þar sem nefnifall og eignarfall eru eins, og sömuleiðis þolfall og þágufall (ær – á – á – ær).
Fáein kvenkynsorð sem enda á -i eru eins í öllum föllum eintölu (gleði – gleði – gleði – gleði). Einu kvenkynsorðin sem hafa þrjár mismunandi myndir í eintölu í nútímamáli eru nokkur kvenmannsnöfn (Hildur – Hildi – Hildi – Hildar, Sigrún – Sigrúnu – Sigrúnu – Sigrúnar) og orð sem enda á –ing (drottning – drottningu – drottningu – drottningar). En hvort sem kvenkynsorðin hafa eina, tvær eða þrjár mismunandi beygingarmyndir í eintölunni eiga þau það öll sameiginlegt að þolfall og þágufall hafa sömu mynd. Þannig hefur þetta þó ekki alltaf verið.
Orð sem enda á -ing voru áður endingarlaus í þolfalli en höfðu -u endingu í þágufalli (drottning – drottning – drottningu – drottningar). En nú hefur þolfallið fyrir löngu lagað sig að þágufallinu og bætt við sig -u þannig að þessi tvö föll eru samhljóða eins og í flestum öðrum kvenkynsorðum. Orð sem enda á -ung eins og nýjung beygðust áður eins og -ing-orðin (nýjung – nýjung – nýjungu – nýjungar). Þau hafa hins vegar flest farið þá leið að fella -u-ið brott úr þágufallinu en útkoman verður sú sama og í -ing-orðunum – þolfall og þágufall verða eins. Orðið sundrung fær þó ýmist -u eða er endingarlaust í þolfalli og þágufalli.
Í fornu máli var líka hópur einkvæðra kvenkynsorða sem voru endingarlaus í þolfalli en enduðu á -u í þágufalli. Þetta voru orð eins og grund, jörð, mold, rödd, sól, stund og nokkur fleiri, sem beygðust þá grund – grund – grundu – grundar o.s.frv. Flest þessara orða gátu reyndar líka verið endingarlaus í þágufalli og í nútímamáli hafa þau öll fellt -u-ið brott – nema í ýmsum meira og minna föstum orðasamböndum. Við getum sagt á erlendri grundu, hér á jörðu, ausinn moldu, kalla hárri röddu, snúa móti sólu, á hverri stundu, o.fl.
Fleiri orð höfðu eða gátu haft -u í þágufalli. Á tímarit.is má finna einstöku dæmi um brautu, hjörðu, hurðu, höllu, laugu, ullu, þjóðu, öldu, öndu og e.t.v. fleiri, en þar er þá oftast um að ræða setningar úr eldri textum. Með því að fella brott -u-ið í þágufallinu hafa framangreind orð sem sé færst undir þá almennu reglu að kvenkynsorð séu eins í þolfalli og þágufalli. Hinn möguleikinn væri auðvitað að bæta -u við þolfallið, og þess eru einnig dæmi í föstum orðasamböndum með sumum af þessum orðum a.m.k. Þannig segjum við út um græna grundu, jafna við jörðu, dró ský fyrir sólu, o.fl.
Auk þessara orða hafði orðið ey og kvenmannsnöfn leidd af því -u í þágufalli en ekki þolfalli – ey – ey – eyju – eyjar. Kvenmannsnöfnin hafa yfirleitt -u bæði í þolfalli og þágufalli í nútímamáli, þótt samhljóða samnöfn séu endingarlaus (Sóley – Sóleyju – Sóleyju – Sóleyjar, en sóley – sóley – sóley – sóleyjar). Reyndar eru skoðanir málnotenda á beygingu ýmissa kvenmannsnafna skiptar – sumir vilja hafa -u í þolfalli og þágufalli en aðrir vilja hafa þessi föll endingarlaus. En engin dæmi er um það svo að ég viti að sami málnotandi hafi þolfallið endingarlaust en -u í þágufalli – þessi föll eru alltaf eins.
Þarna hafa orðið tvær breytingar sem í fljótu bragði virðast stefna hvor í sína átt – önnur fellir brott -u í þágufalli en hin bætir -u við í þolfalli. En báðar stuðla að auknu samræmi í kerfinu með því að fella öll kvenkynsorð undir það mynstur að þolfall og þágufall séu eins. Þessar breytingar eru gengnar yfir, en ein til viðbótar er í gangi, sem leitast við að fella kvenkynsorð að þeirri tilhneigingu sem nefnd var í upphafi að eintalan hafi aðeins tvær mismunandi myndir. Það er breyting á eignarfalli orða eins og drottning, úr drottningar í drottningu, sem einnig kemur fram í ýmsum kvenmannsnöfnum – Sigrúnar verður stundum Sigrúnu.