Jóakim frændi, Ástríkur og Steinríkur
Áhersluforliðir lýsingarorða eru fjölmargir og uppruni þeirra mismunandi. Í flestum tilvikum er um að ræða upphaflegar líkingar, eins og í eldrauður 'rauður eins og eldur', eldheitur 'heitur eins og eldur' o.s.frv., En vegna þess að í líkingunni felst oft áhersluauki fer fólk að skynja forliðinn þannig að áherslan sé meginhlutverk hans, og áherslumerkingin yfirtekur þá bókstaflegu merkinguna og þá er hægt að nota hann án þess að um nokkra líkingu sé að ræða – eins og í eldklár, eldhress, eldfjörugur, eldsnöggur o.s.frv. Stundum getur leikið vafi á því hvort um líkingu eða áherslu er að ræða – í orðum eins og eldsnemma gæti eld- bara merkt 'mjög', þótt vissulega megi hugsa sér að um sé að ræða líkingu við sólarupprásina.
Einn slíkur áhersluforliður er stein-, í orðum eins og steindauður, steingeldur, steinsofandi o.fl. Í þeim orðum má líta á það sem líkingu – steindauður er 'dauður eins og steinn'. En áhersluforliðurinn stein- kemur einnig fyrir án þess að um líkingu sé að ræða, a.m.k. í lýsingarorðinu steinríkur, sem aldrei hefur verið mikið notað. Í elsta dæmi sem ég hef fundið um það orð er reyndar ekki um lýsingarorð að ræða, heldur mannsnafn. Í revíunni Halló Ameríka sem var sýnd í Reykjavík 1942 kom fyrir persónan Steinríkur milljóneri, riddari af Petsamó-orðunni. Það er lítill vafi á því hvaðan þetta nafn er fengið – við sem höfum lesið Andrés Önd á dönsku vitum að þar er lýsingarorðið stenrig iðulega notað um Jóakim frænda.
Elstu dæmin um steinríkur sem lýsingarorð eru litlu yngri, en óvíst er hvort revían hefur flutt orðið inn í málið eða hvort það hefur eitthvað verið notað áður og verið tekið til handargagns í revíunni. Þegar farið var að þýða bækurnar um Asterix á íslensku seint á áttunda áratug síðustu aldar þótti eðlilegt að gefa persónunum íslensk nöfn og aðalpersónunni var valið nafn sem hljómaði svipað og erlenda heitið – Ástríkur. Besti vinur hans hét nafni með sömu endingu, Obelix, og þar sem hann bar iðulega bautastein á bakinu lá beint við að gefa honum nafnið Steinríkur. Þar hefur stein- því bókstaflega merkingu – 'ríkur af steinum'.
Jóakim frændi var sannarlega steinríkur en það hefði líka mátt lýsa honum sem moldríkum. Það orð merkir eingöngu 'vellauðugur', 'ákaflega ríkur' samkvæmt orðabókum, og á Vísindavefnum er gert ráð fyrir að þetta sé líking, „sótt til þess að moldin er duftkennd blanda með fleiri kornum en tölu verður á komið með góðu móti“. En þegar að er gáð kemur í ljós að lengi framan af var orðið bara notað í bókstaflegri merkingu, 'ríkur af mold', en ekki sem líking. Elsta dæmið um orðið er í Búnaðarritinu 1890 þar sem segir: „Í ræktaðri jörð er moldin vanalega eigi meiri en frá 3-10% af matjörðinni; sje hún meiri, þá er jörðin kölluð moldrík.“
Langt fram eftir 20. öldinni er þetta orð eingöngu notað um jarðveg – fyrsta dæmið þar sem það er notað um fólk er í Vísi 1966: „Þeir sem kaupa miða í dag eða næstu daga, gætu átt von á því að vera ef til vill orðnir moldríkir bílaeigendur á þriðjudaginn.“ Þarna virðist mold- vera skynjað sem áhersluforliður án tengsla við orðið mold, og notkun orðsins moldríkur í þessari merkingu verður mjög algeng á níunda áratug síðustu aldar. En þótt mold- hafi bókstaflega merkingu í moldríkur lengi framan af virðist liðurinn nokkuð snemma hafa fengið áherslumerkingu í öðrum orðum, a.m.k. með fullur. Í Iðunni 1918 segir t.d.: „Já, ég hefi nú ekki gott af að drekka meira, ég er orðinn moldfullur.“